Fundargerð 2. 9.2.2021

 

Fundargerð stjórnar Félags eldri borgara Selfossi.

 

Annar fundur stjórnar FEB á Selfossi árið 2021, haldinn þriðjudaginn 9. febrúar kl. 10:00 í félagsmiðstöðinni Mörk.   Mætt eru:  Guðfinna Ólafsdóttir formaður, Anna Þóra Einarsdóttir varaformaður, Guðrún Guðnadóttir gjaldkeri, Þorgrímur Óli Sigurðsson ritari, Gunnþór Gíslason meðstjórnandi og Ólafur Sigurðsson varamaður. Guðrún Þóranna Jónsdóttir boðaði forföll.

Fyrsta mál.  Guðfinna Ólafsdóttir setti fund og bauð stjórnarmenn velkomna til fundar sem hún stjórnar og Þorgrímur Óli ritar fundargerð.   Fundurinn hófst á heimsókn í nýtt aðsetur dagdvalarinnar Vinaminnis sem flyst í Vallholt 19 í næstu viku.  Kári Helgason tók á móti stjórninni og lýsti húsnæðinu og tilurð þess að félagar í Oddfellow reglunni á Selfossi komu að málinu og keyptu húsnæðið og gerðu leigusamning við sveitarfélagið Árborg.  Þeir létu hanna húsnæðið með dagdvölina í huga og stóðu fyrir breytingum á því.  Húsnæðið er rúmir 300 fermetrar með afgirt rými utandyra. Stjórn FEB hrósar öllum þeim sem komið hafa að þessu frábæra vel unna verkefni.  

Annað mál.  Þorgrímur Óli las fundargerð fyrsta fundar 2021.  Fundargerð samþykkt. 

Þriðja mál.  Bréf frá kjörnefnd.  Guðfinna las upp bréf sem henni barst frá kjörnefnd.  Tveggja ára kjörtímabili Guðfinnu Ólafsdóttur, sem formanns, er að ljúka.  Hún gefur ekki kost á sér áfram í formannsstöðu. Kjörnefnd gerir tillögu um að Þorgrímur Óli Sigurðsson gefi kost á sér í stöðu formanns og að Guðrún Þóranna Jónsdóttir, varamaður í stjórn, gefi kost á sér sem aðalmaður í stjórn.  Þá er gerð tillaga um að Valdimar Bragason bjóði sig fram sem varamaður í stjórn.  Aðrir í stjórn eiga eftir eitt ár af sínu kjörtímabili.  Einar Jónsson og Helgi Helgason eru tilnefndir sem endurskoðendur.  Guðmundur Guðmundsson gengur úr kjörnefnd.  Tillaga er um að  Guðfinna Ólafsdóttir sé tilnefnd í hans stað og að Guðmunda Auðunsdóttir og Sigríður Guðmundsdóttir verði áfram í kjörnefnd. 

Fjórða mál.  LEB sjónvarpsþáttur um málefni aldraðra.  Guðfinna kynnti og vakti athygli á að eftir hádegi í dag verði sjónvarpað, í ríkissjónvarpinu, fræðslufundinum „Velferð eldri borgara“.  Fundurinn er í samstarfi Öldrunarráðs Íslands og Landssambands eldri borgara og RÚV.  Hún hvatti stjórnarfólk til að fylgjast með fundinum. 

Fimmta mál.  Horfurnar framundan í þjóðfélaginu og undirbúningur aðalfundar.  Umræður spunnust um gang bólusetninga á landsbyggðinni og hvert hlutfall gæti verið á milli bólusettra einstaklinga 70 ára og eldri annars vegar á höfuðborgarsvæðinu og hins vegar á landsbyggðinni.  Fundið var að því að litlar staðfestar fregnir séu um stöðu bólusetninga á Suðurlandi.  Guðfinna sendi fyrirspurn til Díönu Óskarsdóttur forstjóra HSU varðandi þetta.  Svara er beðið.  Samtal tekið um aðalfund 2021. Huga þarf að því að finna fundarstjóra og tvo ritara til starfa við aðalfundinn.  Stjórnin sammála um að bíða átekta með að ákveða dagsetningu á aðalfund þar til fyrir liggur með afléttingar á samkomutakmörkunum.   Rætt var um ársreikning félagsins fyrir árið 2020.  Guðrún gjaldkeri sagði hann tilbúinn og endurskoðendur staðfest hann. 

Sjötta mál.  Önnur mál. 

  1. Gunnþór ítrekar brýna þörf á að skipta út loftaplötum í sal Markar til að bæta hljómgæði sem eru óviðunandi.  Guðfinna benti á að þetta sé á verkefnalista sem deildarstjóri félagssviðs Árborgar hefur fengið í hendur.  Til viðbótar nefndi Gunnþór að í dag verði hann með fund í stjórn Hörpukórsins.  Kórfélagar hafa verið að spyrja hann um hvort ekki sé hægt að hefja kórastarf.  Það sé mjög mikilvægt vegna fyrirhugaðs kóramóts.  Stjórnarmenn samþykktu að æskilegt sé að fara eftir tilmælum sóttvarnayfirvalda um fjöldasamkomur og hópamyndanir því þjóðfélagið sé í viðkvæmri stöðu og hætta á að nýr faraldur geti blossað upp sé ekki farið varlega og  því verði áfram að sýna þolinmæði. 
  2. Ólafur spurði um gang mála varðandi setningu húsreglna. Guðfinna sagði það í höndum deildarstjóra og hún hefði engar upplýsingar fengið um stöðuna í því máli. 
  3. Guðfinna greindi frá því að hún hafi leitað eftir því við Heiðu Ösp Kristjánsdóttur deildarstjóra hvort mögulegt sé að fá lista yfir íbúa Árborgar sem eru 60 ára og eldri í þeim tilgangi að ná til þeirra sem ekki eru í félaginu til að vekja athygli þeirra á FEB á Selfossi.
  4. Guðrún gjaldkeri upplýsti að hún hefði sett sig í samband við tölvustarfsmenn vegna nettengingar og fleira á skrifstofu félagsins í Grænumörk. Það hafa orðið einhverjar skipulagsbreytingar í tölvudeild sveitarfélagsins þannig að ekki liggjur núna ljóst fyrir hvern á að bera sig upp við þegar kemur að framkvæmdum sem snúa að tölvumálum. 

Fleira ekki tekið fyrir og formaður sleit fundi klukkan 12:05.  Boðað til næsta fundar kl. 10:00 í Mörk þriðjudaginn 2. mars 2021.

 

______________________________                                             _____________________________

Guðfinna Ólafsdóttir                                                                      Þorgrímur Óli Sigurðsson

Formaður                                                                                      ritari