Fundargerð árið 2016

. Published on .

Fundargerð aðalfundar Félags eldriborgara Selfossi 25. febrúar 2016

1. -2. Fundarsetnng – skipun fundarstjóra og furndarritara. Formaður félagsins Sigríður J. Guðmundsdóttir setti fundinn og gerði tillögu um Guðfinnu Ólafsdóttur sem fundarstjóra og Helga Helgason sem fundarritara, var það samþykkt.

3. Minnst látinna félaga. Guðfinna tók við fundarstjórn og minntist þeirra félaga sem látist hafa á liðnu starfsári en þeir eru 15 talsins. Vottuðu fundarmenn þeim virðingu með því að rísa úr sætum.

4. Fundargerð síðasta aðalfundar. Helgi Helgason las fundargerð aðalfundarins sem haldinn var 19. febrúar 2015.

5. Skýrsla stjórnar. Sigríður Guðmundsdóttir, formaður flutti skýrsluna. Öll starfsemi var með hefðbundnum hætti líkt og undanfarin ár, útivist , bókmenntir, handverk og listsköpun, íþróttir og líkamsrækt, söngur, kaffiveitingar og samvera. Fjölbreytt dagskrá var í opnu húsi undir stjórn dagskrárnefndar, Guðbjargar Sigurðardóttur, Guðrúnar Guðmundsdóttur og Ingimars Pálssonar. Margt góðra gesta kom í opna húsið sem fræddu og skemmtu auk þess efnis sem félagar lögðu til sjálfir. Aðrir fastir liðir, vorfagnaður með FEB Hveragerði, 1. maí hátíð, messa á uppstigningrdag og fleira í Selfosskirkju. Boccia-spilarar tóku þátt í mörgum mótum. Þrír fulltrúar sóttu landsfund LEB og var Sigríður, formaður FEB Selfossi, kjörin varaformaður Landssambandsins.

Sumardagskrá var lífleg að vanda og er þar fyrst að nefna ferðir fornbókmenntalesenda í tveim hópum til Orkneyja með viðkomu í Glasgow, en yfirvofandi verkfall varð til þess að seinni hópurinn tók smá útúrkrók - suður til Manchester og York. Fagurbókmenntahópurinn brá sér í Gljúfrastein og Hannesarholt. Ferðanefndin stóð fyrir þrem dagsferðum, í uppsveitir Árnessýslu, í Holta- og Landsveit og til Reykjavíkur. Haustferð var farin um Suðurnes. Alls var farið fimm sinnum í leikhús, einu sinni í Litla- leikhúsið á Selfossi og tvisvar í hvort stóru leikhúsanna í Reykjavík. Vetrarstarfið hófst með hefðbundnum hætti, árshátíð í nóvember, aðventufagnaður í Selfosskirkju, auk annarra fastra liða.

Hörpukórinn tók á móti 5 kórum á kóramóti sem haldið var í Fjölbrautaskólanum. Jörg Sonderman hefur látið af söngstjórn, en Guðmundur Eiríksson tekið við.

Átta stjórnarfundir voru haldnir á árinu. Stjórnin skipaði átta 3ja-manna nefndir til að létta starfið sem á þeim hvílir. Í nóvember var haldin rástefna á Selfossi í samvinnu við Öldungaráð Íslands, Árborg og önnur sunnlensk sveitarfélög um málefnið – Farsæl öldrun. Á árinu var stofnað Öldungaráð sem skipað er tveim fulltrúum sveitarfélagsins og einum frá hvoru félaganna á Selfossi og á Eyrarbakka og einum frá umsjónarmönnum félagsstarfs eldri borgara á Stokkseyri. Sigríður Ólafsdóttir, fv bæjarstjórnarfulltrúi er fulltrúi FEB Selfossi í ráðinu.

Að lokum þakkaði formaður öllum þeim sem lagt hafa félaginu lið á starfsárinu, sérstaklega þeim sem starfað hafa í nefndum og hafa nú lokið störfum. Einnig þakkaði hún Guðmundi Tyrfingssyni og Sigríði konu hans fyrir stuðning þeirra við félagið, sömuleiðis starfsfólki Tónlistarskólans aðstoð við fjölföldun. Sveitarfélaginu Árborg var þakkaður stuðningur og sérstaklega tengilið þess við félagið Guðlaugu Jónu Hilmarsdóttur, félgasmálafulltrúa.

6. Ársreikningar fyrir árið 2015. Guðmundur Guðmundsson gjaldkeri félagsins lagði fram og skýrði reikningana og voru niðurstöðutölur eftirfarandi:
Rekstrarreikningur kr. 3.601.464
Þar af tekjur umfram gjöld kr. 297.766
Efnahagsreikningurkr. 3.531.344
sem er hrein eign, en skuldir eru engar.

Fundarstjóri gaf orðið laust um reikningana og skýrslu stjórnar. Gunnar Kristmundsson þakkaði formanni og stjórninni vel unnin störf, fagnaði fjölgun félaga, en taldi að sveitarfélagið þyrfti að bæta sinn hlut sérstaklega í félagsaðstöðunni. Hvatti til aukinnar þátttöku í Boccia og öðrum íþróttum sem í boði eru á vegum félagsins.

Reikningarnir bornir upp og samþykktir samhljóða.

7. Tillögur til breytinga á lögum félagsins. Guðmundur, gjaldkeri, kynnti tillögurnar. Að mestu leyti lúta breytingarnar að orðalagsbreytingum og niðurfellingu málsgreina sem ekki eiga lengur við. Þá er og bætt inn tveim nýjum greinum, nr. 6 og nr. 9 og breytist röð annar greina til samræmis við það. Í raun fela tillögurnar einhverjar breytingar á öllum greinum laganna að frátalinni 1. grein.

Fundarstjóri gaf orðið laust um tillögurnar en þar sem engar athugasemdir komu fram var hver grein með áorðnum breytingum borin upp sérstaklega og allar samþykktar samhljóða og sömuleiðis lögin í heild eins og þau eru færð til bókar í þessari fundargerð:

Lög
Félags eldri borgara Selfossi.

1. grein. Nafn.
Félagið heitir Félag eldri borgara Selfossi. Heimili þess og varnarþing er á Selfossi.

2. grein. Markmið.
Markmið félagsins er að vinna að velferðarmálum eldra fólks með því að:
  Vekja athygli og auka skilning almennings, ríkis og sveitarfélags á þörfum eldri borgara.
  Stuðla að aukinni þjónustu fyrir eldri borgara.
  Skipuleggja tómstunda- og félagsstarf meðal eldri borgara.
  Vinna að öðrum þeim málum, sem til hagsbóta teljast fyrir eldri borgara.

3. grein. Félagsaðild.
Almenn félagsaðild miðast við 60 ára aldur. Einstaklingar, félög, stofnanir og fyrirtæki geta orðið styrktaraðilar.

4. grein. Árgjöld og tekjur.
Tekjur félagsins eru félagsgjöld, rekstrarstyrkur sveitarfélagsins á hverjum tíma, gjafir, einstök framlög og fjáröflun félagsins. Árgjöld félagsmanna skulu ákveðin á aðalfundi ár hvert. Reikningsár félagsins er almanaksárið.

5. grein. Skipan stjórnar og verkefni.
Stjórn félagsins skipa fimm aðalmenn: Formaður, varaformaður, gjaldkeri, ritari og meðstjórnandi. Auk þeirra eru tveir varamenn. Kjörtímabilið er tvö ár. Samfelld stjórnarseta skal vera að hámarki þrjú kjörtímabil. Formaður og gjaldkeri eru kosnir sérstaklega, tveir aðalmenn eru kosnir annað árið en einn aðalmaður hitt árið. Varamennirnir tveir eru kosnir til skiptis annað hvert ár og skulu vera boðaðir á alla stjórnarfundi. Stjórnin skiptir með sér verkum að loknum aðalfundi hverju sinni. Formaður er forsvarsmaður félagsins. Hann stjórnar fundum. Gjaldkeri annast almennar fjárreiður félagsins í umboði stjórnar, skv. almennum reglum þar að lútandi. Ritari heldur gerðabók félagsins og skráir þar ályktanir funda.

6. grein. Kjörnefnd.
Á aðalfundi skal kjósa í þriggja manna kjörnefnd samkvæmt reglum félagsins um skipan fastanefnda félagsins. Kjörnefnd gerir tillögur um stjórnarmenn, varamenn í stjórn og skoðunarmenn sem kjósa á um á næsta aðalfundi.

7. grein. Aðalfundur.
Aðalfund skal halda fyrir febrúarlok ár hvert. Boða skal til aðalfundar með minnst viku fyrirvara í héraðsblaði eða útvarpi og í þjónustumiðstöðinni. Verkefni aðalfundar eru:

  Skýrsla stjórnar fyrir síðastliðið ár.
  Endurskoðaðir ársreikningar kynntir og bornir upp til samþykktar.
  Lagabreytingar.
  Árgjöld félagsmanna ákveðin.
  Kosningar. Kjósa skal eftirfarandi:
  Þann hluta stjórnar og varastjórnar sem setið hefur í tvö ár.
  Tvo skoðunarmenn ársreikninga.
  Fulltrúa í kjörnefnd sbr. 6. grein.
  Fulltrúa á þing Landssambands eldri borgara auk formanns félagsins sem er sjálfkjörinn. Fjöldi þeirra er samkvæmt lögum LEB hverju sinni.
  Önnur mál.

8. grein. Atkvæðavægi og lagabreytingar.
Á stjórnar- og félagsfundum ræður einfaldur meirihluti atkvæða. Til lagabreytinga þarf þó 2/3 hluta atkvæða. Tillaga um lagabreytingar skal tilkynnt í fundarboði aðalfundar.

9. grein. Félagsslit
Ákvörðun um slit á félaginu verður ekki tekin nema á aðalfundi og aukaaðalfundi og þarf til þess samþykki 2/3 félagsmanna á hvorum fundi.

Ef aðalfundur samþykkir tillögu um slit á félaginu skal boða til aukaaðalfundar innan sex vikna og skal tillagan tekin þar til umræðu og afgreiðslu. Verði á þeim fundi samþykkt að slíta félaginu skal aukaaðalfundur ráðstafa eignum þess. Eignir félagsins skulu ganga til þjónustumiðstöðvar eldri borgara í Grænumörk, eða til aðila sem halda uppi hagsmunabaráttu fyrir eldra fólk og vinna að velferð þess sbr. 2. grein. Fundargerðir og önnur skjöl félagsins sem hafa sögulegt gildi skulu afhent Héraðsskjalasafni Árnessýslu til varðveislu.

10. grein. Gildistaka.
Lög þessi taka gildi þegar þau hafa verið samþykkt á aðalfundi Félags eldri borgara Selfossi. Jafnframt falla þá úr gildi eldri lög félagsins.

Samþykkt á aðalfundi FEB Selfossi 25. febrúar 2016.

8. Árgjald félgsins fyrir árið 2015. Gjaldkeri kynnti tillögu um að árgjald verði óbreytt kr. 2500 og var það samþykkt samhljóða.

9. Kosning í aðalstjórn, varastjórn og skoðunarmanna.
  Kosning gjaldkera, Guðmundur Guðmundsson gaf kost á sér til endurkjörs og var kosning hans samþykkt einróma.
  Kosning eins meðstjórnanda í stað Arnheiðar Jónsdóttur sem lokið hefur fjögura ára kjórtímabili sínu. Tillaga um Önnu Þóru Einarsdóttur, fv. sérkennara við FSu, samþykkt samhljóða.
  Kosning í varastjórn, Gunnþór Gíslason gaf kost á endurkjöri og var kosning hans samþykkt samhljóða.
  Kosning skoðunarmanna, Helgi Helgason og Einar Jónsson endurkjörnir samhljóða.
  Kosning þriggja fulltrúa í kjörnefnd. Tillaga um Hermann Ágúst, til eins árs, Margréti S. Gunnarsdóttur, til tveggja ára, og Arnheiði Jónsdóttur, til þriggja ára, samþykkt samlhljóða.

10. Önnur mál. Ólafur Ólafsson kvaddi sér hljóðs og gagnrýndi seinagang og úrræðaleysi bæjaryfirvalda í að skapa viðundandi aðstöðu fyrir félagsstarf eldri borgara.
Sigríður formaður tók undir gagnrýni Ólafs. Síðan kynnti hún tillögur um tvær áskoranir frá fundinum,

annars vegar eftirfarandi til Heilbrigðisráðherra Kristjáns Þórs Júlíussonar:

„Í nýrri framkvæmdaáætlun velferðarráðuneytisins um byggingu nýs hjúkrunarheimilis fyrir aldraða á Suðurlandi sem rísa á í Hagalandi v/Selfoss er gert ráð fyrir 50 hjúkrunarrýmum. Af þeim eiga 35 rými að leysa af hólmi eldri hjúkrunarrými og yrðu því nýju viðbótarrýmin aðeins 15. Þetta finnst okkur eldri borgurum á Selfossi algerlega óásættanlegt.
Það ríkir ófremdarástand í Árnessýslu allri og tugir sjúkra eldri borgara bíða nú eftir vist á hjúkrunarheimili. Að ætla að bjóða 15 ný hjúkrunarrými fyrir fjöldann sem bíður gengur ekki upp, það er til skammar miðað við brýna þörf og nauðsyn.
Aðalfundur Félags eldri borgara Selfossi, haldinn 25. febrúar að Grænumörk 5, skorar á stjórnvöld að áætluðu rýmin 50 verði viðbót við það sem fyrir er.“

Og hins vegar eftirfarandi, til framkvæmdastjórnar Heilbrigðisstofnunar Suðurlands:

Aðalfundur FEB á Selfossi vekur athygli á því að bið eftir tíma hjá heimilislækni er alltof löng, (allt að heilum mánuði).
Fundurinn krefst þess að framkvæmdastjórn HSU sjái til þess að bætt verði úr þessu hið bráðasta.“

„Báðar þessar áskoranir samþykktar án athugasemda fundarmanna.

Gunnar Kristmundsson ræddi um húsnæðisvanda félagsins. Einnig nefndi hann að félagið vantaði göngufána.

Formaður sagði félagið eiga fána - en gera þyrfti sérstakan göngufána ef vilji væri til þess.

Sigríður Ólafsdóttir sagði frá stofnun Öldungaráðs sem haldið hefur tvo fundi, en starfið er enn í mótun. Fram kom að í sveitarfélaginu eru um 1000 einstaklingar 67 ára og eldri.

Jósefína Friðriksdóttir kynnti tillögu að áskorun til Sveitarfélagsins Árborgar:

Aðalfundur Félags eldri borgara Selfossi sem haldinn er að Grænumörk 5 Selfossi þann 25.febrúar 2016 skorar á Sveitarfélagið Árborg að leysa sem fyrst úr langvarandi húsnæðisvanda félagsins vegna þrengsla í Grænumörk 5 og setur félagsstarfi miklar skorður.
Sömuleiðis eru bílastæði við Grænumörk löngu sprungin og þarf að bæta þar úr.“

„Áskorunin samþykkt án athugasemda.

Sonja Huld varpaði fram hugmynd um að félagið eignaðist bingóspjöld. Stjórnin mun taka það til athugunar.

Hjörtur Þórarinsson vildi vita hvað liði fyrirhuguðum framkvæmdum á lóðunum Austurvegur 59-61

Formaður sagði málið í biðstöðu, búið að teikna, lóðirnar í eigu einkaaðila en ekkert bólar á framkæmdum.

Gunnar Kristmundsson rifjaði upp fyrri ummæli sín um ranga forgangsröðun framkvæmda á vegum sveitarfélagsins og nefndi í því sambandi mistök við nýbyggingu sundaugarhúss.

Fundarstjóri, Guðfinna Ólafsdóttir, sleit fundi kl. 16.50.

Helgi Helgson, fundarritari.