Fundargerð 8.12.2020

 Fundargerð stjórnar Félags eldri borgara Selfossi.

Ellefti fundur stjórnar FEB Selfossi, haldinn þriðjudaginn 8. desember 2020 kl. 10:00 í félagsmiðstöðinni Mörk. Mætt eru: Guðfinna Ólafsdóttir formaður, Anna Þóra Einarsdóttir varaformaður, Guðrún Guðnadóttir gjaldkeri, Þorgrímur Óli Sigurðsson ritari, Gunnþór Gíslason meðstjórnandi, Guðrún Þóranna Jónsdóttir og Ólafur Sigurðsson varamenn.


Guðfinna Ólafsdóttir setti fund og bauð stjórnarmenn velkomna til fundar sem hún stjórnar og Þorgrímur Óli ritar fundargerð.


Fyrsta mál. Þorgrímur Óli las fundargerð tíunda fundar. Fundargerð samþykkt.


Annað mál. Áskorun Landssambands eldri borgara. Guðfinna greindi frá erindi sem henni barst frá LEB þann 30. nóvember síðastliðinn með beiðni um að fá að nota nöfn félaga eldri borgara í landinu í auglýsingum um áskorun til alþingismanna um að fara að lögum. Í fjárlögum, sem nú eru til meðferðar á Alþingi, er gert ráð fyrir 3,6% hækkun ellilífeyris sem er, samkvæmt útreikningum LEB, 2,5% lægri en samið var um í lífskjarasamningi launafólks og atvinnurekanda 2019 – 2022 um fasta krónutöluhækkun á alla línuna sem þýðir að 1. janúar 2021 hækka mánaðarlaun um 15.750 krónur hjá launþegum en um rúmar 9.000 krónur hjá ellilífeyrisþegum. LEB álítur að 3,6% hækkunin brjóti gegn 69. gr., laga nr., 100/2007, lög um almannatryggingar. Umræður fóru fram um áskorun LEB og ákveðið að FEB Selfossi taki þátt í henni með auglýsingu í fjölmiðlum. Samþykkt að stefna að því að bjóða alþingismönnum á fund, þegar aðstæður í þjóðfélaginu leyfa, til að ræða almennt um kjör eldri borgara.


Þriðja mál. Heilsugæslan. Guðfinna vakti athygli á að frá áramótum verði ekki hægt að endurnýja lyf með símtali hjá HSU sem vísar á að það skuli gert í gegnum Heilsuveru. Ákveðið að formaður sendi forstjóra HSU eftirfarandi ályktun. „Stjórnarfundur FEB á Selfossi haldinn 8. desember 2020 lýsir áhyggjum af því að frá áramótum verði ekki hægt að endurnýja lyf með símtali hjá HSU. Eldri borgarar eru ekki allir með aðgang eða kunnáttu á þá tækni sem til þarf til að nýta sér Heilsuveru. Við teljum því skynsamlegt að halda símaendurnýjun opinni áfram, a.m.k. meðan núverandi ástand varir í samfélaginu“.


Fjórða mál. Fræðslunetið. Guðfinna skýrði frá því að hún hafi fyrir skömmu verið boðuð á fjarfund með nemendum í Fræðslunetinu, símenntun á Suðurlandi, sem eru í áfanga um félagsvirkni. Nemarnir voru að leita eftir upplýsingum um starfsemi FEB á Selfossi og framlag Árborgar til eldri borgara sveitarfélagsins. Það kom þeim á óvart hvað mikið væri í boði í félagsstarfinu.


Fimmta mál. Árborg – Mörk. Umræður um verkefni sem nauðsynlegt er að framkvæma og laga í Mörk. Listi yfir það var sendur stjórnendum sveitarfélagsins til meðferðar þann 22. apríl síðastliðinn. Brýnast var talið að fá eldhúseyju, hraðvirkari uppþvottavél og bæta hljóðkerfi í sal. Lítið hefur heyrst frá ráðamönnum sveitarfélagsins. Formaður hefur rætt við starfsmann Tækniþjónustu Suðurlands ehf., sem staðfesti að þeir muni sjá um að lagfæra hljóðkerfið. Engin dagsetning liggur fyrir hvenær það verður en loforð um að það verði gert áður en COVID 19 ástandi lýkur. Svo virðist vera að uppþvottavélin sé komin í hús en eftir að koma henni fyrir. Fundur um setningu húsreglna í Mörk hefur ekki verið boðaður.


Sjötta mál. Starfið framundan. Á meðan allt er svo ófyrirsjáanlegt í baráttu við COVID 19 er ekki nein leið að marka starf félagsins fram í tímann. Samkvæmt lögum FEB á Selfossi skal halda aðalfund fyrir febrúarlok ár hvert. Viðbúið er að aðalfundi verði frestað en það fer eftir því hvaða sóttvarnaráðstafanir verða í gildi í febrúar 2021.


Sjöunda mál. Önnur mál.
a. Aðspurð upplýsti Guðrún Þóranna að síðast hafi verið fundur í öldungaráði þann 23. janúar 2020. Síðastliðið vor sendi hún Sigurjóni Vídalín formanni öldungaráðs fyrirspurn um hvenær næsti fundur ráðsins yrði. Sigurjón svaraði fyrirspurninni 13. maí með þeim orðum að fundur yrði haldinn á næstunni. Núna 8. desember hefur ekki verið boðað til fundar.


b. Guðrún gjaldkeri kynnti nokkra reikninga vegna tækja- og efniskaupa í sambandi við námskeið fyrir félagsfólk í FEB Selfossi. Guðrún mun greiða reikningana sem sveitarfélagið mun svo endurgreiða.


c. Guðrún Þóranna áréttaði nauðsyn þess að hvetja fólk til hollrar hreyfingar utandyra á meðan ekki er hægt að stunda hópleikfimi eða líkamsræktarstöðvar. Undir þetta var tekið af öðrum í stjórn.


d. Ólafur sagði að ekkert hefði verið hægt að gera í verkefninu „Karlar í skúrum“ vegna gildandi samkomu- og fjöldatakmarkana. Hann nefndi að hamlandi væri fyrir hann að eiga samræður við eigendur sem reiðubúnir væru að leigja húsnæði fyrir verkefnið nema að hafa gott bakland. Heiða Ösp Kristjánsdóttir, deildarstjóri Fjölskyldusviðs Árborgar hefur sagt að Árborg muni borga leigu í eitt ár. Ólafur spurði hvort einhver sala væri í minningarkortum FEB Selfossi. Gjaldkeri sagði fá kort hafa selst undanfarið. Nokkrar umræður fóru fram um hvernig best væri að að standa að sölunni, t.d. hvort möguleiki væri á að selja kortin í gegnum heimasíðu félagsins. Guðfinna upplýsti að þetta hafi komið til tals við Alex Ægisson sem gerði heimasíðuna en niðurstaðan orðið að það væri kostnaðarsamt. Hugmynd kom fram um að hætta sölu minningarkorta í ljósi lítillrar sölu og að nokkur félög á Selfossi eru að selja slík kort og spurning hvort FEB eigi að vera í samkeppni við þau því FEB er ekki líknarfélag. Ákveðið að leggjast yfir málið til næsta fundar og þá hvort skuli bera slíkt undir aðalfund.


e. Gunnþór sagði frá símtali sem hann fékk þar sem hann var spurður hvort Hörpukórinn gæti komið saman utandyra á aðventunni. Erindið kvaðst hann hafa lagt fyrir stjórn kórsins og því verið vel tekið og ákveðið að hluti kórsins syngi utandyra á nokkrum stöðum fyrir jól og öllum sóttvarnareglum verði fylgt.


f. Þorgrímur Óli greindi frá fjarfundi á vegum verkfræðistofunnar Eflu sem vinnur að umferðaröryggisáætlun fyrir Árborg. FEB á Selfossi var, fyrr á þessu ári, boðið að hafa fulltrúa í starfshópi um áætlunina og hann skipaður fulltrúi félagsins. Þetta var annar fundur hópsins. Á fyrri fundi lagði hann, sem fulltrúi FEB, fram ábendingar og tillögur um atriði sem snéru að eldri borgurum. Efla hefur nú unnið drög að áætlun sem voru kynnt á þessum fundi. Þorgrímur Óli upplýsti að í drögunum væri tekið tillit til ábendinga sem hann lagði til. Hann kvaðst hafa, á fundinum með Eflu, ítrekað mikilvægi þess sem félagið hafi lagt til málanna og þá sérstaklega svæðið sem afmarkast af Austurvegi, Hörðuvöllum, Árvegi og Heiðmörk sem fullyrða má að flestir eldri borgarar séu á ferðinni.

Fleira ekki tekið fyrir og formaður sleit fundi klukkan 12:35. Engin ákvörðun tekin um næsta fund, hann boðaður síðar með dagskrá.


_____________________________                                                                       ___________________________
Guðfinna Ólafsdóttir                                                                                               Þorgrímur Óli Sigurðsson
formaður                                                                                                               ritari