1. grein. Nafn.
Félagið heitir Félag eldri borgara Selfossi. Heimili þess og varnarþing er á Selfossi.
2. grein. Markmið.
Markmið félagsins er að vinna að velferðarmálum eldra fólks með því að:
Vekja athygli og auka skilning almennings, ríkis og sveitarfélags á þörfum eldri borgara.
Stuðla að aukinni þjónustu fyrir eldri borgara.
Skipuleggja tómstunda- og félagsstarf meðal eldri borgara.
Vinna að öðrum þeim málum, sem til hagsbóta teljast fyrir eldri borgara.
3. grein. Félagsaðild.
Almenn félagsaðild miðast við 60 ára aldur. Einstaklingar, félög, stofnanir og fyrirtæki geta orðið styrktaraðilar.
4. grein. Árgjöld og tekjur.
Tekjur félagsins eru félagsgjöld, rekstrarstyrkur sveitarfélagsins á hverjum tíma, gjafir, einstök framlög og fjáröflun félagsins. Árgjöld félagsmanna skulu ákveðin á aðalfundi ár hvert. Reikningsár félagsins er almanaksárið.
5. grein. Skipan stjórnar og verkefni.
Stjórn félagsins skipa fimm aðalmenn: Formaður, varaformaður, gjaldkeri, ritari og meðstjórnandi. Auk þeirra eru tveir varamenn. Kjörtímabilið er tvö ár. Samfelld stjórnarseta skal vera að hámarki þrjú kjörtímabil. Formaður og gjaldkeri eru kosnir sérstaklega, tveir aðalmenn eru kosnir annað árið en einn aðalmaður hitt árið. Varamennirnir tveir eru kosnir til skiptis annað hvert ár og skulu vera boðaðir á alla stjórnarfundi. Stjórnin skiptir með sér verkum að loknum aðalfundi hverju sinni. Formaður er forsvarsmaður félagsins. Hann stjórnar fundum. Gjaldkeri annast almennar fjárreiður félagsins í umboði stjórnar, skv. almennum reglum þar að lútandi. Ritari heldur gerðabók félagsins og skráir þar ályktanir funda.
6. grein. Kjörnefnd.
Á aðalfundi skal kjósa í þriggja manna kjörnefnd samkvæmt reglum félagsins um skipan fastanefnda félagsins. Kjörnefnd gerir tillögur um stjórnarmenn, varamenn í stjórn og skoðunarmenn sem kjósa á um á næsta aðalfundi.
7. grein. Aðalfundur.
Aðalfund skal halda fyrir febrúarlok ár hvert. Boða skal til aðalfundar með minnst viku fyrirvara í héraðsblaði eða útvarpi og í þjónustumiðstöðinni. Verkefni aðalfundar eru:
Skýrsla stjórnar fyrir síðastliðið ár.
Endurskoðaðir ársreikningar kynntir og bornir upp til samþykktar.
Lagabreytingar.
Árgjöld félagsmanna ákveðin.
Kosningar. Kjósa skal eftirfarandi:
Þann hluta stjórnar og varastjórnar sem setið hefur í tvö ár.
Tvo skoðunarmenn ársreikninga.
Fulltrúa í kjörnefnd sbr. 6. grein.
Fulltrúa á þing Landssambands eldri borgara auk formanns félagsins sem er sjálfkjörinn. Fjöldi þeirra er samkvæmt lögum LEB hverju sinni.
Önnur mál.
8. grein. Atkvæðavægi og lagabreytingar.
Á stjórnar- og félagsfundum ræður einfaldur meirihluti atkvæða. Til lagabreytinga þarf þó 2/3 hluta atkvæða. Tillaga um lagabreytingar skal tilkynnt í fundarboði aðalfundar.
9. grein. Félagsslit
Ákvörðun um slit á félaginu verður ekki tekin nema á aðalfundi og aukaaðalfundi og þarf til þess samþykki 2/3 félagsmanna á hvorum fundi.
Ef aðalfundur samþykkir tillögu um slit á félaginu skal boða til aukaaðalfundar innan sex vikna og skal tillagan tekin þar til umræðu og afgreiðslu. Verði á þeim fundi samþykkt að slíta félaginu skal aukaaðalfundur ráðstafa eignum þess. Eignir félagsins skulu ganga til þjónustumiðstöðvar eldri borgara í Grænumörk, eða til aðila sem halda uppi hagsmunabaráttu fyrir eldra fólk og vinna að velferð þess sbr. 2. grein. Fundargerðir og önnur skjöl félagsins sem hafa sögulegt gildi skulu afhent Héraðsskjalasafni Árnessýslu til varðveislu.
10. grein. Gildistaka.
Lög þessi taka gildi þegar þau hafa verið samþykkt á aðalfundi Félags eldri borgara Selfossi. Jafnframt falla þá úr gildi eldri lög félagsins.
Samþykkt á aðalfundi FEB Selfossi 25. febrúar 2016.