Fundargerð 2.6.2020

Sjötti fundur stjórnar FEB Selfossi, haldinn þriðjudaginn 2. júní 2020 kl. 10:10 í félagsmiðstöðinni Mörk.   Mætt eru:  Guðfinna Ólafsdóttir formaður, Anna Þóra Einarsdóttir varaformaður, Guðrún Guðnadóttir gjaldkeri, Þorgrímur Óli Sigurðsson ritari, Gunnþór Gíslason meðstjórnandi, Guðrún Þóranna Jónsdóttir og Ólafur Sigurðsson varamenn.

Guðfinna Ólafsdóttir bauð stjórnarfólk velkomið á fundinn sem hún stjórnar og Þorgrímur Óli ritar fundargerð.   

Fyrsta mál.  Gestur fundarins, Heiða Ösp Kristjánsdóttir deildarstjóri fjölskyldusviðs Árborgar, sérstaklega boðin velkomin til fundarins.  Heiða, sem er nýtekin við starfinu, kynnti sig og lýsti því starfi sem hún er komin til að sinna.  Greindi hún frá átaksverkefni sem ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið að fara í og snýst um að veita fjármunum til eldri borgara í þeim tilgangi að rjúfa einangrun þeirra eftir COVID 19.  Hún upplýsti að þegar hafi Árborg sótt um tvær og hálfa milljón króna í sambandi við frístundastarfið.  Stjórn FEB Selfossi hafði bent á nokkrar hugmyndir sem nýta mætti peningana í eins og til dæmis Qigong lífsorkuæfingar.  Heiða hvatti stjórnina til að koma með fleiri hugmyndir til að vinna úr.  Almennar umræður fóru fram um hagsmuni eldri borgara og félagsins.  Guðrún Þóranna lagði áherslu á að Heiða leggði sitt af mörkum til að koma Öldungaráðinu af stað sem fram að þessu hefur verið í hægagangi.  Heiða ætlar að ganga í það mál.  Þá var henni bent á þörfina fyrir að skipta út uppþvottavél, í Mörk, í aðra hraðvirkari, fá eldhúseyju til viðbótar þeirri sem fyrir er og svo brýna þörf fyrir að fara yfir tæknimál og koma þeim í viðunandi horf.  Þar er meðal annars átt við að hægt verði að leita til tölvudeilar Árborgar þannig að tækin séu rétt stillt og annað sem þar skiptir máli.  Rætt var um að gera þurfi könnun  á meðal eldri borgara um tölvueign, tölvunotkun og þekkingu þeirra á tölvum, hvort þeir séu með netföng og virkni á netmiðlum.  Einnig rétt að kanna notkun neyðarhnappa og stuðningskerfi.  Þarna yrði um að ræða tölfræðilega könnun sem ekki væri persónugreinanleg.  Samræður voru jákvæðar og gagnlegar og að þeim loknum var Heiðu Ösp þakkað fyrir að gefa sér tíma, í önnum, að mæta á fundinn og henni óskað velfarnaðar í starfi.

Annað mál.  Þorgrímur Óli las fundargerð síðasta fundar.  Fundargerð samþykkt.

Þriðja mál.  Landsþing LEB.  Farið var yfir kjör fulltrúa FEB Selfossi á landsþing FEB 30. júní næstkomandi.  Félagið á rétt á að senda fjóra fulltrúa á þingið auk formanns sem er sjálfkjörinn.  Gengið var frá kjörbréfum. 

Fjórða mál.  Sumarfréttabréf.  Guðfinna skrifar fréttabréfið og stjórnarmenn mæta fljótlega eftir landsþing LEB til að ganga frá fréttabréfinu til útburðar til félagsmanna en því verður dreift með LEB blaðinu sem verður þá komið út.  Handboltadeild UMF Selfoss dreifir blaðinu og fréttabréfi.  Guðrún Guðnadóttir ætlar að taka saman fjölda félagsmanna og sjá um límmiða. 

Fimmta mál.  Starfið framundan.  Í sumar verða þrjár dagsferðir og ein hálfsdagsferð og eru allar á áætlun.  Ferð öndvegisbókahópsins sem var frestað er áætluð í júlí og íslendingasagnahópur fer líklega í sína ferð síðar í sumar.  Ákveðið að lista upp starfsemi sem var á stundaskrá og það sem hugsanlega gæti bæst við næsta vetur.  Fundarmenn lýstu ánægju með hve fjölbreytt starfsemin í raun og veru er.  Gunnþór gat þess að ákveðið væri að halda fimmkóra mót á Selfossi 8. maí 2021.  Rætt um að halda áfram með tungumálanámskeið sem ánægja var með.  Einnig nefnt að halda námskeið í sjalprjóni og í athugun að koma á verkefninu „karlarnir í skúrnum“ en það þarf að finna húsnæði.  Rætt um að æskilegt sé að leiðbeinendur námskeiða sjái um að innheimta námskeiðsgjald hver á sínu námskeiði.  Talið eðlilegast að hvert námskeið standi undir sér en ekki að fjöldinn sé að greiða námskeið sem fáir sækja.   Fram kom að jákvætt væri að eiga samskipti við nágrannafélög og rætt var um hvaða afstöðu eigi að taka gagnvart fólki sem óskar eftir að sækja námskeið en er ekki í félaginu.  Anna Þóra taldi nauðsynlegt að stjórnin geti svarað hver vilji hennar er í þeim efnum.  Brýnt er að leiðbeinendum námskeiða verði upplýstir um breytt fyrirkomulag varðandi greiðslufyrirkomulag námskeiða.  Guðfinna og Anna Þóra ætla að funda með leiðbeinendum fljótlega.

Sjötta mál.  Önnur mál.

  1. Ólafur kom á framfæri að huga þurfi að öryggi gangandi og hjólandi vegfaranda þar sem Selfossvegur liggur að Þóristúni. Gangstétt sem er sunnan Þóristúns er þröng með ljósastaurum í gönguleiðinni auk þess er hún slitin og óslétt.  Betra væri að leggja nýjan stíg norðan götunnar.  Telur rétt að koma þessu að í nýrri umferðaröryggisáætlun Árborgar sem er í vinnslu.  Þorgrímur Óli kemur þessu á framfæri á næsta samráðsfundi um um það verkefni sem verður í haust. 
  2. Anna þóra leggur til að íþróttanefnd FEB verði falið það verkefni að hvetja, sem fyrst, fólk til að nota nýju leikfimitækin við Grænumörk og jafnframt fræða um notkun þeirra. Samþykkt að gera það.
  3. Formaður áætlar næsta fund í ágúst en til hans verður boðað með dagskrá síðar.

 

Fundi slitið klukkan 12:30.

 

_____________________________                                              ___________________________

Guðfinna Ólafsdóttir                                                                       Þorgrímur Óli Sigurðsson

formaður                                                                                       ritari