Aðalfundur Félags Eldri Borgara á Selfossi 22.02.24

. Published on .

 

AÐALFUNDUR FÉLAGS ELDRI BORGARA Á SELFOSSI 22.02.24

FUNDARGERÐ

 1. Fundarsetning

Formaður félagsins setti fund og bauð alla velkomna. Hann lagði til að Jóna S. Sigurbjartsdóttir yrði fundarstjóri og Örlygur Karlsson og Margrét Jónsdóttir yrðu ritarar. Var það samþykkt. Bauð formaður fundarstjóra og ritara velkomna til starfa.

Jóna S. Sigurbjartsdóttir tók við fundarstjórn og þakkaði traustið. Fór síðan í gegnum dagskrá fundarins;

 • Skýrsla stjórnar
 • Reikningar félagsins
 • Umræður um skýrslu stjórna og reikninga félagsins.
 • Skýrslur nefnda FebSel
 • Lagabreytingar
 • Kosningar
 • Önnur mál.

 

Fundarstjóri hóf dagskrá og boðaði formann félagsins Magnús J. Magnússon í pontu til að flytja skýrslu stjórnar.

 

 1. Ársskýrsla Félags eldri borgara Selfossi fyrir starfsárið 2023 - 2024.

Það starfsár sem nú er að kveðja hefur verið öflugt á margan hátt. Þrátt fyrir verulegar skerðingar vegna fjárhagsstöðu Árborgar hefur starfsemin verið verulega öflug og mikil og góð þátttaka á öllum sviðum félagsstarfsins. Ég vil einnig senda félagi eldri borgara í Grindavík baráttukveðjur. Þeir eru alltaf velkomnir til okkar.

Í árslok 2023 voru félagsmenn  961 og eru því 65 fleiri en í árslok 2022.  Árið 2023 skráðu sig 98 nýir félagar í félagið, 16 sögðu sig úr því og 17 létust á árinu.  Ég bið ykkur um að minnast þeirra með því að rísa úr sætum. .

Stjórnin 2023 – 2024

Stjórnina skipuðu: Magnús J. Magnússon, formaður, Ólafía Ingólfsdóttir varaformaður. Guðrún Guðnadóttir gjaldkeri, Guðrún Þórarna Jónsdóttir ritari, Ólafur Bachmann meðstjórnandi, Ólafur Sigurðsson og Valdimar Bragason í varastjórn.

Stjórnarfundir

Stjórnarfundir hafa verið 17 á starfsárinu. Gerð var sú breyting að hafa tvo stjórnarfundi í mánuði og var það þannig frá hausti. Teljum við að með því hafi afgreiðsla mála verið skilvirkari og stjórnin alltaf í góðum takti við félagið og getað gripið inn í ef eitthvað kom  upp á. Til okkar á stjórnarfundi hafa komið aðilar úr stjórnkerfinu til umræðu við okkur og er það gott að snertiflötur félagsins við stjórnkerfið sé góður.  Ég vil þakka stjórnarmönnum fyrir gott samstarf svo og öllum þeim starfsmönnum Árborgar sem hafa unnið með okkur á liðnu starfsári.

Félagsstarf

Félagsstarf hefur veið afar öflugt sl. starfsár. Það eru rúmlega 30 mismunandi atriði í boði í vikulegri dagskrá sem er verulega öflugt starf. Um er að ræða hannyrðahópa, spilahópa, hreyfihópa, sönghópa, leikhópa, myndlistarhópa, keramik og postulínshópa og venjulega kaffihópa. Svo ekki sé minnst á hin öflugu Opnu Hús og vinnu kvenfelagsins við kaffiveitingarnar. Einnig öflugar myndlistasýningar og ljósmyndasýningar. Mikil þátttaka var á 17. júni  skemmtun sem haldin var hér í Grænumörkinni. Og árshátíðin í nóvember og aðventuhátíðin í desember tókust afar vel og mikill fjöldi sótti þessar hátíðar. Á bak við þetta öfluga starf eru milli 30 – 40 manns í nefndum og sem leiðbeinendur. Einnig vil ég þakka þeim nefndarmönnum og námskeiðshöldurum sem hafa hætt hjá okkur og legg ég til að við klöppum fyrir þessu öfluga fólki. Án þeirra væri þetta ekki mögulegt. Ég vil einnig senda sérstakar þakkir til Berglindar Elíasdóttur fyrir afar óeigingjarnt starf í þágu hreyfingar í Lindexhöllinni. Hreyfihóparnir þökkuðu henni sérstaklega þegar hún hætti 13. febrúar. Góð þátttaka hefur veið í hádegismatnum hér í Grænumörkinni. Þó urðu breytingar þegar Veisluþjónustan hætti með  matinn um áramótin og nýir aðilar tóku við keflinu. Við slík skipti verða alltaf einhverjar breytingar og við verðum að gefa öllum breytingum tíma.

Stefnt er að því að taka í notkun skráningakerfi sem heitir „Sportabler“ og var hannað til að auðvelda skipulag íþrótta- og tómstundastarf.  Góða reynsla er af þessu þar sem það hefur verið tekið í notkun..  Kerfið einfaldar skipulag og samskipti.  Í því er hægt að skrá sig í sumarferðirnar, leikhúsferðirnar, á námskeið og aðra viðburði og greiða samtímis.  Sveitarfélagið hefur lýst vilja til að skoða þetta mál með okkur og aðstoða við að koma því á, það er að segja ef ákvörðun verður tekin um að nota kerfið. Höfum fengið vilyrði um aðstoð við þetta frá bæjaryfirvöldum.

Öldungaráð

Skipun og starfsemi öldungarráða eru bundin í lögum. Skipa skal öldungaráð. Í því sitja aðilar úr stjórnkerfi sveitarfélagsins og fulltrúar eldri borgara í sveitarfélaginu. Í öldungarráði Árborgar sitja fyrir hönd sveitarfélagsins Bragi Bjarnason, formaður, Þórhildur Dröfn Ingvadóttir og Ellý Tómasdóttir. Fyrir Hsu er það Margrét Björk Ólafsdóttir og fyrir Eldri borgara félögin eru það Örn Grétarsson, Selfossi, Jón Gunnar Gíslason, Eyrarbakka og Ragnhildur Jónsdóttir á Stokkseyri. Starfsmaður ráðsins er Sigþrúður Birta Jónsdóttir og fyrir eldri borgar í Árborg. Frá 2022 hefur Öldungaráðið haldið 5 fundi sem er afar jákvætt. Unnið er að því að fjölga fulltrúum frá FebSel þar sem fjöldi félaga eykst stöðugt. Reiknað er með að Öldungaráð komi hér á opið hús fimmtudaginn  4. apríl.

Landsfundur í Borgarnesi

Landsamband Eldri Borgara hélt sinn aðalfund í Borgarnesi sl. vor. Þangað fórum við frá félögum eldri borgara í Árborg. Fundurinn var góður og má segja að aðalniðurstaða hans hafi verið að berjast gegn þeim skerðingum sem eldri borgarar verða fyrir í kerfinu. Einnig var þar ákveðið að halda stóran fund í Reykjavík til að vekja athygli á kjörum eldri borgara. Sá fundur var haldinn í haust og tókst afar vel og og var góð innspýting í umræðuna. Næsti aðalfundur verður 14. maí í Reykjavík.

Breytingar á starfi í Félagsmiðstöðinni í Grænumörk 5

Breytingar voru gerðar á starfsmannahaldi í Grænumörkinni í haust. Viðvera starsmanna var stytt og nú er Grænumörkinni lokað kl. 16.00 alla virka  daga nema föstudaga þá er það 15.30. Þetta var gert vegna fjárhagsstöðu bæjarfélagsins og olli nokkrum umræðum um starfsemina. Benda má á að Grænamörkin er félagsmiðstöð og þetta er hefðbundinn opnunartími  þeirra félagsmiðstöðva sem ég þekki til. Ef félagið þarf lengri tíma þá er hann veittur en það er þá á ábyrgð félagsins og enginn starfsmaður þá á svæðinu. Þessi breyting hefur gengið nokkurð vel.

Félag Eldri Borgara á Selfossi                                                                        Markmið félagsins samkvæmt gildandi lögum þess eru fjögur:  Í fyrsta lagi að vekja athygli og auka skilning almennings, ríkis og sveitarfélaga á þörfum eldri borgara.  Í öðru lagi að stuðla að aukinni þjónustu. Í þriðja lagi að skipuleggja tómstunda- og félagsstarf meðal eldri borgara. Og í fjórða lagi að vinna að öðrum þeim málum, sem til hagsbóta teljast fyrir eldri borgara. 

Að öllum þessum markmiðum er unnið alla daga ársins í gegnum öldungaráð og í samtölum við ráðamenn og með ályktunum til sveitarfélaga. Kynnt hafa verið helstu áhersluatriði eldra fólks eins og  til dæmis mikilvægi þess að skipuleggja svæði með fjölbreyttum búsetuúrræðum, aukinni heilsuþjónustu heim og að festa öldungaráð í sessi svo það þjóni þeim tilgangi sem því er ætlað. Einnig að halda vakandi  þeim möguleika að útbúa rými hér í Grænumörk 5 fyrir t.d. nudd, sjúkra- eða iðjuþjálfun.  Þessu hefur verið komið á framfæri við fulltrúa félagsþjónustunnar. Ég tel að skipulag tómstunda- og félagsstarf meðal eldri borgara sé í góðu lagi og hefur vakið athygli víða..  Einnig er unnið aö aðgengis- og umferðarmálum sem oft koma upp þannig að félagið þarf að kalla eftir aðgerðum sveitarfélagsins.  Við höfum sent áskoranir um að bæta lýsingu við gangbrautir og óskað eftir fleiri bekkjum við göngustíga og það hefur verið gert og ýmislegt fleira.  Til viðbótar má nefna snjómokstur, umhverfismál, heilsufarsmál og ýmis erindi sem félagsfólk leitar með til stjórnarinnar sem gerir það sem hægt er til lausnar. 

Kjaramál

Kjaramál eldra fólks hafa verið í umræðunni og hefur heldur hallað á þann hóp miðað við aðra sem semja sjálf um sín laun og kjör.  Stjórn Félags eldri borgara á Selfossi hefur tekið undir ályktanir og áskoranir sem bornar hafa verið upp á vettvangi Landssambands eldri borgara.  Leitað var til helstu samtaka launþega um að eiga samráð við fulltrúa Landssambandsins við gerð kjarasamninga með það að markmiði að koma því til leiðar og tryggja að lágmarkslífeyrir verði aldrei lægri en lágmarkslaun.  Í kjarasamningum, sem þegar hafa verið gerðir, er aðkoma eftirlaunaþega ekki sýnileg, þrátt fyrir velvilja fulltrúa stóru stéttarfélaganna um að taka inn í samningaviðræðurnar bætt eftirlaun eldra fólks. Verkalýðshreyfingunni var bent  á það að allir félagar þeirra í dag verða ellilífeyrisþegar á einhverjum tímapunkti. Til að efla samvinnu félaganna á Suðurlandi var boðað til formannafundar í janúar og voru 12 af 13 formönnum félaganna á Suðurlandi á fundinum. Þar voru einnig Helgi Pétursson, formaður LEB og Þorbjörn Guðmundsson formaður kjaranefndar LEB. Þetta var góður fundur og líklega verður boðað til annars fundar í maí og reynt að fá þingmenn suðurlands á fundinn.

Í gildi er samningur milli Sveitarfélagsins Árborgar og Félags eldri borgara á Selfossi sem hefur verið í gildi frá 1. janúar 2014.  Meginefni hans er að félagið sjái um skipulag og framkvæmd tómstundastarfs fyrir eldri borgara á Selfossi.  Félagið fær greiðslu fyrir og afnot af húsnæði.  Ýmislegt hefur breyst frá þessum tíma, húsnæði hefur stækkað og umfang félagsins vaxið. Nú er unnið að því að uppfæra þennan samning þannig að hann þjóni núverandi þörfum félagsins og vonumst við til þess að þeirri vinnu verði lokið fyrir sumarleyfi í vor.

LOKAORÐ

Öflugu starfsári á milli aðalfunda er lokið. Fyrir hönd stjórnarinnar vil ég þakka ykkur öllum fyrir gott ár og veit að framtíðin er björt. Þó vil ég benda á að félög mega aldrei staðna. Við verðum að vera vakandi fyrir nýjum áskorunum og þora að breyta hlutum og bæta við nýjum þáttum í starfsemina. Við verðum að gera félagið spennandi fyrir alla aldurshópa eldri borgara. Við vitum að aldursbilið getur verið allt að 35 – 40 ár í félaginu þó svo að ríkjandi aldur í félaginu sé á bilinu 70 – 85 ára.  Við verðum að leita leiða til að yngri heldri borgarar komi á dagskrá hjá okkur og hjálpi okkur að efla starfið. Við verðum að efla tengsl á millI félaga eldri borgara, efla samræðuna og allar tengingar. Ég veit að okkur tekst þetta og er bjartsýnn á framtíðina.

Takk fyrir

 

Fundarstjóri þakkaði fyrir og boðaði að umræður yrðu að loknum reikningum félagsins.

 

 

 

 

 1. Ársreikningar félagsins.

Guðrún Guðnadóttir gjaldkeri las og skýrði reikningana. Fór hún í gegnum reikningna og þetta eru helstu niðurstöðutölur.

Tekjur                              7.529.564

Gjöld                              6.897.763

          Rekstrarhagnaður              631.801

          Eignir                             7.212.113

          Skuldir                              170.996

Fundarstjóri þakkaði fyrir og opnaði fyrir umræður um skýrslu stjórnar og reikninga félagsins.

Engar athugasemdir voru við árskýrslu formans.  Samþykkt samhljóða.

Fundarstjóri lokaði umræðum um skýrslu stjórnar og reikninga og bar reikninga félagsins upp til samþykktar.

 

 1. Skýrslur nefnda.

Þá var komið að skýrslum nefnda. Þær voru bæði fluttar af nefndarmönnum eða formanni. Farið var fram á skýran og stuttorðan stíl.

 

Fornbókmenntir                        Guðmundur Guðmundsson

Leiklestrarnefnd                       Magnús J. Magnússon

Leikhúsnefnd                           Jóna S. Sigurbjartsdóttir

Ferðanefnd                               Ingibjörg Stefánsdóttir

Félagsvistarnefnd                     Kristín Stefánsdóttir

Viðburðarstjórn                        Ólafur Sigurðsson

Öndvegisbókmenntir                Guðrún Þ Jónsdóttir

Árshátíð og Aðventuhátíð         Ólafur Bachmann

Hörpukórinn                            Rúnar Hjaltason

 

Fornbókmenntahópur FEB Selfossi – Ársskýrsla 2023

Umsjónarmenn með fornsögulestrinum á árinu voru Guðmundur Guðmundsson, Guðmundur Stefánsson og Hannes Stefánsson.

Þátttakendur í hópnum voru á bilinu 40 – 60 bæði á vor- og haustönn 2023.

Á vorönn var haldið áfram og lokið við lestur á Njáls sögu sem hófst 2019 en gera þurfti tvö löng hlé á lestrinum vegna Covid 19.  Einn gestur kom til okkar, Guðni Ágústsson og ræddi um konurnar í Njálu o.fl.

Að lestri Njáls sögu loknum voru lesin Holta-Þóris saga og Orms þáttur Stórólfssonar, sem gerast í Rangárþingi, og Gunnars saga Keldunúpsfífls og Svínfellinga saga (úr Sturlungu), sem gerast í Skaftafellssýslu.

Vorönn lauk með tveggja daga ferð fornbókmenntahópsins, 24. og 25. apríl, um söguslóðir þessara sagna allt austur í Öræfi. Þátttakendur voru um 45 og tókst ferðin með ágætum.

Í september tók hópurinn til við lestur og umfjöllun á þremur Íslendingasögum úr Eyjafirði og Þingeyjarsýslu, þ.e. Reykdæla sögu og Víga-Skútu, Víga-Glúms sögu og Ljósvetninga sögu. Á haustönninni var lokið við Reykdælu og byrjað á Glúmu.

Leiklestrarnefnd

Fyrir honum fara Magnús J. Magnússon og Sigríður Karlsdóttir. Leiklestrarhópurinn „Leikhópurinn okkar“ inniheldur 16 öfluga félagsmenn. Þessi hópur hefur í grunninn verið með síðan haustið 2021. Veturinn 2023 – 2024 var leiklesturinn á mánudögum frá kl. 13.30 til 14.30. Vinnufyrirkomulag var svipað. Léklásum atriði á Opnu Húsi í maí og var því vel tekið. Við vissum að það voru hugmyndir um að fá okkur til að koma fram á árshátið félagsins og aðventukvöldi sem við og gerðum.  Á árshátíð félagsins sýndum við léttan og stuttan einþáttung sem var í formi umræðuþáttar öllum til skemmtunar og á aðventuhátíðinni lásum við upp Jólasveinavísur með tilþrifum.  Þetta er öflugur hópur og verkefni vorsins eru í umræðu.

Leikhúsnefndar.

Leikhúsnefnd skipa: Jóna S. Sigurbjartsdóttir, Guðfinna Ólafsdóttir, María Busk og Nanna Þorláksdóttir.

Þessi nefnd hefur starfað frá síðasta aðalfundi, en á vorönn voru í nefndinni auk Jónu, Sigríður Jóhanna Guðmundsdóttir, sem gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu eftir mörg ár í leikhúsnefnd, og færum við henni bestu þakkir fyrir hennar störf og Magnús J. Magnússon sem hvarf til formannsstarfa.

Á vorönn var  farið að sjá Mátulegir í Borgarleikhúsinu og boðið upp á ferð á Svartfugl sem ekki náðist þátttaka  í og endað í Árnesi að sjá leikritið Vitleysingarnir, sú ferð var farin í samstarfi við Lionsmenn.

Í október og desember var farið á Delerium Búbónis, sem sagt tvær ferðir. Boðið var upp á tvær áhugaleiksýningar,  Litlu Hryllingsbúðina í Hveragerði og Maður í mislitum sokkum sem sýnt var hjá Eyfellingum, en ekki náðist næg þátttaka á þær sýningar. Í janúar fórum við á Vínartónleika í Hörpu. Við fengum 52 miða og 51 fór. Á síðasta ári fengum við 100 miða en aðeins 70 mættu þegar upp var staðið. Þess vegna voru miðanir færri í ár. Því miður fór þessu ferð framhjá mörgum, og getum við lítið gert annað en beðist  afsökunar á því og reynt að bæta okkur. Þessi ferð var auglýst á opnu húsi og þátttökulisti  var í möppunni frammi, aðeins spurning hvort fólk man eftir að kíkja í möppuna. Nú stendur fyrir dyrum að fara að sjá 9 líf,  Bubba sýninguna í Borgarleikhúsinu 2. júní við eigum frátekna 15. Miða, og möguleiki á að fá fleiri ef þörf verður á. En til að fá hópafslátt, þarf helst 15, þó oft sé gerð undanþága fyrir 10. Þátttökulisti er frammi í möppu. Og þeir sem voru búnir að skrá að þeir hefðu áhuga, verða að skrá sig aftur núna þegar dagsetning liggur fyrir. Ferð á þessa sýningu var frestað á  sínum tíma vegna covid.

Ferðanefndar FebSel 2023

Fyrsta ferð sumarsins var farin 27. júní. Ekinn var hringur um Flóann með viðkomu á merkum stöðum og sagðar sögur af mönnum og málefnum. Farin var svonefnd Ásgrímsleið með leiðsögn Hannesar Stefánssonar frá Arabæ.  Hádegisverður var snæddur í  Hótel Vatnsholti.  Slagveðursrigning var þennan dag en 39 þátttakendur létu það ekki á sig fá . Þess má geta að rafmagnsrúta frá Guðmundi Tyrfingssyni var í sinni fyrstu ferð og höfðu ferðafélagar gaman að því.

Önnur ferð sumarsins var farin 18. júlí um Ölfusið í blíðskaparveðri, sól og hlýjum vindi.   Leiðsögumaður var Sigurveig Helgadóttir frá Núpum í Ölfusi og fræddi hún hópinn um markverða staði í Ölfusi.   Hádegisverður var snæddur í Hótel "Frosti og funa" við Varmá. Síðan var móttaka í Kjörís  þar sem við fengum  kynningu á starfsemi fyrirtækisins af Valdimari Hafsteinssyni. Kynningin fór fram utandyra og á meðan var öllum boðið upp á ís sem var kærkomin næring í sólarblíðunni. Þátttakendur voru 45.

"Einu sinni á ágústkvöldi 22. ágúst". Sú nýbreytni í starfi ferðanefndar FebSel á nýliðnu ári  var að bjóða upp á útilegu með það að markmiði að ná til fleiri yngri félagsmanna. Ferðanefndin  gerði víðreist um Suðurland og kannaði tjaldsvæði sem myndi henta til slíkrar samveru. Eftir ýtarlega könnun varð Árnes í Gnúpverjahreppi fyrir valinu. Þátttaka félagsmanna var frábær og sannaði að þörf var á svona nýbreytni því alls  gistu milli 40 og 50 manns í hýsum sínum á tjaldsvæðinu og um 15 manns bættust í hópinn um kvöldið. Í Árnesi var pantaður kvöldverður fyrir hópinn. Undir borðhaldi fóru Magnús Magnússon formaður og Unnur Halldórsdóttir með gamanmál og á eftir var stiginn dans við undirleik Helga Hermannssonar og Ólafs Bachmann (Óla Bach). Veðrið þessa daga var einstaklega hlýtt og nutu félagar samverunnar út í ystu æsar. "Einu sinni á ágústkvöldi" er komið til að vera!

Síðasta ferðin á árinu 2023  var  boðsferð Guðmundar Tyrfingssonar sem farin var 13. september og að þessu sinni í Guðmundarlund í Kópavogi. 

Kristinn Björnsson forstöðumaður lundarins flutti  ýtarlega kynningu á tilurð hans en "Guðmundarlundur"er skógræktarreitur um 6,5 hektarar og  kenndur við Guðmund H. Jónsson stofnanda og forstjóra  BYKO.  Reiturinn var afhentur Skógræktarfélagi Kópavogs árið 1997

Síðan var haldið í Hótel Kríunes sem stendur við Elliðavatn þar sem beið hópsins kaffihlaðborð. Þátttakendur voru 64.

Gaman er að gera sér glaðan dag með ferðafélögum úr FebSel og hvetjum við félaga til þess að taka þátt í ferðum þess.

Hlökkum til að ferðast með ykkur sumarið 2024.

Ferðanefnd FebSel 2023;

Helgi Hermannsson, Ingibjörg Stefánsdóttir ogVigdís Helga Guðmundsdóttir.                                                       Félagsvistarnefnd

Umsjón hafa Kristín Stefánsdóttir, Hjördís Þorsteinsdóttir, Sæmundur Friðriksson og Hafdís Gunnarsdóttir. Mæting hefur verið með miklum ágætum Oft hefur verið spilað á fleiri en 10 borðum. Sæmundur og Hafdís stóðu fyrir því að spilað var allt síðasta sumar við mikla ánægju þátttakenda. Einhverjar mannabreytingar verða fyrir næsta ár en það kemur seinna í ljós.

Viðburðastjórn 2023 – 2024

Hlutverk Viðburðarstjórnar er að undirbúa dagskrá fyrir opið hús í Grænumörk flesta fimmtudaga yfir vetrartímann.Í Viðburðarstjórn þetta starfsár hafa þessir lagt sitt af mörkum: Anna Þóra, Guðfinna, Óli, Unnur, Páll, Jónbjörg, Guðrún og Ísleifur. Sumir lengur og aðrir skemur.

Frá aðalfundi félagsins í febrúar og fram í maí voru 9 Opin hús. Sigrún Magnúsdóttir, Páll Skúlason og Theodór Francis fluttu skemmtileg og fróðleg erindi, Óli og Helgi skemmtu með söng, sömuleiðis söngnemar úr Tónlistarskólanum og Unglingakór Kirkjunnar og leiklistarhópur félagsins sló í gegn.

Vetrarstarfið hófst 28. september með kynningu á dagskránni. Síðan þá hafa verið 15 Opin hús með fróðleik og skemmtan. Sveinn Runólfsson og Páll Halldórsson sögðu frá landgræðsluflugi, Tómas Jónsson sýndi myndir, við fræddumst um Minnistækni, starfsemi Sigurhæða og Leikfélags Selfoss. Sr. Ása Björk sagði frá ýmsu og Sigþrúður og Bragi frá Árborg upplýstu um þjónustu við eldri borgara. Einnig var handverksmarkaður og á litlu jólunum í desember var lesið úr nýjum bókum.

Eftir áramót kynnti Myndlistarfélagið starfsemi sína, Óli Sig sagði frá Mjólkurbúshverfinu í máli og myndum, sýnd var heimildarmynd um starfsemi félags eldri borgara á Selfossi og sagt frá fuglum í Hellisskógi. Hundalíf í Bretlandi og fyrirlestur um ættfræðigrúsk féll lika í góðan jarðveg.

Að meðaltali hafa milli 70 – 90 heldriborgarar mætt þó svo að stundum mæti 90 til 115 manns, einkum ef fjallað er um eitthvað sem tengist heimahögum.

Kvenfélag Selfoss annast veitingarnar af miklum myndarskap og smám saman er aðstaðan að batna, t.d komnar fleiri kaffikönnur.

Fram á vorið eru skipulögð níu Opin hús með fjölbreyttu efni. Síðasta opna húsið verður 16. maí.

Öndvegisbókaklúbbur

Sigríður Guðmundsdóttir og Jóna S. Sigurbjartsdóttir höfðu umsjón á vorönn 2023. Lesnar þrjár bækur eftir Ragnar Jónasson. Bækurnar voru í seríu og tengdust allar Siglufirði, það voru  Snjóblinda, Myrknætti og Rof. Í lok maí fór hópurinn til Siglufjarðar og gisti þar tvær nætur. Það var skemmtileg ferð og hátt í 50 manns sem fóru í ferðina.

Haustið 2023 tóku við umsjón með öndvegisbókalestrinum: Guðrún Þóranna Jónsdóttir, Jóna S. Sigurbjartsdóttir og Svala Halldórsdóttir. Bók Steinunnar Jóhannesdóttur Reisubók Guðríðar Símonardóttur var valin til lestrar. Hátt í 80 manns skráðu sig í hópinn í haust en aðeins hefur kvarnast úr hópnum. Það eru yfirleitt á milli 50 og 60 sem mæta á miðvikudögum í lesturinn. Steinunn hefur fallist á að koma til okkar eftir páska og segja okkur frá þessu mikla verkefni sínu og hlökkum við til að hlusta á hana. Í maí verður farið til Vestmannaeyja og slóðir Guðríðar kannaðar þar.                                                                                           Árshátíðar- og aðventuhátíðarnefnd

Árshátíðn var haldi 9. nóvember í Hótel Selfoss. Um 190 voru mættir og góð stemming. Gísli Einarsson skemmti og Hörpukórinn söng og Leikhópurinn Okkar var með atriði. Maturinn frábær.

Aðventuhátíðin var 7. desember og var mæting mjög góð. Hörpukórinn söng og prestur flutti góða hugvekju og Leikhópurinn Okkar fór með sígilt jólaatriði.

Hörpukórinn

Félagar kórsins eru u.þ.b 50 talsins. Söngstjóri kórsins er Stefán Þorleifsson og formaður Rúnar Hjaltason. Æfingar eru einu sinni í viku, á miðvikudögum. Vetrarstarfið byrjar fyrsta miðvikudag í október og lýkur í kringum miðjan maí. Fimm kórar á Suðvesturlandi hafa staðið fyrir kóramóti á hverju ári og skiptast kórarnir á að sjá um það. Hörpukórinn sá um mótið í ár. Kórinn hefur séð um söng á eldri borgara messu sem er á uppstigningardegi ár hvert. Vortónleikar voru haldnir í maí. Kórinn syngur á árshátíð og aðventuhátíð félagsins. Jólasöngvar voru sungnir á Ljósheimum og Fossheimum í desember. Einnig á Sólheimum í Grímsnesi. Söngur féll niður á Móbergi og Sólvöllum á Eyrarbakka vegna veikinda.

Fundarstjóri þakkaði fyrir góðar skýrslur.

 

 1. Lagabreytingar

Komið var að lagabreytingum. Guðmundur Guðmundsson fór í gegnum þann pakka.

 1. grein. Markmið Tilgangur.

Markmið Tilgangur félagsins er að vinna að velferðarmálum eldra fólks með því að: 

 1. Vekja athygli og auka skilning almennings, ríkis og sveitafélags á þörfum eldri borgara.
 2. Stuðla að aukinni þjónustu fyrir eldri borgara.
 3. Skipuleggja tómstunda- og félagsstarf meðal eldri borgara.
 4. Vinna að öðrum þeim málum, sem til hagsbóta teljast fyrir eldri borgara.
 5. grein.   Félagsaðild.

Almenn Félagsaðild miðast við 60 ára aldur. Einstaklingar, félög, stofnanir og fyrirtæki, geta orðið styrktaraðilar. 

 1. grein. Skipan stjórnar og verkefni.

Stjórn félagsins skipa fimm aðalmenn: Formaður, varaformaður, gjaldkeri, ritari, meðstjórnandi. Auk þeirra eru tveir varamenn. Kjörtímabilið er tvö ár. Samfelld stjórnarseta skal vera að hámarki þrjú kjörtímabil. Formaður og gjaldkeri eru kosnir sérstaklega sitt hvort árið, tveir aðalmenn eru kosnir annað árið en einn aðalmaður hitt árið. Varamennirnir tveir eru kosnir til skiptis annað hvert ár og skulu vera boðaðir á alla stjórnarfundi. Stjórnin skiptir með sér verkum að loknum aðalfundi hverju sinni. Formaður er forsvarsmaður félagsins. Hann stjórnar fundum stýrir stjórnarfundum. Gjaldkeri annast almennar fjárreiður félagsins í umboði stjórnar, skv. almennum reglum þar að lútandi. Ritari heldur gerðabók félagsins og skráir þar ákvarðanir og ályktanir funda.  

  

 1. grein. Kjörnefnd

Á aðalfundi skal kjósa þriggja manna kjörnefnd. Kjörtímabil nefndarmanna er þrjú ár og skal kjósa um einn nefndarmann árlega. samkvæmt reglum félagsins umskipan fastanefnda félagsins. Kjörnefnd gerir tillögur um stjórnarmenn, varamenn í stjórn og skoðunarmenn sem kjósa á um á næsta aðalfundi. 

 

 1. grein. Aðalfundur.

Aðalfund skal halda fyrir febrúarlok ár hvert. Boða skal til aðalfundar með minnst viku tveggja vikna fyrirvara í samfélagsmiðlum, í héraðsblaði eða útvarpi og í þjónustumiðstöðinni. Verkefni aðalfundar eru: 

 1. Skýrsla stjórnar fyrir síðastliðið ár.
 2. Endurskoðaðir ársreikningar kynntir og bornir upp til samþykktar.
 3. Lagabreytingar (ef fram koma).
 4. Árgjöld félagsmanna ákveðin.
 5. Kjósa skal eftirfarandi:
 6. Þann hluta stjórnar og varastjórnar sem setið hefur í tvö ár,
 7. Tvo skoðunarmenn ársreikninga, til tveggja ára og skulu þeir kosnir sitt hvort árið. 
 8. Fulltrúa í kjörnefnd sbr. 6. grein
 9. Fulltrúa og varafulltrúa á landsfund Landssambands eldri borgara auk formanns sem er sjálfkjörinn. Fjöldi þeirra er samkvæmt lögum LEB hverju sinni.
 10. Önnur mál.

 

 1. grein.  Atkvæðavægi og lagabreytingar.

Á stjórnar- og félagsfundum ræður einfaldur meirihluti atkvæða. Til lagabreytinga þarf þó 2/3 hluta atkvæða.  

Tillögur  um breytingar á lögum félagsins skulu hafa borist stjórn félagsins með eins mánaðar fyrirvara fyrir aðalfund og skulu þær kynntar Tilllaga um lagabreytingar skal tilkynnt í fundarboði aðalfundar.  

 

Fundarstjóri gaf orðið laust um tillögurnar, ekki komu  athugasemdir við þær.  Voru þær lagðar fyrir í einu lagi og samþykktar einróma (sjá lög í fylgiskjali). Fundarstjóri þakkaði góða vinnu við lagabreytingarnar.

 1. Tillaga um árgjald félagsins Guðrún Guðnadóttir lagði fram tillögu frá

stjórn um að árgjald félagsins verði óbreytt frá fyrra ári, 4.000 kr. Var það samþykkt einróma.

 

 

 

 1. Kosningar

Skýrsla kjörnefndar FebSel 2024

Nefndina skipa: Guðfinna Ólafsdóttir, Helga Guðrún Guðmundsdóttir og Gísli Geirsson.

Guðrún Guðnadóttir, gjaldkeri hefur setið 3 kjörtímabil og gengur því úr stjórn. Ólafía Ingólfsdóttir meðstjórnandi hefur lokið kjörtímabili sínu og gefur kost á sér áfram.

Ólafur Sigurðsson gefur kost á sér áfram sem varamaður í stjórn til 2ja ára Kjósa þarf skoðunarmenn reikninga sem voru kosnir til eins árs á síðasta aðalfundi. Kristín Þórarinsdóttir gefur ekki kost á sér áfram. Alda Alfreðsdóttir gefur kost á sér til eins árs, Svanhvít Ásta Jósefsdóttir, gefur kost á sér til 2ja ára.

Kosningar:

 1. a) Gjaldkeri.

Kjörnefnd gerir tillögu um Elínu Jónsdóttur sem gjaldkera, aðrar tillögur komu ekki fram. Var hún því sjálfkjörin.

 1. Einn meðstjórnandi til tveggja ára.

Kjörnefnd gerir tillögu um Ólafíu Ingólfsdóttur. Fleiri tillögur komu ekki fram og var hún sjálfkjörin.

 1. Einn varamaður til tveggja ára.

Kjörnefnd gerir tillögu um Ólaf Sigurðsson. Aðrar tillögur komu ekki fram og var hann sjálfkjörin.

 1. d) Skoðunarmenn reikninga. Kristín Þórarinsdóttir gaf ekki kost á sér áfram. Alda Alfreðsdóttir var kosin til eins árs og Svanhvít Ásta Jósefsdóttir var kosin til tveggja ára.
 2. e) Kjörnefnd

Guðfinna gaf ekki kost á sér áfram. Formaður lagði fram tillögu um Elsu Helgu Sveinsdóttur í kjörnefnd til þriggja ára og var hún samþykkt samhljóða. Aðrir í kjörnefnd eru Gísli Geirsson og Helga Guðrún Guðmundsdóttir

 1. f) Fulltrúar FebSel á landsfund LEB 14. maí

Fundurinn fól stjórn félagsins að velja fulltrúa á landsfundinn.

 1. Önnur mál

Fundarstjóri þakkaði öllum sem hættu í stjórn og nefndum fyrir góð störf og bauð aðra velkomna til starfa.

 1. Formaður bað um orðið.

Talaði um hvernig hægt væri að breyta og fá hugmyndir um hvað hægt væri að gera með starfið talaði um hugmyndabanka til að fá hugmyndir um starfið.  Endilega koma öllum hugmyndum til stjórnar.

 1. Jóna talaði um leikhúsnefndina, leggja fram könnunarlista með hvað fólk vill gera ekki er hægt að fá afslátt fyrir minna en 10 manns.  Benti á að fólk þarf að skrifa sig á listann aftur þó það hafi skrifað sig á könnarlista.  Rútan kostar meira ef færri fara.  Guðfinna tók þátt í umræðunni.
 2. Valdimar Bragason greindi frá ákvörðunum stjórnar um heiðursfélaga.

Heiðursfélagar

Sigríður J. Guðmundsdóttir fyrrverandi formaður. Hún var fjarverandi og fær viðurkenninguna síðar.

Óskar Ólafsson kallaður upp ásamt konu sinni Margréti hún fékk blóm og þakkir fyrir að lána okkur Óskar.

Óskar bað um orðið og sagði brandara um hvernig hægt væri að telja fjöldann í salnum. Tveir menn komu að fjalli og annar spurði hinn hvað féð væri margt hinn svaraði 13 þúsund og eitthvað og hinn spurði hvernig hann fengi það út.  Hann sagðist hafa talið fæturnar og deilt í með fjórum.

Magnús formaður þakkaði fundarriturum og fundarstjóra fyrir góð störf og voru þeim færðar rósir sem þakklætisvott. 

Magnús formaður þakkaði Guðrúnu Guðnadóttur fyrir frábærlega vel unnin störf  í þágu félagsins og var  henni afhentur blómvöndur frá félaginu.

Fundi slitið kl. 15.42

 

 

____________________________     ___________________________

Margrét Jónsdóttir ritari                     Örlygur Karlsson ritari

 

                              _________________________________

Jóna Sigfrid Sigurbjartsdóttir fundarstjóri