Fundargerð 30.3.2020

 

Fjórði fundur stjórnar FEB Selfossi, haldinn mánudaginn 30. mars 2020 kl. 10:00. Fundurinn fer fram með fjarfundarbúnaði og mætt eru: Guðfinna Ólafsdóttir formaður, Anna Þóra Einarsdóttir varaformaður, Guðrún Guðnadóttir gjaldkeri, Þorgrímur Óli Sigurðsson ritari, Gunnþór Gíslason meðstjórnandi, Guðrún Þóranna Jónsdóttir og Ólafur Sigurðsson varamenn.
Guðfinna Ólafsdóttir stjórnar fundi og Þorgrímur Óli ritar fundargerð. Formaður boðaði til fundarins vegna stöðunnar í Covid 19 veirufaraldrinum og kemur fundurinn í stað aprílfundarins, sem boðað var til á síðasta stjórnarfundi, nema að aðstæður breytist og þörf krefur.


Fyrsta mál. Staðan á okkar fólki – úthringilisti. Guðfinna lagði fram lista yfir einstaklinga í félaginu sem búa einir. Stjórnarmenn deildu á milli sín fólki til að hringja í og kanna stöðu þess og bjóða þá aðstoð sem félaginu er fært að veita.


Annað mál. Lokanir dagdvala. Guðfinna upplýsti að Katrín Ósk Þorgeirsdóttur forstöðumaður dagdvala Árborgar hefði greint henni frá því að Árblik og Vinaminni hafi verið lokað og engin starfsemi þar í gangi sem stendur.


Þriðja mál. Ný dagsetning Landsfundar LEB. Guðfinna greindi frá því að stjórn LEB hafi, með fyrirvara, boðað til Landsfundar LEB þann 9. júní næstkomandi á Selfossi.


Fjórða mál. Fulltrúi í Viðburðarnefnd. Samþykkt að Svanhvít Ásta Jósefsdóttir verði nýr fulltrúi félagsins í Viðburðarnefnd til viðbótar þeim sem fyrir eru.


Fimmta mál. Ályktanir stjórnar LEB. Guðfinna kynnti ályktanir sem LEB hefur sent stjórnvöldum og sveitarfélögum. Guðfinna lagði til að ályktunin yrði send áfram til bæjarstjórnar Árborgar en í nafni FEB Selfossi. Guðrún Þóranna og Þorgrímur Óli bentu á að ekki væri rétt að senda hana óbreytta og hyggilegt að sníða frá þann hluta ályktunarinnar sem snúi að stjórnvöldum en halda því sem eigi við sveitarfélagið og skerpa á þeim þáttum. Samþykkt að Guðfinna semji nýja ályktum með þessum formerkjum og sendi bæjarstjórn í dag. Guðfinna kvaðst hafa upplýsingar um að bæjarráð Árborgar muni koma saman á morgun, þriðjudag, og fjalla um aðgerðir vegna Covid 19.


Sjötta mál. Upplýsingar um Öldungaráð. Guðrún Þóranna sagðist ekki hafa fengið neinar gagnlegar upplýsingar varðandi Ölungaráð en ráðgerir að leggja fram fyrirspurn á næstunni um hvað sé á döfinni að gera.


Sjöunda mál. Önnur mál. Guðfinna vakti athygli á greinarskrifum bæjarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar, Tómasar Ellerts Tómassonar, sem birtust á „Visir.is“ 24. mars síðastliðinn þar sem hann kynnir ályktun til Alþingis og ríkisstjórnar sem bæjarráð Árborgar samþykkti á fundi 19. mars og svo persónulegar hugleiðingar hans af boðuðum aðgerðum ríkisstjórnar.

Anna Þóra gat þess að óþarfa neikvæðni væri í hugleiðingum Tómasar og tóku fleiri undir það. Ólafur Sigurðsson sagðist hafa skilning á skrifum Tómasar sem hafi með þeim verið að vekja athygli á að ekki væri minnst á að ríkisstjórn ætli að styrkja framkvæmdir til dæmis á fráveitu og ýmsum öðrum verkefnum.


Ólafur nefndi að nú vanti verkstjórn hjá Árborg eftir uppsagnir reyndra starfsmanna á félagssviði og það komi niður á úrlausnum á þeim vettvangi og það væri sjálfsagt að láta það heyrast.


Guðfinna gat um samskiptaleysi sveitarfélagsins við FEB varðandi ráðstafanir vegna Covid 19. Samþykkt að hún sendi ráðamönnum sveitarfélagsins skriflega beiðni um að úr því verði bætt.


Að lokum skýrði Guðfinna frá því að Guðrún Eva Mínervudóttir rithöfundur sé tilbúin að halda námskeið í endurminningaskrifum.
Fundi slitið klukkan 11:00

_____________________________                                                                           ___________________________
Guðfinna Ólafsdóttir                                                                                                   Þorgrímur Óli Sigurðsson
formaður                                                                                                                   ritari