Fundargerð 5.5.2020

Fimmti fundur stjórnar FEB Selfossi, haldinn þriðjudaginn 5. maí 2020 kl. 10:00. Fundurinn fer fram með fjarfundarbúnaði. Mætt eru: Guðfinna Ólafsdóttir formaður, Anna Þóra Einarsdóttir varaformaður, Guðrún Guðnadóttir gjaldkeri, Þorgrímur Óli Sigurðsson ritari, Gunnþór Gíslason meðstjórnandi, Guðrún Þóranna Jónsdóttir og Ólafur Sigurðsson varamenn.
Guðfinna Ólafsdóttir bauð stjórnarfólk velkomið á þennan fjarfund sem hún stjórnar og Þorgrímur Óli ritar fundargerð.


Fyrsta mál. Þorgrímur Óli las fundargerð síðasta fundar. Fundargerð samþykkt án athugasemda.


Annað mál. Símhringingar til félagsmanna. Guðfinna fór yfir framkvæmd símhringinga til eldri borgara sem voru á hendi starfsmanna félagssviðs Árborgar. Fram kom að 23 voru ekki í símaskrá og ekki náðist í þá. Rætt um að hugsanlega hefði átt að spyrja fólk spurninga um til dæmis tölvueign þess, hvort það sé með netfang eða að nota samfélagsmiðla og fleira. Arnar Guðmundsson yfirlæknir á HSU Selfossi hafði samband við Guðfinnu og tjáði henni að fyrirhugað sé að bjóða skjólstæðingum uppá myndræn samskipti og áhugi sé á að kanna tölvueign og - notkun hjá eldri borgurum. Vegna þessa ætlar Guðfinna að vera í frekara sambandi við heilsugæsluna. Guðfinna sagðist hafa rætt við fulltrúa LEB um hvort möguleiki væri á að vinna að því að fá spjaldtölvur með afslætti fyrir félagsfólk. Þá greindi hún frá því að væntanlegar séu niðurstöður um framkvæmd símhringinga til eldri borgara.


Þriðja mál. Aflétting á samkomubanni og framkvæmd á félagsstarfi. Fólk er farið að spyrjast fyrir um hvort námskeið og önnur starfsemi fari nú í gang eftir síðustu afléttingu samkomubanns. Umræður áttu sér stað meðal stjórnarmanna um það. Hugsanlega er hægt að hefja starf ef farið verði eftir reglum og félagsmenn treysta sér til þess að mæta. Niðurstaða stjórnar var að hefja ekki félagsstarf að svo stöddu enda stutt eftir af hefðbundnu vetrarstarfi félagsins. Samþykkt að tilkynna þessa ákvörðun opinberlega á næstunni og mun Guðfinna gera það.


Fjórða mál. Undirbúningur fyrir 40 ára afmælið í haust. Til umræðu var hvernig skuli staðið að afmælishátíð félagsins í haust. Talið snúið að skipuleggja hátíð við núverandi aðstæður og óvissu um framgang Covid 19 og afléttinga nándarreglna. Ákveðið að hætta við að fagna 40 ára afmæli en halda í staðinn uppá 41 árs afmæli á næsta ári.


Fimmta mál. Útileiktæki tekið í notkun. Guðfinna varpaði fram hugmynd um að taka útileikfimitæki í Grænumörk formlega í notkun í næstu eða á næstu vikum og bjóða þeim sem tóku þátt í fjáröflun og uppsetningu tækjanna að vera viðstödd athöfnina. Við það tækifæri verði þeim þakkað fyrir þeirra aðkomu að verkefninu. Athuga að fá umboðsmann tækjanna, Jóhann Helga, til að kynna tækin og notkun þeirra. Guðfinna kannar hvort hægt er að gera þetta annan laugardag og hefur samband við hlutaðeigandi, þar á meðal fjölmiðla. Í þessum umræðum kom fram að á svæðinu séu í gangi framkvæmdir, jarðvegsvinna, og kanna þurfi hvað þar er í gangi og hvað þær muni geta staðið lengi og hvort það hafi áhrif á aðgengi að leikfimitækjunum.


Sjötta mál. Vorhátíð. Ljóst að vorhátíð félaganna á Selfossi og í Hveragerði er sjálfhætt og ekki frekari umræður um það.


Sjöunda mál. Sumarferðir. Þorgrímur Óli fór yfir sumarferðir sem ferðanefnd hefur skipulagt. Ferðanefndin mun auglýsa þær fjórar ferðir sem eru á dagskrá með þeim fyrirvara um að ein eða fleiri verði felldar niður ef reglur eða fyrirmæli stjórnvalda vegna Covid 19 komi í veg fyrir að fólk megi koma saman í nálægð sem hafi áhrif á hvað margir geti verið saman í hóp.


Áttunda mál. Önnur mál.
a. Guðfinna skýrði frá því að hún hafi sent formlegt erindi til félagsmálanefndar Árborgar vegna lagfæringa sem þarf að gera í félagsmiðstöðinni Mörk og áður hefur verið bent á. Hún fékk svar í tölvupósti sem er eftirfarandi: „Sæl Guðfinna! Erindi ykkar hjá Félagi eldri borgara á Selfossi var tekið fyrir í félagsmálanefnd sl. þriðjudag (28/4) og var eftirfarandi bókað. 2004210 - Lagfæringar á Mörk tækjakaup og leiðbeiningar fyrir sal í Grænumörk 5. Félagsmálanefnd vísar erindinu til skoðunar hjá eignadeild og tölvudeild. Leitast verði við að sinna viðhaldi sem fyrst en hluti af erindinu snýr að fjárhagsáætlunargerð ársins 2021. Við förum svo betur yfir þetta saman og þá með nýjum deildarstjóra félagsþjónustu, Heiðu Ösp Kristjánsdóttur, en hún kemur til starfa 7. Maí nk. Með góðri kveðju, Þorsteinn Hjartarson sviðsstjóri fjölskyldusviðs“. Svo virðist sem að þetta sé eitthvað í lausu lofti. Stjórnin telur nauðsynlegt að kalla fljótlega eftir fundi með nýráðnum deildarstjóra, Heiðu Ösp. Til viðbótar kvað Guðfinna brýnt að virkja öldungaráðið. Hún ætlar að kanna hvað önnur eldri borgarafélög ætla að gera vegna Covid 19.


b. Guðfinna sagðist vera að leita að einhverjum til að aðstoðað Blöku með útskurðarnámskeiðin en ljóst er að hún þarf aðstoð. Ætlar að kanna hjá Blöku hvort hún sé með hugmyndir varðandi það. Guðfinna sagðist ætla að ræða við Arndísi Gestsdóttur um tölvukennslu og –þjálfun.


c. Guðfinna bar upp fyrirspurn til Guðrúnar gjaldkera um stöðu á innheimtu félagsgjalda. Guðrún upplýsti að af 723 félögum eiga 139 eftir að greiða og vænti hún að Arionbanki sendi út nýjar kröfur næstu daga.


d. Ólafur spurði Guðfinnu um hugmyndir sem hafa komið fram um nýtingu Sýslumannstúnsins. Guðfinna sagðist ekki vita annað en þarna sé um hugmyndir að ræða og henni ekki kunnugt um hvort eitthvað hafi verið fastákveðið um ráðstöfun svæðisins.


e. Gunnþór gat þess að tveir fulltrúar í Íslendingasagnahópnum hafi ákveðið að hætta og hann sé með hugmyndir um hverja væri verðugt að skipa í þeirra stað. Gunnþór ætlar að senda foringja hópsins, Örlygi Karlssyni, tilnefningar sínar.


f. Þorgrímur Óli greindi frá því að hann hafi verið boðaður á fund samráðshóps um gerð umferðaröryggisáætlunar fyrir Árborg næstkomandi fimmtudag 7. maí. Hugmyndin er að hópurinn komi saman einu til tvisvar sinnum á meðan vinnan er í gangi. Tilgangur fundarins er að móta stefnu áætlunarinnar og að fá gróft yfirlit á stöðu umferðaröryggismála í Árborg.


g. Næsti fundur ákveðin þriðjudaginn 2. júní klukkan 10:00.


Fundi slitið klukkan 11:30.
_____________________________                                                                  ___________________________
Guðfinna Ólafsdóttir                                                                                          Þorgrímur Óli Sigurðsson
formaður                                                                                                          ritari