Fundargerð 1.9.2020

Fundargerð stjórnar Félags eldri borgara Selfossi.

Níundi fundur stjórnar FEB Selfossi, haldinn þriðjudaginn 1. september 2020 kl. 10:00 í félagsmiðstöðinni Mörk. Mætt eru: Guðfinna Ólafsdóttir formaður, Anna Þóra Einarsdóttir varaformaður, Guðrún Guðnadóttir gjaldkeri, Þorgrímur Óli Sigurðsson ritari, Gunnþór Gíslason meðstjórnandi, Guðrún Þóranna Jónsdóttir og Ólafur Sigurðsson varamenn.


Guðfinna Ólafsdóttir bauð stjórnarmenn og sérstakan gest fundarins, Alex Ægisson, velkomin til fundar sem hún stjórnar og Þorgrímur Óli ritar fundargerð.


Fyrsta mál. Þorgrímur Óli les fundargerð áttunda fundar. Hún samþykkt.


Annað mál. Vetrarstarfið. Guðfinna lagði fram drög að stundaskrá FEB Selfossi haustið 2020 og kvað stjórn þurfa að ræða hvað af þeim dagskrárliðum sé hugsanlega hægt að virkja og hverja ekki með tilliti til hamlana vegna COVID 19. Guðfinna kvað ekki ljóst hvað hver og einn leiðbeinandi er tilbúinn að leiða hópa. Berglind Elíasdóttir er tilbúin að stýra leikfimi í sal. Það verður rætt við Heiðu hjá félagsmálasviði. Líkur eru til að nokkra dagskrárliði muni verða erfitt að halda. Það eru þau námskeið sem annað hvort kalla á nánd einstaklinga og snertingu hluta sem ganga handa á milli. Máli skiptir hvað margir mega koma saman í hverju rými og nálægðarmörk manna á milli. Umræður áttu sér stað um möguleika að halda uppi einhverri starfsemi og skoða hugmyndir um nýjungar í námskeiðahaldi. Ákveðið að vinna áfram í þessum málum en að fara ekki af stað með starfsemi fyrr en í lok september ef aðstæður leyfa þá. Anna Þóra vakti athygli á að samkvæmt stundaskrá er gert ráð fyrir 22 hreyfiviðburðum.


Þriðja mál. Kynning á heimasíðu. Alex Ægisson kynnti nýja heimasíðu sem hann hefur hannað og unnið að fyrir félagið að undanförnu. Alex skýrði möguleika síðunnar til samskipta við félaga FEB á Selfossi. Stjórnarmenn lögðu nokkrar spurningar fyrir Alex sem hann svaraði auk þess komu nokkrar ábendingar sem hann mun skoða. Alex sagðist stefna á að hafa heimasíðuna tilbúna til notkunar á 40 ára afmæli félagsins 28. september 2020. Stjórn gerði góðan róm að vinnu Alex og þakkaði með lófaklappi.


Fjórða mál. Fundur með fulltrúum Árborgar vegna heilsueflingar. Guðfinna upplýsti að hún, Anna Þóra og Ólafur fari til fundar við fulltrúa Árborgar þau Heiðu Ösp Kristjánsdóttur deildarstjóra félagsþjónustu og Braga Bjarnasonar deildastjóra frístunda- og menningardeildar mánudaginn 7. september næstkomandi. Þar verður rætt um málefni tengd heilsueflingu eldri borgara og meðal annars verður farið fram á fjárveitingu til kaupa á búnaði því tengdu.


Fimmta mál. Útgáfa fréttabréfs. Guðfinna skýrði frá því að hún hafi verið að skima eftir því hvernig sum eldri borgarafélög hyggist haga starfsemi í haust en þar sé ekki um neina samræmda stefnu að ræða. Hún kvaðst vera búin að skrá punkta sem væri hægt að birta í fréttabréfi. Umræða um hvort rétt væri að senda stundaskrá með næsta fréttabréfi. Ákveðið að gera það ekki og fresta útgáfu fréttabréfs en senda út tilkynningu um niðurstöðu stjórnarfundar sem fyrst á facebook síðu félagsins. Líka ákveðið að koma skýrt á framfæri að hver félagsmaður beri ábyrgð á sjálfum sér á námskeiðum og viðburðum á vegum FEB og að allir viðhafi einstakslingsbundnar sóttvarnir og gæti að tveggja metra nálægðarreglunni.


Sjötta mál. Önnur mál.
a. Gunnþór kom því á framfæri að Hörpukórinn hafi sótt um fjárstyrk til Menningarsjóðs SASS og fengið loforð fyrir 150.000 krónum.


b. Ólafur gerði grein fyrir rannsóknarvinnu sem hann hafi lagst í í sambandi við „Karla í skúrum“. Hann var búinn að vera í sambandi við Hörð Sturluson verkefnastjóra hjá Rauða krossinum sem hefur sent gögn og upplýsingar sem Ólafur hefur áframsent til stjórnarmanna. Ólafur kvaðst hafa sýnt verkefninu meiri áhuga og trú eftir því sem hann hafi kynnt sér það betur. Ákveðið að vinna þetta verkefni áfram og áhugi fyrir að kynnast starfseminni sem fer fram í Hafnarfirði. Einnig að tala meira um þetta út fyrir dyr stjórnar og vekja athygli annarra á þessu. Talið mikilvægt að afla sem mestra upplýsinga til að leggja fram síðar þegar leitað verður formlega til sveitarfélagsins um framgang verkefnisins.

Formaður sleit fundi klukkan 12:20 og næsti fundur verður boðaður síðar með dagskrá.


_____________________________                                                                    ___________________________
Guðfinna Ólafsdóttir                                                                                            Þorgrímur Óli Sigurðsson
formaður                                                                                                            ritari