Fundargerð 11.8.2020


Fundargerð stjórnar Félags eldri borgara Selfossi.

Áttundi fundur stjórnar FEB Selfossi, haldinn þriðjudaginn 11. ágúst 2020 kl. 10:00 í félagsmiðstöðinni Mörk. Mætt eru: Guðfinna Ólafsdóttir formaður, Anna Þóra Einarsdóttir varaformaður, Guðrún Guðnadóttir gjaldkeri, Þorgrímur Óli Sigurðsson ritari, Gunnþór Gíslason meðstjórnandi, Guðrún Þóranna Jónsdóttir og Ólafur Sigurðsson varamenn.


Guðfinna Ólafsdóttir bauð stjórnarfólk velkomið á fundinn sem hún stjórnar og Þorgrímur Óli ritar fundargerð.


Fyrsta mál. Þorgrímur Óli les fundargerð sjöunda fundar. Hún samþykkt með áorðnum breytingum.


Annað mál. Atburðir sumarsins. Guðfinna sagði frá atriðum sem hafa verið í gangi í sumar og nefndi þar vikulegar leiðbeiningar um notkun á Lappset útihreystitækinu í Grænumörk. Já Verk ehf., hefur tekið að sér að sjá um gerð og uppsetningu skiltis með nöfnum gefanda tækisins og leiðbeiningum. Hugmynd er í vinnslu um að Árborg geri fræðslumynd um notkun tækisins og fleira. Guðfinna sagði frá kynningu á landsfundi LEB um heilsueflingu Janusar. Fundarfólk ræddi lífheilsumál vítt og breitt og hvernig best væri að koma skilaboðum til bæjarstjórnar um að fara af stað sem fyrst með Janusar verkefnið eða eitthvað sambærilegt. Samþykkt að leita eftir faglegri aðstoð til að semja áskorun til bæjarstjórnar um að hrinda slíku verkefni í gang sem fyrst. Guðfinna ætlar að ganga í málið.


Þriðja mál. Karlar í skúrum. Ólafur greindi frá því að hann hafi leitað til þriggja aðila varðandi húsnæði og þeir verið jákvæðir. Hann kvað óljóst um kostnað og þátttöku. Ólafur ætlar í frekari rannsóknarvinnu og leita upplýsinga hjá verkefnastjóra Rauða krossins sem hefur verið að vinna í svona verkefnum á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Stefnt að því að stjórn geti heimsótt einn skúr og kynnast því sem þar fer fram. Stefnt er að því að sækja um styrk hjá bæjarstjórn til að styðja verkefnið.


Fjórða mál. Fyrirspurn um nýtingu á sal í Mörk. Guðfinna sagði að hún hafi fengið munnlegt erindi um að nýta salinn í Mörk, gjaldfrítt, fyrir leikfimisæfingar starfsfólks HSU. Ekki talið að FEB hafi umboð til að ákveða afnot af salnum til slíks. Samþykkt að Guðfinna beri þetta undir Heiðu Ösp deildarstjóra fjölskyldusviðs. Ef málið fær jákvæða afgreiðslu þá ætti að gera kröfu um að eldri borgarar fái að taka þátt í leikfiminni án greiðslu.


Fimmta mál. Vetrardagskrá. Fyrirspurn frá Ólafi um vetrardagskrána. Umræður fóru fram um hana en engin niðurstaða önnur en sú að eins og stendur sé óvissa og tíminn einn geti leitt í ljós um það og fyrir liggur að allt sé háð fyrirmælum stjórnvalda um fjöldatakmarkanir og fjarlægðareglu. Tekið var til umræðu hvaða námskeið hugsanlega verði í boði og hverjir verði leiðbeinendur og hver kjör þeirra mögulega verða. Engin niðurstaða varð af þessum hugleiðingum og engar ákvarðanir teknar.


Sjötta mál. Heimasíða. Guðfinna sagðist hafa rætt við Alex Ægisson, sem hefur tekið að sér gerð heimasíðu fyrir félagið. Alex gaf gott orð um að geta komið bráðlega með sýnishorn. Guðfinna sagði áhugavert ef heimasíða yrði tilbúin fyrir 28. september næstkomandi svo hægt verði að taka hana í notkun þann dag þegar FEB Selfoss verður 40 ára. 

Sjöunda mál. Önnur mál.
a. Gunnþór kom með fyrirspurn um möguleika Hörpukórsins til starfa í COVID 19. Svar við því ekki annað en þar sé óvissa um þróun veirunnar og gildandi stjórnvaldsreglna hverju sinni.


b. Þorgrímur Óli vakti athygli á auglýsingu frá Krónunni um styrktarumsóknir til verkefna sem miða að uppbyggingu í samfélaginu. Ákveðið að Guðfinna gangi í að sækja um styrk í tengslum við 40 ára afmæli félagsins og ef hann fæst verði hann nýttur til flutnings menningarlegs efnis.


c. Guðfinna sagði nauðsynlegt að kalla eftir kynningu og fræðslu á vefnum „Heilsuvera.is. Hún kvaðst hafa orðið vör við að sumt eldra fólk viti ekki hvað það er. Hugmynd um að viðburðarstjórn nýti opið hús til kynningar á vefnum og rætt verði við Arnar Þór Guðmundsson yfirlækni heilsugæslunnar á Selfossi með aðkomu HSU í því sambandi. Guðfinna sagði frá afar vel heppnaðri ferð leshóps á söguslóð Dalalífs í Fljót í Skagafirði. Að lokum gat hún þess að á síðasta landsfundi LEB hafi hún verið kjörin í varastjórn LEB. Þann 17. september verður, á vegum LEB, ráðstefna um einmannaleika sem fulltrúi FEB Selfoss mun sækja en ekki ákveðið nú hver það verður. Einnig er á dagskrá önnur ráðstefna sem mun fjalla um öldungaráð, hún hefur ekki verið dagsett og mun fulltrúi okkar líka sækja þá ráðstefnu.

Næsti fundur ákveðinn 8. september 2020 klukkan 10:00 í Mörk.

Fundi slitið klukkan 12:00.

_____________________________                                                                           ___________________________
Guðfinna Ólafsdóttir                                                                                                   Þorgrímur Óli Sigurðsson
formaður ritari