Fundargerð 3.3.2020

Þriðji fundur stjórnar FEB Selfossi 2020, haldinn þriðjudaginn 3. mars kl. 09:00 að Grænumörk 5, Selfossi.
Mætt: Guðfinna Ólafsdóttir formaður, Anna Þóra Einarsdóttir varaformaður, Guðrún Guðnadóttir gjaldkeri, Þorgrímur Óli Sigurðsson ritari, Gunnþór Gíslason meðstjórnandi, Guðrún Þóranna Jónsdóttir varamaður. Ólafur Sigurðsson, varamaður, boðar forföll.
Guðfinna Ólafsdóttir stjórnar fundi og Þorgrímur Óli ritar fundargerð.


Fyrsta mál: Fundur settur. Guðfinna setti fund og bauð nýkjörið stjórnarfólk velkomið til fundar.


Annað mál: Fundargerð síðasta fundar lesin upp. Þorgrímur Óli las upp fundargerð annars fundar 2020. Fundargerðin staðfest án athugasemda.


Þriðja mál. Kosning fulltrúa á landsþing LEB, aðalfulltrúa og varafulltrúa.
Guðfinna greindi frá því að kjósa þyrfti fulltrúa á Landsþing LEB sem verður haldið á Selfossi 28. apríl næstkomandi. Formaður félagsins er sjálfkjörinn, sbr., d. lið 7. greinar laga FEB Selfossi. Guðfinna stakk uppá Önnu Þóru Einarsdóttur, Þorgrími Óla Sigurðssyni og Guðrúnu Guðnadóttur. Til vara nr. 1 Gunnþóri Gíslasyni, nr. 2 Guðrúnu Þórönnu Jónsdóttur, nr. 3 Ólafi Sigurðssyni og nr. 4 Gunnari Þórðarsyni. Tillagan samþykkt.


Fjórða mál. Önnur mál.
a. Guðfinna skýrði frá því að vegna Covid 19 veirunnar hafi Öryggismiðstöðin h/f frestað fyrirhugaðri kynningu snjallhnapps, sbr., bókun fjórða máls a. liðar síðasta fundar, til 21. apríl næstkomandi. Nánar auglýst síðar.


b. Útskýring hefur borist frá Fagformi varðandi gólfmerkingu fyrir boccia í sal Markar þar sem límborðar hafa verið að losna upp. Að beiðni starfsmanns Árborgar hafði verið óskað eftir því að borðarnir yrðu límdir niður með veiku lími en ekki varanlegu. Nú hafa komið fyrirmæli um að nota varanlegt lím og mun Fagform láta vita með fyrirvara þegar þeir mæta til þess verks.


c. Guðfinna sagði að mikil ánægja hafi verið með spænskunámskeið, undir stjórn Kristínar Örnu Bragadóttur, sem nú væri lokið. Anna Þóra tók undir það og mætti við að fram hefðu komið óskir um framhald. Einnig var ánægja með enskunámskeið sem Leifur Viðarsson hefur stýrt. Fram kom hjá Guðfinnu að Davíð Jóhannesson væri kominn með húsnæði undir silfurnámskeið og hann verði með kynningu á því námskeiði bráðlega. Umræður um verkefnið „karlar í skúrum“. Karlar hafa ekki tekið við sér varðandi þetta tækifæri. Rætt um leiðir til að kveikja áhuga þeirra til að koma slíku starfi í gang. Guðfinna ætlar að ræða við Sigfús Kristinsson byggingameistara um laust húsnæði. Guðfinna ræddi um námskeið í endurminningaskrifum, reynt hafi verið að fá aðila til að standa fyrir slíku námskeið en ekki tekist að sinni. Hún ætlar að ræða við Guðrúnu Evu Mínervudóttur rithöfund og athuga hvort möguleiki er á að hún taki það að sér næsta vetur.

d. Guðrún Guðnadóttir greindi frá því að 21 einstaklingur er skráður á tréskurðarnámskeið sjö á hverju námskeiði sem eru þrjú í viku og 20 á glernámskeiði. Umræður um kostnað og hugsanlega þörf á hækkun námskeiðsgjalda, ákvörðun ekki tekin um það að sinni. Guðrún Þóranna sagði nauðsynlegt að huga að því að ræða við námskeiðshaldara varðandi næsta vetur. Umræður um þörf á nýungum og annars konar námskeiðum og verkefnum í framtíðinni.

e. Rætt um viðburði sem eru framundan. Handverkssýning verður 23. apríl þar sem margt nýtt verður í boði. Ákveðið að vera með til sölu kaffi og meðlæti með svipuðu sniði og í fyrra. Landsfundur LEB, huga þarf að því sem stjórn FEB Selfossi þarf að gera í tengslum við fundinn. Funda þarf með formanni LEB, Þórunni Sveinbjarnardóttur og starfsmanni, Viðari Eggertssyni um framkvæmdina. Guðfinna mun senda tölvupóst til Viðars með fyrirspurnum. Vorfagnaður í samstarfi við FEB Hveragerði. Rætt um að æskilegt og einfaldara sé að vera með vorfagnaðinn á einum stað en ekki á tveimur eins og áður. Stefnt verður að því og líka að ræða við eldri borgara á Eyrarbakka og Stokkseyri um þátttöku í vorfagnaði.

f. Guðrún Þóranna fulltrúi FEB Selfoss í öldungaráði sagði að starfsmanni ráðsins hafi verið sagt upp störfum hjá sveitarfélaginu. Hún vill fá að vita hvort ekki verði framhald á vinnu ráðsins og ætli að ræða við ráðamenn sveitarfélagsins til að fá svör við því.

g. Guðfinna fór yfir stöðu tækja- og tæknimála í Mörk. Erfiðlega hefur gengið að fá leiðbeiningar um notkun tækjabúnaðar eins og hljóðkerfi, sjónvarpsskjái og hljóðnema. Ýmsu hefur verið lofað í þeim efnum og ekki á vísan að róa hver eigi að sinna því og síst eftir að mannabreytingar hafa orðið á því málasviði er snýr að eldriborgarastarfinu. Lýst er eftir því að útbúnar verði leiðbeiningar um notkun tækja og búnaðar svo hægt verði að nota hann hnökralaust. Stjórnin fól Guðfinnu og Guðrúnu Þórunni að kalla eftir fundi með bæjarstjóra og fara yfir þessi mál er varða öldungaráðið, tækjabúnað í Mörk og fá á hreint hver er beinn samskiptaaðili sveitarfélagsins við FEB. Guðfinna sér um að fá viðtalstíma með bæjarstjóra.


h. Guðfinna kynnti bréf Félags eldri borgara í Mosfellsbæ um keppnismót í boccia þann 18. apríl næstkomandi. Hún kom tilkynningunni til Gunnars Þórðarssonar.


i. Guðrún Þóranna nefndi að huga þyrfti að stórafmælum félagsins og Hörpukórsins og eðlilegt að félagið og kórinn sameinist um afmælishátíð með einhverjum uppákomum í september. Samþykkt að vera með afmælisfund 12. maí næstkomandi, nánari tímasetning ákveðin síðar.


j. Anna Þóra vakti athygli á að ekki hafi tekist að finna fjórða aðila í viðburðarnefnd og kallaði eftir ábendingum í þá stöðu. Stefnt að finna einhvern, jafnvel í opnu húsi næsta fimmtudag. Samþykkt að félagið greiði kaffi og meðlæti fyrir tvo í viðburðarnefnd í hverju opnu húsi auk gesta sem viðburðarnefnd kallar til hverju sinni. Guðrún Guðnadóttir ætlar að útbúa kaffiboðsmiða sem viðburðarnefnd afhendir veitingasala sem sér um að innheimta hjá gjaldkera.

Formaður boðar til stjórnarfundar klukkan 09:00 þriðjudaginn 7. apríl 2020.
Fundi slitið klukkan 11:55

_____________________________                                                                 ___________________________
Guðfinna Ólafsdóttir                                                                                         Þorgrímur Óli Sigurðsson
formaður                                                                                                         ritari