Fundargerð landsfundar LEB 3. maí 2022

. Published on .

 

Landsfundur Landssambands eldri borgara,

haldinn í Hraunseli, Hafnarfirði 3. maí 2022 

Fundargerð 

Setning landsfundar

Valgerður Sigurðardóttir, formaður Félags eldri borgara í Hafnarfirði, bauð fulltrúa landsfundarins og gesti velkomna á fundinn. Afhenti Helga Péturssyni, formanni LEB, eintak af sögu Hafnarfjarðar.

Helgi Pétursson, formaður Landssambands eldri borgara, setti fundinn. 

Bjartur lífsstíll- Heilsuefling eldra fólks

LEB og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, ÍSÍ, hafa ráðið til starfa 2 verkefnastjóra heilsueflingar eldra fólks, þær Ásgerði Guðmundssóttur sjúkraþjálfara og íþróttakennara hjá LEB og Margréti Regínu Grétarsdóttur íþróttafræðing hjá ÍSÍ.  Þær eru að setja af stað verkefni sem þær nefna Bjartur lífsstíll - Heilsuefling eldra fólks og felur það í sér heilsueflingu fyrir 60 ára og eldri á landsvísu. Markmiðið er að innleiða heilsueflingu til framtíðar. Áhersla er lögð á samstarf við sveitafélögin, félög eldri borgara, íþróttafélög og heilsugæslu. Lýstu þær verkefninu og létu svo fundargesti gera nokkrar léttar æfingar. 

Niðurstaða kjörbréfanefndar

Ingólfur Hrólfsson gerði grein fyrir vinnu nefndarinnar. Skráðir fulltrúar voru 132, en 127 þeirra mættu. 

Kosning starfsmanna fundarins

Kosning tveggja fundarstjóra: Jóna Ósk Guðjónsdóttir og Þorsteinn Steinsson voru kosin fundarstjórar. Tóku þau til starfa og könnuðu lögmæti fundarins. Þar sem löglega var til hans boðað og enginn gerði athugasemd var fundurinn úrskurðaður lögmætur. Engin athugasemd var gerð við dagskrá fundarins og var hún því einnig úrskurðuð lögmæt. Þátttakendur voru 127.

Kosning tveggja fundarritara: Hallgrímur Gíslason EBAK Akureyri og Hildigunnur Hlíðar FEBG Garðabæ voru kjörin fundarritarar. 

Skýrsla stjórnar og umræður um hana

Formaður flutti skýrslu stjórnar LEB árið 2021-2022

Allir stjórnarfundir ársins 2021 hafa verið fjarfundir og er stjórnin sem kosin var í maí 2021 að hittast í fyrsta sinn á þessum landsfundi.  Þrátt fyrir það hefur LEB verið ákveðinn þátttakandi í umræðu um málefni eldra fólks.

  1. Áhersluatriði eldra fólks í aðdraganda þingkosninga

Vorið 2021 komu formenn félaga á höfuðborgarsvæðinu saman og funduðu um megináhersluatriði eldra fólks.  Lögð var áhersla á að eldra fólk fengi að vinna eins og það vildi, að starfslok miðuðust við færni en ekki aldur, að heilsugæslan verði vagga öldrunarþjónustunnar, um meiri fjölbreytni verði í búsetu og um nauðsyn þess að einfalda lagaumhverfi.  Efnt var til fjarfundar formanna félaganna um allt land og voru þessi áhersluatriði rædd og samþykkt.  Með þessi áhersluatriði samþykkt hóf LEB að bjóða fulltrúum stjórnmálaflokkanna, verkalýðsfélaga, samtaka atvinnulífsins og samtaka sveitafélaga á fundi og ekki er vafi á að það að áhersluatriðin komu frá öllum félögunum 55 hafði mikil áhrif á stjórnmálamennina og voru sum sett inn í stefnuskrár stjórnmálaflokkanna.

  1. Ný verkefnastjórn þriggja ráðuneyta, LEB og Sambands sveitafélaga

Boð barst frá Stjórnarráði Íslands um skipan verkefnisstjórnar um heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk.  Hlutverk hennar er m.a. að setja markmið í aðgerðaráætlun til fjögurra ára sem lögð verði frám á Alþingi haustið 2022. Aðgerðaráætlunin skal a.m.k. fela í sér aðgerðir sem fjalla um:

Samþættingu stuðningsþjónustu og heimahjúkrun/heilbrigðisþjónustu heim,

þjónustu við fólk með heilabilun, dagdvöl/dagþjálfun, heilsueflingu, einmanaleika og

geðrækt og sértæk  húsnæðis- og búsetumál þ.m.t. hjúkrunarheimili.

LEB hefur tilnefnt Helga Pétursson, formann LEB, og Ingibjörgu Sverrisdóttur, formann FEB, í þesssa verkefnastjórn.

  1. Formannafundir og heimsóknir til félaga

Það er ljóst að fjarfundafyrirkomulagið er komið til að vera og slík samskipti eru til góðs og styrkt samstarf félaga LEB. 

  1. Afsláttarapp

Afsláttarbók fyrir félagsmenn í aðildarfélögum LEB hefur verið gefin út árum saman.  Ákveðið hefur verið að gerast aðilar að afsláttarappinu Torgið og eru félagsmenn hvattir til að nýta sér þá afslætti og tilboð sem standa þeim til boða í bókinni og appinu.

  1. Félaga -og greiðslukerfið ABLER

LEB hefur verið boðinn aðgangur að vefkerfinu ABLER sem sér um skráningu nýrra félagsmanna og innheimtir félagsgjöld á einfaldan og þægilegan hátt. Einnig má nota kerfið við skráningu og innheimtu á námskeið, viðburði og ferðir.  Kerfið er frítt fyrir aðildarfélög LEB, en LEB greiðir mánaðargjöld fyrir öll félögin. 

  1. Bjartur lífsstíll - Heilsuefling fyrir 60 ára og eldri á landsvísu

Í ársbyrjun 2021 skilaði starfshópur, skipaður af heilbrigðisráðherra, skýrslu með  tillögum um heilsueflingu aldraðra.  Markmiðið er að gera eldra fólki kleift að búa í heimahúsum eins lengi og kostur er.  LEB og ÍSÍ hafa ráðið til starfa 2 verkefnastjóra heilsueflingar eldra fólks. Sjá 2. lið fundargerðar.

  1. Úrvinnsla verkefna

Á árinu voru unnin margvísleg verkefni styrkt með opinberum styrkjum.  Meðal annarra Heilsueflingarverkefnið, Umbúðalausir eldri borgarar, starfslokanámskeið, Akstur á efri árum og margs konar kynningarefni um velferðartækni.

  1. Áfrýjun Gráa hersins í Hæstarétti

Dómar Héraðsdóms Reykjavíkur í málunum sem höfðuð voru gegn TR féllu 22. des. sl.  Fallist var á að lífeyrir stefnenda frá TR nyti verndar eignarréttarákvæðis 72.gr. stjórnarskrárinnar. Taldi Héraðsdómur að skerðingarnar standast stjórnarskrá og sýknaði því ríkið að kröfum stefnenda. Hæstiréttur veitti leyfi til að áfrýja málunum beint til réttarins og mun framhald verða með haustinu.

Þakkir

Að lokum þakkaði formaður, Helgi Pétursson, fyrrverandi formanni LEB, Þórunni Sveinbjörnsdóttur og starfsfólki LEB, Viðari Eggertssyni og Steinunni Valdimarsdóttur vel unnin störf í þágu LEB. Einnig flutti hann þakkir til stjórnar LEB, Ingibjargar Sverrisdóttur, formanns FEB, Þorbjarnar Guðmundssonar formanns Kjaranefndar LEB, Ingólfs Hrólfssonar og Valgerðar Sigurðardóttur, en þau 2 síðastnefndu ganga nú úr stjórninni. 

Sæmundur Halldórsson, Grindavík, ræddi nokkur málefni er varða okkar hóp, en ekki urðu aðrar umræður um skýrsluna, nema úr sætum fundarmanna. 

Ársreikningar lagðir fram

Valgerður Sigurðardóttir, gjaldkeri, lagði reikninga fram. Þeir eru áritaðir af skoðunarmönnum uppgjörs og reikninga og af stjórn.

Helstu niðurstöður ársins: Rekstrartekjur kr. 34.133.263, rekstrargjöld kr. 34.510.646. Tap án fjármagnsliða kr. 337.383. Fjármagnsliðir kr. -8.909 og rekstrartap því kr. 386.292. Niðurstaða efnahagsreiknings kr. 48.964.420

Gjaldkeri kynnti einnig reikninga Styrktarsjóðs aldraðra, sem er frá 1981. Framlag frá LEB 200.000, fjármunatekjur 3.311. Rekstrarhagnaður kr. 203.311. Efnahagsreikningur samtals. kr. 2.134.044.

Nokkrar umræður og fyrirspurnir komu fram sem Valgerður svaraði.

Reikningarnir voru samþykktir samhljóða.

 

Fjárhagsáætlun ársins 2022 kynnt                                                                    

  Gjaldkeri kynnti áætlunina, en forsendur hennar byggjast á rekstri fyrri ára að undanskilinni breytingu á tekjufærslu opinberra styrkja.  Í stað þeirra verður skráð til tekna umsýslugjald sem fellur til LEB.  Unnið í apríl 2022.

Rekstrartekjur kr. 38.900.000.  Rekstrargjöld kr. 37.664.434. 

Ákvörðun árgjalds

Gjaldkeri kynnti tillögu stjórnar LEB um 100 kr. hækkun árgjalds fyrir árið 2022. Árgjald verður því kr. 800 á félaga. Ekki var reiknað með þessari hækkun við gerð fjárhagsáætlunar fyrir 2022 (Kr. 100x29.500.)

Sæmundur Halldórsson í Grindavík kom með hugmynd um að gjaldið verði vísitölutengt og var henni vísað til stjórnar.

100 kr. hækkunin var samþykkt með afgerandi meirihluta.  

Lagabreytingar

Sendar höfðu verið út tillögur um breytingar á tveimur greinum laganna. Tillaga um breytingu á grein 4.8 var dregin til baka þar sem hún þarfnast frekari skoðunar. Hin tillagan var um grein 5.4.

Núverandi lög:

5.4. Félagsstjórn aðildarfélags gefur út kjörbréf fyrir landsfundarfulltrúa og skal senda það til stjórnar LEB a.m.k. 2. vikum fyrir landsfund, undirritað af formanni og ritara aðildarfélags.

Breytingartillaga:

5.4. Formaður aðildarfélags tilkynnir hverjir eru landsfundarfulltrúar þess á þar til gerðu rafrænu eyðublaði frá skrifstofu LEB a.m.k. tveim vikum fyrir aðalfund.

Greinargerð:

Miklar breytingar hafa orðið á samskiptaleiðum eftir lagagrein 5.4 varð til í lögum LEB. Rafrænar lausnir hafa tekið við af bréfapósti. Nú fara rafræn samskipti að mestu fram milli LEB og aðildarfélaganna. Því er þessi tillaga.

Breytingin samþykkt samhljóða. 

Kynning málefnanefnda fundarins

Unnið verður í hópum um kjaramál, mál hjúkrunarheimila, velferðarmál og húsnæðismál. 

Samantekt málefnahópa, afgreiðsla ályktana og tillagna

Þorbjörn Guðmundsson formaður kjaranefndar kynnti ályktun um málefni hjúkrunarheimila.

Neyðarkall vegna ófremdarástands í málefnum hjúkrunarheimila.

Landsfundur LEB lýsir yfir miklum áhyggjum af stöðu eldra fólks vegna viðvarandi skorts á hjúkrunarrýmum.

Einnig lýsir fundurinn vonbrigðum sínum með hvað hægt gengur að mæta vaxandi þörf á hjúkrunarrýmum en í dag bíða um 425 manns eftir plássi og þar af eru tæplega 100  sem liggja á LSH og bíða eftir að geta útskrifast.

Í skýrslu Halldórs S. Guðmundssonar frá júní 2021 „Virðing og reisn“ er lagt á mat þörfina fyrir hjúkrunarheimili fram til ársins 2035 miðað við óbreytt hlutfall 80 ára og eldri sem þarfnast búsetu á hjúkrunarheimilum.

Til að mæta óbreyttri þörf þarf að bæta við  136 rýmum á ári sem er árleg fjárfesting upp á rúma 6 milljarða kr.

Í fjárlögum 2022 og fjármálaáætlun fyrir tímabilið 2023 til 2027 er gert ráð fyrir að fjárfesta í hjúkrunarheimilum fyrir 19,5 milljarða kr. sem eru rúmlega 400 rými eða um 70 ný rými að meðaltali á ári.

Í drögum að fjármálaáætlun ríksisstjórnarinnar fyrir árin 2023 til 2027 er gert ráð fyrir 364 nýjum rýmum en þörfin er metin vera 504.

Gangi þessi markmið óbreytt fram er ljóst að ekki er verið að taka á skorti á hjúkrunarrýmum og lausn á útskriftarvanda Landsspítalans ekki í sjónmáli.

Landsfundurinn krefst skjótra viðbragða og að brugðist verði við með hraðari  uppbyggingu nýrra heimila um land allt en jafnframt verði boðið upp á fjölbreyttari lausnir fyrir eldra fólk.

Einnig er mikilvægt að endurskoða greiðslufyrirkomulag íbúa hjúkrunarheimila,  tryggja þeim fjárhagslegt sjálfstæði og gera allt ferlið gagnsætt.

Landssamband eldri borgara krefst þess að koma að úrlausn mála og telur mikilvægt að eldra fólk hafi aðstöðu til að hafa áhrif á sitt eigið líf.

Þetta er ekki fyrsta ályktunin sem Landssamband eldri borgara sendir frá  sér vegna skorts á hjúkrunarrýmum. Það ríkir algert ófremdarástand í þessum málum. Fjörgamalt fólk situr lasið heima og fær ekki þá aðhlynningu sem það þarfnast og margir aðstandendur eru örmagna.

Þetta er neyðarkall frá Landssambandinu um að stjórnvöld taki á þessum málum tafarlaust!

Ályktunin samþykkt samhljóða. 

Þorbjörn las síðan tillögu frá Kára Jónassyni um kjaramál

Landsfundur Landssambands eldri borgara 3. maí 2022 skorar á ASÍ, BHM, BSRB og önnur samtök launafólks að hafa fulltrúa samtaka eldra borgara sér við hlið við kjarasamningagerð í næstu kjarasamningum.

Tillagan var samþykkt samhljóða. 

Dagbjört Höskuldsdóttir formaður velferðarnefndar kynnti ályktun nefndarinnar.

Ályktun velferðarnefndar LEB á Landsfundi LEB 2022

Inngangur:

Landsamband eldri borgara hefur unnið ötullega að því að vekja athygli stjórnvalda á stöðu eldra fólks. LEB vill útrýma aldursfordómum og aldurstakmörkunum. Við vekjum athygli á að tala þarf við alla með virðingu, eldri jafnt sem yngri. Okkar félagsfólk hefur skilað sínum skerfi til samfélagsins og á kröfu á góðum aðgangi að heilbrigðis- og félagsþjónustu. Eldri borgarar verða að hafa tök á því að geta átt heimili og aðgang að hjálp við að dvelja þar sem lengst, enda er það stefna stjórnvalda.

Frá árinu 2019 hafa 150 ný hjúkrunarrými verið tekin í notkun. Til að mæta óbreyttri þörf þarf að bæta við 136 rýmum á ári. Í drögum að fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2023 til 2027 er gert ráð fyrir 364 nýjum rýmum en þörfin er metin vera 504, sem sýnir að þrátt þessa fjölgun hjúkrunarrýma er enn skortur og vandi við að útskrifa eldri sjúklinga af sjúkrahúsunum. Aðstandendur, maki og eða börn eru bundin við hjúkrun eldri sjúklinga en eins og nýverið hefur verið bent á þá lendir þessi umönnun oftast á dætrunum.

Aðstandendur eru gjarnan í vinnu og með eigin heimili og getur álagið orðið óbærilegt. Að búa heima – með stuðningi:

Ef standa á við þá stefnu stjórnvalda, er enn mikil þörf á að efla stuðning heima.

Heimahjúkrun þarf að vera í boði, líka um helgar og á kvöldin. Dagvistun með þjálfun þarf að vera til staðar ef að búseta heima á að vera valkostur. Dagdvöl þarf líka vera fyrir hendi um helgar. Leggja þarf áherslu á að samþætta heimaþjónustu og heimahjúkrun eins og gert er í Reykjavík og víðar um landið. Slíkt tryggir mun betri þjónustu og auðveldar starfsfólki störfin. Mikilvægt er að huga að fjölbreyttum búsetuúrræðum og hægt er að leita fyrirmynda hjá nágrannalöndunum. Aðgerðarhópur LEB hyggst taka málið föstum tökum og er þegar byrjaður. Þar eru ýmsar spennandi hugmyndir að fæðast, eins og t.d. að nota stúdentagarðana sem einhvers konar fyrirmynd. Við minnum líka á þjónustuíbúðir sem reknar eru í Reykjavík, en þær eru tæplega 500.

Geðheilbrigðismál: Fulltrúi LEB tók þátt í stefnumörkun varðandi þunglyndi meðal aldraðra. Ítarleg skýrsla er á heimasíðu LEB. Þar er m.a. lögð áhersla á að: a) stofnað verði fagráð um geðheilsu eldri borgara, b) stofnuð verði geðgöngudeild eldri borgara á Landsspítala/Landakoti. c) Heimaþjónusta og heimahjúkrun hafi aðgang að stuðningi og ráðgjöf frá geðheilsuteymum heilsugæslunnar, d) opnuð verði sérhæfð dagdvöl á höfuðborgarsvæðinu sem sinna öldruðum sem glíma við þunglyndi og kvíða. Landsfundurinn leggur áherslu á að eldra fólk eigi greiðan aðgang að geðheilsuteymum um land allt.

Einmanaleiki:

Stöðugt þarf að vinna að því að fylgjast með því hvort eldra fólk glímir við einmanaleika.  LEB hvetur félaga sína til að gerast sjálfboðaliðar hjá t.d. Rauða krossinum. Það hjálpar bæði þeim sem gefa og þiggja.

Margt getur aukið við einmanaleika eldra fólks. Ýmsir hópar eru viðkvæmari en aðrir, við minnum á ýmsa jaðarhópa og eins minnum við á samkynhneigða, sem sem stundum geta þurft að fara aftur inn í skápinn. Fyrir þá getur verið erfitt að eldast og finna sig í hópi aldraðra.

Sífellt fleiri innflytjendur tilheyra nú okkar hóp. Við þurfum að styðja þá og vinna að því að þeir séu meðvitaðir um rétt sinn. LEB vill að allt eldra fólk verði virkt í starfi félaga okkar. Mikilvægt er að félögin í LEB reyni að ná til fólks af erlendum uppruna, m.a. á heimasíðum sínum.

Vandamál á heimilum – ofbeldi og drykkja:

Ríkislögreglustjóri kynnti skýrslu um ofbeldi gegn öldruðum og nefndi að vilji væri til að fá LEB til samstarfs um áframhaldandi vinnu. LEB lýsir sig fúst til slíkrar samvinnu. Nauðsynlegt er að efla fræðslu til eldra fólks um málefnið.

Heilsuefling:

Styrkur sem fékkst frá Félagsmálaráðuneytinu, sem skiptist á milli LEB og ÍSÍ, hefur orðið til þess að búið er að ráða tvær konur til starfa sem vinna nú að því að  skipuleggja starf íþróttafélaga, heilsugæslu og félaga aldraðra um allt land. Landsfundurinn lýsir ánægju sinni með þetta starf og vonar að það skili bættri heilsu félagsmanna.

Öldrunarrannsóknir:

Félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands hefur sinnt margskonar rannsóknum er varðar málefni aldraðra. Mikil þörf er á að efla það starf og bent er á félagslega þætti, stefnumörkun málaflokksins og rannsókn á þjónustunni sem veitt er og hvernig hún nýtist. Sigurveig Sigurðardóttir, prófessor í félagsráðgjafadeild HÍ hefur rannsakað þjónustu við eldra fólk, þátt aðstandenda í umönnun og samskipti kynslóða. Við bendum á Rannsóknarstofu Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og Landspítala ofl. í öldrunarfræðum. Starfsemi hennar þarf að efla og víkka út hennar hlutverk.

Landsambandið leggur mikla áherslu á að auka og efla allar öldrunarrannsóknir og menntun heilbrigðisstarfsmanna.

Velferðartækni:

Ekki líður það ár að framfarir verði ekki í Velferðartækni, þeirri þjónustu sem hægt er að veita eldra fólki í gegnum tölvur, spjaldtölvur eða síma.

LEB mun styðja vel við þá þróun í framtíðinni eins og verið hefur og fylgjast vel með öllum nýjungum. Það kemur meira og meira í ljós að tölvulæsi er nauðsynlegt, eldra fólk þarf að öðlast slíkt læsi til að vera lengur sjálfbjarga. Auka þarf notkun öryggishnappa meðal eldri borgara.

Lokaorð:

Þó að margt hafi áunnist, má ekki sofna á verðinum í velferðarmálefnum sem snerta eldri borgara. LEB verður áfram samviska stjórnvalda og mun benda á allt sem betur má fara.

Fátækt innan þessa hóps er staðreynd og það getum við sem samfélag ekki liðið.

Ályktunin  var samþykkt samhljóða. 

Halldór Frímannsson formaður húsnæðisnefndar kynnti ályktun nefndarinnar.

Ályktun Landsfundar LEB 2022 um húsnæðismál.

Frammi fyrir þessari staðreynd stendur Landsfundur LEB:

Úrbóta krafist í húsnæðismálum eldra fólks.

Staða eldra fólks í húsnæðismálum er og hefur verið óviðunandi. Ekki verður séð að ástandið lagist í náinni framtíð þrátt fyrir margítrekaðar kröfur til stjórnvalda um úrbætur. Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga ber mjög mikið á loforðum framboða sem dynja á eldri borgurum um húsnæðismál. LEB leggur áherslu á að staðið verði við loforðin. Í ljósi þessa telur Landsfundur LEB áríðandi  að loforð framboða um húsnæðismál eldra fólks verði ítarlega skráð. Á Landsfundum LEB gefist kostur á að gera grein fyrir efndum á kjörtímabilinu með það fyrir augum að upplýsa eldri borgara um efndirnar fyrir næstu kosningar.

Skipulagsmál: Tryggt verði í skipulagsmálum sveitarfélaga að hluti byggingarsvæða verði ætlaður fyrir íbúðir fyrir eldra fólk og að ávallt verði nægt lóðaframboð.

Húsnæðismál: Stórkostlegur vandi blasir við á húsnæðismarkaði. Fyrirliggjandi er gríðarleg þörf á íbúðum fyrir eldra fólk og þörfin mun bara aukast. Fjölga þarf lífsgæðakjörnum sem millistigi milli heimilis og hjúkrunarheimilis með íbúðum sem svara kröfum um samveru, öryggi og eru til þess fallnar að sporna gegn einmanaleika.  Huga þarf sérstaklega að staðsetningu með tilliti til tengsla við þjónustumiðstöðvar, heilsugæslu og hjúkrunarheimili. Landsfundur LEB telur brýnt að stjórnvöld tryggi sveitarfélögum og óhagnaðardrifnum byggingarfélögum aðgang að ódýru lánsfé til uppbyggingar lífsgæðakjarna, leigu-,  eigna- og búseturéttaríbúða fyrir eldra fólk.  Krafist er fjölbreyttra búsetuúrræða sem ná til allra, félagsleg úrræði, leiguíbúðir og íbúðir til eigu allt á viðráðanlegu verði.

Ályktunin var samhljóða samþykkt. 

Þorbjörn Guðmundsson kynnti síðan ályktun um kjaramál.

Ályktun kjaranefndar og stjórnar LEB um kjaramál eldra fólks á Landsfundi LEB 2022

Er eldra fólk óhreinu börnin hennar Evu ?  

Fimm  staðreyndir um kjör ellilífeyristaka 

  1. Lífeyrir frá almannatryggingum er megin hluti tekna stórs hóps lífeyristaka og svo mun verða um langa framtíð.
  2. Lífeyrir frá almannatryggingum hefur ekki haldið í við launaþróun. Í dag eru lágmarkslaun 368.000 kr. en ellilífeyri 278.271 kr. Munurinn er 89.729 kr.
  3. Kaupmáttur lífeyristaka hefur rýrnað m.a. vegna þess að árleg hækkun er undir hækkun verðlags samkvæmt vísitölu neysluverðs. Í dag er verðbólga 7,2% en ellilífeyrir hækkaði um síðustu áramót um aðeins 3,8%.  Það vantar því 3,4% prósentustig svo að kaupmáttur ellilífeyris haldist milli ára.
  4. Hluti lífeyristaka býr við mikla fátækt sem er til komin vegna þess að ellilífeyrir frá almannatryggingum er ekki í samræmi við framfærsluviðmið og vegna gríðarlegra  skerðinga í almannatryggingakerfinu 
  5. Þrátt fyrir áralanga baráttu eldri borgara hefur vilji stjórnvalda til þess að bregðast við bágri fjárhagslegri stöðu ellilífeyristaka verið mjög takmarkaður.

Krafa eftirlaunafólks er að lágmarkslífeyrir verði aldrei lægri en lágmarkslaun.

Ályktunin var samhljóða samþykkt. 

Ávarp

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra ávarpaði fundinn. Nú er áratugur heilbrigðar öldrunar hjá alþjóða heilbrigðisstofnuninni og hvatti hann til að áratugurinn verði nýttur til að fara í heildarendurskoðun á þjónustu við hópinn. Þjónustan þarf að vera fjölþætt og margir möguleikar í boði. Tækniþróun er mikil, heilsa fer batnandi, nýta þarf mismunandi starfsþrek, taka þarf á húsnæðismálum, auka tæknilæsi, auka heilsueflingu og svo framvegis.  

Pallborð

Verkalýðshreyfingin og fyrrverandi félagsmenn hreyfingarinnar, eldra fólk.

Þorbjörn Guðmundsson stýrði umræðum. Bauð hann þátttakendur velkomna, Drífu Snædal, forseta ASÍ, Sonju Ýr Þorbergsdóttur, formann BSRB og Friðrik Jónsson formann BHM. Lögðu þau mikla áherslu á öryggisnet almenna tryggingakerfisins, kröfu um jöfnuð, að fjárhagsáhyggjur geta haft áhrif á heilsu og kulnun og um sveigjanleg starfslok. Bréf frá LEB hefur verið sent til Þjóðhagsráðs og inn í grasrót verkalýðsfélaganna vegna kjarasamninga,. Rætt var um möguleika á aðkomu LEB að kjarasamningum og aðgang að sérfræðingum verkalýðssambandanna. 

Örerindi: Kjarnafélög eldri borgara

Drífa Jóna Sigfúsdóttir sagði frá því að á Suðurnesjum væri eitt félag sem nær yfir sjö sveitarfélög. Stjórnin kemur frá þeim öllum og því auðveldara að fá fólk í stjórn, viðburðum er dreift eins og unnt er og einnig er þeim streymt. Auðveldara er t.d. að fá fólk til starfa og fá styrki frá sveitarfélögunum. Nauðsynlegt er að fjölga félagsmönnum.

  • Sama þjónusta á að vera fyrir alla.
  • Hjúkrunarheimili eiga að vera á einni hendi.
  • Átak þarf að gera í húsnæðismálum.
  • Heilsueflingu þarf að gera góð skil. 

Kosningar

(Þessum lið hafði áður verið frestað vegna tímaskorts.)

Valgerður Sigurðardóttir, formaður uppstillinganefndar, gerði grein fyrir störfum nefndarinnar. Nokkur framboð bárust.

  1. a) Kjósa átti tvo aðalmenn til tveggja ára og þriggja varamanna til eins árs.

a1) Aðalstjórn: Ingibjörg Sverrisdóttir Reykjavík og Sigrún Camilla Halldórsdóttir Ísafirði voru sjálfkjörnar í aðalstjórn til næstu tveggja ára. Drífa Jóna Sigfúsdóttir Reykjanesbæ og Þorbjörn Guðmundsson Reykjavík voru kosin á aðalfundi 2021 til tveggja ára. Helgi Pétursson var þá einnig kosinn formaður til tveggja ára.

a2) Varastjórn var einnig sjálfkjörin:

  1. Ragnar Jónasson Kópavogi,
  2. Ásgerður Pálsdóttir Húnaþingi,
  3. Jónas Sigurðsson Mosfellsbæ.
  4. b) Kosning tveggja skoðunarmanna ársreiknings LEB.

Skoðunarmennirnir voru sjálfkjörnir, Ástbjörn Egilsson Garðabæ og Hildigunnur Hlíðar Garðabæ. Varamenn voru einnig sjálfkjörnir, Guðrún Ágústsdóttir Reykjavík og Sverrir Örn Kaaber Reykjavík.

Uppstillingin var samþykkt.

Formaður kallaði Ingólf Hrólfsson og Valgerði Sigurðardóttir til sín, en þau hætta í stjórn LEB. Færði hann þeim þakkir fyrir góð störf og færði þeim blómvönd. Þau þökkuðu fyrir sig og lýstu yfir ánægju sinni með samstarfið. 

Önnur mál

Guðrún Pétursdóttir spurði hvers vegna iðnaðarmenn hefðu dottið út úr afsláttarbókinni. Viðar Eggertsson svaraði.

Sjöfn Ingólfsdóttir hvatti til leiðréttinga á kjörum starfsmanna við umönnun.

Torfhildur Þorgeirsdóttir benti á að gaman væri að sjá framan í alla stjórnarmenn LEB. Þeir stilltu sér upp og kynntu sig.

Fundarstjóri minntist á skoðunarferð í Lífsgæðasetrið við Suðurgötu eftir fundinn. Minnti loks á fordrykk í boði Hafnarfjarðarbæjar og kvöldverð í Kænunni. 

Fundi slitið

Helgi Pétursson, formaður, þakkaði fyrir lifandi og skemmtilegan fund og sleit fundinum kl. 16:40.

 

                                    Fundargerð rituðu: Hildigunnur Hlíðar og Hallgrímur Gíslason.