Fundargerð 10.5.2019

Fjórði fundur stjórnar FEB Selfossi haldinn föstudaginn 10. maí 2019 kl. 10:00 að Grænumörk 5, Selfossi.
Mætt: Guðfinna Ólafsdóttir formaður, Anna Þóra Einarsdóttir varaformaður, Guðrún Guðnadóttir gjaldkeri, Þorgrímur Óli Sigurðsson ritari, Gunnþór Gíslason meðstjórnandi og varamenn Guðrún Þóranna Jónsdóttir og Gunnar E. Þórðarson.
Formaður setti fund og bauð fundarmenn velkomna til fjórða stjórnarfundar FEB Selfossi.


Fyrsta mál. Fundargerð síðasta fundar lesin upp, hún staðfest.


Annað mál. Formaður greindi frá því að allt væri á rúi og stúi í nýju skrifstofunni og brýnt að koma skikki á hlutina. Koma þarf bókum fyrir þar sem þær mega vera. Stjórnin telur æskilegt að bækur félagsins verði aðgengilegar félagsmönnum. Formaður lagði til að þeir stjórnarmenn sem hafa möguleika á að koma næstu þriðjudaga klukkan tíu í tvær klukkustundir til að koma skipulagi á skrifstofuna.


Þriðja mál. Formaður upplýsti um afstöðu Guðlaugar Jónu Hilmarsdóttur deildarstjóra félagsþjónustu Árborgar um að ekki verði hægt að setja upp brennsluofn í Grænumörk 5 í fyrsta lagi vegna eldhættu og hins að ekki er til staðar þriggja fasa rafmagn. Hins vegar hefur komið fram að í húsinu er slík tenging. Málið er enn til umfjöllunar og niðurstaða liggur ekki fyrir.


Fjórða mál. Farið yfir heimsókn eldriborgara frá Hafnarfirði fimmtudaginn 16. maí n.k. Boðið verður upp á kaffiveitingar og skemmtiatriði sem Bjarni Harðarson og Hörpukórinn sjá um. Ákveðið að selja kaffiveitingar og skemmtiatriði á krónur 2500. Björn Gíslason og Kjartan Björnsson rakarameistarar ætla að fara til móts við rútur gestanna og uppfræða þá um sveitarfélagið Árborg. Að öðru leyti mun stjórnin skipta með sér verkum í þessum viðburði.


Fimmta mál. Formaður sagði frá að mikil ánægja hafi verið með handverkssýninguna á „Vor í Árborg“.


Sjötta mál. Greint frá því að allir peningar félagsins eru varslaðir í Arion banka á fimm reikningum. Guðrún Guðnadóttir skýrði stöðu hvers reiknings fyrir sig. Umræður áttu sér stað um að fækka reikningum og vera ekki með alla fjármuni í sama banka. Samþykkt að fela gjaldkera að ræða við aðra banka um hagstæð kjör varðandi vexti og verð á þjónustu.


Sjöunda mál. Ákveðið að greiða þeim sem hafa séð um kaffiveitingar í Mörkinni fast gjald frá og með síðustu áramótum, 2019. Formaður ræðir við þær konur, sem hafa séð um kaffið, um þetta atriði. Í haust munu utanaðkomandi aðilar sjá um veitingarnar.


Áttunda mál. Upplýst að kaffikannan sé komin í salinn í Mörkinni og að seljandi hafi bætt upp töfina með því að gefa aðra könnu.


Níunda mál. Guðfinna greindi frá því að endurnýja þurfi umsókn um hreyfistyrki. Í ljós hefur komið að styrkjum hafi verið hafnað. Guðfinna mun ganga frá umsókn.


Tíunda mál. Umræður um nauðsyn þess að kynna betur en raun er á þá þjónustu sem er í boði sveitarfélagsins. Ákvörðun tekin um að koma á kynningu á þessu með haustinu. Guðfinna mun ræða við bæjarstjóra um hvernig best gæti verið að standa að slíkri kynningu.


Ellefta mál. Sumarstarfið. Sumarferðirnar taka við af vetrarstarfinu og önnur skipulögð starfsemi ekki á vegum félagsins í sumar.


Tólfta mál. Önnur mál.
a. Samþykkt að senda Sveitarfélaginu Árborg áskorun um að fjölga bekkjum við göngustíga á Selfossi, einkum í austurhluta þar sem eldri íbúum hefur fjölgað, og staðsetja þá þannig að notendur geti notið sólar.
b. Samþykkt að senda matvöruverslunum á Selfossi áskorun um að bjóða upp á heimsendingu á vörum.
c. Gunnþór vakti athygli á að fjárstyrkur til Hörpukórsins fyrir 2019 hafi ekki borist. Gjaldkeri gengur í málið.
d. Til tals kom að kominn sé tími til að uppfæra lista yfir þau fyrirtæki og þjónustu sem boðið hefur eldri borgurum afslátt. Ákveðið að gera það í haust.
e. Formaður boðar til næsta fundar þriðjudaginn 13. ágúst 2019 klukkan 10:00 í Grænumörk.

Fundi slitið klukkan 12:30.

_____________________________                                                                    ___________________________
Guðfinna Ólafsdóttir                                                                                            Þorgrímur Óli Sigurðsson
formaður                                                                                                            ritari