Fundargerð 5. 4.5.2021

 

                                  Fundargerð stjórnar Félags eldri borgara Selfossi.

 

Fimmti fundur stjórnar FEB Selfossi, haldinn þriðjudaginn 4. maí 2021 kl 13:00 í félagsmiðstöðinni Mörk. Mætt eru: Guðfinna Ólafsdóttir formaður, Anna Þóra Einarsdóttir varaformaður, Guðrún Guðnadóttir gjaldkeri, Gunnþór Gíslason meðstjórnandi, Guðrún Þóranna Jónsdóttir og Ólafur Sigurðsson varamenn. Þorgrímur Óli Sigurðsson ritari boðar forföll.

Guðfinna Ólafsdóttir bauð stjórnarfólk velkomið á fundinn sem hún stjórnar og Anna Þóra Einarsdóttir ritar fundargerð.

Fyrsta mál. Guðrún Þóranna las fundargerð síðasta fundar og var hún samþykkt.

Annað mál. Ákvörðun um tímasetningu  aðalfundar rædd. Samþykkt að stefna að  aðalfundi FEB Selfossi fimmtudaginn 20. maí kl 14:00. Byggist þó á að gildandi sóttvarnarreglur stjórnvalda leyfi slíkt.

Þriðja mál. Framhald umræðna um  nýtingu húsnæðis í Grænumörk 5. Farin var skoðunarferð um svæðið sem til umræðu er. Það sem um ræðir er að félagsþjónustan fái núverandi skrifstofu félagsins og sal sem nú er notaður fyrir námskeið í leirmunagerð og postulínsmálun og við fáum í staðinn skrifstofurými á 2. hæð samtals um 45 ferm að stærð. Ýmis sjónarmið rædd og stjórnin telur að til þess að rýmin á 2. hæð nýtist til námskeiðahalds í leirmunagerð og postulínsmálun þurfi rennandi vatn í rýmið og ennfremur að brennsluofn fyrir postulín þyrfti að vera á staðnum. Einnig að gerð væru tvö herbergi úr þeim þremur sem nú eru. Ljóst er að fjölgun í sveitarfélaginu fylgir einnig fjölgun í FEB Selfossi og því ekki æskilegt að skerða rými fyrir starfsemi félagsins.

Fjórða mál. Kjörbréf v. Landsfundar LEB. Útbúa þarf kjörbréf fulltrúa og senda til LEB. Okkar félag á 4 fulltrúa á landsþing og 4 til vara. Guðfinna ætlar að athuga hvort varamenn okkar megi sækja þingið. Hún hefur einnig farið þess á leit við bæjarstjóra að sveitarfélagið bjóði landsþingsfulltrúum upp á drykk t.d. í Mörk og þá væri tækifæri til að sýna aðstöðuna okkar.

Fimmta mál. Lög um félagsþjónustu sveitarfélaga. Vegna fyrri umræðna um skyldur sveitarfélagsins eru lögin skoðuð og rædd vegna erindis sem félaginu barst.  Guðfinna vitnar í Lög um félagsþjónustu 1991 nr.  40, 16. grein en þar segir: „Félagsmálanefndir skulu bjóða upp á félagslega ráðgjöf. Markmið hennar er að veita upplýsingar og leiðbeiningar um félagsleg réttindamál annars vegar og stuðning vegna félagslegs og persónulegs vanda hins vegar“.

Sjötta mál. Ákvörðun um undanþágu v. félagsgjalds. Ekki er talin þörf á að breyta lögum til þess að fella niður árgjald þeirra sem eru orðnir 90 ára eða eldri. Lögð verði fram tillaga á aðalfundi sem heimili slíka ákvörðun. 

Önnur mál

  1. Gunnþór tilkynnir að Hörpukórinn muni vera með æfingar á miðvikudögum í maí. Hann minnir einnig á að laga þurfi hljóðvist í salnum til að kórsöngur geti notið sín. Hann spyr um tölvutengingu fyrir gjaldkera sem er ekki komin. Gjaldkeri mun hafa samband við tölvuþjónustu bæjarins.
  2. Guðfinna stefnir á að boða formenn eldriborgara félaga á Suðurlandi til fundar í Mörk 12. maí til skrafs og ráðagerða um tillögur að áhersluatriðum eldra fólks í komandi Alþingiskostningum sem LEB hefur lagt fram. Þorbjörn Guðmundsson stjórnarmaður í LEB kemur á fundinn og útskýrir kröfurnar.

 

Fundi slitið kl 15:20

 

_________________________                                            ____________________________

Guðfinna Ólafsdóttir                                                            Anna þóra Einarsdóttir

Formaður                                                                            ritar fundargerð