Fundargerð 9.6.2020

 

Fundargerð stjórnar Félags eldri borgara Selfossi.

Sjöundi fundur stjórnar FEB Selfossi, haldinn þriðjudaginn 9. júní 2020 kl. 10:00. Formaður boðar til fundarins vegna erindis Einars Björnssonar. Mætt eru: Guðfinna Ólafsdóttir formaður, Anna Þóra Einarsdóttir varaformaður, Guðrún Guðnadóttir gjaldkeri, Þorgrímur Óli Sigurðsson ritari, Gunnþór Gíslason meðstjórnandi, Guðrún Þóranna Jónsdóttir og Ólafur Sigurðsson varamenn.


Guðfinna setti fund og greindi frá tilefni hans sem væri erindi Einars Björnssonar umsjónarmanns þjóðhátíðarhalda Árborgar í ár.

Kynntur var tölvupóstur Einars þar sem hann viðrar möguleika á að efna til kvöldvöku í Mörk að kvöldi þjóðhátíðardagsins sem myndi höfða til eldri borgara. Í tölvupóstinum kemur fram að áður fyrr hafi, af tilefni þjóðhátíðardagsins, verið haldin harmónikkuböll í Tryggvaskála en aðsókn á síðari árum verið upp og ofan. Hugmynd Einars snýst um að stjórn félagsins eða hann sjálfur útvegi einhverja til að flytja söng, fróðleik og gamanmál í Mörk og sveitarfélagið hefur til ráðstöfunar á milli 100 og 150 þúsund krónur til þess.


Umræður fóru fram um erindið og kom fram hjá stjórnarfólki að erindið væri óljóst og skammur fyrirvari. Guðfinna boðaði Einar á fundinn til að útlista hugmyndir sínar. Einar kom og velti upp hugmyndum sínum og gerði grein fyrir hvað hann hefði hug á að gera sem þjónaði eldri borgurum á þjóðhátíðardaginn sem er í þá veru sem kom fram í fyrrgreindum tölvupósti. Einar greindi frá því að hann hafi tekið að sér að skipuleggja 17. júní hátíðarhöldin fyrir sveitarfélagið og hann stefndi á að gera hátíðarhöldin þannig að fólk sýndi þeim áhuga og tækju virkan þátt og því hefði hugmynd hans komið fram um að skapa kvöldvökustemningu fyrir eldri borgara og séð fyrir sér að salurinn í Mörk væri góður staður til þess.


Stjórnin lýsti yfir að hún væri jákvæð fyrir hugmyndinni og styddi að Einar kæmi henni í framkvæmd og hann sæi um skipulag og leita til aðila til að koma fram á kvöldvökunni sjái um fjárhagslega ábyrgð, þ.e. greiða kostnað vegna skemmtikrafta og annað.
Niðurstaða stjórnar er að stefna á kvöldvöku með fyrirvara um að salurinn í Mörk sé falur. Einar sér milliliðalaust um að ráða skemmtikrafta og greiða þeim laun. Stjórnin undirbýr salinn og útvegar gosdrykk og kleinur eða eitthvað annað. Guðfinna myndi setja samkomuna og halda utan um dagskrána. Stjórn mun mæta, þeir sem geta og undirbúa salinn og ganga frá. Ákveðið að selja ekki veitingar heldur að vera með skál þar sem fólk getur lagt pening ef það vill.


Fleira ekki á dagskrá og formaður sleit fundi kl. 11:20

_____________________________                                                                  ___________________________
Guðfinna Ólafsdóttir                                                                                          Þorgrímur Óli Sigurðsson
formaður ritari