Fundargerð 6.10.2020

Fundargerð stjórnar Félags eldri borgara Selfossi.

Tíundi fundur stjórnar FEB Selfossi, haldinn þriðjudaginn 6. október 2020 kl. 09:00 í félagsmiðstöðinni Mörk. Mætt eru: Guðfinna Ólafsdóttir formaður, Anna Þóra Einarsdóttir varaformaður, Guðrún Guðnadóttir gjaldkeri, Þorgrímur Óli Sigurðsson ritari, Gunnþór Gíslason meðstjórnandi, Guðrún Þóranna Jónsdóttir og Ólafur Sigurðsson varamenn.


Guðfinna Ólafsdóttir setti fund og bauð stjórnarmenn velkomna til fundar sem hún stjórnar og Þorgrímur Óli ritar fundargerð.


Fyrsta mál. Þorgrímur Óli les fundargerð níunda fundar. Fundargerð samþykkt.


Annað mál. ACER fartölva. Samþykkt að kaupa ACER fartölvu sem formaður hefur til afnota vegna starfa sinna í þágu félagsins.


Þriðja mál. COVID 19, áhrif á starf félagsins. Guðfinna greindi frá að mörgu í félagsstarfinu hafi verið frestað. Síðastliðinn fimmtudag komu á milli 40 og 50 manns í opið hús í Mörk. Athygli vakti hve fáir voru með andlitsgrímur. Öll starfsemi innandyra mun stöðvast en líklegt að hægt verði að stunda göngur utandyra samkvæmt stundaskrá. Nefnt að hafa yrði í huga að Selfoss er viðkvæmt svæði með nokkra stóra vinnustaði eins og til dæmis skóla þar sem margt fólk, börn og fullorðnir starfa og eiga leið um. Stjórnin telur að með tilliti til þess, meðal annars, sé ábyrgðalaust að halda úti starfsemi á vegum félagsins í því ástandi sem nú er. Stjórnin sammála um að senda út hvatningu til eldri borgara um að stunda göngu og aðra hreyfingu utandyra. Fram kom hugmynd um að kanna möguleika á að í stað innileikfimi stýri Berglind útihreyfingu sem væri öllum opin og að hún verði kostuð af þeim fjármunum sem til staðar eru í sjóði sem ætluðum var til að rjúfa einangrun eldri borgara. Guðfinna ætlar að ræða þetta við Berglindi Elíasdóttur íþróttafræðing og Heiðu Ösp Kristjánsdóttur deildarstjóra félagsþjónustu Árborgar.


Fjórða mál. Heimsókn í Hafnarfjörð, tekið hús á Körlum í skúrum. Ólafur sagði frá heimsókn í Hafnarfjörð þar sem hann kynnti sér starfsemi Karla í skúrum. Frásögn hans var mjög áhugaverð og kom fram að þar er viðhöfð fjölbreytt starfsemi sem nærri 50 karlar eru skráðir í. Jafnframt greindi Ólafur frá rekstrarformi og uppbyggingu verkefnisins þar. Ákveðið er að Ólafur, einhver annar úr stjórn ásamt Heiðu Ösp og Herði Sturlusyni frá Rauða krossinum heimsæki Karla í skúrum í Hafnarfirði fimmtudaginn 15. október næstkomandi ef COVID 19 leyfir. Ólafur sagðist hafa rætt við stöðvarstjóra OLÍS á Arnbergi um húsnæði sem er þar til leigu og gæti hentað svona starfsemi. Stöðvarstjórinn var mjög áhugasamur en mun ekki sjálfur hafa umboð til að ákveða um leigukaupa.


Fimmta mál. Námskeið. Guðfinna sagði frá nýjum námskeiðum sem væru komin á dagskrá. Nefndi hún námskeið í endurminningaskrifum, sem Guðrún Eva Mínervudóttir kennir, og sjalaprjóni eftir enskum uppskriftum sem Berglind Hafsteinsdóttir stýrir.


Sjötta mál. Mörk, bílastæði, hús- og umgengnisreglur. Fram kom hjá Guðfinnu að eftir að félagsstarf hófst í haust komu boð um að aðalinngangur í félagsmiðstöðina væri austan megin hússins. Sá sami og fyrir dagdvölina Árblik og íbúðir á Austurvegi 51. Í framhaldi af því kom í ljós að bílastæði væru af skornum skammti og óljóst hvaða stæði tilheyrðu félagsmiðstöðinni. Óhjákvæmilegt er að bæjaryfirvöld útdeili og merki þau bílastæði sem við á. Einnig kom fram að starfandi húsvörður sé í leyfi og enginn komið í hans stað. Að mati stjórnar FEB Selfoss er það óviðunandi og þarf að bæta úr hið fyrsta. Rætt um hver ætti að sjá um uppröðun borða og stóla í sal í tengslum við viðburði og annað félagsstarf og frágang að loknu starfi. Engar húsreglur munu vera til, alla vega ekki sýnilegar. Stjórnin álítur að semja þurfi hús- og umgengnisreglur fyrir Mörk sem miði að því meðal annars að það leggist ekki á veikburða eldra fólk að ganga frá og stafla þungum húsgögnum og hvar eigi að ganga inn og út úr húsinu og í hvaða tilvikum og tímum fólk megi ekki fara um sal félagsmiðstöðvarinnar. Guðfinna skýrði frá því að hún eigi á næstunni fund með starfsfólki félagsþjónustunar, þeim Heiðu Ösp og Margréti, og þar ætli hún að taka þessi mál upp og þrýsta á framgang þeirra. Umræður áttu sér stað um veitingar í opnu húsi þar sem kom fram að ekki hafi verið samið við Bjartmar um veitingar og því rétt að kanna hvort hann sé tilbúinn að taka þessa þjónustu að sér fram á vor 2021. Gunnþór ræddi um þörf á að skipta um loftaplötur í salnum þar sem hljómburður er bágur. Guðfinna sagðist hafa áður nefnt þetta við ráðamenn.


Sjöunda mál. Önnur mál.
a. Guðfinna sagði fulltrúa eldri borgara á Akureyri hafa óskað eftir upplýsingum um stærð salarins í Mörk og annað pláss sem sveitarfélagið leggi félaginu á Selfossi til í starfsemina. Samkvæmt upplýsingum Sigurðar Andrésar í framkvæmda- og tæknideild er samanlagt flatarmál beggja salanna í Mörk 483 fm. Að viðbættum öðrum sölum í Grænumörk 5 má áætla að til ráðstöfunar séu um 1000 fm.


b. Nefnt var að fólk sakni þess að ekki sé klukka á vegg í salnum. Ákveðið að Guðrún Guðnadóttir kaupi tvær hæfilega stórar klukkur. Ólafur nefndi þörf á að setja brautir á veggi í sal til að hengja á myndir og ýmislegt annað. Guðfinna tekur þetta fyrir ásamt merkingum á glervegg í sal, sem Guðlaug fyrrverandi félagsmálastjóri var búin að koma af stað, á fundi sínum með Heiðu Ösp og Margréti.


c. Í sambandi við fjórða mál níunda fundar vildi Guðfinna geta þess að Heiða Ösp vilji styðja við verkefnið „Karlar í skúrum“ með því að sveitarfélagið greiði húsaleigu í eitt ár. Þá mun sveitarfélagið, í nafni lýðheilsu, greiða fyrir handlóð og önnur tæki sem nota þarf í leikfimitímum.


d. Guðfinna og Þorgrímur Óli fara á fund með Alex til að kynnast hvernig á að setja inn efni á heimasíðu félagsins, www.febsel.is, sem Alex hannaði og gerði.

Formaður sleit fundi klukkan 11:35 og næsti fundur áætlaður þriðjudaginn 3. nóvember en verður nánar boðaður síðar með dagskrá.


_____________________________                                                                     ___________________________
Guðfinna Ólafsdóttir                                                                                             Þorgrímur Óli Sigurðsson
formaður                                                                                                             ritari