Fundargerð landsfundar LEB 26. maí 2021

. Published on .

 

Landsfundur Landssambands eldri borgara,

Haldinn á Hótel Selfoss, 26. maí 2021

Fundargerð


Áður en fundurinn hófst bauð Guðfinna Ólafsdóttir, formaður Félags eldri borgara á Selfossi, fundargesti velkomna til Selfoss með nokkrum orðum. 

Setning landsfundar.

Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður setti fundinn og bauð fulltrúa landsfundarins og gesti velkomna.

Aldís Hafsteinsdóttir formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og bæjarstjóri í Hveragerði hélt erindi. Hún hrósaði samfélaginu í Hveragerði og þjónustunni þar við eldra fólk. Nálægðin við allt og alla væri styrkur þar. Margir geta unnið langt fram eftir ævi, sumir fram yfir nírætt.

1.  Kosning embættismanna fundarins.

 1. a) Kosning tveggja fundarstjóra: Ásgerður Pálsdóttir Húnaþingi og Jóna Ósk Guðjónsdóttir Hafnarfirði. Tóku þær til starfa. Fundarstjóri kannaði lögmæti fundarins. Þar sem enginn gerði athugasemd úrskurðaði hann fundinn lögmætan. Engin athugasemd var gerð við dagskrá fundarins og var hún því einnig úrskurðuð lögmæt.
 2. b) Kosning tveggja fundarritara: Hallgrímur Gíslason Akureyri og Hildigunnar Hlíðar Garðabæ voru kjörin fundarritarar.
 3. c) Kosning kjörbréfanefndar: Guðmundur Guðmundsson, Ómar Kristinsson og Viðar Eggertsson hlutu kosningu.

2.  Skýrsla stjórnar.

Formaður flutti árskýrslu stjórnar LEB fyrir starfsárið 2020-2021.

Skýrsla stjórnar LEB er nú öllu lengri en venjulega þar sem miklar breytingar verða á stjórn LEB vorið 2021 á landsfundi. Sérlega merkilegt ár er að baki ef litið er til árhrifa Covid-19 á land og þjóð og allan heiminn. Þessi fáheyrða vá brast á í lok janúar 2020. Allir stóðu á öndinni og nú þurfti mikla aðlögun að breytingum á öllu starfi félaga innan Landssambands eldri borgara. Viðbrögðin voru frábær hjá okkar fólki. Allir lögðust á eitt í smitvörnum og að sveigja starfið að þeim takmörkunum sem síðan brustu á. Allflestir sátu við sjónvarpið á daginn þegar þríeykið gaf skýrslu um stöðu mála. Veikindi jukust og Landsspítalinn var að fara í þrot um tíma. Kári Stefánsson kom inn í málin og bauð aðstoð við skimanir. Lífið fór hreinlega á hvolf. En viðbrögð í að vernda eldra fólk skilaði miklu þrátt fyrir að nokkur dauðsföll yrðu, því miður. Samstaða og yfirburða þolgæði eldra fólks hélt út. Það leið að vori og loks sá til sólar í maí. Dregið var úr takmörkunum og félög eldra fólks fóru að huga að ársfundum. En þessu var ekki lokið haustið varð mörgum þungbært í nýrri bylgju.

Landsfundur á tímum Covid

Landsfundur LEB 2020 var loks haldinn 30. júní á Hótel Sögu þar sem hægt var að hafa rúmt á fólki og staðurinn heppilegur til fundahalda. Á fundinn mættu 123 manns og í kvöldverð urðu 115 manns. Nokkrir afboðuðu sig vegna veirunnar. Ávarp í upphafi fundar flutti Eliza Reed forsetafrú og var henni mjög vel fagnað. Mikil vinna á Landsfundinum í málefnum eldra fólks var samkvæmt dagskrá sem er bundin í lög LEB. Ályktanir voru settar í nefndir og voru tveir hópar að störfum, annars vegar um kjaramálin og hins vegar um heilbrigðis- og velferðarmálin. Laganefnd var að störfum og voru lagabreytingar krufnar til mergjar en nokkar breytingatillögur lágu fyrir. Hver hópur um sig skilaði til fundarins lokaniðurstöðum. Magnús Norðdhal lögmaður ASÍ var fundarstjóri og stóð sig með sóma. Ritarar: Hildigunnur Hlíðar og Hallgrímur Gíslason. Landsfundur er alltaf áfangi og sérstaklega þegar vel gengur. Nokkir stjórnarmenn hættu og nýir komu inn. Þau sem hættu voru Ellert B. Schram, Drífa Sigfúsdóttir og Ólafur Örn Ingólfsson. Inn í stjórn komu Ingibjörg H. Sverrisdóttir, Þorbjörn Guðmundsson og Guðfinna Ólafsdóttir. Þessi stjórn hefur unnið vel saman og mátt sæta því að halda æði marga fundi á netinu. Ýmist á Teams eða Zoom. Tæknifærni hefur farið ört vaxandi. Frá Landsfundinum komu skýr skilaboð um kjör eldra fólks úr aðildarfélögum LEB um að löngu væri komið nóg af skerðingum og vanefndum loforðum. Skilaboðin eru skýr og afdráttarlaus.

Að loknum Landsfundi

Stjórn LEB átti nokkra fundi með staðarmætingu á haustdögum en síðan komu næstu Covid-19 bylgjur sem kölluðu á netfundi. Yfirleitt gengu þeir vel. Milli ársfunda voru 11  stjórnarfundir. Almennt eru fundir vel sóttir og umræða góð. Dagskrá liggur fyrir og fólk fær send gögn eftir því sem til eru. Undir árslok gaf stjórn heimild til að leita að hentugra húsnæði. Að vera í litlu herbergi í Sigtúni 42 var komið í þrot. Leitað var nokkuð víða en niðurstaðan varð Ármúli 6 með herbergi sem er næstum tvöfalt á við það sem áður var. Þar rúmast vel tvö skrifborð og aðstaða til minni funda, auk aðgengis að stærri sölum fyrir fundi. Staðsetningin er mjög miðsvæðis og hentar því vel.

Fjármál LEB

Mörg undanfarin ár hefur reksturinn verið í klemmu. Fastir styrkir hættu og í stað þeirra var sótt um verkefnastyrki sem LEB fær umsýslugreiðslu af. En meiri velta og 100 krónu hækkun til LEB á síðasta landsfundi er að gera LEB kleift að gera enn betur en áður hefur verið mörg undanfarin ár. Starfsmaður í hlutastarfi, Viðar Eggertsson, og formaður í hlutastarfi hækkar launakostnað töluvert. EN stóru útgjöldin á síðasta ári er kostnaður við rannsóknarskýrslur Skúla M. Sigurðssonar hagfræðings um kjör eldra fólks sem hefur verið vopn okkar í umræðum við stjórnvöld. Á mörgum okkar funda með stjórnmálamönnum og í nefndarstarfi hafa þau tölulegu gögn verulega stutt mál okkar um stöðu eldra fólks fjárhagslega. Önnur há upphæð fór í lögfræðikostnað við málaferli konu vegna starfsloka við 70 ára aldur og þó við mjög góða heilsu. Baráttan kostar. Útgáfan á blaði LEB var í hærri kantinum á árinu 2020 þar sem lítið náðist í af auglýsingum. Það telst því eðlilegt að eitt ár sé dýrara en annað.

Starfshópur um lífskjör og aðbúnað aldraðra

Skipaður var nýr starfshópur á vormánuðum vormánuðum og tók til starfa 19. sept 2019 en nú með breiðari skírskotun við aðfjalla um lífskjör og velferð eldra fólks. Nú mættu fleiri ráðneyti til leiks en frá LEB voru skipuð í starfshópinn: Þórunn Sveinbjörnsdóttir, Haukur Halldórsson og Þorbjörn Guðmundsson. Starfshópurinn hefur haldið 10 fundi og marga þeirra á Teams eða Zoom.Síðast liðið haust varð samkomuleg um að skipta hópnum í 2 hluta þar sem kjaramálaumræðan kallaði á heila fundi hverju sinni. Haukur og Þorbjörn tóku þann hluta en Þórunn velferðina og félagsmálin. Margir góðir gestir komu með fræðslu til starfshópsins s.s. Berglind Magnúsdóttir skrifstofustjóri öldrunarmála hjá Reykjavíkurborg um áhrif samþættingar heimahjúkrunar og heimilishjálpar. Halldór Guðmundsson framkvæmdastjóri Hlíðar á Akureyri fjallaði um velferðartækni og þörf á innleiðingu hennar. Guðlaug Einarsdóttir, skrifstofustjóri í heilbrigðisráðuneytinu fjallaði um álitamál í heilbrigðishluta umræðnanna og stöðu hjúkrunarheimila. Starfshópurinn á að ljúka störfum nú á vormánuðum með skýrslu og tillögum til úrbóta í málefnum eldra fólks á Íslandi. Nokkuð góð samstaða er um margt en víða þarf að stykja tillögur til úrbóta verulega en til ágreinings gæti komið um tillögur í kjaramálum eldra fólks. 

NOPO-NSK

Norrænt samstarf landsambanda eldra fólks á Norðurlöndunum. Árlega eru haldnir 2 fundir á ári í einhverju Norðurlandanna en nú í ástandi Covid-19 var staðfundum frestað en í staðinn haldnir rafrænt. Í maí 2020 átti að vera fundur í Færeyjum en honum var frestað til haustsins. Og um haustið aftur frestað til vors 2021. Þá voru enn sóttvarnir og takmarkanir á fólksferðum í flestum landanna svo enn var frestað. Venjan er að annar fundurinn sé stjórnarfundur og voru þeir haldnir á netinu. Haustfundir eru yfirleitt með að hluta öfluga fræðslu á dagskránni. Nokkrar mannabreytingar hafa orðið á fulltrúum landanna á undanförnum árum en allt er þetta fólk sem er mjög öflugt í sínu landi. Cristina Tallberg er formaður og kemur frá PERO í Svíþjóð. Mjög virt í sínu heimalandi. Sú fræðsla sem LEB hefur tekið með til Íslands er m.a. fræðsla um einmanaleika og um öfluga fræðslu til eldra fólks til að öðlast betra tæknilæsi. Yfir 100 tölvuver í Danmörk urðu til að bæta verulega stöðu eldra fólks í tölvulæsi. Mikið af því er unnið af sjálboðaliðum. Virkjun fólks til að koma í sjálfboðaliðastörf hefur líka haft áhrif hjá LEB.

Ýmis nefndarstörf

Landssambandið tilnefnir í fjölda nefnda og starfshópa og hefur það starf haldið áfram á veirutímum þó mun meira á netinu. Má hér nefna Samstarfsnefnd um málefni aldraðra, Öldrunarráð Íslands, Samráðshópur með Tryggingastofnun ríkisins. Guðrún Ágústsdóttir var tilnefnd í nefnd til að kanna þunglyndi meðal eldri borgara í vetur og er starfi þess starfshóps að ljúka. Starfshópur um réttindagæslu fyrir aldraða fór af stað í vetur og er enn að störfum en áralöng barátta um að fá Umboðsmann aldraðra er nú í þessum farvegi ef það getur hugsanlega leitt til þess að fólk hafi aðgang að réttindavörslu og leiðbeiningum.

Ráðstefna um einmanaleika

„Veistu ef vin þú átt“ var yfirskrift ráðstefnu sem haldin var á Hótel Hilton Nordica og var mæting góð en henni var líka streymt og einnig tekin upp. Erindi ráðstefnunnar eru því aðgengileg á heimasíðu LEB. Allir sem leitað var til um að halda erindi komu til leiks. Frábær erindi og mun þessi ráðstefna hafa mikil áhrif m.a. inn í nám í HÍ þar sem æ fleiri eru að taka þessi mál til gagngerrar skoðunar. Nemar leita til LEB um viðtöl og er það ánægjulegt. Rástefnan var stykt með framlagi frá Heilbrigðisráðuneyti.

Styrkir til verkefna

Landsamband eldri borgara hefur sótt um hina ólíkustu styrki til verkefna. Nokkrum er að fullu lokið en þó nokkrir styrkir eru enn í vinnslu. Á landsfundinum í maí 2021 munu verða sýndar stiklur sem eru um umhverfisvæna eldri borgara en í það verkefni fékkst styrkur frá umhverfisráðuneytinu. Verkefnið ber heitið Umbúðalausir eldri borgarar. Einnig verður dreift um allt land með LEB blaðinu bæklingnum Akstur á efri árum og var hann unninn með Samgöngustofu og tókst einstaklega vel. Nett dreifirit um símavini verður líka frumsýndur á Landsfundinum, en styrkur til hans var afhentur nú í vor sem hluti af átaki stjórnvalda: Viðspyrna fyrir Ísland. Þar köllum við eftir sjálfboðaliðum til að vera símavinir. Síðan eru nokkur verkefni í vinnslu og mun þeim ljúka síðar á árinu.

Rannsóknir

Á liðnum vetri voru kallaðir saman aðilar til umræðu um ofbeldi meðal eldra fólks. Verkefnið var unnið á greiningardeild Ríkislögreglustjóra en á þennan fund komu ýmsir fagaðilar og leikmenn og rætt var um hvað er vitað og hvað þarf að kanna betur. Fólk var sammála um að þessa umræðu ætti að opna því hún væri vel falin. Þarna væri kynslóð sem ber ekki sín mál á torg. Hinsvegar væru erlendar rannsóknir sem sýndu að þarna þurfi að laga til og opna umræðuna. Ýmislegt var nefnt, eins og andlegt ofbeldi, fjárhaglegt ofbeldi, líkamlegt ofbeldi og niðulægjandi umræða. Að þessum fundi loknum vann greiningardeildin skýrslu sem fólk las yfir og bætti í svo nú er til góð samantekt um málefni og um leið var opnað á að 112.is gæti verið leið fyrir eldra fólk og aðstandendur þeirra til úrlausnar.

Heilsuefling eldra fólks

Vegna Covid-19 fór af stað ný bylgja umræðu um nauðsyn hreyfingar og hvað hreyfing getur gert fyrir mannslíkamann. Á undanförnum árum hefur verið markvisst unnið að heilsueflingu í nokkrum sveitafélögum eftir leikreglum Dr. Janusar Guðlaugssonar. Samkvæmt rannsóknum á hverju þetta skilar þá má ætla að verið sé að seinka öldrun verulega og bæta líðan, bæði líkamlega og andlega. Fólk minnkar lyfjanotkun, sefur betur, vöðvamassi eykst, matarræði batnar og blóðþrýstingur lækkar. Hvað er hægt að gera betra? Öll hreyfing kemur að gagni en makviss þjálfun gerir þetta enn betur. Nú hefur LEB fengið styrk frá félagsmálaráðuneytinu til að auka heilsueflingu eftir Covid-19. Verið er að ganga til samninga um verkefnið.

Sýnileiki LEB

Seint á haustmánuðum stóð Öldrunarráð Íslands frammi fyrir því að geta ekki haldið ráðstefnu sína sem er árlega haldin í októbermánuði. Kom þá upp umræða um samstarf við LEB um nýja leið sem væri miðlun í sjónvarpi um málefni eldra fólks. Leitað var til RÚV og voru undirtektir mjög góðar og fékkst samþykki í stjórnum beggja samtakanna að hrinda þessari hugmynd í framkvæmd. Stefnt var á febrúarmánuð og gekk það eftir. Upptaka fór fram 9. febrúar og mætti til leiks stórskotalið til að fræða og ræða um brýnustu mál eldra fólks á sviði heilbrigðis- og velferðar. RÚV útvegaði sýningartíma á besta tíma dags og náðist ágætt áhorf og vakti þetta mikla athygli. Þátturinn bar heitið Velferð eldri borgara og er til á heimsíðu LEB og er það mikilvægt til að geta kynnt sér efni hans t.d. af nemendum í tengdum greinum til fróðleiks. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti opnuarávarp og síðan tók Jórunn Frímannsdóttir formaður Öldrunarráðs við fundarstjórn og hún stjórnaði einnig umræðum í lok þáttarins. Stutt erindi fluttu: Berglind Magnúsdóttir skrifstofustjóri öldrunarmála á Velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Halldór S. Guðmundsson framkvæmdastjóri öldrunarheimila Akureyrar, Benedikt Jóhannesson tryggingastærðfræðingur, Bjarni Karlsson sálgætir og siðfræðingur, Pálmi V. Jónsson yfirlæknir öldrunarlækningadeild Landspítala og prófessor í öldrunarlækningum, Ólöf Guðný Gerisdóttir næringarfræðingur og Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður LEB.

Aðgerðahópur LEB

Síðsumars þegar störf hófust að nýju eftir gott sumar þá kom fram tillaga að því að ná saman hóp til að ræða um áherslur í málefnum eldra fólks. Hugsa þyrfti lengra fram á veginn þar sem kosningar yrðu eftir ár. Það var svo hin lúmska veira sem hægði á þessum samtölum en uppúr áramótum færðist á ný kraftur í þennan hóp sem þá var kallaður aðgerðahópur LEB. Stefnan var tekin á að setja saman áherslur sem hægt væri að ræða um við stjórnmálaflokka, samtök s.s. ASÍ og BSRB, einstök stéttarfélög og hagsmunaaðila. Eftir formannafund LEB sem haldinn var í mars þar sem þessar áherslur voru kynntar var ekkert að vanbúnaði að fara að boða fólk á fundi og fjalla um stöðu eldra fólk og hvar skóinn kreppir. Nú eru búnir um 15 fundir sem hafa tekist mjög vel.

Kjaranefnd og velferðarnefnd LEB

Á haustmánuðum var að nýju stofnuð kjaranefnd. Leitað var til ýmissa aðila um setu í nefndinni. Drífa Sigfúsdóttir tók að sér að leiða nefndina. Nokkrir fundir hafa verið haldnir en Covid-19 hefur enn og aftur hindrað töluvert. Nú liggur fyrir að á landsfundi mun kjaranefnd fara yfir stöðuna og kjaramálaályktun er lögð fram til umræðu, en þar eru tillögur aðgerðahóps gerðar að tillögum kjaranefndar. Velferðarnefnd LEB átti allmarga fundi í vor til undirbúnings ályktun fyrir Landsfundinn 2021. Dagbjört Höskuldsdóttir formaður nefndarinnar og fleiri söfnuðu gögnum um málefnin og útfrá þeim var unnin ályktun sem nú liggur fyrir Landsfundinum.

Fræðslumál

Að læra alla ævi er yfirskrift Evrópuverkefnis sem er í raun endalaus símenntun. Vegna veirunnar hafa mörg námskeið legið niðri hjá aðildafélögum LEB. Sumarið 2020 voru veittir styrkir til sveitafélaga til að efla félagsstarf eldra fólks og var því víða mætt með tölvulæsi námskeiðum og þá komu kennsluhefti LEB fyrir spjaldtölvur sér vel. Nú á að endurtaka leikinn í sumar og reyna að ná til enn fleiri sem þá læra að nýta sér tæknina betur. Þörfin á að eldra fólk geti nýtt sér rafræn skilríki er mjög mikil og þurfa allir að standa saman við að efla þá leið. Starfslokanámskeið hafa verið haldin og eru nú eftir 2 slík námskeið út frá styrk frá félagsmálaráðuneytinu. Þau eru ávallt vinsæl og hafa hjálpað æði mörgum í að skilja t.d. reglur T R. og eitt og annað tengt lífsstíl, fjármálum og mataræði til að halda góðri heilsu.

Næstu verkefni LEB

Brýnt að virkja enn betur eldra fólk í baráttu okkar allra fyrir mannsæmandi eftirlaunum; að geta lifað með reisn. Það er líka verk að vinna við að allt sem lýtur að al elsta fólkinu sé unnið af virðingu og sanngirni. Hjúkrunarheimilismálin eru stór mál og þar verða menn að bretta upp ermar til að auðvelda reksturinn. Nokkar leiðir eru færar. Útrýming á aldursfordómum er býsna stórt mál og þarf að fara í þá baráttu núna. Heilsuefling eldra fólks er afar þarft verkefni til þess m.a. að bregðast við fjölgun eldra fólks á næstu áratugum. Að lífið sé samfella og allar hindranir tengdar aldri verði felldar niður. 67 ára aldursviðmiðið var fundið upp fyrir hershöfðinga Bismarks. Það er kominn tími á breytingu. Við viljum hafa frelsi til að vinna ef við getum eða viljum. Vinna að því að allir skilji mannauðinn sem eldra fólk er.

3.  Ársreikningur fyrir árið 2019 yfirfarinn

Valgerður Sigurðardóttir gjaldkeri kynnti reikningana. Þeir eru áritaðir af löggiltum endurskoðanda, skoðunarmönnum reikninga og af stjórn.

Helstu niðurstöður ársins: Rekstrartekjur kr. 27.853.158, rekstrargjöld kr. 33.218.593. Tap án fjármagnsliða kr. 5.365.435. Fjármagnsliðir kr. 136.517 og rekstrartap því kr. 5.228.918. Niðurstaða efnahagsreiknings kr. 41.319.572.

Gjaldkeri kynnti einnig reikninga Styrktarsjóðs aldraðra, sem er frá 1981. Fjármunatekjur og rekstrarafkoma ársins kr.  3.182. Efnahagsreikningur samtals. kr. 1.730.733.

4.  Kynning þingnefnda

Þingnefndir eru þrjár:

Kjaranefnd:. Formaður Drífa Sigfúsdóttir.

Velferðarnefnd: Formaður Dagbjört Höskuldsdóttir

Laganefnd: Formaður Guðmundur Guðmundsson

5.   Umræður um skýrslu stjórnar og afgreiðsla ársreikninga.

Halldór Gunnarsson benti á að LEB væri ekki rekið sjáfstætt fjárhagslega vegna styrkja frá velferðarráðuneytinu og tilkynnti framboð sitt í varastjórn. Geir A Guðsteinsson og Haraldur Magnússon bentu á að skýringar vantaði með reikningunum og spurðu um sundurliðanir og fleira. Erna Indriðadóttir benti á að auglýsingatekjur hefðu hrapað vegna COVID, fagnaði aukningu í starfi LEB og hrósaði stjórninni, einkum formanninum og benti á nauðsyn faglegra vinnubragða.

Drífa Sigfúsdóttir ræddi óhemju mikla vinnu stjórnar. Þorbjörn Guðmundsson ræddi um kynningu á skjali um áhrif eldra fólks. Valgerður svaraði fyrirspurnum. Þórunn minnti á styrki frá MS og Olís.

Fundarstjóri bar upp ársreikning LEB, sem var samþykktur með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða. Það sama á við um ársreikning Styrktarsjóðs LEB.

6.  Niðurstaða kjörbréfanefndar

Guðmundur Guðmundsson kynnti niðurstöðuna. 55 félög eiga rétt á setu 152 fulltrúa. 17 félög sendu ekki kjörbréf. Fundinn sitja 126 fulltrúar 38 félaga og eru þeir allir löglegir. Fundurinn samþykkti þá niðurstöðu samhljóða.

7.  Lagabreytingar

Valgerður Sigurðardóttir FEB Hafnarfirði kynnti tillögu félagsins um breytingu á 11. grein samþykkta félagsins. Tillögunni var vísað til laganefndar.

 

HÁDEGISVERÐUR

 

8.  Lögð fram drög að fjárhagsáætlun

Valgerður Sigurðardóttir, gjaldkeri, fór yfir áætlunina sem byggir að mestu leyti á rekstri fyrri ára. Gert er ráð fyrir að félagar greiði 700 kr. aðildargjöld til LEB. Í heildina er áætlað að tekjur verði kr. 28.952.750 og gjöld kr. 28.470.000. Áætlaður rekstrarhagnaður án fjármagnstekna kr. 482.750.

9.  Tillaga um árgjald 2021 og afgreiðsla hennar

Stjórn LEB leggur til að árgjaldið verði óbreytt, kr. 700 á félaga. Samþykkt með öllum greiddum atkvæðum

10. Kynntar stjórnarályktanir og aðsendar ályktanir.

Þobjörn Guðmundsson kynnti vinnuna við ályktun kjaranefndar.  

Halldór Gunnarsson, FEB Rang. Lagði fram tillögu f.h. kjararáðs félagsins um að stjórn LEB skoði möguleika á framboði eldra fólks. Jon Ragnar Björnsson formaður félagsins skýrði athugasemd stjórnar vegna tillögunnar.

Dagbjört Höskuldsdóttir kynnti ályktun velferðar- og heilbrigðisnefndar. Í nefndinni eru auk hennar þau Ómar Kristinsson, Katrín Fjeldsted og Guðrún Ágústsdóttir.
Þórunn Sveinbjörnsdóttir skýrði ályktun um stöðu hjúkrunarheimila frá stjórn LEB, sem var vísað til velferðarnefndar.

Guðmundur Guðmundsson sagði frá tillögu frá FEB Hafnarfirði, sem laganefnd mun fjalla um.

Að kynningunni lokinni tóku málefnanefndir til starfa. 

 

11. Afgreiðsla ályktana.

Eftir um 60 mínútna vinnu málefnanefnda voru ályktanir teknar til afgreiðslu.

 

Kjaranefnd

 1. a) Þorbjörn Guðmundsson mælti fyrir ályktun um kjaramál.

Ályktun landsfundar LEB – Landssambands eldri borgara - um kjaramál.

Eldra fólk vill hafa áhrif á eigið líf

Áhersluatriði eldra fólks í komandi Alþingiskosningum

Eldra fólk fái að vinna eins og það vill
Almennt frítekjumark verði 100.000 kr. Eftirlaunafólk fái að vinna eins og því sýnist án skerðinga í almannatryggingakerfinu og njóti afraksturs vinnu sinnar eins og aðrir. Lágmarkslífeyrir verði aldrei lægri en umsamin lágmarkslaun á almennum vinnumarkaði. Ellilífeyrir og frítekjumörk hækki árlega samkvæmt launavísitölu Hagstofu Íslands.

Starfslok miðist við færni en ekki aldur
Það er réttlætismál að eldra fólk fái að miða starfslok sín við áhuga, færni og getu en þurfi ekki að hætta virkri þátttöku í atvinnulífinu eingöngu vegna aldurs. Aldurstengdar viðmiðanir sem fara í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar ætti að fella úr allri lagasetningu, en leggja  þess í stað áherslu á þekkingu, reynslu, hæfni og menntun fólks óháð aldri.

Heilsugæslan verði vagga öldrunarþjónustunnar
Til að eftirlaunafólk geti lifað mannsæmandi lífi heima hjá sér með reisn, þurfa ríki og sveitarfélög stórauka samvinnu sína með það að markmiði að heilsugæslan verði vagga öldrunarþjónustunnar. Öll fjárframlög taki mið af þessu. Heilsugæslan nálgist eldra fólk fyrr á lífsleiðinni með samhæfðri teymisvinnu lækna, hjúkrunarfræðinga og félagsþjónustu sveitarfélaga og haldi því sambandi. Velferðartækni ætti að vera mikilvægur þáttur í öryggi og bættri aðstöðu í heimahúsum eldra fólks. Þáttur aðstandenda verði metinn til launa með umönnunarálagi. Stofnun öldrunargeðdeildar fyrir fólk með sértækar þarfir er forgangsmál.

Millistig milli heimilis og hjúkrunarheimilis
Ljóst er að búseta á eigin heimili hentar ekki öllum, þó þeir þurfi ekki dvöl á hjúkrunarheimili. Búsetuúrræði fyrir eldra fólk eru hins vegar alltof fábreytt. Það vantar millistig milli búsetu á eigin heimili og hjúkrunarheimili. Brýnt er að byggja upp þannig búsetuform til hagsbóta fyrir eldra fólk og þá ekki síður  fyrir velferðarkerfið, sem er á forræði ríkis og sveitarfélaga.

Fjármunum Framkvæmdasjóðs aldraðra verði einungis varið til byggingar stofnana fyrir aldraða og til að mæta kostnaði við nauðsynlegar breytingar og endurbætur á húsnæði sem notað er til þjónustu við þá eins og kveðið er á um í lögum.

Ein lög í stað margra lagabálka
Um málefni sem varða eldra fólk sérstaklega gilda of margir og of sundurleitir lagabálkar þar á meðal almannatryggingalögin. Einfalda þarf lagaumhverfið og gera það skilvirkara meðal annars með því að skilja að lög um eldra fólk og öryrkja. Tryggja þarf aðkomu eldra fólks að þeirri endurskoðun.

Fundarstjóri bar ályktunina upp til afgreiðslu og var hún samþykkt með einu mótatkvæði.

 

 1. b) Þorbjörn mælti fyrir annarri ályktun um kjaramál, sem kom frá Helga Péturssyni. Eftir stuttar umræður og örlitla breytingu var hún tekin til afgreiðslu.

Ályktun um kjaramál samþykkt á landsfundi LEB 26. maí 2021

Landsfundur Landssambands eldri borgara, haldinn á Selfossi,  bendir á að enn eitt kjörtímabil er að líða án þess að launakjör eldra fólks hafi verið bætt. Stjórnvöld hafa í engu sinnt margvíslegum ábendingum um að afkoma eldra fólks hafi í raun versnað og hafa þverbrotið lög og samþykktir til þess að komast hjá greiðslum til þess. Má þar nefna ákvörðun Alþingis um hækkun ellilífeyris um síðustu áramót.  Þá má benda á að laun margra tekjuhópa eldra fólks ná ekki lágmarkslaunum,  sem er óboðleg staða.

Nú er svo komið að skerðing á lífeyri frá almannatryggingum er hvergi meiri á byggðu bóli og ríkissjóður telst nú taka til sín meginhluta hins almenna lífeyris.

Athygli tæplega 75 þúsund kjósenda við kosningarnar í haust er vakin á þessari staðreynd.

Ályktunin var samþykkt með einu mótatkvæði.

 

 1. c) Þorbjörn mælti fyrir þriðju ályktuninni um kjaramál, sem kom frá Kára Jónassyni. Fjörugar umræður urðu um orðalag hennar og eftir nokkrar breytingar var hún tekin til afgreiðslu.

Launþegasamtökin styðji eldra fólk

LEB skorar á launþegasamtökin að þau slái skjaldborg um kjör eldra fólks og beiti sér fyrir því að það komi að borðinu varðandi kjör þess.

Tillagan var samþykkt svohljóðandi með tveimur mótatkvæðum.

 

Velferðarnefnd

Dagbjört Höskuldsdóttir kynnti störf nefnarinnar. Í meðförum hennar voru nokkrar breytingar gerðar á upphaflegu ályktuninni. Einnig var ályktun stjórnar LEB um stöðu hjúkrunarheimila fléttað inní ályktun nefndarinnar. Nokkrar umræður urðu um ályktunina á þingfundinum en engar breytingar gerðar. Var hún því lögð fram til afgreiðslu:

Ályktun um velferðarmál lögð fram á Landsfundi LEB 26. maí 2021.

Inngangur

Landssamband eldri borgara hefur unnið öflugt starf við að kynna og vekja athygli stjórnvalda á stöðu eldra fólks. Við viljum útrýma aldursfordómum og aldurstakmörkunum.

Okkar krafa er að allir sem komnir eru á efri ár hafi jafnan aðgang að félags -og heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag og hvar þeir búa.

Landsfundurinn krefst þess að við eldra fólk sé talað af virðingu og að ekki sé talað niður til þessa sístækkandi hóps, en viðurkennt að eldra fólk eru dýrmætur hluti samfélagsins og eiga það skilið að skoðanir þeirra séu virtar.

Hjúkrunarheimili og heimahjúkrun

Talsvert hefur áunnist í byggingu hjúkrunarheimila, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Það er fagnaðarefni, en betur má ef duga skal og leggur Landsfundurinn mikla áherslu á nauðsyn áframhaldandi uppbyggingu hjúkrunarheimila. Enn er langt í land og bendum við á, í því efni, vanda sjúkrahúsanna við að útskrifa eldri sjúklinga. Skipulegt samráð  og samvinna þarf að vera á milli ríkis og sveitarfélaga um alla þjónustu sem snýr að eldra fólki. Bent er á að mjög margt eldra fólk er bundið yfir veikum maka, og mikil þörf er á auknum stuðningi við þann viðkvæma hóp.  Brýnt er að styrkja og auka dagþjálfun með möguleika á sveigjanlegum tímasetningum.

Brýnt er að samþætta hjúkrunar-og heimaþjónustu um land allt, ekki síst með teymisvinnu, af því er augljós hagræðing, ekki síst fyrir notandann.

Skortur á kvöld-og helgarþjónustu er víða um land en slík þjónusta ásamt auknu framboði að dagþjálfun er lykillinn að því að fólk geti búið lengur heima. Ekki má heldur gleyma mikilvægi geðverndar, iðjuþjálfunar og tannverndar á hjúkrunarheimilum sem víða er ábótavant. Einnig er mikilvægt að endurskoða greiðslufyrirkomulag hjúkrunarheimila, hraðað verði uppbyggingu nýrra heimila en jafnframt verði boðið upp á fjölbreyttari lausnir fyrir eldra fólk.

Velferðartækni

Það er opinber stefna að það eigi að gera eldra fólki sem vill og getur, kleift að búa heima sem lengst.  Samspil iðju, manneskju og umhverfis skiptir miklu máli fyrir lífsgæði, heilsu og þáttöku. Gott aðgengi að hjálpartækjum og aðlögun umhverfis er nauðsynleg þannig að fólk geti lifað sem best án hindrana.  Landsfundurinn vill að stjórnvöld tryggi að efnahagur komi ekki í veg fyrir að fólk geti nýtt sér þessi tæki, og minnir sérstaklega á gleraugu og heyrnartæki.

LEB hefur gert það að sínu forgangsmáli að auka þekkingu eldra fólks á nýrri tækni m.a. með útgáfu bæklinga og félögin hafa staðið fyrir námskeiðum af myndarskap. Í ljós hefur komið að margt eldra fólk vill gjarnan fá skjáheimsóknir og möguleika á fjarlækningum.

Búsetumál

Landsfundurinn vill leggja áherslu á að auka fjölbreytni í búsetu. Minnum þar á þjónustuíbúðir og sambýli. Einnig öryggisíbúðir, sem eru nokkuð dýr kostur en nýtist vel fyrir þá sem ráð hafa á. Brýnt er að þær íbúðir sem eru sérstaklega ætlaðar eldra fólki séu hannaðar þannig að þær séu öruggar og henti fólki með skerta færni.

Geðheilbrigðismál

Geðheilsa aldraðra er málaflokkur sem hefur ekki verið sinnt nægjanlega og hefur verið bent á að lengi hefur staðið til að opna sérstaka geðdeild eldra fólks.

Landsfundurinn hvetur stjórnvöld til að undirbúa og stofna öldrunargeðdeild nú þegar. Sérstök geðverndarteymi eru komin nokkuð víða og er það vel, en brýnt er að til verði geðheilsuteymi sérstaklega fyrir aldraða. Heilsugæslan er fyrsti viðkomustaður fólks sem glímir við einmanaleika, þunglyndi og kvíða. Heilsugæslulæknar hafa þjálfun í slíkri meðferð. Við fögnum aðgerðaráætlun í málefnum fólks með heilabilun og vonum að hún sé komin til framkvæmda um land allt.

Aldrei ofbeldi 

Ríkislögreglustjóri hefur látið útbúa skýrslu um ofbeldi gagnvart öldruðum. Samkvæmt henni er ljóst að eldra fólk verður fyrir ofbeldi, bæði af hendi starfsmanna stofnana, aðstandanda eða fjárhaldsmanna. Ofbeldi getur verið andlegt líkamlegt eða fjárhagslegt. Starfshópurinn sem vann að skýrslunni vill fá LEB til samstarfs um áframhaldandi vinnu við þennan málaflokk. Einelti viðgengst því miður á heimilum (t.d. hjúkrunarheimilum) fyrir eldra fólk. Mikilvægt er að starfsfólk sé meðvitað um vandann og kunni að taka á honum.

Skiljum engan útundan

Aldraðir innflytjendur eiga á hættu að einangrast. LEB hefur hafið samstarf við Rauða krossinn um átaksverkefni til að rjúfa einangrunina.  Fagna ber því að baráttumál LEB um að fólk með skerta búsetu öðlist rétt til bóta frá TR, hefur náð fram að ganga.

Einmanaleiki

LEB hefur lagt áherslu  að vinna með fagaðilum gegn einmanaleika en hann getur leitt  til kvíða og þunglyndis. Ráðstefna LEB í samvinnu við Heilbrigðisráðuneytið um einmanaleika síðastliðið haust var mikilvægt innlegg í þá umræðu. 

Heilsuefling

Miklar framfarir hafa orðið í heilsueflingu eldra fólks og hafa sveitarfélög víða tekið við sér og styrkt slíka starfsemi. Hreyfing og heilsuefling vinna gegn ótímabærri öldrun og einmanaleika. Við hvetjum sveitarfélögin til að efla þetta starf sem nú þegar er hafið. Nú eftir meira en árs kyrrsetu margra, er það aldrei meira áríðandi.  Við fögnum nýútkominni skýrslu starfshóps um heilsueflingu eldra fólks á vegum heilbrigðisráðuneytisins. Þar birtist framtíðarsýn í málaflokknum til ársins 2030 og fylgir aðgerðaráætlun skýrslunni.

Sjálfboðaliðastarf

Landsfundurinn hvetur til þess að sjálfboðaliðastarf verði eflt, bæði með Rauða krossinum og á vegum LEB.  Sjálfboðaliðastarf er gefandi, bæði fyrir þann sem veitir og tekur á móti. Samfélagið þarf líka að hvetja til þess að yngra fólk sinni sjálfboðaliðastörfum með eldra fólki.  Auglýsingarherferð til hvatningar sjálfboðaliðstarfs er þarft verkefni.

Lokaorð

Margt hefur áunnist á síðustu árum. LEB hefur tekist að setja á dagskrá mörg af þeim málum sem mest hafa brunnið á eldra fólki. LEB krefst þess af stjórnvöldum á hverjum tíma, að það verði ekki liðið að aldraðir búi við fátækt og er það brýnasta verkefnið nú, að bæta kjör þessa hóps. 

Tillagan var samþykkt með einu mótatkvæði.

 

Laganefnd.

Guðmundur Guðmundsson, formaður nefndarinnar fór yfir tillögu að breytingum á grein 11.1. Greinin hljóðar þannig:  

11.gr. Fjármál

11.1. Aðildarfélög LEB skulu greiða árgjöld til sambandsins af öllum félagsmönnum sínum m.v. síðustu áramót. Landsfundur ákveður upphæð árgjalds.

 

Breytingartillagan er á þessa leið:

 1. gr. Fjármál

11.1. Aðildarfélög LEB skulu greiða árgjöld til sambandsins af öllum félagsmönnum sínum

 nema þeim sem náð hafa 90 ára aldri m.v. síðustu áramót. Landsfundur ákveður upphæð árgjalds.

 

Greinargerð með tillögunni:

Mörg félög innan LEB innheimta ekki félagsgjöld af þeim félagsmönnum sem náð hafa 90 ára aldri.

Til að samræma innheimtu félaganna á félagsgjöldum og þeim aðildargjöldum sem þeim ber að greiða til Landssambandsins leggur Félag eldri borgara í Hafnarfirði til að 1. málsgrein 11. greinar laga um taki eftirfarandi breytingum:

 

Laganefndin leggur til að tillögunni verði vísað til stjórnar LEB til nánari skoðunar, m.a. í tengslum við önnur ákvæði laga LEB svo sem útreikning á félagafjölda og fulltrúafjölda á landsfundi. Einnig um áhrif á fjárhag landssambandsins. Stjórnin leiti ennfremur álits aðildarfélaganna. Málið komi aftur til umræðu og afgreiðslu a næsta landsfundi að lokinni fyrrgreindri skoðun.

Tillaga nefnarinnar var samþykkt með einu mótatkvæði.

 

 Tillaga frá kjararáði FEBRANG hafði ekki verið tekin til afgreiðslu í nefndum þingsins og var því tekin fyrir sérstaklega.

Halldór Gunnarsson mælti fyrir tillögunni með örfáum orðum. Eftir ábendingar og umræður lagði Þorbjörn Guðmundsson fram hugmynd að breytingu á tillögunni, sem Halldór samþykkti. Eftir þá breytingu var svohljóðandi tillaga tekin til afgreiðslu:

Tillaga til landsfundar LEB 26. maí 2021 frá kjararáði FEBRANG

Landsfundur LEB haldinn á Selfossi 26. maí 2021 samþykkir að stjórn LEB skoði möguleika á framboði eldra fólks til alþingis 2021.

Tillagan var samþykkt með góðum meirihluta greiddra atkvæða. 

12.  Kosningar

Haukur Halldórsson, formaður uppstillinganefndar, gerði grein fyrir störfum nefndarinnar. Útskýrði m.a. ákvæði í 5. grein laga LEB.

 1. a) Kosning formanns til tveggja ára, kosning tveggja aðalmanna til tveggja ára og þriggja varamanna til eins árs.

a1) Kosning formanns. Helgi Pétursson var sjálfkjörinn formaður til næstu tveggja ára.

a2) Drífa Jóna Sigfúsdóttir Reykjanesbæ og Þorbjörn Guðmundsson Reykjavík voru sjálfkjörin í aðalstjórn til næstu tveggja ára. Valgerður Sigurðardóttir Hafnarfirði og Ingibjörg H. Sverrisdóttir Reykjavík voru kosnar á aðalfundi 2020 til tveggja ára.

A3) Uppstillinganefnd hafði tilnefnt þrjá varamenn, en Halldór Gunnarsson tilkynnti fyrr á fundinum að hann drægi til baka framboð sitt í aðalstjórn en gæfi þess í stað kost á sér í varastjórn. Tillaga um afbrigði þar að lútandi var samþykkt með þorra atkvæða.

Kjósa þurfti því um þrjá í varastjórn, til eins árs.

Úrslit kosninganna voru kynnt að loknum Ör - fræðsluerindum:

Greidd atkvæði voru 90, voru þau öll gild og féllu þannig:

 1. Ásgerður Pálsdóttir, Húnaþingi, 87 atkvæði,
 2. Ingólfur Hrólfsson, Mosfellsbæ, 86 atkvæði,
 3. Ragnar Jónasson, Kópavogi, 78 atkvæði.

Þessi þrjú hlutu kosningu. Halldór Gunnarsson, Hvolsvelli, hlut 19 atkvæði.    

 1. b) Kosning tveggja skoðunarmanna ársreiknings LEB.

Skoðunarmennirnir voru sjálfkjörnir, Ástbjörn Egilsson Garðabæ og Árni Jósep Júlíusson Reykjanesbæ. Varamenn voru einnig sjálfkjörnar Hildigunnur Hlíðar Garðabæ og Guðrún Ágústsdóttir Reykjavík.

13.  Ör - Fræðsluerindi.

 1. a) Eitt öflugt félag eða mörg veik.

Gurún Eyjólfsdóttir, formaður Félags eldri borgara Suðurnesjum sagði frá sameinuðu félagi með 2.400 félögum í 5 deildum, í fjórum sveitarfélögum á Suðurnesjum. Aðalstöðvarnar eru á Nesvöllum í Reykjanesbæ, en hver deild hefur sína aðstöðu. Stjórnin er skipuð félögum frá öllum deildunum. Sveitarfélögin reka félagsmiðstöðvarnar, en félögin annast tómstundamálin og útgáfu bæklingsins Aftanskins.  

 1. b) Hagnýtar upplýsingar fyrir aðildarfélög LEB

Viðar Eggertsson, skrifstofustjóri LEB, minntist á samheldni félaganna á Suðurnesjum og á Lög um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991. Lagði hann sérstaka áherslu á V. kafla laganna, 16. og 17. grein, reglur um félagslega, fjárhagslega og persónulega ráðgjöf. Einnig kynnti hann um heimasíðuna leb.is og fésbókarsíðu samtakanna.

 1. c) Ellilífeyrir til fólks með skerta búsetu á Íslandi – Nýtt átak: Sjálfboðaliðar

Þórunn Sveinbjörnsdóttir ræddi um viðbótarstuðning til eldra fólks, sem ekki hefur verið með búsetu hér á landi alla ævi og um verkefni sem varð til vegna faraldurs, símavini og skjáheimsóknir. Einnig minntist hún á bæklinginn Við andlát maka, sem Guðrún Ágústsdóttir tók saman. Fleiri verkefni eru í pípunum.

14.  Önnur mál.

Valgerður Sigurðardóttir gjaldkeri LEB las þakkarkort til Þórunnar Sveinbjörnsdóttur, fráfarandi formanns, fyrir hönd fráfarandi stjórnar og færði henni blómvönd fyrir ánægjulegt samstarf.

Helgi Pétursson, nýkjörinn formaður LEB, þakkaði það traust sem honum hafði verið veitt með kjörinu, ræddi málefni eldra fólks vítt og breitt, mælti hvatningarorð og lýsti framtíðinni hjá sambandinu með nokkrum orðum.

15.  Fundarslit.

Fundarstjóri þakkaði fyrir sig. Minnt var á LEB blaðið, heimsókn í félagsmiðstöð FEB Selfoss, móttöku í boði Árborgar og á kvöldverðinn.

Nýkjörin stjórn kom upp til myndatöku.

Þórunn Sveinbjörnsdóttir fráfarandi formaður, þakkaði samstarfið og nefndi sérstaklega Viðar Eggertsson skrifstofustjóra, Guðrúnu Ágústsdóttur ráðgjafa, Ernu Indriðadóttur og Þórhall mann sinn sem og fráfarandi stjórn. 

Þórunn og Helgi Pétursson nýkjörinn formaður þökkuðu fyrir frábæran fund og slitu honum kl. 17.15.

Að fundi loknum var þeim stjórnarmönnum sem hættu störfum þökkuð góð störf með blómum og hlýjum orðum. Það eru þau Haukur Halldórsson, Dagbjört Höskuldsdóttir og Guðfinna Ólafsdóttir.

 

            Fundargerð rituðu: Hallgrímur Gíslason og Hildigunnur Hlíðar.