Fundargerð 3. 1.3.2021

 

 

Fundargerð stjórnar Félags eldri borgara Selfossi.

 

Þriðji fundur stjórnar FEB á Selfossi árið 2021, haldinn mánudaginn 1. mars kl. 10:00 í sal 2 í Grænumörk 5.   Mætt eru:  Guðfinna Ólafsdóttir formaður, Anna Þóra Einarsdóttir varaformaður, Guðrún Guðnadóttir gjaldkeri, Þorgrímur Óli Sigurðsson ritari, Gunnþór Gíslason meðstjórnandi, Guðrún Þóranna Jónsdóttir og Ólafur Sigurðsson varamenn.

Fyrsta mál.  Guðfinna Ólafsdóttir setti fund og bauð stjórnarmenn velkomna til fundar sem hún stjórnar og Þorgrímur Óli ritar fundargerð.   

Annað mál.  Þorgrímur Óli las fundargerð annars fundar 2021.  Fundargerð samþykkt. 

Þriðja mál.  Landsfundur LEB.  Guðfinna greindi frá því að nefndar hefðu verið tvær dagsetningar á landsfundi LEB annars vegar 11. maí og hins vegar 27. maí n.k.  Talsverðar umræður áttu sér stað um tilhögun og möguleika varðandi aðkomu FEB á Selfossi til að landsfundurinn megi takast sem best.  Ákveðið að Guðfinna ræði á morgun við aðstandendur LEB um skipulag landsfundar og annað eins og að taka frá salinn í Mörk og útvegun á mat.  Einnig ákveðið að mæla með að landsfundurinn verði 27. maí.   

Fjórða mál.  Guðfinna skýrði frá að hún hafi fengið boð frá Heiðu Ösp Kristjánsdóttur deildarstjóra félagsþjónustu Árborgar um fund með fulltrúum stjórnar FEB á Selfossi þann 18. mars n.k.  Um ræðir samráðsfund sveitarfélags og FEB á Selfossi sem vilji er til að verði  reglulega í framtíðinni.  Ákveðið að Guðfinna og Þorgrímur Óli mæti til fundarins.  Ýmis atriði sem þar þarfa að ræða eins og t.d. húsnæði, húsreglur o.fl.

Fimmta mál.  Starfið framundan.  Guðfinna ræddi möguleika á gangsetningu félagsstarfsins.  Ljóst að allt ráðist af gildandi sóttvarnarreglum sem hljóta að miðast við gang bólusetninga og virkni kórónusmita í landinu á næstunni.  Stjórnin sammála að fara af stað með starf sem samrýmist þeim sóttvarnareglum sem eru í gildi núna.  Þar gæti verið um að ræða leikfimi, billjard o.fl.  Guðfinna, Anna Þóra og Guðrún Guðnadóttir skipta með sér verkum um að hafa samband við leiðbeinendur  námskeiða og kanna hug þeirra til þess að byrja starfsemi.  Til umræðu að setja upp aðstöðu fyrir pílukast og hugmynd um að kaupa píluspjald og koma því fyrir í sal 2 í Grænumörk 5.  Ólafur Sigurðsson skoðar það mál og Guðfinna ætlar að ræða við Sonju um þetta atriði.  Ákveðið að kaupa taflborð og staðsetja í Grænumörk 5 fyrir þá sem þar eru eða eiga leið um og hafa áhuga á skák.  Guðrún gjaldkeri ætlar að sjá um kaupin. 

Sjötta mál.  Önnur mál. 

  1. Gunnþór leggur fram fyrirspurn um hvort það sé ekki réttur skilningur hjá honum að FEB Selfossi hafi forgang að salnum í Mörk.  Tilefnið er að Hörpukórinn hafi ekki komist að tiltekinn dag vegna þess að salurinn var bókaður öðrum en tengist eldri borgurum.  Guðfinna gat sér þess til að hafi svo verið gæti ástæðan verið sú að starfsemi FEB á Selfossi hefur legið niðri í allan vetur vegna COVID 19 og því ekki verið að notað salinn á þessu tímabili.    
  2. Þorgrímur Óli greindi frá boði Kjartans Björnssonar bæjarfulltrúa um að sýna stjórn FEB á Selfossi menningarsal í Hótel Selfoss og segja sögu hans sem nær í um 40 ár. Stjórn þiggur boðið með þökkum og Þorgrímur Óli ræðir við Kjartan um tíma. 
  3. Guðrún Þóranna greindi frá því að henni hafi borist tölvupóstur frá formanni öldungaráðs Árborgar, Sigurjóni Vídalín, þess efnis að boðað verði til fundar í ráðinu 8. mars n.k. Efni fundarins er umsókn sveitarfélagsins um fjárstyrk til Framkvæmdasjóðs aldraðra vegna hluta framkvæmda í nýju húsnæði dagdvalar Vinaminnis í Vallholti 19.  Í póstinum er þess getið að skilyrt sé að umsögn fylgi frá „þjónustuhópi aldraðra“.  
  4. Guðfinna sagði frá lista sem Heiða Ösp Kristjánsdóttir sendi henni yfir íbúa 60 ára og eldri í sveitarfélaginu.  Lætur nærri að í þeim hópi fjölgi á milli 60 og 70 manns á ári. 

 

Fleira ekki tekið fyrir og formaður sleit fundi klukkan 12:30.  Ekki tekin ákvörðun um næsta fund en til hans verður boðað með dagskrá í tölvupósti til stjórnarmanna.

 

______________________________                                                     _____________________________

Guðfinna Ólafsdóttir                                                                               Þorgrímur Óli Sigurðsson

Formaður                                                                                               ritari