Fundargerð 5.11.2019

Sjöundi fundur stjórnar FEB Selfossi haldinn þriðjudaginn 5. nóvember 2019 kl. 09:00 að Grænumörk 5, Selfossi.
Mætt: Guðfinna Ólafsdóttir formaður, Anna Þóra Einarsdóttir varaformaður, Guðrún Guðnadóttir gjaldkeri, Þorgrímur Óli Sigurðsson ritari, Gunnþór Gíslason meðstjórnandi, Guðrún Þóranna Jónsdóttir og Gunnar E. Þórðarson varamenn
Formaður setti fund og bauð stjórn velkomna til sjöunda stjórnarfundar FEB.


Fyrsta mál. Fundargerð síðasta fundar lesin upp, hún staðfest. Formaður greindi frá því að góð þátttaka hafi verið á leirnámskeið sem þegar er hafið og líka á silfurnámskeið þrátt fyrir háan kostnað. Silfurnámskeiðið hefst í janúar nk. Bryndís Guðmundsd. er tilbúin að halda áfram með Qigong og Yoga. Stólaleikfimi hefur gengið vel og 15 til 17 manns að jafnaði mætt þar. Gunnar sagði að fjölgað hafi í boccia en greinilegt að fólk óttist meiðsli í keppni í ringó. Gunnþór spurði hvort ætti að halda uppá þátttökulista sem gengu í haust. Ekki talin ástæða til að halda listunum til haga þar sem þeir hafi í raun verið könnun á þátttöku á námskeiðum og öðru starfi. Anna Þóra sagði að á bilinu 60 til 80 manns hafi komið í opið hús á fimmtudögum.


Annað mál. Hreystitæki. Formaður skýrði frá því að tækin væru komin en uppsetningu ekki að fullu lokið og enn unnið að frágangi lóðar. Stjórnin fór í vettvangsskoðun. Þarna er um að ræða nýstárleg tæki sem eru sennilega hönnuð með það í huga að þjálfa jafnvægi. Ljóst er að það þurfi sýnikennslu á notkun tækjanna. Ákveðið að efna til opnunarhátíðar þegar allt er tilbúð og veður og aðstæður leyfa. Talin nauðsyn á að setja upp skilti þar sem getið er þeirra sem veittu styrk til tækjakaupanna.


Þriðja mál. Starfið framundan. Vegna árshátíðar FEB næstkomandi föstudag var farið yfir þá aðila, sem vegna starfa sinna í þágu félagsins, eru á boðslista. Guðfinna greindi frá fundi hjá Háskólasetrinu á Selfossi og hún og Þorgrímur mættu á. Um var að ræða niðurstöu á skoðunarkönnun á viðhorfum þátttakanda og viðbrögðum tiltekinna fulltrúa ungs fólks, miðaldra fólks og eldriborgara við könnunni. Greint frá fyrirspurn einstaklings hvort FEB hafi hug á að leita eftir því við fataverslanir um að vera með tísku- eða fatasýningu. Vel tekið í það. Guðfinna skýrði frá því að fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu ætlaði að vera með fatasölu í Grænumörk. Einnig greint frá því að einstaklingur hafi komið fram með hugmynd að FEB bjóði handverksfólki að vera með borð í Grænumörk þar sem þeir gætu stillt upp verkum sínum til sölu. Stjórnin opin fyrir slíku og formanni falið að fara í málið. Guðfinna lagði til að Hörpukórinn fengi aðstöðu í Grænumörk til að geyma hluti og pappíra sem tengjast starfi kórsins. Tekið jákvætt í þetta og formanni falið að ræða það við Guðlaugu deildarstjóra hjá Árborg. Ákveðið að kanna hvort áhugi og möguleiki sé á að efna til bókakynninga í Mörkinni með því að rithöfundar komi og lesi uppúr verkum sínum sem gefin eru út nú fyrir jólin. Guðfinna ætlar að ræða þennan möguleika við Bjarna Harðarson bókaútgefanda. Framundan er fjölbreytt og kröftugt starf eins og lagt var upp með í haust sem hefur, fram að þessu, greinilega heppnast vel og fólk látið ánægju sína í ljós. Svo vel hefur tekist til að fólk úr nálægum sveitarfélögum hefur leitast eftir að gerast meðlimir í félaginu á Selfossi. Guðfinna mun ræða við Guðlaugu um afstöðu sveitarfélagsins til slíkra umsókna. Guðfinna greindi frá því að Guðlaug hefði óskað eftir fundi með henni til að fara almennt yfir stöðu mála er varða eldri borgara. Rætt um möguleika á að fá Lay Low, söngkonu, til að koma fram á aðventuhátíðinni í ár og athuga hvort Bjartmar geti boðið uppá súkkulaði og rjóma og kökur í kaffitímanum. Guðrún Guðnadóttir varpaði því fram hvort stefna ætti saman stjórnum félaga eldri borgara á Selfossi, Eyrarbakka og Stokseyri til sameiginlegs fundar með það að markmiði að vinna saman að verkefnum. Tekið jákvætt í það og ætlar Guðfinna að vinna í því. Spurningu varpað fram um hvort félagið hér á Selfossi eigi að standa í sérstökum fjáröflunum fyrir FEB á Selfossi. Stjórnarmenn á einu máli um að tekjuöflun ætti ekki að vera umfram það að reksturinn standi undir sér.


Fjórða mál. Önnur mál.
a. Anna Þóra sagði frá því að kona hefði komið því á framfæri við hana að barnabarn sitt, Gunnar Páll að nafni, væri að kenna eldriborgurum í Reykjavík að nota farsíma og tölvur og gæti gert slíkt hið sama á Selfossi. Tekið vel í það en Guðfinna sagðist hafa þegar sett sig í samband við aðila í FSU til að taka að sér slíka kennslu en ekki komin niðurstaða í það mál. Auglýst hefur verið eftir félögum sem vilja fá slíka aðstoð. Ákveðið að gera könnun á áhuga meðlima FEB og taka ákvörðun um framhald með tilliti til niðurstöð hennar. Anna Þóra nefndi að önnur kona hafi komið því á framfæri að það vantaði að birta símanúmer stjórnarmanna á áberandi stað. Guðfinna ætlar að setja símanúmerin á facebook síðu félagsins og heimasíðu þegar hún verður tilbúin.
b. Guðrún Guðnadóttir sagðist hafa fengið fyrirspurn um hvort til stæði að taka upp „Janusarleikfimi“ á Selfossi. Guðfinna skýrði frá því að ekki væri á dagskrá að semja við Janus Guðlaugsson en hún fór yfir stöðuna sem tengdist heilsueflandi stefnu sveitarfélagsins og því hvað væri í boði.

Guðrún G. oskaði eftir afstöðu stjórnar til hækkunar launa leiðbeinanda á námskeiðum FEB Selfossi. Í dag eru greiddar 1.100.00 krónur fyrir klst., og 4.500.00 krónur fyrir ferðir til Reykjavíkur fram og til baka. Tillaga um að hækka tímagjald í 1.200.00 krónur og akstursgjald í 5.000.00 krónur var samþykkt. Leiðbeinendur sem búa á Eyrarbakka fá 500 krónur fyrir akstur þaðan og til baka.

c. Gunnþór þakkaði veittan stuðning við að fá ÍS lykil sem nú þegar hefði leitt til þess að Hörpukórinn eigi möguleika á styrk frá SASS. Upplýsti hann að þann 1. desember næstkomandi muni kórinn taka þátt í kóramóti ásamt 12 öðrum kórum í Hörpu og þar stefni í góða þátttöku. Guðrún Þóranna taldi rétt að koma þessu á framfæri við leikhúsnefnd og fá hana til að auglýsa kóramótið.

d. Guðfinna ræddi um hugmynd þá sem hún kom fram með á síðasta fundi „Mennirnir í skúrnum“ . Einnig nefndi hún nauðsyn þess að setja upp gangbrautarljós á Austurvegi á milli Rauðholts og Hörðuvalla nú eftir að þau mörgu fjölbýlishús, ætluð eldra fólki, hafa risið norðan Austurvegar en sunnan götunnar eru verslanir og önnur þjónusta sem fólk leitar í og þarf með öryggi að komst yfir þessa umferðarþungu götu. Guðfinna kemur þessu á framfæri við Guðlaugu félagsmálastjóra. Varðandi filmur á gler í Mörk er uppi hugmynd að notast við svipað form og er í dagdvölinni Árblik frekar en að notast við form af Ölfusá. Guðlaug mun ákveða þetta við það fyrirtæki sem hefur unnið í málinu. Guðfinna kynnti ýmis verkefni, í þágu eldri borgara, sem eru í gangi hjá sveitarfélaginu.
e. Boðað til næsta fundar klukkan 09:00 þriðjudaginn 3. desember 2019.

Fundi slitið klukkan 11:45


_____________________________                                                                      ___________________________
Guðfinna Ólafsdóttir                                                                                              Þorgrímur Óli Sigurðsson
formaður                                                                                                              ritari