Frambjóðendur lista í Árborg kynntu stefnu sína í málefnum eldra fólks í Árborg

on .

 

Í Opnu húsi í Mörk í gær mættu fulltrúar þeirra 6 lista sem bjóða fram til bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Árborgar.  Mæting var vægast sagt frábær en á annað hundrað gestir sóttu samkomuna. 

Frambjóðendum gafst kostur á fara á milli borða og ræða við fólkið og var ekki annað að sjá en það hafi verið öllum gagnlegt og gleðin var mikil. Kjötbúrið sá um veitingar sem gestir gerðu góð skil.

Fyrirkomulag kynningarinnar var með þeim hætti að dregið var um í hvaða röð listarnir kynntu stefnu sína í málefnum eldra fólks.  Fyrst kom Sigurður Torfi Sigurðsson og talaði fyrir Vinstrihreyfinguna – grænt framboð, Kjartan Björnson kom næst og talaði fyrir Sjálfstæðisflokkinn, Arna Ýr Gunnarsdóttir talaði fyrir Samfylkingu, Álfheiður Eymarsdóttir talaði fyrir Bæjarmálafélagið Áfram Árborg, Tómas Ellert Tómasson talaði fyrir Miðflokk og Sjálfstæða og Arnar Freyr Ólafsson fyrir Framsóknarflokk.  Hver listi fékk 5 mínútur til umráða.  Gestum var gefinn kostur á að bera upp spurningar í lok kynningar og hver listi fékk 1 mínútu til svara.  Valdimar Bragason stýrði athöfninni af skörungsskap, Anna Þóra Einarsdóttir var tímavörður og undirritaður sá um að veifa gula og rauðaspjaldinu þegar tíminn var að renna út. 

Mitt mat er að fulltrúar listanna hafi flutt mál sitt á skýran og rökstuddan hátt og verið til sóma og ekki er ég í vafa um að allt það fólk sem mun veljast í bæjarstjórn vinni þétt saman um þau málefni sem mestu skiptir fyrir okkur eldra fólkið.  Það skipti miklu máli að svo margir mættu í Opið hús í gær sem er vítamín fyrir okkar brýnustu mál.  Í lokin vil ég þakka stjórnendum Opins hús þeim Önnu Þóru Einarsdóttur og Magnúsi J. Magnússyni fyrir þetta framtak og stjórnarfólki í FEBSEL fyrir aðkomu þess. 

Þorgrímur Óli Sigurðsson 

formaðul Félags eldri borgara Selfossi