Fundargerð landsfundar LEB haldinn á Selfossi 26. maí 2021

 

Landsfundur Landssambands eldri borgara,
Haldinn á Hótel Selfoss, 26. maí 2021
Fundargerð

Áður en fundurinn hófst bauð Guðfinna Ólafsdóttir, formaður Félags eldri borgara á Selfossi, fundargesti velkomna til Selfoss með nokkrum orðum.
Setning landsfundar.
Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður setti fundinn og bauð fulltrúa landsfundarins og gesti velkomna.
Aldís Hafsteinsdóttir formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og bæjarstjóri í Hveragerði hélt erindi. Hún hrósaði samfélaginu í Hveragerði og þjónustunni þar við eldra fólk. Nálægðin við allt og alla væri styrkur þar. Margir geta unnið langt fram eftir ævi, sumir fram yfir nírætt.
1. Kosning embættismanna fundarins.
a) Kosning tveggja fundarstjóra: Ásgerður Pálsdóttir Húnaþingi og Jóna Ósk Guðjónsdóttir Hafnarfirði. Tóku þær til starfa. Fundarstjóri kannaði lögmæti fundarins. Þar sem enginn gerði athugasemd úrskurðaði hann fundinn lögmætan. Engin athugasemd var gerð við dagskrá fundarins og var hún því einnig úrskurðuð lögmæt.
b) Kosning tveggja fundarritara: Hallgrímur Gíslason Akureyri og Hildigunnar Hlíðar Garðabæ voru kjörin fundarritarar.
c) Kosning kjörbréfanefndar: Guðmundur Guðmundsson, Ómar Kristinsson og Viðar Eggertsson hlutu kosningu.
2. Skýrsla stjórnar.
Formaður flutti árskýrslu stjórnar LEB fyrir starfsárið 2020-2021.
Skýrsla stjórnar LEB er nú öllu lengri en venjulega þar sem miklar breytingar verða á stjórn LEB vorið 2021 á landsfundi. Sérlega merkilegt ár er að baki ef litið er til árhrifa Covid-19 á land og þjóð og allan heiminn. Þessi fáheyrða vá brast á í lok janúar 2020. Allir stóðu á öndinni og nú þurfti mikla aðlögun að breytingum á öllu starfi félaga innan Landssambands eldri borgara. Viðbrögðin voru frábær hjá okkar fólki. Allir lögðust á eitt í smitvörnum og að sveigja starfið að þeim takmörkunum sem síðan brustu á. Allflestir sátu við sjónvarpið á daginn þegar þríeykið gaf skýrslu um stöðu mála. Veikindi jukust og Landsspítalinn var að fara í þrot um tíma. Kári Stefánsson kom inn í málin og bauð aðstoð við skimanir. Lífið fór hreinlega á hvolf. En viðbrögð í að vernda eldra fólk skilaði miklu þrátt fyrir að nokkur dauðsföll yrðu, því miður. Samstaða og yfirburða þolgæði eldra fólks hélt út. Það leið að vori og loks sá til sólar í maí. Dregið var úr takmörkunum og félög eldra fólks fóru að huga að ársfundum. En þessu var ekki lokið haustið varð mörgum þungbært í nýrri bylgju.
Landsfundur á tímum Covid
Landsfundur LEB 2020 var loks haldinn 30. júní á Hótel Sögu þar sem hægt var að hafa rúmt á fólki og staðurinn heppilegur til fundahalda. Á fundinn mættu 123 manns og í kvöldverð urðu 115 manns. Nokkrir afboðuðu sig vegna veirunnar. Ávarp í upphafi fundar flutti Eliza Reed forsetafrú og var henni mjög vel fagnað. Mikil vinna á Landsfundinum í málefnum eldra fólks var samkvæmt dagskrá sem er bundin í lög LEB. Ályktanir voru settar í nefndir og voru tveir hópar að störfum, annars vegar um kjaramálin og hins vegar um heilbrigðis- og velferðarmálin. Laganefnd var að störfum og voru lagabreytingar krufnar til mergjar en nokkar breytingatillögur lágu fyrir. Hver hópur um sig skilaði til fundarins lokaniðurstöðum. Magnús Norðdhal lögmaður ASÍ var fundarstjóri og stóð sig með sóma. Ritarar: Hildigunnur Hlíðar og Hallgrímur Gíslason. Landsfundur er alltaf áfangi og sérstaklega þegar vel gengur. Nokkir stjórnarmenn hættu og nýir komu inn. Þau sem hættu voru Ellert B. Schram, Drífa Sigfúsdóttir og Ólafur Örn Ingólfsson. Inn í stjórn komu Ingibjörg H. Sverrisdóttir, Þorbjörn Guðmundsson og Guðfinna Ólafsdóttir. Þessi stjórn hefur unnið vel saman og mátt sæta því að halda æði marga fundi á netinu. Ýmist á Teams eða Zoom. Tæknifærni hefur farið ört vaxandi. Frá Landsfundinum komu skýr skilaboð um kjör eldra fólks úr aðildarfélögum LEB um að löngu væri komið nóg af skerðingum og vanefndum loforðum. Skilaboðin eru skýr og afdráttarlaus.
Að loknum Landsfundi
Stjórn LEB átti nokkra fundi með staðarmætingu á haustdögum en síðan komu næstu Covid-19 bylgjur sem kölluðu á netfundi. Yfirleitt gengu þeir vel. Milli ársfunda voru 11 stjórnarfundir. Almennt eru fundir vel sóttir og umræða góð. Dagskrá liggur fyrir og fólk fær send gögn eftir því sem til eru. Undir árslok gaf stjórn heimild til að leita að hentugra húsnæði. Að vera í litlu herbergi í Sigtúni 42 var komið í þrot. Leitað var nokkuð víða en niðurstaðan varð Ármúli 6 með herbergi sem er næstum tvöfalt á við það sem áður var. Þar rúmast vel tvö skrifborð og aðstaða til minni funda, auk aðgengis að stærri sölum fyrir fundi. Staðsetningin er mjög miðsvæðis og hentar því vel.
Fjármál LEB
Mörg undanfarin ár hefur reksturinn verið í klemmu. Fastir styrkir hættu og í stað þeirra var sótt um verkefnastyrki sem LEB fær umsýslugreiðslu af. En meiri velta og 100 krónu hækkun til LEB á síðasta landsfundi er að gera LEB kleift að gera enn betur en áður hefur verið mörg undanfarin ár. Starfsmaður í hlutastarfi, Viðar Eggertsson, og formaður í hlutastarfi hækkar launakostnað töluvert. EN stóru útgjöldin á síðasta ári er kostnaður við rannsóknarskýrslur Skúla M. Sigurðssonar hagfræðings um kjör eldra fólks sem hefur verið vopn okkar í umræðum við stjórnvöld. Á mörgum okkar funda með stjórnmálamönnum og í nefndarstarfi hafa þau tölulegu gögn verulega stutt mál okkar um stöðu eldra fólks fjárhagslega. Önnur há upphæð fór í lögfræðikostnað við málaferli konu vegna starfsloka við 70 ára aldur og þó við mjög góða heilsu. Baráttan kostar. Útgáfan á blaði LEB var í hærri kantinum á árinu 2020 þar sem lítið náðist í af auglýsingum. Það telst því eðlilegt að eitt ár sé dýrara en annað.
Starfshópur um lífskjör og aðbúnað aldraðra
Skipaður var nýr starfshópur á vormánuðum vormánuðum og tók til starfa 19. sept 2019 en nú með breiðari skírskotun við aðfjalla um lífskjör og velferð eldra fólks. Nú mættu fleiri ráðneyti til leiks en frá LEB voru skipuð í starfshópinn: Þórunn Sveinbjörnsdóttir, Haukur Halldórsson og Þorbjörn Guðmundsson. Starfshópurinn hefur haldið 10 fundi og marga þeirra á Teams eða Zoom.Síðast liðið haust varð samkomuleg um að skipta hópnum í 2 hluta þar sem kjaramálaumræðan kallaði á heila fundi hverju sinni. Haukur og Þorbjörn tóku þann hluta en Þórunn velferðina og félagsmálin. Margir góðir gestir komu með fræðslu til starfshópsins s.s. Berglind Magnúsdóttir skrifstofustjóri öldrunarmála hjá Reykjavíkurborg um áhrif samþættingar heimahjúkrunar og heimilishjálpar. Halldór Guðmundsson framkvæmdastjóri Hlíðar á Akureyri fjallaði um velferðartækni og þörf á innleiðingu hennar. Guðlaug Einarsdóttir, skrifstofustjóri í heilbrigðisráðuneytinu fjallaði um álitamál í heilbrigðishluta umræðnanna og stöðu hjúkrunarheimila. Starfshópurinn á að ljúka störfum nú á vormánuðum með skýrslu og tillögum til úrbóta í málefnum eldra fólks á Íslandi. Nokkuð góð samstaða er um margt en víða þarf að stykja tillögur til úrbóta verulega en til ágreinings gæti komið um tillögur í kjaramálum eldra fólks.
NOPO-NSK
Norrænt samstarf landsambanda eldra fólks á Norðurlöndunum. Árlega eru haldnir 2 fundir á ári í einhverju Norðurlandanna en nú í ástandi Covid-19 var staðfundum frestað en í staðinn haldnir rafrænt. Í maí 2020 átti að vera fundur í Færeyjum en honum var frestað til haustsins. Og um haustið aftur frestað til vors 2021. Þá voru enn sóttvarnir og takmarkanir á fólksferðum í flestum landanna svo enn var frestað. Venjan er að annar fundurinn sé stjórnarfundur og voru þeir haldnir á netinu. Haustfundir eru yfirleitt með að hluta öfluga fræðslu á dagskránni. Nokkrar mannabreytingar hafa orðið á fulltrúum landanna á undanförnum árum en allt er þetta fólk sem er mjög öflugt í sínu landi. Cristina Tallberg er formaður og kemur frá PERO í Svíþjóð. Mjög virt í sínu heimalandi. Sú fræðsla sem LEB hefur tekið með til Íslands er m.a. fræðsla um einmanaleika og um öfluga fræðslu til eldra fólks til að öðlast betra tæknilæsi. Yfir 100 tölvuver í Danmörk urðu til að bæta verulega stöðu eldra fólks í tölvulæsi. Mikið af því er unnið af sjálboðaliðum. Virkjun fólks til að koma í sjálfboðaliðastörf hefur líka haft áhrif hjá LEB.
Ýmis nefndarstörf
Landssambandið tilnefnir í fjölda nefnda og starfshópa og hefur það starf haldið áfram á veirutímum þó mun meira á netinu. Má hér nefna Samstarfsnefnd um málefni aldraðra, Öldrunarráð Íslands, Samráðshópur með Tryggingastofnun ríkisins. Guðrún Ágústsdóttir var tilnefnd í nefnd til að kanna þunglyndi meðal eldri borgara í vetur og er starfi þess starfshóps að ljúka. Starfshópur um réttindagæslu fyrir aldraða fór af stað í vetur og er enn að störfum en áralöng barátta um að fá Umboðsmann aldraðra er nú í þessum farvegi ef það getur hugsanlega leitt til þess að fólk hafi aðgang að réttindavörslu og leiðbeiningum.
Ráðstefna um einmanaleika
„Veistu ef vin þú átt“ var yfirskrift ráðstefnu sem haldin var á Hótel Hilton Nordica og var mæting góð en henni var líka streymt og einnig tekin upp. Erindi ráðstefnunnar eru því aðgengileg á heimasíðu LEB. Allir sem leitað var til um að halda erindi komu til leiks. Frábær erindi og mun þessi ráðstefna hafa mikil áhrif m.a. inn í nám í HÍ þar sem æ fleiri eru að taka þessi mál til gagngerrar skoðunar. Nemar leita til LEB um viðtöl og er það ánægjulegt. Rástefnan var stykt með framlagi frá Heilbrigðisráðuneyti.
Styrkir til verkefna
Landsamband eldri borgara hefur sótt um hina ólíkustu styrki til verkefna. Nokkrum er að fullu lokið en þó nokkrir styrkir eru enn í vinnslu. Á landsfundinum í maí 2021 munu verða sýndar stiklur sem eru um umhverfisvæna eldri borgara en í það verkefni fékkst styrkur frá umhverfisráðuneytinu. Verkefnið ber heitið Umbúðalausir eldri borgarar. Einnig verður dreift um allt land með LEB blaðinu bæklingnum Akstur á efri árum og var hann unninn með Samgöngustofu og tókst einstaklega vel. Nett dreifirit um símavini verður líka frumsýndur á Landsfundinum, en styrkur til hans var afhentur nú í vor sem hluti af átaki stjórnvalda: Viðspyrna fyrir Ísland. Þar köllum við eftir sjálfboðaliðum til að vera símavinir. Síðan eru nokkur verkefni í vinnslu og mun þeim ljúka síðar á árinu.
Rannsóknir
Á liðnum vetri voru kallaðir saman aðilar til umræðu um ofbeldi meðal eldra fólks. Verkefnið var unnið á greiningardeild Ríkislögreglustjóra en á þennan fund komu ýmsir fagaðilar og leikmenn og rætt var um hvað er vitað og hvað þarf að kanna betur. Fólk var sammála um að þessa umræðu ætti að opna því hún væri vel falin. Þarna væri kynslóð sem ber ekki sín mál á torg. Hinsvegar væru erlendar rannsóknir sem sýndu að þarna þurfi að laga til og opna umræðuna. Ýmislegt var nefnt, eins og andlegt ofbeldi, fjárhaglegt ofbeldi, líkamlegt ofbeldi og niðulægjandi umræða. Að þessum fundi loknum vann greiningardeildin skýrslu sem fólk las yfir og bætti í svo nú er til góð samantekt um málefni og um leið var opnað á að 112.is gæti verið leið fyrir eldra fólk og aðstandendur þeirra til úrlausnar.
Heilsuefling eldra fólks
Vegna Covid-19 fór af stað ný bylgja umræðu um nauðsyn hreyfingar og hvað hreyfing getur gert fyrir mannslíkamann. Á undanförnum árum hefur verið markvisst unnið að heilsueflingu í nokkrum sveitafélögum eftir leikreglum Dr. Janusar Guðlaugssonar. Samkvæmt rannsóknum á hverju þetta skilar þá má ætla að verið sé að seinka öldrun verulega og bæta líðan, bæði líkamlega og andlega. Fólk minnkar lyfjanotkun, sefur betur, vöðvamassi eykst, matarræði batnar og blóðþrýstingur lækkar. Hvað er hægt að gera betra? Öll hreyfing kemur að gagni en makviss þjálfun gerir þetta enn betur. Nú hefur LEB fengið styrk frá félagsmálaráðuneytinu til að auka heilsueflingu eftir Covid-19. Verið er að ganga til samninga um verkefnið.
Sýnileiki LEB
Seint á haustmánuðum stóð Öldrunarráð Íslands frammi fyrir því að geta ekki haldið ráðstefnu sína sem er árlega haldin í októbermánuði. Kom þá upp umræða um samstarf við LEB um nýja leið sem væri miðlun í sjónvarpi um málefni eldra fólks. Leitað var til RÚV og voru undirtektir mjög góðar og fékkst samþykki í stjórnum beggja samtakanna að hrinda þessari hugmynd í framkvæmd. Stefnt var á febrúarmánuð og gekk það eftir. Upptaka fór fram 9. febrúar og mætti til leiks stórskotalið til að fræða og ræða um brýnustu mál eldra fólks á sviði heilbrigðis- og velferðar. RÚV útvegaði sýningartíma á besta tíma dags og náðist ágætt áhorf og vakti þetta mikla athygli. Þátturinn bar heitið Velferð eldri borgara og er til á heimsíðu LEB og er það mikilvægt til að geta kynnt sér efni hans t.d. af nemendum í tengdum greinum til fróðleiks. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti opnuarávarp og síðan tók Jórunn Frímannsdóttir formaður Öldrunarráðs við fundarstjórn og hún stjórnaði einnig umræðum í lok þáttarins. Stutt erindi fluttu: Berglind Magnúsdóttir skrifstofustjóri öldrunarmála á Velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Halldór S. Guðmundsson framkvæmdastjóri öldrunarheimila Akureyrar, Benedikt Jóhannesson tryggingastærðfræðingur, Bjarni Karlsson sálgætir og siðfræðingur, Pálmi V. Jónsson yfirlæknir öldrunarlækningadeild Landspítala og prófessor í öldrunarlækningum, Ólöf Guðný Gerisdóttir næringarfræðingur og Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður LEB.
Aðgerðahópur LEB
Síðsumars þegar störf hófust að nýju eftir gott sumar þá kom fram tillaga að því að ná saman hóp til að ræða um áherslur í málefnum eldra fólks. Hugsa þyrfti lengra fram á veginn þar sem kosningar yrðu eftir ár. Það var svo hin lúmska veira sem hægði á þessum samtölum en uppúr áramótum færðist á ný kraftur í þennan hóp sem þá var kallaður aðgerðahópur LEB. Stefnan var tekin á að setja saman áherslur sem hægt væri að ræða um við stjórnmálaflokka, samtök s.s. ASÍ og BSRB, einstök stéttarfélög og hagsmunaaðila. Eftir formannafund LEB sem haldinn var í mars þar sem þessar áherslur voru kynntar var ekkert að vanbúnaði að fara að boða fólk á fundi og fjalla um stöðu eldra fólk og hvar skóinn kreppir. Nú eru búnir um 15 fundir sem hafa tekist mjög vel.
Kjaranefnd og velferðarnefnd LEB
Á haustmánuðum var að nýju stofnuð kjaranefnd. Leitað var til ýmissa aðila um setu í nefndinni. Drífa Sigfúsdóttir tók að sér að leiða nefndina. Nokkrir fundir hafa verið haldnir en Covid-19 hefur enn og aftur hindrað töluvert. Nú liggur fyrir að á landsfundi mun kjaranefnd fara yfir stöðuna og kjaramálaályktun er lögð fram til umræðu, en þar eru tillögur aðgerðahóps gerðar að tillögum kjaranefndar. Velferðarnefnd LEB átti allmarga fundi í vor til undirbúnings ályktun fyrir Landsfundinn 2021. Dagbjört Höskuldsdóttir formaður nefndarinnar og fleiri söfnuðu gögnum um málefnin og útfrá þeim var unnin ályktun sem nú liggur fyrir Landsfundinum.
Fræðslumál
Að læra alla ævi er yfirskrift Evrópuverkefnis sem er í raun endalaus símenntun. Vegna veirunnar hafa mörg námskeið legið niðri hjá aðildafélögum LEB. Sumarið 2020 voru veittir styrkir til sveitafélaga til að efla félagsstarf eldra fólks og var því víða mætt með tölvulæsi námskeiðum og þá komu kennsluhefti LEB fyrir spjaldtölvur sér vel. Nú á að endurtaka leikinn í sumar og reyna að ná til enn fleiri sem þá læra að nýta sér tæknina betur. Þörfin á að eldra fólk geti nýtt sér rafræn skilríki er mjög mikil og þurfa allir að standa saman við að efla þá leið. Starfslokanámskeið hafa verið haldin og eru nú eftir 2 slík námskeið út frá styrk frá félagsmálaráðuneytinu. Þau eru ávallt vinsæl og hafa hjálpað æði mörgum í að skilja t.d. reglur T R. og eitt og annað tengt lífsstíl, fjármálum og mataræði til að halda góðri heilsu.
Næstu verkefni LEB
Brýnt að virkja enn betur eldra fólk í baráttu okkar allra fyrir mannsæmandi eftirlaunum; að geta lifað með reisn. Það er líka verk að vinna við að allt sem lýtur að al elsta fólkinu sé unnið af virðingu og sanngirni. Hjúkrunarheimilismálin eru stór mál og þar verða menn að bretta upp ermar til að auðvelda reksturinn. Nokkar leiðir eru færar. Útrýming á aldursfordómum er býsna stórt mál og þarf að fara í þá baráttu núna. Heilsuefling eldra fólks er afar þarft verkefni til þess m.a. að bregðast við fjölgun eldra fólks á næstu áratugum. Að lífið sé samfella og allar hindranir tengdar aldri verði felldar niður. 67 ára aldursviðmiðið var fundið upp fyrir hershöfðinga Bismarks. Það er kominn tími á breytingu. Við viljum hafa frelsi til að vinna ef við getum eða viljum. Vinna að því að allir skilji mannauðinn sem eldra fólk er.
3. Ársreikningur fyrir árið 2019 yfirfarinn
Valgerður Sigurðardóttir gjaldkeri kynnti reikningana. Þeir eru áritaðir af löggiltum endurskoðanda, skoðunarmönnum reikninga og af stjórn.
Helstu niðurstöður ársins: Rekstrartekjur kr. 27.853.158, rekstrargjöld kr. 33.218.593. Tap án fjármagnsliða kr. 5.365.435. Fjármagnsliðir kr. 136.517 og rekstrartap því kr. 5.228.918. Niðurstaða efnahagsreiknings kr. 41.319.572.
Gjaldkeri kynnti einnig reikninga Styrktarsjóðs aldraðra, sem er frá 1981. Fjármunatekjur og rekstrarafkoma ársins kr. 3.182. Efnahagsreikningur samtals. kr. 1.730.733.
4. Kynning þingnefnda
Þingnefndir eru þrjár:
Kjaranefnd:. Formaður Drífa Sigfúsdóttir.
Velferðarnefnd: Formaður Dagbjört Höskuldsdóttir
Laganefnd: Formaður Guðmundur Guðmundsson
5. Umræður um skýrslu stjórnar og afgreiðsla ársreikninga.
Halldór Gunnarsson benti á að LEB væri ekki rekið sjáfstætt fjárhagslega vegna styrkja frá velferðarráðuneytinu og tilkynnti framboð sitt í varastjórn. Geir A Guðsteinsson og Haraldur Magnússon bentu á að skýringar vantaði með reikningunum og spurðu um sundurliðanir og fleira. Erna Indriðadóttir benti á að auglýsingatekjur hefðu hrapað vegna COVID, fagnaði aukningu í starfi LEB og hrósaði stjórninni, einkum formanninum og benti á nauðsyn faglegra vinnubragða.
Drífa Sigfúsdóttir ræddi óhemju mikla vinnu stjórnar. Þorbjörn Guðmundsson ræddi um kynningu á skjali um áhrif eldra fólks. Valgerður svaraði fyrirspurnum. Þórunn minnti á styrki frá MS og Olís.
Fundarstjóri bar upp ársreikning LEB, sem var samþykktur með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða. Það sama á við um ársreikning Styrktarsjóðs LEB.
6. Niðurstaða kjörbréfanefndar
Guðmundur Guðmundsson kynnti niðurstöðuna. 55 félög eiga rétt á setu 152 fulltrúa. 17 félög sendu ekki kjörbréf. Fundinn sitja 126 fulltrúar 38 félaga og eru þeir allir löglegir. Fundurinn samþykkti þá niðurstöðu samhljóða.
7. Lagabreytingar
Valgerður Sigurðardóttir FEB Hafnarfirði kynnti tillögu félagsins um breytingu á 11. grein samþykkta félagsins. Tillögunni var vísað til laganefndar.

HÁDEGISVERÐUR

8. Lögð fram drög að fjárhagsáætlun
Valgerður Sigurðardóttir, gjaldkeri, fór yfir áætlunina sem byggir að mestu leyti á rekstri fyrri ára. Gert er ráð fyrir að félagar greiði 700 kr. aðildargjöld til LEB. Í heildina er áætlað að tekjur verði kr. 28.952.750 og gjöld kr. 28.470.000. Áætlaður rekstrarhagnaður án fjármagnstekna kr. 482.750.
9. Tillaga um árgjald 2021 og afgreiðsla hennar
Stjórn LEB leggur til að árgjaldið verði óbreytt, kr. 700 á félaga. Samþykkt með öllum greiddum atkvæðum
10. Kynntar stjórnarályktanir og aðsendar ályktanir.
Þobjörn Guðmundsson kynnti vinnuna við ályktun kjaranefndar.
Halldór Gunnarsson, FEB Rang. Lagði fram tillögu f.h. kjararáðs félagsins um að stjórn LEB skoði möguleika á framboði eldra fólks. Jon Ragnar Björnsson formaður félagsins skýrði athugasemd stjórnar vegna tillögunnar.
Dagbjört Höskuldsdóttir kynnti ályktun velferðar- og heilbrigðisnefndar. Í nefndinni eru auk hennar þau Ómar Kristinsson, Katrín Fjeldsted og Guðrún Ágústsdóttir.
Þórunn Sveinbjörnsdóttir skýrði ályktun um stöðu hjúkrunarheimila frá stjórn LEB, sem var vísað til velferðarnefndar.
Guðmundur Guðmundsson sagði frá tillögu frá FEB Hafnarfirði, sem laganefnd mun fjalla um.
Að kynningunni lokinni tóku málefnanefndir til starfa.


11. Afgreiðsla ályktana.
Eftir um 60 mínútna vinnu málefnanefnda voru ályktanir teknar til afgreiðslu.

Kjaranefnd
a) Þorbjörn Guðmundsson mælti fyrir ályktun um kjaramál.
Ályktun landsfundar LEB – Landssambands eldri borgara - um kjaramál.
Eldra fólk vill hafa áhrif á eigið líf
Áhersluatriði eldra fólks í komandi Alþingiskosningum
Eldra fólk fái að vinna eins og það vill
Almennt frítekjumark verði 100.000 kr. Eftirlaunafólk fái að vinna eins og því sýnist án skerðinga í almannatryggingakerfinu og njóti afraksturs vinnu sinnar eins og aðrir. Lágmarkslífeyrir verði aldrei lægri en umsamin lágmarkslaun á almennum vinnumarkaði. Ellilífeyrir og frítekjumörk hækki árlega samkvæmt launavísitölu Hagstofu Íslands.
Starfslok miðist við færni en ekki aldur
Það er réttlætismál að eldra fólk fái að miða starfslok sín við áhuga, færni og getu en þurfi ekki að hætta virkri þátttöku í atvinnulífinu eingöngu vegna aldurs. Aldurstengdar viðmiðanir sem fara í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar ætti að fella úr allri lagasetningu, en leggja þess í stað áherslu á þekkingu, reynslu, hæfni og menntun fólks óháð aldri.
Heilsugæslan verði vagga öldrunarþjónustunnar
Til að eftirlaunafólk geti lifað mannsæmandi lífi heima hjá sér með reisn, þurfa ríki og sveitarfélög að stórauka samvinnu sína með það að markmiði að heilsugæslan verði vagga öldrunarþjónustunnar. Öll fjárframlög taki mið af þessu. Heilsugæslan nálgist eldra fólk fyrr á lífsleiðinni með samhæfðri teymisvinnu lækna, hjúkrunarfræðinga og félagsþjónustu sveitarfélaga og haldi því sambandi. Velferðartækni ætti að vera mikilvægur þáttur í öryggi og bættri aðstöðu í heimahúsum eldra fólks. Þáttur aðstandenda verði metinn til launa með umönnunarálagi. Stofnun öldrunargeðdeildar fyrir fólk með sértækar þarfir er forgangsmál.
Millistig milli heimilis og hjúkrunarheimilis
Ljóst er að búseta á eigin heimili hentar ekki öllum, þó þeir þurfi ekki dvöl á hjúkrunarheimili. Búsetuúrræði fyrir eldra fólk eru hins vegar alltof fábreytt. Það vantar millistig milli búsetu á eigin heimili og hjúkrunarheimili. Brýnt er að byggja upp þannig búsetuform til hagsbóta fyrir eldra fólk og þá ekki síður fyrir velferðarkerfið, sem er á forræði ríkis og sveitarfélaga.
Fjármunum Framkvæmdasjóðs aldraðra verði einungis varið til byggingar stofnana fyrir aldraða og til að mæta kostnaði við nauðsynlegar breytingar og endurbætur á húsnæði sem notað er til þjónustu við þá eins og kveðið er á um í lögum.
Ein lög í stað margra lagabálka
Um málefni sem varða eldra fólk sérstaklega gilda of margir og of sundurleitir lagabálkar þar á meðal almannatryggingalögin. Einfalda þarf lagaumhverfið og gera það skilvirkara meðal annars með því að skilja að lög um eldra fólk og öryrkja. Tryggja þarf aðkomu eldra fólks að þeirri endurskoðun.
Fundarstjóri bar ályktunina upp til afgreiðslu og var hún samþykkt með einu mótatkvæði.

b) Þorbjörn mælti fyrir annarri ályktun um kjaramál, sem kom frá Helga Péturssyni. Eftir stuttar umræður og örlitla breytingu var hún tekin til afgreiðslu.
Ályktun um kjaramál samþykkt á landsfundi LEB 26. maí 2021
Landsfundur Landssambands eldri borgara, haldinn á Selfossi, bendir á að enn eitt kjörtímabil er að líða án þess að launakjör eldra fólks hafi verið bætt. Stjórnvöld hafa í engu sinnt margvíslegum ábendingum um að afkoma eldra fólks hafi í raun versnað og hafa þverbrotið lög og samþykktir til þess að komast hjá greiðslum til þess. Má þar nefna ákvörðun Alþingis um hækkun ellilífeyris um síðustu áramót. Þá má benda á að laun margra tekjuhópa eldra fólks ná ekki lágmarkslaunum, sem er óboðleg staða.
Nú er svo komið að skerðing á lífeyri frá almannatryggingum er hvergi meiri á byggðu bóli og ríkissjóður telst nú taka til sín meginhluta hins almenna lífeyris.
Athygli tæplega 75 þúsund kjósenda við kosningarnar í haust er vakin á þessari staðreynd.
Ályktunin var samþykkt með einu mótatkvæði.

c) Þorbjörn mælti fyrir þriðju ályktuninni um kjaramál, sem kom frá Kára Jónassyni. Fjörugar umræður urðu um orðalag hennar og eftir nokkrar breytingar var hún tekin til afgreiðslu.
Launþegasamtökin styðji eldra fólk
LEB skorar á launþegasamtökin að þau slái skjaldborg um kjör eldra fólks og beiti sér fyrir því að það komi að borðinu varðandi kjör þess.
Tillagan var samþykkt svohljóðandi með tveimur mótatkvæðum.

Velferðarnefnd
Dagbjört Höskuldsdóttir kynnti störf nefnarinnar. Í meðförum hennar voru nokkrar breytingar gerðar á upphaflegu ályktuninni. Einnig var ályktun stjórnar LEB um stöðu hjúkrunarheimila fléttað inní ályktun nefndarinnar. Nokkrar umræður urðu um ályktunina á þingfundinum en engar breytingar gerðar. Var hún því lögð fram til afgreiðslu:
Ályktun um velferðarmál lögð fram á Landsfundi LEB 26. maí 2021.
Inngangur
Landssamband eldri borgara hefur unnið öflugt starf við að kynna og vekja athygli stjórnvalda á stöðu eldra fólks. Við viljum útrýma aldursfordómum og aldurstakmörkunum.
Okkar krafa er að allir sem komnir eru á efri ár hafi jafnan aðgang að félags -og heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag og hvar þeir búa.
Landsfundurinn krefst þess að við eldra fólk sé talað af virðingu og að ekki sé talað niður til þessa sístækkandi hóps, en viðurkennt að eldra fólk eru dýrmætur hluti samfélagsins og eiga það skilið að skoðanir þeirra séu virtar.
Hjúkrunarheimili og heimahjúkrun
Talsvert hefur áunnist í byggingu hjúkrunarheimila, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Það er fagnaðarefni, en betur má ef duga skal og leggur Landsfundurinn mikla áherslu á nauðsyn áframhaldandi uppbyggingu hjúkrunarheimila. Enn er langt í land og bendum við á, í því efni, vanda sjúkrahúsanna við að útskrifa eldri sjúklinga. Skipulegt samráð og samvinna þarf að vera á milli ríkis og sveitarfélaga um alla þjónustu sem snýr að eldra fólki. Bent er á að mjög margt eldra fólk er bundið yfir veikum maka, og mikil þörf er á auknum stuðningi við þann viðkvæma hóp. Brýnt er að styrkja og auka dagþjálfun með möguleika á sveigjanlegum tímasetningum.
Brýnt er að samþætta hjúkrunar-og heimaþjónustu um land allt, ekki síst með teymisvinnu, af því er augljós hagræðing, ekki síst fyrir notandann.
Skortur á kvöld-og helgarþjónustu er víða um land en slík þjónusta ásamt auknu framboði að dagþjálfun er lykillinn að því að fólk geti búið lengur heima. Ekki má heldur gleyma mikilvægi geðverndar, iðjuþjálfunar og tannverndar á hjúkrunarheimilum sem víða er ábótavant. Einnig er mikilvægt að endurskoða greiðslufyrirkomulag hjúkrunarheimila, hraðað verði uppbyggingu nýrra heimila en jafnframt verði boðið upp á fjölbreyttari lausnir fyrir eldra fólk.
Velferðartækni
Það er opinber stefna að það eigi að gera eldra fólki sem vill og getur, kleift að búa heima sem lengst. Samspil iðju, manneskju og umhverfis skiptir miklu máli fyrir lífsgæði, heilsu og þáttöku. Gott aðgengi að hjálpartækjum og aðlögun umhverfis er nauðsynleg þannig að fólk geti lifað sem best án hindrana. Landsfundurinn vill að stjórnvöld tryggi að efnahagur komi ekki í veg fyrir að fólk geti nýtt sér þessi tæki, og minnir sérstaklega á gleraugu og heyrnartæki.
LEB hefur gert það að sínu forgangsmáli að auka þekkingu eldra fólks á nýrri tækni m.a. með útgáfu bæklinga og félögin hafa staðið fyrir námskeiðum af myndarskap. Í ljós hefur komið að margt eldra fólk vill gjarnan fá skjáheimsóknir og möguleika á fjarlækningum.
Búsetumál
Landsfundurinn vill leggja áherslu á að auka fjölbreytni í búsetu. Minnum þar á þjónustuíbúðir og sambýli. Einnig öryggisíbúðir, sem eru nokkuð dýr kostur en nýtist vel fyrir þá sem ráð hafa á. Brýnt er að þær íbúðir sem eru sérstaklega ætlaðar eldra fólki séu hannaðar þannig að þær séu öruggar og henti fólki með skerta færni.
Geðheilbrigðismál
Geðheilsa aldraðra er málaflokkur sem hefur ekki verið sinnt nægjanlega og hefur verið bent á að lengi hefur staðið til að opna sérstaka geðdeild eldra fólks.
Landsfundurinn hvetur stjórnvöld til að undirbúa og stofna öldrunargeðdeild nú þegar. Sérstök geðverndarteymi eru komin nokkuð víða og er það vel, en brýnt er að til verði geðheilsuteymi sérstaklega fyrir aldraða. Heilsugæslan er fyrsti viðkomustaður fólks sem glímir við einmanaleika, þunglyndi og kvíða. Heilsugæslulæknar hafa þjálfun í slíkri meðferð. Við fögnum aðgerðaráætlun í málefnum fólks með heilabilun og vonum að hún sé komin til framkvæmda um land allt.
Aldrei ofbeldi
Ríkislögreglustjóri hefur látið útbúa skýrslu um ofbeldi gagnvart öldruðum. Samkvæmt henni er ljóst að eldra fólk verður fyrir ofbeldi, bæði af hendi starfsmanna stofnana, aðstandanda eða fjárhaldsmanna. Ofbeldi getur verið andlegt líkamlegt eða fjárhagslegt. Starfshópurinn sem vann að skýrslunni vill fá LEB til samstarfs um áframhaldandi vinnu við þennan málaflokk. Einelti viðgengst því miður á heimilum (t.d. hjúkrunarheimilum) fyrir eldra fólk. Mikilvægt er að starfsfólk sé meðvitað um vandann og kunni að taka á honum.
Skiljum engan útundan
Aldraðir innflytjendur eiga á hættu að einangrast. LEB hefur hafið samstarf við Rauða krossinn um átaksverkefni til að rjúfa einangrunina. Fagna ber því að baráttumál LEB um að fólk með skerta búsetu öðlist rétt til bóta frá TR, hefur náð fram að ganga.
Einmanaleiki
LEB hefur lagt áherslu að vinna með fagaðilum gegn einmanaleika en hann getur leitt til kvíða og þunglyndis. Ráðstefna LEB í samvinnu við Heilbrigðisráðuneytið um einmanaleika síðastliðið haust var mikilvægt innlegg í þá umræðu.
Heilsuefling
Miklar framfarir hafa orðið í heilsueflingu eldra fólks og hafa sveitarfélög víða tekið við sér og styrkt slíka starfsemi. Hreyfing og heilsuefling vinna gegn ótímabærri öldrun og einmanaleika. Við hvetjum sveitarfélögin til að efla þetta starf sem nú þegar er hafið. Nú eftir meira en árs kyrrsetu margra, er það aldrei meira áríðandi. Við fögnum nýútkominni skýrslu starfshóps um heilsueflingu eldra fólks á vegum heilbrigðisráðuneytisins. Þar birtist framtíðarsýn í málaflokknum til ársins 2030 og fylgir aðgerðaráætlun skýrslunni.
Sjálfboðaliðastarf
Landsfundurinn hvetur til þess að sjálfboðaliðastarf verði eflt, bæði með Rauða krossinum og á vegum LEB. Sjálfboðaliðastarf er gefandi, bæði fyrir þann sem veitir og tekur á móti. Samfélagið þarf líka að hvetja til þess að yngra fólk sinni sjálfboðaliðastörfum með eldra fólki. Auglýsingarherferð til hvatningar sjálfboðaliðstarfs er þarft verkefni.
Lokaorð
Margt hefur áunnist á síðustu árum. LEB hefur tekist að setja á dagskrá mörg af þeim málum sem mest hafa brunnið á eldra fólki. LEB krefst þess af stjórnvöldum á hverjum tíma, að það verði ekki liðið að aldraðir búi við fátækt og er það brýnasta verkefnið nú, að bæta kjör þessa hóps.
Tillagan var samþykkt með einu mótatkvæði.

Laganefnd.
Guðmundur Guðmundsson, formaður nefndarinnar fór yfir tillögu að breytingum á grein 11.1. Greinin hljóðar þannig:
11.gr. Fjármál
11.1. Aðildarfélög LEB skulu greiða árgjöld til sambandsins af öllum félagsmönnum sínum m.v. síðustu áramót. Landsfundur ákveður upphæð árgjalds.

Breytingartillagan er á þessa leið:
11. gr. Fjármál
11.1. Aðildarfélög LEB skulu greiða árgjöld til sambandsins af öllum félagsmönnum sínum
nema þeim sem náð hafa 90 ára aldri m.v. síðustu áramót. Landsfundur ákveður upphæð árgjalds.

Greinargerð með tillögunni:
Mörg félög innan LEB innheimta ekki félagsgjöld af þeim félagsmönnum sem náð hafa 90 ára aldri.
Til að samræma innheimtu félaganna á félagsgjöldum og þeim aðildargjöldum sem þeim ber að greiða til Landssambandsins leggur Félag eldri borgara í Hafnarfirði til að 1. málsgrein 11. greinar laga um taki eftirfarandi breytingum:

Laganefndin leggur til að tillögunni verði vísað til stjórnar LEB til nánari skoðunar, m.a. í tengslum við önnur ákvæði laga LEB svo sem útreikning á félagafjölda og fulltrúafjölda á landsfundi. Einnig um áhrif á fjárhag landssambandsins. Stjórnin leiti ennfremur álits aðildarfélaganna. Málið komi aftur til umræðu og afgreiðslu a næsta landsfundi að lokinni fyrrgreindri skoðun.
Tillaga nefnarinnar var samþykkt með einu mótatkvæði.

Tillaga frá kjararáði FEBRANG hafði ekki verið tekin til afgreiðslu í nefndum þingsins og var því tekin fyrir sérstaklega.
Halldór Gunnarsson mælti fyrir tillögunni með örfáum orðum. Eftir ábendingar og umræður lagði Þorbjörn Guðmundsson fram hugmynd að breytingu á tillögunni, sem Halldór samþykkti. Eftir þá breytingu var svohljóðandi tillaga tekin til afgreiðslu:
Tillaga til landsfundar LEB 26. maí 2021 frá kjararáði FEBRANG
Landsfundur LEB haldinn á Selfossi 26. maí 2021 samþykkir að stjórn LEB skoði möguleika á framboði eldra fólks til alþingis 2021.
Tillagan var samþykkt með góðum meirihluta greiddra atkvæða.

12. Kosningar
Haukur Halldórsson, formaður uppstillinganefndar, gerði grein fyrir störfum nefndarinnar. Útskýrði m.a. ákvæði í 5. grein laga LEB.
a) Kosning formanns til tveggja ára, kosning tveggja aðalmanna til tveggja ára og þriggja varamanna til eins árs.
a1) Kosning formanns. Helgi Pétursson var sjálfkjörinn formaður til næstu tveggja ára.
a2) Drífa Jóna Sigfúsdóttir Reykjanesbæ og Þorbjörn Guðmundsson Reykjavík voru sjálfkjörin í aðalstjórn til næstu tveggja ára. Valgerður Sigurðardóttir Hafnarfirði og Ingibjörg H. Sverrisdóttir Reykjavík voru kosnar á aðalfundi 2020 til tveggja ára.
A3) Uppstillinganefnd hafði tilnefnt þrjá varamenn, en Halldór Gunnarsson tilkynnti fyrr á fundinum að hann drægi til baka framboð sitt í aðalstjórn en gæfi þess í stað kost á sér í varastjórn. Tillaga um afbrigði þar að lútandi var samþykkt með þorra atkvæða.
Kjósa þurfti því um þrjá í varastjórn, til eins árs.
Úrslit kosninganna voru kynnt að loknum Ör - fræðsluerindum:
Greidd atkvæði voru 90, voru þau öll gild og féllu þannig:
1. Ásgerður Pálsdóttir, Húnaþingi, 87 atkvæði,
2. Ingólfur Hrólfsson, Mosfellsbæ, 86 atkvæði,
3. Ragnar Jónasson, Kópavogi, 78 atkvæði.
Þessi þrjú hlutu kosningu. Halldór Gunnarsson, Hvolsvelli, hlut 19 atkvæði.
b) Kosning tveggja skoðunarmanna ársreiknings LEB.
Skoðunarmennirnir voru sjálfkjörnir, Ástbjörn Egilsson Garðabæ og Árni Jósep Júlíusson Reykjanesbæ. Varamenn voru einnig sjálfkjörnar Hildigunnur Hlíðar Garðabæ og Guðrún Ágústsdóttir Reykjavík.
13. Ör - Fræðsluerindi.
a) Eitt öflugt félag eða mörg veik.
Gurún Eyjólfsdóttir, formaður Félags eldri borgara Suðurnesjum sagði frá sameinuðu félagi með 2.400 félögum í 5 deildum, í fjórum sveitarfélögum á Suðurnesjum. Aðalstöðvarnar eru á Nesvöllum í Reykjanesbæ, en hver deild hefur sína aðstöðu. Stjórnin er skipuð félögum frá öllum deildunum. Sveitarfélögin reka félagsmiðstöðvarnar, en félögin annast tómstundamálin og útgáfu bæklingsins Aftanskins.
b) Hagnýtar upplýsingar fyrir aðildarfélög LEB
Viðar Eggertsson, skrifstofustjóri LEB, minntist á samheldni félaganna á Suðurnesjum og á Lög um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991. Lagði hann sérstaka áherslu á V. kafla laganna, 16. og 17. grein, reglur um félagslega, fjárhagslega og persónulega ráðgjöf. Einnig kynnti hann um heimasíðuna leb.is og fésbókarsíðu samtakanna.
c) Ellilífeyrir til fólks með skerta búsetu á Íslandi – Nýtt átak: Sjálfboðaliðar
Þórunn Sveinbjörnsdóttir ræddi um viðbótarstuðning til eldra fólks, sem ekki hefur verið með búsetu hér á landi alla ævi og um verkefni sem varð til vegna faraldurs, símavini og skjáheimsóknir. Einnig minntist hún á bæklinginn Við andlát maka, sem Guðrún Ágústsdóttir tók saman. Fleiri verkefni eru í pípunum.
14. Önnur mál.
Valgerður Sigurðardóttir gjaldkeri LEB las þakkarkort til Þórunnar Sveinbjörnsdóttur, fráfarandi formanns, fyrir hönd fráfarandi stjórnar og færði henni blómvönd fyrir ánægjulegt samstarf.
Helgi Pétursson, nýkjörinn formaður LEB, þakkaði það traust sem honum hafði verið veitt með kjörinu, ræddi málefni eldra fólks vítt og breitt, mælti hvatningarorð og lýsti framtíðinni hjá sambandinu með nokkrum orðum.
15. Fundarslit.
Fundarstjóri þakkaði fyrir sig. Minnt var á LEB blaðið, heimsókn í félagsmiðstöð FEB Selfoss, móttöku í boði Árborgar og á kvöldverðinn.
Nýkjörin stjórn kom upp til myndatöku.
Þórunn Sveinbjörnsdóttir fráfarandi formaður, þakkaði samstarfið og nefndi sérstaklega Viðar Eggertsson skrifstofustjóra, Guðrúnu Ágústsdóttur ráðgjafa, Ernu Indriðadóttur og Þórhall mann sinn sem og fráfarandi stjórn.
Þórunn og Helgi Pétursson nýkjörinn formaður þökkuðu fyrir frábæran fund og slitu honum kl. 17.15.
Að fundi loknum var þeim stjórnarmönnum sem hættu störfum þökkuð góð störf með blómum og hlýjum orðum. Það eru þau Haukur Halldórsson, Dagbjört Höskuldsdóttir og Guðfinna Ólafsdóttir.

Fundargerð rituðu: Hallgrímur Gíslason og Hildigunnur Hlíðar.

17. júní kvöldvaka fyrir eldri borgara

 

17. júní 

-KVÖLDVAKA ELDRI BORGARA Í MÖRKINNI SELFOSSI KL. 20:00 – 21:30

-Stefán Helgi Islandus jr. ásamt Helga Má, leika og syngja

-Sigurjón frá Skollagróf

-Félagar úr Harmonikkufélagi Selfoss mæta með nikkurnar

-Fjöldasöngur undir stjórn Guðmundar Eiríkssonar píanóleikara

-Kynnir Valdimar Bragason

-Allir eldri borgarar velkomnir og frítt inn meðan húsrúm leyfir

-Sveitarfélagið Árborg óskar íbúum gleðilegrar hátíðar

Til áhugfólks um dans, tónlist, dansstjórn.

 

 

Félagi eldri borgara á Selfossi hefur borist athyglisverður tölvupóstur frá Atla Frey Magnússyni þjóðfræðingi. Eins og fram kemur í tölvupósti hans leitar hann eftir að komast í kynni við fólk sem stunda dans, tónlist, dansstjórn og sem hefur gaman að gömlum dönsum. Endilega þeir sem þetta á við hafið samband við Atla Frey netfang This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða í mig, Þorgrím Óla, netfang This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. Það væri fjársjóður að fá einhvern í svona rannsóknarviðtal af okkar svæði.
Tölvupóstur Atla Freys

------------------------------------------------------------------------------------------------------------
Góðan dag,

Atli Freyr Hjaltason heiti ég og er þjóðfræðingur. Í sumar vinn ég hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum,
við viðtalsrannsóknir á gömlu dönsunum. Ég sendi þetta bréf til FEBSEL til þess að sjá hvort þið vitið um einhverja sem stundað hafa gömlu dansana og væru ef til vill til í að hitta mig. Ég verð á ferðinni í sumar og hafði hugsað mér að heimsækja fólk ef það
er til í viðtal.

Ég leita að dönsurum, tónlistarmönnum, dansstjórum og fólki sem hefur gaman að gömlu dönsunum.

Það væri frábært ef þið vissuð um einhverja og gætuð komið mér í samband. Endilega sendið mér línu ef ég get
svarað spurningum sem kunna að vakna.

Bestu kveðjur,

Atli Freyr Hjaltason

Ársskýrsla stjórnar FEB á Selfossi flutt á aðalfundi 2021

 

Ársskýrsla stjórnar FEB Selfossi fyrir árið 2019

Á árinu gengu til liðs við okkur 144 nýir félagsmenn. Í árslok voru félagsmenn 711 og hafði fjölgað um 86. 18 félagar létust á árinu og 22 sögðu sig úr félaginu, annað hvort vegna brottflutnings af svæðinu eða vegna lasleika.
Í lögum félagsins segir:
Markmið félagsins er að vinna að velferðarmálum eldra fólks með því að:

Vekja athygli og auka skilning almennings, ríkis og sveitarfélags á þörfum eldri borgara.

Stuðla að aukinni þjónustu fyrir eldri borgara.

Skipuleggja tómstunda- og félagsstarf meðal eldri borgara.

Vinna að öðrum þeim málum, sem til hagsbóta teljast fyrir eldri borgara.

Að þessum markmiðum reynir stjórn að stefna að hverju sinni. Tilkoma þessa húsnæðis sem við erum stödd í nú hefur gjörbreytt aðstöðu okkar og nú er hægt að bjóða upp á fleiri möguleika en áður var hægt. Fyrir það erum við þakklát sveitarfélginu okkar sem lætur okkur í té þetta frábæra húsnæði. Að auki styrkir sveitarfélagiðfélagið okkur árlega með fjárveitingum sem gerir okkur kleift að halda úti fjölbreyttri starfsemi.

Aðalfundur var haldinn í febrúar 2018 og var fundarstjóri Guðmundur Guðmundsson og fundarritari Sigrún Ásgeirsdóttir. Þá hætti Eysteinn Jónsson sem gjaldkeri eftir eins árs setu í stjórn og var það vegna veikinda.
Sigríður Jóhanna Guðmundsdóttir (Sirrý) lét af formennsku eftir farsælt starf í 6 ár en lengur getur formaður ekki setið. Þá hætti Jósefína Friðriksdóttir einnig af sömu ástæðu.

Í stjórn voru kosin: Guðfinna Ólafsdóttir, formaður til 2ja ára og Guðrún Guðnadóttir, gjaldkeri kosin til eins árs en við ákváðum að hún fengi titilinn fjármálastjóri og Þorgrímur Óli Sigurðsson kosinn til 2ja ára. Í varastjórn var Guðrún Þóranna Jónsdóttir kosin til 2ja ára.
Fyrir í stjórn voru: Anna Þóra Einarsdóttir, Gunnþór Gíslason og Gunnar Þórðarson í varastjórn.

Á aðalfundinum voru samþykktar tvær áskoranir. Annars vegar til Heilbrigðisráðuneytisins og Sveitarfélagsins Árborgar um að flýta sem mest byggingu fyrirhugaðs hjúkrunarheimilis á Selfossi.
Í öðru lagi var samþykkt tillaga Sesselju Bjarnadóttur um að skora á sveitarfél. Árborg að beita sér fyrir því að boðið verði upp á heitan mat í hádeginu hér í Grænumörk sambærilegt við það sem boðið er upp á í öðrum bæjarfélögum.

Þessar áskoranir voru sendar þar til bærum aðilum.

Eins og við vitum þá eru þegar hafnar framkvæmdir við nýtt hjúkrunarheimili og vonandi ganga þær skjótt og vel, því þörfin er mikil.
Ekki er enn farið að bjóða upp á heitan mat í Grænumörk en starfshópur hefur verið að störfum og fáum við að heyra af því hér á eftir.

Stjórnin sendi einnig frá sér áskorun til sveitarfélagsins um að fjölga bekkjum í bænum, og þá sérstaklega hér í austurbænum þar sem byggð hafa verið fjölbýlishús ætluð 50 ára og eldri og í þessum húsum munu búa um 120 manns.

Einnig beindum við tilmælum til verslana um heimsendingu. Í Nettó er hægt að panta á netinu en það þarf að sækja vöruna. Ekki er boðið upp á slíkt í Bónus eða Krónunni.

Við endurnýjuðum umsókn til sveitarfélagsins um Hreyfistyrk en því hefur ekki verið sinnt. Okkur hafa borist ábendingar um að æfingagjöld í vatnsleikfimi þyki há því víða þurfa eldri borgarar ekkert að borga fyrir slíka leikfimi. Við munum því beina tilmælum til sveitarfélagsins að það komi til móts við iðkendur því við erum jú heilsueflandi sveitarfélag.

Ákveðið var að gefa ekki út bækling sem sýndi fyrirtæki sem veita okkur afslátt. Heldur eru félagsmenn hvattir til að sýna skírteinið sitt og spyrja um afslátt. Mjög mörg fyrirtæki veita okkur afslátt og það munar um allt.

Við höfum haft þann háttinn á að þeir leiðbeinendur sem vildu innheimta sjálfir námskeiðsgjöld og félagið útvegar aðstöðuna. Ekki hefur tekist að breyta þessu á öllum námskeiðum en það er stefnt að slíku fyrirkomulagi frá og með næsta hausti

Allir hópar hafa aðgang að eldhúsinu í húsinu og geta hellt upp á könnuna. Hver og einn hópur þarf að sjá um sitt og ganga frá á eftir. Engin eldamennska fer fram í eldhúsinu og því er ekki reiknað með starfsfólki í störf þar.

Samið var við Fjölbrautaskóla Suðurlands um að hann útvegaði okkur nemendur sem tækju að sér að heimsækja þá félagsmenn sem þess óskuðu, og kenndu þeim að nota snjallsíma, IPAD og Spjaldtölvu . Nú hefur komið í ljós að þetta gengur ekki. Spurning hvort það séu ekki einhverjir félagsmenn sem geti hlauðið í skarðið og aðstoðað félaga okkur. Bið ég þá sem tilbúnir væri í það verkefni að setja sig í samband við okkur í stjórninni.

Auglýst var námskeið í silfursmíð og var búið að fá kennara í það verkefni. Því miður missti sá aðili sitt húsnæði og hefur verið að koma sér fyrir í Hveragerði og bíðum við bara eftir að heyra frá honum.

Þátttaka í námskeiðum hefur verið mjög góð. 193 konur og 68 karlar hafa sótt námskeið eða tekið þátt í öðru starfi á vegum félagsins. Sumir hafa tekið þátt í fleiri en einu námskeiði eða öðrum viðburðum sem í boði eru. Þetta eru ekki alveg 100% réttar tölur en segir mér þó að konur eru miklu duglegri en karlar að sækja í félagsstarfið. Hver ástæðan er veit ég ekki,. Kannski of mikið af námskeiðum sem falla konumn betur í geð eða þær duglegri að sækja sér félagsskapinn . Þið getið velt þessu fyrir ykkur og ef þið hafið lausn þá endilega látið okkur í stjórn vita.

Við sömdum við ungan forritara um að setja upp heimasíðu fyrir félagið. Það hefur ýmislegt tafið þá vinnu en við vonumst til þess að heimasíða fari að sjá dagsins ljós.

Þegar dagdvölin fluttist á efri hæðina hér þá losnaði töluvert húsnæði hér inni á ganginum. Þar er m.a. skrifstofan okkar, leirlist og postulínsmálun. Til stóð að sv.fél. myndi nýta laust pláss en ekkert gerðist þar og því tókum við á það ráð að lána Hörpukórnum eitt herbergi þar inni og verðum við að sjá til hve lengi þau fá að hafa afnot af því herbergi. Kórinn er með mikið af nótum og fleiru sem safnast hefur að í gegnum árin en kórinn er 30 ára á þessu ári og í honum eru um 50 manns þannig að það er ekkert óeðlilegt að þau hafi sitt afdrep, þó allir kórfélagar komist ekki fyrir þar inni í einu en salinn hafa þau til æfinga.

Stjórnin og viðburðanefndin hafa auglýst í Dagskránni, bæði að hausti og í byrjun árs. Birt stundaskrá og það sem er á döfinni. Fréttabréf eru gefin út og liggja frammi hér í félagsmiðstöðinni. Öll námskeið eru svo auglýst sérstaklega hér á auglýsingatöflunni í anddyrinu. Einnig ákváðum við nýlega að auglýsa vikulega hvað væri í dagskrá í opnu húsi en þá ber svo við að Dagskráin er ekki borin út nógu snemma í öll hverfi bæjarins.Og Það er ekki ókeypis að auglýsa í blöðum, nema í Morgunblaðinu, þar getum við sett inn viðburði undir liðnumn Fólkið - Félagsstarf. En það kaupa ekki allir Morgunblaðið. Stundum finnst okkur eins og það sé ekki lesið það sem við sendum frá okkur en það er auðvitað líka ykkar vandamál.
Facebook síðan okkar er mikið skoðuð og kannski lesið líka það sem við setjum inn. Við deilum inn á þá síðu fréttum frá Landssambandi eldri borga, Farsælli öldrun Þekkingarmiðstöð og ýmsum fróðleik sem við rekumst á. Við vonum að þetta sé ykkur gagnlegt. Þess vegna höfum við boðið upp á kennslu í notkun snjalltækja svo þið félagar góðir getið notið þess sem við höfum upp á að bjóða. Slóðin á síðuna er Félaga eldriborgara Selfossi

Hin nýja stjórn hefur haldið 10 stjórnarfundi á starfsárinu. Á fyrsta fundi skipti stjórn með sér verkum, Anna Þóra Einarsdóttir var kosin varaformaður, Þorgrímur Óli Sigurðsson, ritari, Guðrún Guðnadóttir eins og áður hefur komið fram er fjármálastjóri. Gunnþór Gíslason er meðstjórnandi, og Gunnar Þórðarson og Guðrún Þóranna eru varamenn en þau eru boðuð og sitja alla fundi stjórnar.

Stjórnar beið það verkefni að flytja skrifstofu félagsins af 2. hæð niður á 1. hæð. Þar var búið að standsetja stórt herbergi fyrir stjórn en við kúventum því og aðsetur stjórnar er nú í litlu herbergi á sömu hæð. Stjórnin fundar því einu sinni í mánuði í stóra herberginu en þar fer fram leirlist og postulínsmálun því aðrar vinnustofur voru uppteknar. Þetta varð að gera svo hægt væri að auka fjölbreytni námskeiða og leiðbeinendur buðust.

Á skrifstofunni var mikið bókasafn sem við urðum því miður að losa okkur við þar sem ekkert var plássið hér í húsinu og bækur safna ryki og það þarf að þurrka af þeim og er ekki starfsfólk til þess. Samið va r við Heiðrúnu á Bókasafninu um að safnið útvegaði bækur og kæmi með í húsið. Breytingar á húsnæði safnsins sem stóðu yfir í allt sumar og haust og tóku lengri tíma en áætlað var svo ekki hefur neitt gerst í bókamálum hér í húsinu. En það stendur til bóta mjög bráðlega.

Tekin var sú ákvörðun að fella niður kaffinefndir og ráða utanaðkomandi aðila til að sjá um veitingar í Opnu húsi og öðrum samkomum. Vil ég nota tækifærið til að þakka þeim konum, já konum, sem séð hafa um veitingar alla tíð og stóðu sig auðvitað með prýði. En við erum eldri borgarar og því eigum við ekki að þurfa að standa í erfiðu starfi þegar við komum í félagsmiðstöðina til að hitta fólk. Nú borgum við Bjartmari og hans fólki hjá Veisluþjónustunni og Hugrúnu Helgadóttur fyrir að bera í okkur kaffi og kruðerí. Vil ég þakka þeim sérstaklega fyrir fjölbreytt meðlæti og góða samvinnu. Þá vil ég einnig þakka Jóni Helgasyni sem ávallt var tilbúinn til að aðstoða við kaffiuppáhellingar.

Lögð var áhersla á að bjóða félagsmönnum upp á hreyfingu þegar húsnæðið bauð upp á það. Bryndís Guðmundsdóttir, jógakennari tók að sér að vera með Qigong kínverska leikfimi og stólajóga. Mjög góð aðsókn í bæði þessi námskeið og fylltist salurinn að áhugasömum iðkendum. Vegna góðrar aðsóknar var samið við Bryndísi um að hún lækkaði námskeiðsgjaldið úr 4000 í 3000 eftir áramótin og ég held að við séum bara orðin háð þessum tímum því þeir gera okkur svo gott.
María Carlos sem við þekkjum úr sumbadansinum ákvað að bjóða upp á stólaleikfimi okkur að kostnaðar lausu tvisvar sinnum í viku. Mjög skemmtilegir tímar hjá Maríu sem er svo opin og skemmtileg manneskju. Hún er ættuð frá Síle og er menntaður íþróttakennari og svo var hún að ljúka sjúkraliðamenntun.
Við erum Bryndísi og Maríu afskaplega þakklát fyrir þeirra starf.

Eins og undanfarin ár bjóða þau Guðlaug Jóna og Jón Þór í línudans og hafa þau bætt við tíma fyrir óvana svo nú er um að gera að skella sér í tíma og læra línudans eða rifja upp það sem við lærðum einu sinni.

Á vegum félagsins eru starfandi nokkrar nefndir:

Þær eru: Árshátíðarnefnd, Viðburðastjórn í Mörk,en það er nýtt nafn á dagskrár og fræðslunefnd, Ferðanefnd, Spilanefnd, áður félagsvistarnefnd, Leikhúsnefnd og íþróttanefnd, einnig eru nefndir sem sjá um Fornsögulestur og Öndvegisbók–
menntir
Fulltrúar þessara nefnda munu flytja skýrslu hér á eftir og segja frá starfinu og því ætla ég ekki að telja upp allt sem þau hafa gert á árinu. Þá hefur stjórnin séð um að skipuleggja námskeið sem ekki hafa verið fastir liðir. Boðið hefur verið upp á tungumálakennslu hjá Fræðslunetinu, Ensku og Spænsku og hófust þau námskeið núna eftir áramót. Perlusaumur byrjaði svo í janúar. Svo er lítill Krossgátuhópur sem glímir við sunnudagskrossgátu Morgunblaðsins hittist x1 í viku eftir að fornsögulestri lýkur. Það mættu nú alveg koma fleiri í þann hóp og kynnast þessari skemmtilegu hugar/heila leikfimi.

Ekki má gleyma gönguhópum Ágústu og Þórunnar en þeirri síðarnefndu fylgir rúta frá Guðmundi Tyrfingssyni sem hann býður okkur að kostnaðarlausu og hefur gert í mörg ár. Flyt ég því eigendum þess fyrirtækis innilegar þakkir fyrir þann hlýhug sem félaginu er sýndur. Einnig þakka ég þeim stöllum Ágústu og Þórunni fyrir þeirra framlag. Þessar göngu gætu nú fleiri nýtt sér en verið hefur og hef ég ykkur til að slást í hópinn hjá þeim.

Ekki hefur tekist að koma Körlunum í skúrinn. Þar sem karlar gætu komið saman, smíðað, gert við eða alls konar sem þeir voru vanir að gera úti í bílskúr sem kannski er ekki til staðar nú. Við vorum ekki búin að fá húsnæði fyrir þessa starfsemi, en ef við hefðum komið upp þrýstihóp þá hefði það kannski gengið betur.

Handverkssýning var haldin í apríl og tókst bara nokkuð vel. Til sýnis voru munir sem félagsmenn hafa unnið á námskeiðum og í handavinnuhópum hér.
Við ákváðum að breyta til og hafa óvæntar uppákomur á hverjum degi og þá komu til sögunnar, Hörpukórinn með opna æfingu, Línudanshópur Gullu og Jóns Þórs sýndi dans, Helgi Hermanns kom með gítarinn og flautuna sína og spilaði og söng og María Carlos söng eigin lög og lék undir á píanó. Þetta passaði vel því sýningardagar voru 4 og atriðin 4.

Stjórnin ásamt aðstoð fyrrum kaffinefndarkvenna sá um að baka vöfflur og selja gestum. Það myndaðist sannkölluð kaffihúsastemmning í salnum okkar og var virkilega gaman að standa í bakstri, þó rjómasprauturnar væru að stríða okkur, sultan, vöffludeigið og rjóminn seldist upp og þá var nú gott að opnunartími verslana er rúmur í bænum. Vil ég nota tækifærið og þakka öllum sem komu að því að gera þessa daga skemmtilega.

Hreystitækið eða útileiktækið sem okkur var gefið á sl. ári var var loksins sett upp þegar vetur var að ganga í garð og því hefur ekki verið mikil notkun á því. Það stóð líka til að taka það í notkun við hátíðlega athöfn og bjóða gefendum á staðinn en það verður væntanlega gert með vorinu. Sveitarfélagið sá um uppsetningu á tækinu og kostaði það sennilega álíka mikið og tækið sjálft ef ekki meira en um það hef ég ekki nákvæmar tölur. Uppsetningin fór fram samtímis lagfæringu á lóð og aukningu á bílastæðum en þeim átti að fjölga um 14.

Stjórnin ákvað að fylgja fordæmi fleiri félaga eldri borgara og styðja Gráa Herinn í málsókn hans við ríkið vegna skerðinga á greiðslum almannatrygginga til eldri
borgara þar sem við teljum að brotið sé á mannréttindum okkar.

Við fengum heimsókn frá Félagi eldriborgara í Hafnarfirði og voru rúmlega 200 manns sem drukku kaffi hér í salnum. Bjarni Harðarson ,rithöfundur og bóksali flutti erindi og skemmti okkur eins og honum er einum lagið.
Hörpukórinn er fastur liður á samkomum eins og þessum sem og aðventuhátíð sem haldin var í desember. Sr. Haraldur M. Kristjánsson, sóknarprestur í Vík flutti jólahugverkju og unglingakór Selfosskirkju söng undir stjórn Edith Molnar
Við fengum líka heimsókn frá Borgarnesi en þá komu hingað eldriborgarar sem njóta dagvistar í þeim bæ og/eða taka þátt í starfi félagsins þar.

Félag með yfir 700 félagsmenn þarf að vera með fjölbreytta starfsemi og helst þurfa sem flestir ef ekki allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Einhverjir af þessum 700 eru styrktaraðilar, en nýta sér kannski að fara í leikhúsferðir okkar yfir veturinn og þurfa þá ekki að hafa áhyggjur af veðri og færð á Hellisheiði eða í sumarferðir sem eru mjög vinsælar og er það mjög ánægjulegt.


Þetta fyrsta starfsár mitt í formennsku hefur verið viðburðaríkt og um leið lærdómsríkt. Einn stjórnarmaður hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til stjórnarsetu áfram, Gunnar Þórðarson og vil ég þakka honum sérstaklega fyrir góða viðkynningu og vel unnin störf. Eins og þið vitið þá stýrir Gunnar íþróttanefndinni og mun halda því áfram, hann sér um ásamt sínum nefndarmönnum, boccia og ringo í íþróttahúsum skólanna,skipuleggur pútt hjá Golfklúbbi Selfoss og er einnig iðinn við snókerspilamennsku. Hann kenndi mér og fleirum boccia í síðustu viku en eins og þið vitið þá er búið að merkja völl hér í hliðarsalnum og auglýstir hafa verið tímar þar sem hægt er að leika.

Ég vil líka þakka öðrum stjórnarmönnum fyrir samstarfið og dugnaðinn þegar ég hef kallað þau til til hinna ýmsu verka hér í húsinu, hvort sem er að flytja bókasafn eða skreyta jólatré, þá eru þau alltaf tilbúin. Þetta er ómetanlegt.

Nefndarmönnum, leiðbeinendum og umsjónarmönnum öllum þakka ég fyrir vel unnin störf. Án ykkar væri ekki mikið um að vera.

Guðfinna Ólafsdóttir
Formaður FEB

Nýr bótaflokkur hjá Tryggingastofnun ríkisins um félagslegan stuðning við aldraða

Úrræðinu er ætlað að styrkja framfærslu 67 ára og eldri sem búsettir eru hér á landi og eiga engin eða takmörkuð lífeyrisréttindi í almannatryggingum. Félagslegur viðbótarstuðningur getur að hámarki numið 231.110 kr. á mánuði. Þessi upphæð er 90% af fullum ellilífeyri almannatrygginga á árinu 2020. Þeir sem búa einir og eru einir um heimilisrekstur geta til viðbótar átt rétt á allt að 90% af heimilisuppbót sem er 58.400 kr. á mánuði á árinu 2020.

Stuðningur við kaup á tækjum fyrir styrktarleikfimi

Fjölskyldusvið Árborgar

Bt. Þorsteins Hjartarsonar, sviðsstjóra

Ráðhúsinu Austurvegi 2

800 Selfoss

                                                                                                                                                    7.september 2020

 

 

Stuðningur við kaup á tækjum fyrir styrtkarleikfimi eldri borgara.

Stjórn FEB hefur samið við íþróttafræðing um að vera með styrktarleikfimi fyrir 60 plús í sal félagsins í Grænumörk 5. Til að það geti gengið eftir þurfum að kaupa ýmis smá tæki s.s. lóð, teygjur, jafnvægispúða, m.m. að upphæð kr. 140.000. Tækin munu svo nýtast okkur áfram um ókomin ár.

Í heilsueflandi bæ er bæjaryfirvöldum að sjálfsögðu kunnugt hve mikilvægt það er fyrir lýðheilsu eldri borgara að halda sér í góðu formi. Hreyfing er nauðsynleg en til verða líka að koma styrktaræfingar. Unnið verður eftir svokölluðu Janusarkerfi þ.e. gerðar svipaðar æfingar og mælingar sem hann er með og við erum svo heppin að hafa fengið íþróttafræðing sem er vel kunnugur Janusar kerfinu. Æfingarnar munu hefjast um leið og aðstæður í þjóðfélaginu leyfa.

 

Með vinsemd

Guðfinna Ólafsdóttir

Formaður Félags eldri borgara Selfossi.