Fundargerð 7, 2.6.2021

Fundargerð stjórnar Félags eldri borgara Selfossi.

 

Sjöundi fundur stjórnar FEB Selfossi, haldinn þriðjudaginn 2. júní 2021 kl 13:00 í félagsmiðstöðinni Mörk. Mætt eru: Guðfinna Ólafsdóttir formaður, Anna Þóra Einarsdóttir varaformaður, Guðrún Guðnadóttir gjaldkeri, Þorgrímur Óli Sigurðsson, Gunnþór Gíslason meðstjórnandi, Guðrún Þóranna Jónsdóttir og Ólafur Sigurðsson varamenn.  Guðfinna Ólafsdóttir setti fund og bauð stjórnarmenn velkomna til fundar sem hún stjórnar og Þorgrímur Óli ritar fundargerð.

Fyrsta mál.  Þorgrímur Óli las upp fundargerð sjötta fundar 2021.  Fundargerð samþykkt. 

Annað mál.  Hátíðahöld 17. júní.  Einar Björnsson kom á fundinn til að kynna hugmyndir sínar um kvölddagskrá í Mörk þann 17. júní. Stefnt að því að vera með dagskrá í um það bil eina og hálfa klukkustund.  Einar mun kanna möguleika á að fá Fjallkonuna, harmonikkuleikara, píanóleikara og einhvern til að fara með gamanmál og söng.  Leitað verður til Sigríðar Sæland um að taka léttar teygjur fyrir kaffihlé.  Léttar veitingar í boði FEB Selfossi.  Um 200 stólar eru til staðar í salnum.  Einar leggur til að útvegaðir verði viðbótarstólar til að hafa til taks ef á þarf að halda.

Þriðja mál.  Lýðheisluverkefni Árborgar.  Díana Gestsdóttir lýðheilsufulltrúi Árborgar kom og kynnti það sem verður í boði í lýðheilsu og hreifingu í sumar sem er metnaðarfullt verkefni.  Díana greindi frá því að hún hafi verið ráðin lýðheilsufulltrúi, sem er ný staða.  Hún kvaðst hlakka til að takast á við starfið og vinna með og fyrir eldra fólk í Árborg.  Þann 7. júní næstkomandi hefst dagskráin sem hefur verið auglýst.  Allt sem verður í boði sumar verður gjaldfrítt.  Í haust hefst svo lýðheilsudagskrá sem verður í samstarfi við UMF Selfoss og áætlað að þar þurfi að greiða grunngjald fyrir þátttöku.  Díana sagði að nýja íþróttahúsið verði opið fyrir eldra fólk og þar geti fólk komið og gengið eða skokkað.  Allt verður það kynnt síðar.  Hún benti á frístundavef inni á heimasíðu Árborgar þar sem allar upplýsingar um viðburði er að finna og hvatti stjórnina til að kynna það meðal félagsfólks FEB.

Fjórða mál.  Landsfundur LEB 2021 og dreifing LEB blaðsins.  Rætt var um landsfund LEB sem haldinn var í Hótel Selfossi í síðustu viku.  Þar var meðal annars tekið til afgreiðslu og ályktað um kjör eldra fólks.  Guðfinna vakti athygli á bæklingi um akstur á efri árum.  Þar er að finna leiðbeiningar og góð ráð til dæmis um endurnýjun ökuskírteinis.  LEB blaðið komið í hús og bíður dreifingar.  Ekki tekin ákvörðun að sinni um dreifingu. 

Fimmta mál.  Samstarf við félag eldri borgara á Eyrarbakka.  Guðfinna sagði frá heimsókn hennar og Þorgríms Óla á aðalfund FEB Eyrarbakka í síðustu viku og hugmynd þeirra hvort félögin ættu að eiga samstarf um ýmis hagsmunamál.  Eyrbekkingar voru jákvæðir fyrir frekara samtali.  Stjórnarfólk FEB Selfossi áhugasamt um að skoða þetta mál. 

Sjötta mál.  Aðalfundur 2021.  Farið yfir lokaundirbúning aðalfundar fimmtudag 3. júní.  Ólafía Ingólfsdóttir tekur að sér fundarstjórn og Esther Óskarsdóttir og Páll Skúlason ritarastörf.  Mæta þarf um hádegi til að raða um stólum og borðum.  Gjaldkeri mun leggja fyrir fundinn tillögu um óbreitt félagsgjald og tillögu um að falla frá félagsgjaldi hjá þeim sem eru 90 ára og eldri. 

Önnur mál.   

  1. Ritari mun, í nafni stjórnar, leggja fyrir aðalfund ályktun til Bæjarstjórnar Árborgar um öldungaráð.
  2. Þorgrímur Óli upplýsti að Heiða Ösp Kristjánsdóttir hafi boðað til fundar þriðjudaginn 8. júní næstkomandi vegna breytinga á skipulagi húsnæðis í Grænumörk 5. Þar munu mæta frá Árborg þau Þorsteinn Hjartarson sviðsstjóri Fjölskyldusviðs, Heiða Ösp deildarstjóri félagsþjónustu og Margrét Elísa Gunnarsdóttir forstöðumaður í Mörk.  Ákveðið að stjórn FEB mæti þar. 

Fundi slitið klukkan 16:10.    

 

____________________________                                           _________________________

Guðfinna Ólafsdóttir                                                                Þorgrímur Óli Sigurðsson

Formaður                                                                                    ritari