Fundargerð 12.3.2020

 

                                                                                                  Selfossi 2. janúar 2020

B/t bæjarstjórnar Árborgar  

Austurvegi 2

800 Selfossi 

 

Áskorun til bæjarstjórnar Árborgar um bætt umferðaröryggi gangandi vegfaranda á Austurvegi á Selfossi.

Stjórn Félags eldri borgara á Selfossi skorar á bæjarstjórn Árborgar að  hlutast til um að  bæta úr og auka öryggi gangandi vegfarenda á Austurvegi, frá því sem nú er, á vegarkafla á milli Rauðholts og Hörðuvalla.   Fjöldi eldri borgara býr nú á þessu svæði og eðli málsins samkvæmt sækja þeir þjónustu yfir Austurveg.  Auk þess sem aðrir sem búa á öðrum svæðum fara gangandi heiman frá sér til að sækja afþreyingu í félagsmiðstöðina Mörk. 

Sem kunnugt er, eru gangbrautir við:

  • Gatnamótin við Reynivelli. Þar eru gangbrautarljós.
  • Á móts við KFC og Fossnesti.   Lýsing ófullnægjandi.
  • Við gatnamót austan við Rauðholt.  Lýsing ófullnægjandi. 

Langt er síðan þessar gangbrautir voru lagðar og  umferðarþungi aukist mikið síðan.  Með tilkomu, svo nefndu, Pálmatrés- og Leósblokka má benda á að þar koma þrjár  nýjar inn- og útkeyrslur  á Austurveg sem óneitanlega eykur slysahættu. Öldruðum einstaklingum hættir til  að vanmeta gönguhraða sinn  og eru ekki í sömu stöðu og þeir sem yngri eru að leggja mat á fjarlægð og hraða aðvífandi ökutækja. 

Lagt er til að sveitarfélagið leiti til skipulags- og umferðarfræðings  og fái fram hugmyndir um úrbætur sem best geta tryggt öryggi gangandi vegfaranda og sjái til að veghaldari ráðist sem allra fyrst í aðkallandi  lagfæringar.  Hafa þarf í huga staðsetningu gangbrauta, vandaða lýsingu og hraðatakmarkaðra aðgerða.  

Stjórn FEB á Selfossi vill koma á framfæri þakklæti til bæjarstjórnar fyrir að hafa bætt við setbekkjum á Selfossi s.b. áskorun frá 10. maí 2019 með hvatningu um að bæta enn frekar í á þessu umrædda svæði sem og annars staðar.

 

F.h. stjórnar FEB á Selfossi 

______________________________

Guðfinna Ólafsdóttir, formaður

                                                                                                                                                                                                          

          Fundur deildarstjóra og skipulagsfulltrúa mannvirkja- og umhverfissviðs Árborgar.

 

Óformlegur fundur stjórnar FEB Selfossi haldinn í Grænumörk 5 fimmtudaginn 12. mars 2020 klukkan 11:00.  Tilefni fundarins er áskorun FEB Selfossi til bæjarstjórnar Áborgar um bætt umferðaröryggi gangandi vegfaranda á Austurvegi á Selfossi sem samþykkt var á aðalfundi FEB Selfossi þann 20. febrúar síðastliðinn.  Fundinn sátu Guðfinna Ólafsdóttir formaður, Þorgrímur Óli Sigurðsson ritari, Gunnþór Gíslason meðstjórnandi og Ólafur Sigurðsson varamaður.  Gestur fundarins var Sigurður Andrés Þorvarðarson deildarstjóri og skipulagsfulltrúi Mannvirkja- og umhverfissviðs Árborgar. 

Guðfinna þakkaði Sigurði fyrir að koma á fund stjórnar FEB og ræða áskorun félagsins til bæjarstjórnar. 

Sigurður lýsti yfir ánægju að fá að upplýsa stjórn FEB um hvað er framundan í málaflokknum.  Hann greindi frá að nú væri verið að vinna að endurskoðun á gildandi aðal- og deiliskipulagi Árborgar sem felst í að bæta umferðarmannvirki og aðgengi allra vegfarenda um þau.  Í grunninn verður í forgangi svæðið við Austurveg sem tilgreint er í áskoruninni þar sem margt eldra fólk býr og á leið um.  Þar á meðal séu  einstaklingar með skerta hreyfigetu og ekki allir með ökuréttindi. Sigurður boðaði að haft verði samráð við hagsmunaaðila auk þess sem allir fái tækifæri til að koma að athugasemdum á endurskoðuðu aðal- og deiliskipulagi.

Aðspurður um hvernig hann vildi sjá Austurveg  sagðist hann vilja að Austurvegur verði  verslunargata með góðu aðgengi fyrir alla og án hamlana.  Hann kvað þurfa að bæta umferðaröryggi.  

Sigurður fór yfir feril og framgang framkvæmda á Austurvegi sem, er þjóðvegur í þéttbýli, og sveitarfélagið ekki veghaldari heldur Vegagerðin og því er við hana að eiga um framkvæmdir.  Af þeim ástæðum gæti verið snúið  að fara í skammtíma aðgerðir á Austurvegi til dæmis að setja girðingu til að beina fólki, sem ætlar yfir götuna, að gangbrautum og hindra að það færi hvar sem er yfir götuna.  Sigurður benti á að í framtíðinni muni sveitarfélagið taka við Austurvegi þegar þjóðvegurinn fer um nýja Ölfusárbrú.  Hann sagði að Vegagerðin hefði skyldur við slíkar aðstæður að skila vegum í góðu standi til sveitarfélaga.  Sigurður sagði það taka tíma að hanna og skipuleggja götuna og lagði áherslu á væntanlega endurnýjun aðalskipulags og að í tengslum við hana gætu íbúar tekið þátt í því verkefni með því að koma hugmyndum  og ábendingum á framfæri.  Í því sambandi hefði áskorun FEB komið á góðum tíma. 

Sigurður skýrði frá því að ekki væri fyrirhugað að gera göngubrú yfir eða göng undir Austurveg á milli Rauðholts og Hörðuvalla.  Umræður urðu um vetrarþjónustu og gat Sigurður þess að vandi væri á höndum um samræmingu þar sem þjónustan væri á hendi tveggja stofnanna, Vegagerðar og Árborgar, en vilji hans stæði til þess að á göngstígum eigi sér stað snjómokstur frekar en snjóruðningur þannig að ekki verði hindranir á stígunum.  Gunnþór lagði áherslu á vandaðan snjómokstur á svæðinu við Grænumörk þannig að fólk eigi greiða leið að heilsugæslunni  og í verslanir sunnan Austurvegar og koma með því í veg fyrir slys.  Sigurður sagðist ætla að koma því á framfæri við rétta aðila.  Hann greindi frá því að HS veitur væru með áætlun um að endurnýja götulýsingar.  Vegna umræðna um út- og innkeyrslu að Austurvegi 39 og 51, Pálmahús- og Leósblokkir, sagði Sigurður vera í skoðun og ekki hægt að segja neitt um það á þessu stigi.  Sigurður lýsti yfir að hann væri hlynntur lækkun hámarkshraða á Austurvegi til dæmis niður í 40 km/klst.  Rætt var um möguleika á hraðatakmarkandi aðgerðum sem Sigurður sagði mætti skoða og voru þar nefndar einhvers konar hraðahindranir með hliðrunum eða þrengingum.  Einnig var nefndur möguleiki á að setja upp hraðaáminningaskilti. 

Varðandi endurnýjun aðal- og deiliskipulags gat Sigurður þess að stofnaður yrði samráðshópur og óskaði eftir að FEB Selfossi tilnefndi fulltrúa í hópinn.  Ákveðið að stjórn FEB tilnefni fulltrúa fljótlega. 

Að þessu loknu lauk fundi og Guðfinna þakkaði Sigurði Andrési fyrir að koma á fundinn og ræða áskorun FEB og það sem er framundan í skipulagi umferðaröryggismálum á Selfossi. 

Fundi lauk kl. 11:45. 

_________________________                                            ___________________________

Guðfinna Ólafsdóttir formaður                                              Þorgrímur Óli Sigurðsson ritari