Fundargerð 4.2.2020

Annar fundur stjórnar FEB Selfossi 2020, haldinn þriðjudaginn 4. febrúar kl. 09:00 að Grænumörk 5, Selfossi.
Mætt: Guðfinna Ólafsdóttir formaður, Anna Þóra Einarsdóttir varaformaður, Guðrún Guðnadóttir gjaldkeri, Þorgrímur Óli Sigurðsson ritari, Gunnþór Gíslason meðstjórnandi, Guðrún Þóranna Jónsdóttir og Gunnar E. Þórðarson varamenn
Guðfinna Ólafsdóttir stjórnar fundi og Þorgrímur Óli ritar fundargerð.


Fyrsta mál: Fundur settur. Guðfinna setti fund og bauð stjórnarfólk velkomið til fundar.

Annað mál: Fundargerð síðasta fundar lesin upp. Þorgrímur Óli las upp fundargerð fyrsta fundar 2020. Fundargerðin staðfest athugasemdarlaust.


Þriðja mál. Undirbúningur aðalfundar.
a. Guðfinna lagði fram, til kynningar og samþykktar, tilögur kjörnefndar FEB Selfossi til aðalfundar 2020 um stjórnarmenn, varamann í stjórn og skoðunarmenn í samræmi við ákvæði 5. greinar laga félagsins. Tillögur kjörnefndar eru:


1. Gjaldkeri: Guðrún Guðnadóttir, Lágengi 2.
2. Meðstjórnandi: Anna Þóra Einarsdóttir, Lambhaga 28.
3. Varamaður í stjórn: Ólafur Sigurðsson, Merkilandi 2.
4. Tveir skoðunarmenn í stjórn: Einar Jónsson, Suðurengi 26 og Helgi Helgason Austurvegi 51. Ánægju lýst með tillögur kjörnefndar og samþykkt að leggja þær fram óbreyttar.


b. Starfsmenn á aðalfundi. Guðfinna upplýsti að Ólafía Ingólfsdóttir verði fundarstjóri og Esther Óskarsdóttir ritari og henni til aðstoðar verði Jóna S. Sigurbjartsdóttir.


c. Nefndir. Samþykkt að breyta nafni félagsvistarnefndar í „spilanefnd“. Rök, staðreynd er að ekki er eingöngu spiluð félagsvist á spiladögum. Samþykkt að breyta nafni leikhúsnefndar í „menningarnefnd“. Rök, eðlilegt að nefndin sinni fleiri menningarviðburðum en bara leiklist enda hefur það verið gert með því að fara á nýárstónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Þá væri líka eðlilegt að bjóða upp á fleiri tegundir listviðburða. Umræður fóru fram um skipan í nefndir í þeim tilvikum sem hefðbundin seta nefndarmanna er útrunnin. Ákveðið að stjórnin kanni vilja einstaklinga í félaginu til að fylla í skörð þeirra nefnda þar sem brottfall mun eiga sér stað. Samþykkt að fjölga í viðburðastjórn í Mörk um einn, eru nú þrír.


d. Reikningar og ákvörðun félagsgjalds. Guðrún Guðnadóttir upplýsti að LEB hafi sent skilaboð um hækkun gjalds til LEB um 100 krónur á hvern félagsmann. Gjaldið er 600 krónur og fer í 700 krónur. Í FEB Selfossi eru nú skráðir 722 félagar. Umræður urðu um hvort rétt sé að innheimta gjald af þeim félagsmönnum sem eru komnir til varanlegrar dvalar á hjúkrunarheimili eða eru komnir á þann stað að geta ekki nýtt sér það sem er í boði hjá FEB. Samþykkt að innheimta ekki þessa einstaklinga og að þeir verði samt sem áður skráðir félagar. Tekin var ákvörðun að innheimta félagsgjald í gegnum heimabanka á þá sem hann hafa en hinum verði sendur greiðsluseðill. Markmiðið er að ekki verði tekið við peningum eins og verið hefur fram að þessu. Gjaldkeri leggur til að á aðalfundi verði gerð tillaga um að árgjald verði 3500 krónur sem stjórnin samþykkti samhljóða. Guðrún G. skýrði frá því að samkvæmt bráðabirgðauppgjöri sé tekjuafgangur félagsins fyrir 2019 um 600 þúsund krónur. Einnig greindi hún frá uppgjöri árshátíðarinnar sem tókst í alla staði vel og rómuð fyrir að hafa verið skemmtileg og framúrskarandi matur í boði. Guðrún G. gerði lauslega grein fyrir kostnaði við hin ýmsu námskeið á vegum félagsins. Gagnlegar umræður fóru fram um hvernig skuli standa að greiðsluþátttöku félagsins annars vegar og þátttakanda hins vegar og hver fjöldi námskeiða eigi að vera. Engin formleg ákvörðun tekin önnur en að fara þurfi yfir þennan þátt félagsins.


e. Ályktun. Samþykkt að leggja fram, í nafni stjórnar, á aðalfundi áskorun til bæjarstjórnar Árborgar, sem tekin var fyrir á tveimur síðustu fundum stjórnar, um bætt umferðaröryggi gangandi vegfaranda á Austurvegi á Selfossi.


f. Veitingar á aðalfundi. Samþykkt að FEB Selfossi greiði fyrir veitingar á aðalfundi.

Fjórða mál. Önnur mál.
a. Guðfinna upplýsti að Öryggismiðstöðin h/f muni kynna snjallhnapp, sem gagnast eldri borgurum, þann 10. mars næst komandi. Tilkynning verður sett upp í Mörk og Öryggismiðstöðin mun auglýsa kynninguna í Dagskránni.

b. Guðfinna sagðist skila ársskýrslu félagsins til LEB á næstu dögum.

c. Að sögn Guðfinnu er ágætis mæting á enskunámskeið sem hefur farið fram í Fjölheimum. Dræm þátttaka hefur verið á spænskunámskeið en verður framhaldið og hefst vonandi í næstu viku. Sautján einstaklingar hafa skráð sig á snjalltækjanámskeið en ekkert hefur heyrst frá leiðbeinanda þess. Þá greindi Guðfinna frá samtali hennar og Önnu Þóru við blaðamann Dagskrárinnar, sem birtist í blaðinu í síðustu viku, um starfsemi félagsins til að efla félagslíf og námskeiðahald fyrir eldri borgara.

d. Anna Þóra greindi frá að gagnrýni hafi komið fram vegna auglýsinga um dagskrá í opnu húsi á fimmtudögum og birst hafa í Dagskránni sem kemur í sum hús á miðvikudegi og önnur á fimmtudegi. Umræður áttu sér stað um hvernig best væri að koma skilaboðum til fólks í tíma. Þar kom meðal annars fram að heyrst hafi að hætt verði að dreifa Dagskránni í hús í vor og hún þá eftir það liggja frammi meðal annars í verslunum.

e. Guðrún Þóranna sagði frá því að Öldungaráð hafi komið saman fyrir stuttu. Ekki hafi verið um formlegan fund að ræða heldur hafi verið farið í skoðunarferð í dagdvalirnar í Árbliki og Vinaminni og starfsemi þar kynnt fyrir ráðinu. Fundur hefur ekki verið dagsettur en Guðrún vænti þess að hann verði í mars. Hún hefur óskað eftir viðræðum um heilsueflingu og ætlar að minnast á hreystistyrki á næsta fundi Öldungaráðsins.

f. Upplýst að merkingar fyrir boccia eru komnar á gólf í norðursal Markar.

g. Varðandi gestabók, samanber ákvörðun síðasta fundar, kom til umræðu hvort sú ákvörðun væri rétt. Niðurstaða þeirrar umræðu var að falla frá þeirri ákvörðun.

Næsti fundur boðaður 3. mars 2020 klukkan 09:00.
Fundi slitið klukkan 11:55

_____________________________                                                                  ___________________________
Guðfinna Ólafsdóttir                                                                                          Þorgrímur Óli Sigurðsson
formaður                                                                                                          ritari