Fundargerð 1.5.1.2021

 

                                                      Fundargerð stjórnar Félags eldri borgara Selfossi. 

Fyrsti fundur stjórnar FEB á Selfossi árið 2021, haldinn þriðjudaginn 5. janúar kl. 10:00 í félagsmiðstöðinni Mörk.   Mætt eru:  Guðfinna Ólafsdóttir formaður, Anna Þóra Einarsdóttir varaformaður, Guðrún Guðnadóttir gjaldkeri, Þorgrímur Óli Sigurðsson ritari, Gunnþór Gíslason meðstjórnandi, Guðrún Þóranna Jónsdóttir og Ólafur Sigurðsson varamenn.

Fyrsta mál.  Guðfinna Ólafsdóttir setti fund og bauð stjórnarmenn velkomna til fyrsta fundar ársins 2021 sem hún stjórnar.  Þorgrímur Óli ritar fundargerð.  

Annað mál.  Þorgrímur Óli las fundargerð ellefta fundar 2020.  Fundargerð samþykkt. 

Þriðja mál.  Farið yfir árið 2020.  Guðfinna og aðrir stjórnarmenn reifuðu helstu atriði veiruársins 2020 í starfi félagsins.  Rætt var um hvernig gengið hefði að vinna upp verkefnalista sem lagður var fram í upphafi árs.  Ekki hefur tekist að ljúka við allt sem lagt var upp með en von um að gangur komi í það þegar takmörkunum vegna veirufárs lýkur.  Vel þótti takast til með hátíðarhald 17. júní, og þess vænst að framhald verði á því.  Ánægja var með útileikfimitæki við Grænumörk 5 sem formlega voru tekin í notkun í vor leið.  Skilti með leiðbeiningum um notkun þeirra er ekki komið upp.   JÁ verktakar ætla að kosta uppsetningu þess.  Guðfinna varpaði fram hugmynd um hvort ekki væri rétt að kanna möguleika á  að bæta við tækjum sem næðu til þjálfunar á efri hluta líkamans.  Árborg hefur upplýst að í desember hafi verið samið við Veisluþjónustu Suðurlands um að frá og með 4. janúar 2021 standi eldri borgurum í Árborg til boða að fá heimsendan mat sem er niðurgreiddur og kostar hver skammtur 950 krónur með heimkeyrslu.  Félagið sótti um styrk til menningarstarfsemi sem verslun Krónunnar á Selfossi auglýsti að væri í boði.   Styrkurinn fékkst ekki.  Sveitarfélagið stóð fyrir hringingum í fólk sem var 85 ára og eldra til að kanna stöðu þess í veirufaraldrinum.  Ekki liggja fyrir upplýsingar um fjölda þeirra sem hringt var í eða hvernig til tókst með verkefnið.  Guðfinna ætlar að leita upplýsinga hjá þeim sem hélt utan um þessar hringingar.  Ætlunin var að hafa samskipti við nágrannafélög eldri borgara en af því varð ekki.  Í haust leit ágætlega út með að vetrarstarf félagsins gæti hafist.  Svo varð ekki vegna strangra reglna sem sóttvarnayfirvöld settu um samkomubann og fjöldatakmarkanir.  Landsbanki Íslands færði félaginu Ipad spjaldtölvu og jólaskreytingu að gjöf fyrir jólin. Skreytingunni vari komið upp í félagsmiðstöðinni í Mörk.  Ýmsar hugmyndir komu fram um nýtingu spjaldtölvunnar.  Ákvörðun um það verður tekin síðar. 

Fjórða mál.  Aðalfundur.  Aðalfund á, samkvæmt lögum FEB á Selfossi, að halda fyrir febrúarlok ár hvert.  Vegna þeirrar óvissu sem nú ríkir um þróun COVID 19 og sóttvarnareglna var stjórnin sammála um að ekki sé hægt að ákveða nú hvenær boðað verður til aðalfundar.  Ákveðið að boða til stjórnarfundar þriðjudaginn 9. febrúar til að ákveða tímasetningu á aðalfund. 

Fimmta mál.  Minningarkort.  Framhaldið umræðum frá síðasta fundi um framtíð minningakorta FEB á Selfossi.  Samþykkt að halda áfram sölu kortanna en ljóst er að sala þeirra hefur dregist saman. 

Sjötta mál.  Önnur mál. 

  1. Gunnþór spurði hvort ekki væri hægt að skipta um loftaplötur í salnum í Mörk í þeim tilgangi að bæta og auka gæði kórsöngs. Hann segir nauðsynlegt að formleg krafa um þetta verði sett á blað sem komið verði til húsráðanda.  Guðfinna skoðar þetta.
  2. Fyrirspurn borin upp við gjaldkera, Guðrúnu Guðnadóttur, hvort netsamband sé komið á skrifstofu félagsins í Grænumörk 5. Guðrún upplýsti að svo væri ekki og líklega væri það vegna þess að sá starfsmaður sem hafði verið að vinna í því máli og sá um tæknimál hjá Árborg hafi látið af störfum.  Hún ætlar að taka málið upp við Magnús Hermannsson kerfisstjóra tölvudeildar Árborgar.  Guðfinna taldi jafnvel rétt að fara yfir þetta með Tækniþjónustunni ehf. sem mun lagfæra tækjabúnað í sal Markar. 
  3. Til að bæta upplýsingaflæði frá stjórnkerfi sveitarfélagsins til FEB á Selfossi um málefni eldri borgara var reifuð hugmynd um að koma á reglulegum tímasettum fundum við deildarstjóra félagsþjónustu. Það gæti verið með þeim hætti að tveir fulltrúar FEB fundi með deildarstjóra í hámark 30 mínútur. Fundurinn yrði fastsettur á dag og tíma og tíðni gæti t.d. verið annan hvern mánuð eða ársfjórðungslega en frí yfir sumartíma.  Á slíkum fundum væri einungis farið yfir gang og stöðu mála er varða verkefni og starfsemi félagsins og framtíðarstefnu og –horfur.  Með fyrirvara gætu fulltrúar FEB sent á deildarstjóra spurningar svo hann geti verið undirbúinn.  

Fleira ekki tekið fyrir og formaður sleit fundi klukkan 12:30.  Næsti fundur boðaður með dagskrá  þriðjudaginn 9. febrúar 2021 kl. 10:00 

_____________________________                                              ___________________________

Guðfinna Ólafsdóttir                                                                      Þorgrímur Óli Sigurðsson

formaður                                                                                      ritari