Fundargerð 10.9.2019

Fimmti fundur stjórnar FEB Selfossi haldinn þriðjudaginn 10. september 2019 kl. 10:00 að Grænumörk 5, Selfossi.
Mætt: Guðfinna Ólafsdóttir formaður, Anna Þóra Einarsdóttir varaformaður, Guðrún Guðnadóttir gjaldkeri, Þorgrímur Óli Sigurðsson ritari, Gunnþór Gíslason meðstjórnandi og Gunnar E. Þórðarson varamaður. Guðrún Þóranna Jónsdóttir boðaði forföll.
Formaður setti fund og bauð fundarmenn velkomna til fimmta stjórnarfundar FEB Selfossi.


Fyrsta mál. Fundargerð síðasta fundar lesin upp, hún staðfest.


Annað mál. Fjármál. Fyrirspurn Guðfinnu til Guðrúnar gjaldkera um fjárhagslega útkomu af heimsókn eldri borgara í Hafnarfirði síðastliðið vor. Gjaldkeri hefur ekki tekið endanlega saman en við fyrstu sýn sé hún jákvæð. Rætt um að nauðsynlegt sé að halda utan um kostnað vegna námskeiða þannig að hægt sé að stýra námskeiðsgjöldum að hvert námskeið standi undir sér.


Þriðja mál. Vetrarstarfið. Guðfinna upplýsti að grein um vetrastarf félagsins hafi átt að birtast í Dagskránni síðastliðinn miðvikudag en það hafi misfarist en muni koma í næsta blaði. Kynning mun fara fram í opnu húsi næstkomandi fimmtudag 12. september milli kl. 14 og 16. Formaður sagði frá yoganámskeiði sem ekki verði hægt að verðleggja fyrr en fyrir liggur um þátttöku eins og á við um önnur námskeið. Guðfinna lagði fram stundaskrá FEB veturinn 2019 og 2020. Þar er um að ræða þétta dagskrá og var efni og niðurröðun hennar rædd. Hugmyndir orðaðar um að reyna nýjungar eins og sem dæmi ráðningu krossgátna. Gunnar upplýsti að búið væri að festa tvo tíma í boccia í viku á þriðju- og fimmtudögum og ákveðið að hann kannaði að fá aðstöðu fyrir ringóæfingar ef næg þátttaka fæst og þær skarist ekki við bocciatíma. Gunnari falið að ræða við Heiðar Alexandersson um að stýra púttæfingum. Rætt um að kanna hvort FEB geti átt aðkomu að hinni kunnu morgungöngu nokkurra karlmanna á Selfossi. Gunnari og Gunnþóri falið að kanna málið. Kynning mun fara fram á notkun hjartastuðtækis og sjá sjúkraflutningamenn um það í opnu húsi. Anna Þóra kynnti hugmynd um að kanna hvað fólk vill helst í opnu húsi á fimmtudögum. Slíka könnun mætti gera til dæmis þann 26. september næstkomandi.

Fjórða mál. Útgáfa fréttabréfs og stundatöflu. Guðfinna ætlar að skrifa fréttabréf til framlagningar í Mörkinni og birtingar á heimasíðu. Þá mun hún koma stundaskránni á framfæri í Dagskránni.


Fimmta mál. Fastir viðburðir aðventufagnaður árshátíðir o.fl. Guðfinna varpaði fram hugmynd um hvort möguleiki væri á að nýta salinn í Mörkinni til slíkra viðburða. Tekið jákvætt í hugmyndina. Guðfinnu falið að koma hugmyndinni á framfæri við skemmtinefnd og aðra hagsmunaaðila. Stefnt á að vera með aðventufagnaðinn 12. desember í Mörkinni og ætlar Guðfinna að ræða við séra Harald Kristjánsson í Vík um að vera ræðumaður.

Sjötta mál. Afsláttarbæklingur og framtíð hans rædd. Stjórnin sammála um að leggja ekki í kostnað við útgáfu slíks bæklings en þess í stað nota þau tækifæri sem gefast, svo sem í opnu húsi, til að hvetja fólk til að spyrjast fyrir um eldri borgara afslátt í verslunum og þar sem þjónusta er keypt.


Sjöunda mál. Önnur mál.
a. Gunnþór lagði fram kynningu á viðburði sem er fyrirhuguð för kórs eldri borgara í Hafnarfirði í Hellisheiðarvirkjun 16. september næstkomandi og í framhaldi heimsókn í Hellinn í Hellisskógi þar sem fulltrúar Hörpukórsins hyggja á móttöku með smávægilegum veitingum sem yrðu á vegum Hörpukórsins. Auk þess er áhugi á að finna aðila til að segja frá Hellinum.
b. Guðfinna lagði fram tölvupósta frá fyrirtækjum sem gera eldri borgurum tilboð um gistingu og veitingar. Ákveðið að hengja tilboðin upp á töflu í Mörkinni. Einnig lagði hún fram tölvupóst frá Sigurði Kolbeinssyni um tilboð um að fá kynningu á starfsemi FEB á Selfossi á sjónvarpsstöðinni N4. Stjórnin sammála um að kaupa ekki slíka kynningu og Sigurður hefur verið upplýstur um það.
c. Guðfinna lagði fram til kynningar og fróðleiks yfirlit yfir nefndir Korpuúlfa, félag eldri borgara í Grafarvogi, þar sem greint er frá hlutverkum þeirra.
d. Guðfinna upplýsir um nokkur hagnýt atriði. Ákveðið hefur verið að tengja brennsluofn. Heimasíða á að vera tilbúin í þessum mánuði. Ábendingar hafa komið fram um slök hljómgæði og hljóðnema í Markarsalnum. Ákveðið að vinna í að koma þessum atriðum í lag og að félagið kaupi góðan hljóðnema ef þess er þörf. Bjartmar Pálmason hjá Veisluþjónustu Suðurlands og Hugrún Helgadóttir munu sjá um kaffiveitingar í opnu húsi og verða sína vikuna hvor og þurfa ekki aðstoð.
e. Fram kom að borðtölva félagsins er gömul og úr sér gengin. Guðrúnu falið að kaupa nýja fartölvu og viðeigandi búnað svo hægt sé að nýta hana í Markarsalnum við kynningar, söng og fleira.
f. Þorgrímur Óli ræddi frágang fundargerða. Ákveðið að senda uppkast í tölvutæku formi á stjórn og varastjórn til yfirlestrar og athugasemda. Fundargerð verði, að venju, lesin upp á næsta stjórnarfundi. Verði hún þar samþykkt er prentað út eitt eintak sem formaður og ritari undirritar. Frumrit lagt inn í fundargerðarbók og fundargerð birt á heimasíðu.
g. Næsti stjórnarfundur ákveðinn 1. október 2019, klukkan 10:00 í stjórnarherbergi í Grænumörk 5.

Fundi slitið klukkan 12:40

___________________________                                                                 ___________________________ 
Guðfinna Ólafsdóttir                                                                                     Þorgrímur Óli Sigurðsson
formaður                                                                                                     ritari