Ársskýrsla stjórnar FEB á Selfossi flutt á aðalfundi 2023

. Published on .

 

Ársskýrsla Félags eldri borgara Selfossi fyrir árið 2022.

Eftir tvo daga verður liðið ár frá því að öllum takmörkunum vegna Covid 19 var aflétt.  Við getum fagnað því að síðan þá hefur starf félagsins nánast gengið hnökralaust.  Samt verður það ekki sagt að sveifarásinn hafi farið strax á fullan snúning.  Það gætti tortryggni gagnvart veirunni og fólk fór varlega fyrst til að byrja með og sumir héldu sig, í svo sem, armslengd frá öðru fólki.

Í árslok 2022 voru félagsmenn 896 og eru því 92 fleiri en í árslok 2021.  Árið 2022 skráðu sig 141 nýr félagi í félagið, 18 sögðu sig úr því og 31 lést á árinu.  Ég bið ykkur um að minnast þeirra með því að rísa úr sætum.

Markmið félagsins samkvæmt gildandi lögum þess eru fjögur:  Í fyrsta lagi að vekja athygli og auka skilning almennings, ríkis og sveitarfélaga á þörfum eldri borgara.  Á síðasta ári var það gert meðal annars með því að stjórnin átti fund með þeim flokkum og listum, í Árborg,  sem buðu  fram í sveitarstjórnarkosningunum síðastliðið vor.  Fulltrúum þeirra var kynnt helstu áhersluatriði eldra fólks eins og  til dæmis mikilvægi þess að skipuleggja svæði með fjölbreyttum búsetuúrræðum, aukinni heilsuþjónustu heim og að festa öldungaráð í sessi svo það þjóni þeim tilgangi sem því er ætlað.  Ég vek athygli á að enn í dag 9 mánuðum eftir sveitarstjórnarkosningarnar hefur öldungaráð ekki verið skipað að fullu sem er óviðunandi staða.  Í öðru lagi er hlutverk félagsins að stuðla að aukinni þjónustu.  Þar má nefna þann möguleika að útbúa rými hér í Grænumörk 5 fyrir t.d. nudd, sjúkra- eða iðjuþjálfun.  Þessu hefur verið komið á framfæri við fulltrúa félagsþjónustunnar.  Í þriðja lagi að skipuleggja tómstunda- og félagsstarf meðal eldri borgara.  Í fjórða lagi:  Vinna að öðrum þeim málum, sem til hagsbóta teljast fyrir eldri borgara.  Það gæti verið sem dæmi, aðgengis- og umferðarmál sem oft koma upp þannig að félagið þarf að kalla eftir aðgerðum sveitarfélagsins.  Við höfum sent áskoranir um að bæta lýsingu við gangbrautir og óskað eftir fleiri bekkjum við göngustíga og það hefur verið gert og ýmislegt fleira.  Til viðbótar má nefna snjómokstur, umhverfismál, heilsufarsmál og ýmis erindi sem félagsfólk leitar með til stjórnarinnar sem gerir það sem hægt er til lausnar. 

Kjaramál eldra fólks hafa verið í umræðunni og hefur heldur hallað á þann hóp miðað við aðra sem semja sjálf um sín laun og kjör.  Stjórn Félags eldri borgara á Selfossi hefur tekið undir ályktanir og áskoranir sem bornar hafa verið upp á vettvangi Landssambands eldri borgara.  Leytað var til helstu samtaka launþega um að eiga samráð við fulltrúa Landssambandsins við gerð kjarasamninga með það að markmiði að koma því til leiðar og tryggja að lágmarkslífeyrir verði aldrei lægri en lágmarkslaun.  Í kjarasamningum, sem þegar hafa verið gerðir, er aðkoma eftirlaunaþega ekki sýnileg, þrátt fyrir velvilja fulltrúa stóru stéttarfélaganna um að taka inní samningaviðræðurnar bætt eftirlaun eldra fólks.

Látum nú reka heim.  Árið byrjaði þannig að aflýsa þurfti öllu starfi vegna uppsveiflu Covid 19.  Það leiddi til þess að sveitarfélagið ákvað að ráðast í að framkvæma nauðsynlegar breytingar á eldhúsréttingunni hér í Mörk til að hægt væri að bjóða uppá heitan mat í hádeginu eins og stjórn félagsins, þá undir forystu Guðfinnu Ólafsdóttur, hafði óskað eftir.  Það var svo í apríl sem byrjað var að bjóða þessa þjónustu í Mörk.  Mjög vel hefur tekist til og mikil ánægja með framtakið.  Í byrjun stóð til að maturinn yrði í boði þrjá virka daga vikunnar en frá því var horfið og hann boðinn fimm daga vikunnar.  Aðalfundi var frestað um nærri mánuð útaf Covid en eftir afléttingu allra sóttvarnaaðgerða og takmarkana þann 25. febrúar hefur ekki komið til slíkra aðgerða síðan.  Fyrir um þremur árum leitaði Hjörtur Þórarinsson fyrrverandi formaður  FEBSEL til stjórnar um að kanna hvort félagið hefði áhuga á að gefa út ljóðakver hans sem tengdist starfi félagsins og það væri gjöf frá honum.  Ekki var þá tekin afstaða í því efni og ámálgaði Hjörtur erindið í mars síðastliðnum.  Ákveðið var að gefa kverið út og hafa Hjörtur og Valdimar Bragason gengið í það verk.  Ljóðakverið er tilbúið og er til sölu hér á aðeins 1000 krónur.  Á síðasta Opnu húsi í maí í fyrra voru þær Vilborg Magnúsdóttir og Þuríður Blaka Gísladóttir gerðar að heiðursfélögum FEBSEL. Vilborg er stofnfélagi og hélt m.a. utan um glernámskeið í fjölda ára.  Blaka kenndi útskurð í fjölmörg ár í eigin húsnæði.  Ég óska þeim til hamingju með viðurkenningarnar. Ráðist var í gerð barmmerkja með tákni félagsins.  Hver félagsmaður getur fengið eitt merki frítt.  Hægt er að nálgast þau hér á fundinum.  Fjórir sviðspallar voru pantaðir í haust en eru ekki komnir.  Hver eining er 1 x 2 m og munu gagnast þeim sem eru með sviðsviðburði, söng, leiklestur og þess háttar.  Eins og mörgum ykkar er kunnugt hefur hljóðkerfið hér verið í ólagi frá upphafi og mikið verið reynt til að koma því í eðlilega virkni.  Loksins í haust tókst það.  Vonandi verður það til friðs hér eftir.  Í haust var bocciamerkingin í íþróttasalnum lagfærð en því miður reyndist það ekki varanleg aðgerð þar sem ekki var notað límband af réttri gerð.  Verið er að bæta úr þessu með því að setja á límband sem ætlað er til merkinga íþróttagólfa.  Stjórnin óskaði eftir því við félagsþjónustuna að keypt yrði kaffikanna í eldhúsið í Mörk til viðbótar þeirri sem þar er fyrir, tússtöflu til að hafa í Mörk og 40 handlóð til nota fyrir heilsueflinguna 60+ í Selfosshöll.  Þetta var samþykkt og er tússtaflan og handlóðin komin á sinn stað en beðið er eftir kaffikönnunni.   Strax í lok júlí kom stjórnin saman til að leggja drög að stundaskrá haustannar.  Það er mikið verk að samræma viðburði og koma þeim þannig fyrir að sem flestir geti nýtt sér það sem í boði er.  Alltaf er það þó svo að einhverjir standi frammi fyrir því að velja á milli viðburða sem þá rekast á annað sem áhugi er fyrir.  Ekki viljum við leysa það með færri viðburðum.  Einnig þarf að finna og leita til aðila til að leiða viðburði og eins leiðbeinendur fyrir handverk og annað.  Fyrir áramót þarf að huga að vorönn með uppfærslu stundaskrárinnar.  Núna eru á stundaskrá 33 viðburðir og tveir þeirra eru nýir sem er spil sem nefnist kínaskák og samverustund í Selfosskirkju en hún er alfarið á vegum Selfosskirkju en við höfum sett inní stundaskrána í samráði við prestana og þeir hafa aðgang að facebooksíðunni okkar til að auglýsa þær samverustundir.  Stjórnin stóð fyrir aðventuhátíð í byrjun desember.  Sú nýbreytni var að hún var haldin í Hótel Selfoss sem var tilraun sem tókst mjög vel en hana sóttu 150 manns sem nutu góðrar dagskrár og veitinga. Talandi um veitingar að þá kom nýr aðili, Kjötbúrið, að veitingum í Opnu húsi og var aðra hverja viku á móti Veisluþjónustu Suðurlands fram á vor.  Vegna anna hjá Veisluþjónustunni sagði hún sig frá veitingum í haust leið og Kjötbúrið sá um þær til loka haustannar.  Eftir áramót hefur Kvenfélag Selfoss séð um veitingarnar alveg til loka í vor og vonandi áfram næsta haust.  Landsfundur LEB var haldinn í Hafnarfirði 3. maí.  Fulltrúar héðan voru fjórir.  Það hefur færst í aukana að einstaklingar eru að leita til stjórnarinnar um að fá að koma með fyrirlestra um málefni sem tengjast eldra fólki og eins að kynna og selja bækur, ferðir og eitt og annað.  Undantekningalaust er verið að selja þessa þjónustu og ekki óalgengt að fyrirlestur er boðinn á um 50 þúsund krónur.   

Eftir opnun miðbæjar á Selfossi fóru að berast beiðnir frá ýmsum félögum eldri borgara um að fá að koma hér í Grænumörk og kynnast starfseminni.  Þetta voru félagar  FEB Húsavík, FEBG í Garðabæ, FEB Ólafsvík og kór eldri borgara Gerðubergi í Breiðholti.  Tekið var á móti hópunum í Mörk þar sem fólkið fékk fræðslu um okkar starf.  Gerðubergskórinn og Hörpukórinn mættust í Opnu húsi og tóku lagið. 

Félag eldri borgara á Selfossi er fjölmennt félag og verður örugglega innan tveggja ára komið með yfir 1000 félagsmenn.  Til að halda vel utan um starfsemina og auka þjónustu við félagsmenn tel ég mjög mikilvægt að félagið ráði starfsmann í hlutastarf .  Stjórnin hefur rætt þetta við deildastjóra félagsþjónustunnar og óskað eftir að sveitarfélagið komi að kostnaði.  Þetta mun hafa verið skoðað og niðurstaðan að ekki sé fært að svo stöddu að verða við því.  Aftur á móti hefur okkur verið boðið að mæta okkar þörfum með öðrum hætti.  Ný stjórn félagsins mun vafalaust skoða það sem er í boði og hvort það gagnist og þá væntanlega sem  bráðabirgðalausn.  Starfsmaður á staðnum er skilvirkast þar sem hann er í réttu umhverfi með sína verkfæratösku og tól.

Í gildi er samningur milli Sveitarfélagsins Árborgar og Félags eldri borgara á Selfossi sem hefur verið í gildi frá 1. janúar 2014.  Meginefni hans er að félagið sjái um skipulag og framkvæmd tómstundastarfs fyrir eldri borgara á Selfossi.  Félagið fær greiðslu fyrir og afnot af húsnæði.  Ýmislegt hefur breyst frá þessum tíma, húsnæði hefur stækkað og umfang félagsins vaxið.  Í vor fór stjórnin yfir þennan samning, sem er í ellefu liðum, og setti á blað hugmyndir að breytingum.  Fundur var haldinn í maí síðastliðnum með deildarstjóra félagsþjónustunnar sem tók við hugmyndunum og tók undir að þörf væri á að nútímavæða samninginn.  Stjórnin hefur ekki fengið formlegt svar við breytingahugmyndunum svo enn er verk að vinna. 

Stjórnin hefur skoðað hvort félagið eigi að taka í notkun skráningakerfi sem heitir „Sportabler“ og var hannað til að auðvelda skipulag íþrótta- og tómstundastarf.  Félag eldri borgara í Garðabæ hefur tekið þetta kerfi í notkun og hafa af því mjög góða reynslu.  Kerfið einfaldar skipulag og samskipti.  Í því er hægt að skrá sig í sumarferðirnar, leikhúsferðirnar og aðra viðburði og greiða samtímis.  Sveitarfélagið hefur lýst vilja til að skoða þetta mál með okkur og aðstoða við að koma því á, það er að segja ef ákvörðun verður tekin um að nota kerfið.

Skýrslur nefnda.

Árshátíðarnefnd skipa:  Guðbjörg Sigurðardóttir, Halldór Ingi Guðmundsson og Ólafur Backmann.  Eftir tveggja ára hlé var skipulögð árshátíð sem haldin var í nóvember í Hótel Selfoss.   Hátíðin var vel skipulögð og allir skemmtu sér vel enda í boði góður matur, tónlist og gamanmál.  Þátttaka var mjög góð þar sem 164 mættu.  Forvinna að næstu árshátíð er hafin og hún mun verða í nóvember.

Félagsvistanefnd skipa:  Hafdís Gunnarsdóttir, Hjördís Þorsteinsdóttir, Kristín Stefánsdóttir og Sæmundur Friðriksson. Félagsvistin hefur verið spiluð eftir hádegi á þriðjudögum.  Mæting hefur verið mjög góð alveg um 50 manns og spilað á 11til tólf borðum.  Það hefur verið mikil ánægja og glatt á hjalla.   

Ferðanefnd þar sátu:  Helgi Hermannsson, Ingibjörg Stefánsdóttir og Sigríður J. Guðmundsdóttir.  14 júní var lagt af stað í fyrstu ferð sumarsins og haldið af stað Þingvallaveginn og niður Lyngdalsheiðina  að Laugarvatni þar sem heiðurshjónin Margrét og Óskar H. Ólafsson voru í heiðurssætum og leiddu okkur um sveitina, síðan var haldið heim í  Sveitasetrið Efsta Dal  og snæddur hádegisverður og lukum við þessari ferð með kaffiveitingum á Sólheimum.

  1. júlí heimsóttum við Hernámssetrið í Hvalfirði og snæddum þar hádegisverð og fræddumst um sögu hersetunnar og skipalestanna, sem lögðu upp í langar og erfiðar siglingar frá Hvalfirði. Fararstjórinn í ferðinni var hin skemmtilega Unnur Halldórsdóttir. Hún skemmti okkur á ýmsan hátt í þessari ferð og ekki var hann leiðinlegur hann Gaui höfðinginn á Hernámssetrinu.
  2. ágúst var lagt af stað og lá leið okkar núna um Holtin og að Hótel Stracta þar sem boðið var upp á súpu og fisk dagsins. Ókum við síðan upp Rangárvelli að torfbænum Keldum, þar sem okkur var boðið upp á að skoða bæinn í 15-20 manna hollum, við kíktum síðan aðeins á Gunnarsstein sem stendur við Rangá skammt frá Keldum, þar sem einn frægasti bardagi Njálu fór fram. Á heimleið fengum við okkur  ís á Hellu. Fararstjóri okkar í þessari ferð var Hannes Stefánsson.
  3. sept. Var Síðasta ferðin okkar þetta árið og að sjálfsögðu Guðmundar Tyrfingssonar ferð og nú var það Skíðaskálinn og til að gera stutta ferð aðeins lengri var farið um Selvoginn og Krísuvík í grenjandi rigningu, sáum takmarkað landslagið en skemmtileg ferð samt. Skíðaskálinn tók flott á móti okkur með tertum og smörrebröð og ekki sveik heimabakaða hverarúgbrauðið með reyktum silung sem smurt var ofan í okkur janfóðum.

Aðeins ein rúta var auglýst fyrir hverja ferð, nefndin ákvað að það væri heppilegur fjöldi til að vera með, einnig bendir nefndin á að hver og einn þátttakandi fer í þessar ferðir á eigin ábyrgð. 

Fornsögur:  Frá 35 til 50 hafa verið að lesa Njálu á vor- og haust önn síðasta árs.  Í raun hósfst þessi lestur árið 2019. Síðastliðið vor var farið í dagsferð á söguslóðir Njálu í Rangárþingi.  Enn er verið að lesa Njálu og stefnt á ferð í vor og þá enn lengra í austuveg.  Þessi liður er í umsjá Guðmundar Guðmundssonar, Guðmundar Stefánssonar og Hannesar Stefánssonar. Guðmundur Guðmundsson tók, í haust, við af Örlygi Karlssyni. 

Gönguhópar: Ágústa Guðlaugsdóttir hefur leitt tvo gönguhópa.  Annar hópurinn leggur upp frá Grænumörk 5 kl. 10:00 á mánudögum og hinn frá sama stað kl. 10:00 á fimmtudögum.   Fimmtudagshópurinn fer með rútu út fyrir bæinn þar sem fólk gengur og rútan fylgir með.  Í þessa ferð er upplagt fyrir þá sem vilja komast út en hafa kannski ekki fullt þrek getur sá gengið styttri leið og farið síðan inní rútuna þegar hann vill.  Ef einhver notast við göngugrind þá er það ekkert mál.  Svo er einn kosturinn að sitja bara í rútunni og njóta útsýnis og félagsskapar við aðra.  Í þessum göngum hafa verið allt að sjö konur.  Svo nú er áskorunin fyrir karla að taka þátt þetta er einstakt tækifæri. 

Hörpukórinn:  Fyrir honum fara Rúnar Hjaltason formaður og Guðrún Þóranna Jónsdóttir.  Síðastliðið haust réði kórinn til sín nýjan kórstjóra Stefán Þorleifsson.  Kórinn hefur æft vikulega, á miðvikudögum, í Mörk.  Það að kórinn verði að víkja einu sinni í viku vegna bæjarstjórnarfunda er úr sögunni því bæjarstjórnarfundirnir hafa verið fluttir í annan sal.  Meðlimir kórsins eru um 35 og ef einhverjir hafa áhuga að vera með eru þeir velkomnir.

Íþróttanefnd skipa:  Gunnar Þórðarson, Valdimar Karlsson og Emil Guðjónsson.  Nefndin stendur fyrir boccia tvisvar í viku í íþróttahúsinu Iðu og svo er pútt einu sinni í viku í golfskálanum.  Í Grænumörk er snóker sem er vel sótt og salurinn til afnota alla daga.  Úlfar Guðmundsson heldur utan um það starf. 

Kjörnefnd skipa:  Guðfinna Ólafsdóttir, Gísli Geirsson og Guðrún Helga Guðmundsdóttir.  Gísli kemur nú inn í stað Guðmundu Auðunsdóttur.  Nefndin hefur það hlutverk að gera tillögur um stjórnarmenn, varamenn í stjórn og skoðunarmenn sem kjósa á um á næsta aðalfundi.  Megin vinnutími kjörnefndar má segja að séu mánuðirnir tveir fyrir aðalfund sem skal halda fyrir febrúarlok hvert ár en þá þarf að leita að og hafa samband við fólk til að kanna hug þeirra við að taka að sér ofangreindar trúnaðarstöður.   

Leikhúslestur:   Fyrir honum fara Magnús J. Magnússon og Sigríður Karlsdóttir. Leiklestrarhópurinn „Leikhópurinn okkar“ inniheldur 16 öfluga félagsmenn. Þessi hópur hefur í grunninn verið með síðan haustið 2021.

Veturinn 2021 til 2022 voru fundir á mánudögum kl. 13.00 – 14.00. Lesin voru ýmis smá leikverk, samin af hópnum eða stjórnendum eða fengið frá öðrum aðilum.  Þau voru leikin og síðan léttar umræður. Vorið 2022 var ákveðið að leiklesa verkið „Maður í mislitum sokkum“ og var það sýnt í byrjun maí í Litla Leikhúsinu við Sigtún fyrir troðfullu húsi.  Þetta var afar skemmtilegt verkefni en það tók verulegan tíma að koma því á svið. Það varð bara þessi eina sýning.

Veturinn 2022 – 2023 var leiklesturinn á mánudögum frá kl. 13.30 til 14.30. Vinnufyrirkomulag var svipað en við vissum að það voru hugmyndir um að fá okkur til að koma fram á árshátið félagsins og aðventukvöldi sem við og gerðum.  Á árshátíð félagsins sýndum við léttan og stuttan einþáttung öllum til skemmtunar og á aðventuhátíðinni lásum við upp Jólaköttinn með tilþrifum. 

Þetta er öflugur hópur og verkefni vorsins eru í umræðu.

Magnús J. Magnússon.

Leikhúsnefnd skipa:  Jóna S. Sigurbjartsdóttir, Magnús J. Magnússon og Sigríður J. Guðmundsdóttir. 

25 mars 2022 var haldið í Þjóðleikhúsið að sjá litríkt lífshlaup Ástu Sigurðardóttur.  Margir fóru með tárin út eftir þá sýningu.

Leikhúsnefndin lokaði svo vetrinum með ferð í Biskupstungurnar þar sem snæddur var kvöldverður fyrir leiksýninguna í Aratungu að sjá Ef væri ég gullfiskur.

Frábær matur hjá Restaurant Mika, í boði var saltfiskur eða humarsúpa  og karmellusúkkulaði mús með mangó í dessert, síðan var haldið á sýninguna og allir komu heim saddir og glaðir.

Eftir 11 ára setu í leikhúsnefndinni sögðu þær Erla Guðmundsdóttir og Svala Halldórsdóttir sig frá nefndarstörfum og þakkar nefndin þeim fyrir skemmtilegar ferðir og  frábæra samvinnu öll þessi ár.  Við tóku Magnús J. Magnússon, Jóna S. Sigurbjartsdóttir og Sirrý Guðmunds.

Þátttaka félaga var dræm haustið 2022.  Nýja nefndin bauð upp á nokkrar sýningar bæði í heimahéraði og Reykjavík en þáttaka varð ekki nægjanleg til að af yrði fyrr en Vínartónleikarnir hófust þann 5. janúar 2023, fengum við 107 boðsmiða en um 70 manns sáu sér fært að mæta.

Viðburðarstjórn skipa:  Anna Þóra Einarsdóttir, Guðfinna Ólafsdóttir, Magnús J. Magnússon, Ólafur Sigurðsson, Páll M. Skúlason og Unnur Halldórsdóttir.

„Viðburðanefnd hittist 12. september 2022 og setti upp drög að vetrinum og ræddi ýmsar hugmyndir. Magnúsi var falið að koma þessu á prent.

Á opnu húsi 22. sept var dagskrá kynnt að eins miklu leyti og hægt var. Fyrsta formlega opna húsið var 29. sept. Og sá stjórn FebSel um kaffiveitingar og viðburðastjórn kynnti starfsemina framundan.  Það hafa verið 18 opin hús til þessa dags. Það hafa verið 9 fyrirlesarar, 2 kynningarfundir Viðburðarstjórnar,  5 léttar söngstundir með Óla og Helga og 2 fundir af öðrum toga. Bæjarstjóri og fulltrúar úr öldungarráði komu til okkar og svöruðu spurningum. Einnig var góður fundur þar sem ýmsir hópar kynntu starfsemi sína.

Að meðaltali hafa milli 60 og 70  heldriborgarar mætt þó svo að stundum fari þetta upp í 90 til 100 eins og þegar fyrirlestur um netglæpi var og Heiðar Jónsson kom með sinn fyrirlestur

Veitingar hafa stundum verið flókið mál en nú hefur Kvenfélag Selfoss tekið málin í sínar hendur fram á vor og hefur það gengið afar vel og vonum við að þær haldi áfram.

Það er alveg ljóst að bæta þarf alla aðstöðu í Mörkinni til að sinna þessum kaffiveitingum Bæta þyrfti við kaffivél og öðru til að geta dekkað þann fjölda sem kemur með góðu móti. Þetta hefur gengið upp en stundum hefur ekkert mátt út af bera.

Fram á vorið eru eftir 9 opin hús með fjölbreyttu efni. Síðasta opna húsið verður á Lokadaginn 11. maí.

Með kveðju!  Viðburðarstjórn“.

Öndvegisbókaklúbburinn,  stjórnandi er Sigríður J. Guðmundsdóttir og með henni Guðrún Þóranna Jónsdóttir og Jóna S. Sigurbjartsdóttir.  Eftir lestur Vesturfaranna var ákveðið að prófa eitthvað nýtt og lesa glæpasögu og tókum við fyrir höfundinn Ragnar Jónasson og byrjuðum á sögunni Snjóblinda sem við kláruðum í síðasta tíma fyrir jól og fyrst við vorum byrjuð og spennan farin að segja til sín ákáðum við að taka eftir áramótin næstu tvær bækur sem eru í beinu framhaldi af þeirri fyrstu og ljúka svo þessum lestri og spennu með ferð til Siglufjarðar í lok maí, en á þeim slóðum gerast glæpirnir.  Sigríður „Sirrý“ upplýsir í lok skýrslu sinnar að hún ljúki nú sínum nefndarstörfum fyrir FEBSEL og þakkar kærlega fyrir sig og óskar viðtakendum bjartrar framtíðar.

Að þessu sögðu er komið að lokakafla þessarar skýrslu.  Nú hef ég setið í stjórn FEBSEL í fjögur ár þar af tvö sem formaður.  Áður en ég settist í stjórnina var ég í ferðanefnd í tæp þrjú ár.  Ég hef tekið þá ákvörðun að gefa ekki kost á mér í stöðu formanns þar sem ég stefni á að flytja mig um set í annað sveitarfélag.  Þessi rúmu sex ár hafa verið áhugaverð og þroskandi þar sem ég hef kynnst mörgu góðu fólki.  Það er mikill auður sem liggur í öllu því fólki sem koma að starfinu og munið það að allir þeir sem hingað koma og njóta eru mikilvægir ekki síður en þeir sem leggja á sig að leiða hópa eða koma að starfinu á annan hátt.  Ykkur öllum vil ég þakka ánægjuleg kynni sem og þeim sem ég hef setið með í stjórn þennan tíma.  Einnig þakka ég starfsfólki félagsþjónustunnar sem og bæjarstjórn góð og vinsamleg samskipti.    

 

Þorgrímur Óli Sigurðsson

formaður Félags eldri borgara Selfossi