Fundargerð 9.4.2019

Þriðji fundur stjórnar FEB Selfossi haldinn þriðjudaginn 9. apríl 2019 kl. 10:00 að Grænumörk 5, Selfossi.
Mætt: Guðfinna Ólafsdóttir formaður, Anna Þóra Einarsdóttir varaformaður, Guðrún Guðnadóttir gjaldkeri, Þorgrímur Óli Sigurðsson ritari, Gunnþór Gíslason meðstjórnandi og varamenn Guðrún Þóranna Jónsdóttir og Gunnar E. Þórðarson.
Formaður setti fund og bauð fundarmenn velkomna til þriðja stjórnarfundar FEB Selfossi.


Fyrsta mál. Formaður bauð velkominn gest fundarins, Guðlaugu Jónu Hilmarsdóttur, deildarstjóra hjá Árborg. Farið var yfir ýmiss atriði er varða húsnæðið í Grænumörk 5.
1. Komið hafa í ljós að aðkoma í nýja salinn frá Grænumörk er nokkuð vandræðaleg og flókin. Guðlaug sagði að Óðinn hjá eignaumsjón Árborgar væri kominn með málið til afgreiðslu og þetta verði lagað.
2. Athugasemdir hafa komið fram vegna tveggja lyfta í Mörkinni sem þykja opnar, óöruggar og ekki notendavænar. Að sögn Guðlaugar er verið að ganga frá samningum við söluaðila lyftanna um að tryggja öryggi þeirra og ábyrgð. Framkvæmd þessi hafi verið svona „dálítið eftiráverk“.
3. Fram hefur komið hugmynd um að koma upp leikfimirimlum í íþróttasalnum í Mörkinni. Guðlaug sagði að aldrei hafi verið talað um að þetta ætti að vera tækjasalur en verið meðal annars hugsaður til útleigu. Því hafi ekki verið gert ráð fyrir rimlum. Kom fram að óskað hafi verið eftir speglum. Þetta sagði hún mætti skoða. Þá greindi hún frá því að verið væri að vinna í að koma upp varúðarmerkingjum á glerveggi til að varna því að fólk gangi á glerið.
4. Guðlaug tók jákvætt í Bocciamerkingar á gólf í salnum en til þess verks verði að kalla til fagmenn og einnig lagði hún áherslu á að ef af verði þá verði settir upp skipulagðir Bocciatímar.
5. Guðlaug sagði að ítrekað hafi verið haft samband við Eirvík um kaup á kaffivél en þrátt fyrir loforð hafi engin kaffivél komið og ætlar hún að hamra enn og aftur á þessu við söluaðila.
6. Ætlast er til þess að uppþvottavél í eldra húsinu sé notuð og engin áform um annað þrátt fyrir óþægindi við að koma leirtaui þangað og langan þvottatíma uppþvottavélarinnar sem er í nýja salnum.
7. Guðlaug tók jákvætt í að fengin verði borðeyja ein eða tvær í salinn og hún muni hafa samráð við Guðfinnu um það. Þessu tengdu urðu nokkrar umræður um fyrirkomulag veitinga sem ekki leiddu til neinnar niðurstöðu.
8. Að sögn Guðlaugar er ekki ætlast til þess að starfsfólk hússins sé að sinna sérstaklega starfi sem tengt er félaginu eins og til dæmis kaffiuppáhellingum. Hver hópur á að sjá um sig varðandi það.
9. Varðandi afnot félagasmanna FEB af litla salnum sagði Guðlaug að greiða þurfi fyrir leigu salarins ef um er að ræða veislur og fundi ótengdum félagsstarfinu. Ekki þarf að greiða fyrir afnot ef það snýr að félagsstarfinu eins og til dæmis skipulegar söngæfingar, (dæmi Hörpukórinn) og annað. Varðandi fyrirspurn um greiðslu fyrir morgunkaffi sem sveitarfélagið hefur boðið uppá i Grænumörk 5 sagði Guðlaug að vegna mikillar fjölgunar íbúa í næsta nágrenni er ljóst að kostnaður verði nokkur hundruð þúsund krónur og er stefnt á að sveitarfélagið muni hætta að bera uppi kostnað af henni.


Annað mál. Ritari las upp fundargerð síðasta fundar. Samþykkt.


Þriðja mál. Þorgrímur Óli kynnti FEB ferðir sumarsins 2019. Það verða þrjár dagsferðir og ein hálfsdagsferð. Ferð 1, Krísuvík, Grindavík, Herdísarvík og Selvogur. Ferð 2, Búrfellsvirkjun, Flúðir og Sólheimar í Grímsnesi. Ferð 3, Mýrdalur og Samgöngusafn á Skógum. Ferð 4, Íslensk erfðagreining í Reykjavík.


Fjórða mál. Handverkssýning, skipulag veitingasölu. Rætt um að þeir stjórnarmenn, sem tök hafa á að koma að veitingasölunni, raði sér á daga. Guðfinnu var falið að kaupa fyrir félagið vönduð vöfflujárn og rjómasprautukönnur.


Fimmta mál. Skipulag heimsóknar eldri borgara úr Hafnarfirði 16. maí. Listi er kominn upp í Grænumörk á hann eiga þeir sem ætla að koma að skrá sig.


Sjötta mál. Guðfinna bar upp, til afgreiðslu, reikning frá fyrrverandi formanni vegna gjaldkerastarfa í forvöllum kjörins gjaldkera. Samþykkt að greiða laun tveggja mánaða jafnframt því að fyrrverandi gjaldkera verði greidd óskert laun sama tíma.


Sjöunda mál. Framtíðarsýn, fundur með þjóðfundarsniði. Rætt var um gagnsemi þess að koma á slíkum fundi með það að markmiði að fá fram hugmyndir til að ná til fólks inn í félagið og örva félagsstarfið öllum til gagns. Fram kom að of skammur tími sé til stefnu ef halda eigi slíkan fund í vor. Ákveðið að stefna á fund í haust og nota vorið og sumarið til að skipuleggja og finna fólk sem getur tekið þátt í að stjórna og vinna með hópum á fundinum. Hugmyndir, sem komu fram, um framtíðarsýn voru ræddar. Þar var meðal annars tilgreint: Matreiðslunámskeið, glerlist, ringo (líkist blaki nema í stað bolta eru notaðir tveir gúmmíhringir sem liðin kasta yfir net og reyna að koma í gólf andstæðings) og leirlist sem Ólöf Sæmundsdóttir leirlistakona getur mögulega tekið að sér.


Áttunda mál.  Önnur mál.
a. Stjórnin samþykkir að tilnefna Guðrúnu Þórunnu Jónsdóttur sem fulltrúa FEB í öldungaráð.
b. Komið hefur í ljós varðandi bókanir í síðustu fundargerð, undir liðnum önnur mál lið d og g, hafi byggst á misskilningi og það sem þar kom fram verður ekki að veruleika.
c. Næsti fundur ákveðinn 10. maí 2019 klukkan 10:00.
Fundi slitið klukkan 12:38.

_____________________________                                                                  ___________________________
Guðfinna Ólafsdóttir                                                                                          Þorgrímur Óli Sigurðsson
formaður                                                                                                          ritari