Aðalfundur 2021

. Published on .

 

Aðalfundur Félags eldri borgara á Selfossi, haldinn í félagsaðstöðunni í Mörk, fimmtudaginn 3. júní, 2021, kl. 14.00.

Formaður, Guðfinna Ólafsdóttir setti fundinn og gerði tillögu um Ólafíu Ingólfsdóttur sem fundarstjóra og  Esther Óskardóttur og Pál M. Skúlason sem fundarritara. Tillagan var samþykkt og tók Ólafía við fundarstjórn. 

 1. Skýrsla stjórnar fyrir síðastliðið ár.

GuðfinnaÓlafsdóttir, formaður fór yfir það helsta úr starfi félagsins.

Um síðustu áramót voru félagsmenn 749 og hafði fjölgað um 70 á árinu en 10 gengu úr félaginu vegna brottfutnings. 21 félagsmaður létust á árinu og minntust fundarmenn hinna látnu með því að rísa úr sætum.

Formaður gerði grein fyrir verkaskiptingu stjórnarfólks á árinu og þær áætlanir sem skipulagðar voru en breyttist í kjörfar Covid faraldursins.

Árið 2020 voru haldnir 13 stjórnarfundir -  þar af tveir fjarfundir. 7 fundir hafa verið haldnir á þessu ári.

Á síðasta ári fagnaði félagið 40 ára afmæli sínu og Hörpukórinn 30 ára starfsafmæli og ætlunin var að fagna þessum tímamótum en ekki mögulegt vegna Covit og stefnt er á að minnast þessara tímamóta á þessu ári.

Stjórnin kom að umferðaröryggismálum í Árborg og tók þátt í símhringingum til þeirra sem eldri voru en 85 ára. Sett voru upp útileiktæki, fulltrúar fóru á landsfund LEB á Hótel  Sögu og haldin var 17. júní hátíð í Mörk og samþykkt hefur verið að það verði þannig áfram. Það var farin menningarganga á vegum bæjarins undir leiðsögn Kjartans Björnssonar,  tekin var í notkun ný heimasíða og gefið út fréttabréf.

Formaður hvatti til tæknivæðingar (aukinnar tölvufærni) og einnig er fólk hvatt til að taka þátt í heilsueflingu á íþróttavellinum í júní sem er á vegum sveitarfélagsins og er öllum opið og gjaldfrjálst.

Þá greindi formaður frá ýmsu því sem áætlanir höfðu verið um, en fella varð niður. Ýmislegt fleira kom fram í máli formanns, en vísað er til skýrslunnar í heild sinni á heimasíðu félagsins  www.febsel.is

Formaður gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu og kvaðst hafa verið heppin með samstarfsfólk. Þakkaði gott samstarf og óskaði félaginu alls góðs í  starfinu framundan.  Þá þakkaði hún öðru fólki sem hún hefur kynnst í gegnum þetta starf -  hópstjórum og starfsfólki í félagsaðstöðunni.


 1. Ársreikningur

Guðrún Guðnadóttir, fjármálastjóri fór yfir og útskýrði ársreikninginn. Í upphafi máls fjármálastjóra  greindi hún frá og sýndi gatara Egils Thorarensen sem Sigríður Guðmundsdóttir hafði gefið félaginu.   

Tekjur félagsins á árinu voru kr. 5.159.222 og rekstrarkostnaður kr. 4.738.523. Rekstrarhagnaður var því kr.  420.699. Fram kom eftir fyrirspurn, að formaður og gjaldkeri fá kr 27.000 á mánuði fyrir störf sín og annað stjórnarfólk kr. 11.000 fyrir hvern fund.

Reikningurinn var samþykktur samhljóða.


 1. Árgjald

Undir þessum lið voru lagðar fram tvær tillögur stjórnar:

 1. Aðalfundur Félags eldri borgara Selfossi haldinn 3. júní 2021 samþykkir að árgjald félagsins fyrir árið 2021 verði kr. 3.500.
 2. Félagar sem voru 90 ára og eldri um sl. áramót eru þó undanþegnir greiðslu árgjaldsins, ef þeir kjósa svo.

Tillögurnar voru samþykktar samhljóða. 

 1. Skýrslur starfshópa
 2. Ferðanefnd Sigríður Guðmundsdóttir (Sirrý) gerði grein fyrir því starfi sem tókst að sinna, en nefndin hélt 10 fundi. Af fjórum ferðum sem áætlaðar voru, tókst að fara í tvær: í Borgarnes, þar sem Sögusetrið var sótt heim og ferð um Selfoss og Flóa með leiðsögn Hannesar Stefánssonar.

Fyrirhugaðar ferðir í sumar eru í Heiðmörk á Njáluslóðir og til Vestmannaeyja.

Hún greindi frá þeirri ákvörðun nefndarinnar, að eingöngu verði farið með einni rútu og lagði áherslu á að í ferðum á vegum nefndarinnar beri hver þátttakandi ábyrgð á sjálfum sér.

 1. Leikhúsnefnd: Sigríður (Sirrý) gerði einnig grein fyrir starfi þessarar nefndar, en það tókst að fara á Vínartónleika Sinfóníuhljómsveitarinnar og í leikhús til að sjá Vanja frænda.

Í nefndinni eru auk Sirrýar þau Helgi Hermannson og Ingibjörg Stefánsdóttir.

 1. Sögunefnd: Guðmundur Guðmundsson greindi frá því að fyrirætlanir um að lesa Njálu urðu að engu, en jafnframt að Njála verði lesin næsta vetur og greiðslur þátttökugjalds sem fólk innti af hendi mun gilda áfram. Auk Guðmundar eru í nefndinni Örlygur Karlsson og Hannes Stefánsson.
 2. Myndlistarhópur: Guðfinna Ólafsdóttir sagði stuttlega frá starfi þar, en Covid setti strik í reikninginn eins og annars staðar.
 3. Gönguhópur: Þórunn Guðnadóttir kvaðst hafa verið búnin að gleyma að hún hefði gönguhóp. En þar er um að ræða hópinn þar sem rúta frá Guðmundi Tyrfingssyni keyrði göngufólk út fyrir bæinn einu sinni í viku. Þessar göngur voru öllum opnar og vonir standa til að framhald verði á þeim.
 4. Prjónahópur: Guðný Gunnarsdóttir greindi frá þessu starfi, sem felst í að hittast á mánudögum milli kl. 13 og 15 . Allir velkomnir í hópinn og hann er ókeypis, utan að fólk greiðir í kaffisjóð.
 5. Viðburðastjórn: Það var Arndís Gestsdóttir sem sagði frá, en það sama var uppi á teningnum og hjá öðrum. Arndís flutti svo ljóð í lok máls síns, sem er svohljóðandi:

Á fimmtudögum hittumst við og kættum okkar geð,

Nutum þess að sötra kaffi, félögunum með.

Svo kom Covid 19 kreppa,

enginn þorði út að skreppa

Sátum bara heima.

 

Handþvottur og sótthreinsun og tveggja metra bil,

gríma huldi andlitin og þríeykið varð til,

búðarferðum fækkaði

og þolinmæðin lækkaði.

Sátum bara heima.

 

Nú förum við á næstu vikum betri tíð að sjá,

bólusetning bjargar okkur Covid 19 frá.

Við gleðjumst saman,

höfum gaman.

Getum glaðst með öðrum.

 

Á næsta hausti trúi ég að veiran muni hopa,

allt verði gott og aftur fáum saman kaffisopa, á námskeið mætum,

hugann kætum,

getum glaðst með öðrum.

 

 1. Lestur öndvegisbókmennta: Bryndís Guðbjartsdóttir upplýsti að hópurinn hefði náð að ljúka við öll 5 bindi Dalalífs Guðrúnar frá Lundi og í kjölfarið var farin ferð í Fljótin – sögusvið Dalalífs. Vesturfarasögur Böðvars Guðmundssonar bíða. Hvað verður í haust kemur í ljós.
 2. Öldungaráð: Guðrún Þóranna Jónsdóttir sagði lítilllega frá ráðinu og starfi þess. Í ráðinu er einn fltr. frá FebSel. auk fltr. frá Eyrarbakka, Stokkseyri og sveitarfélaginu. Hugmyndir eru uppi um málþing um málefni eldri borgara í Árborg.
 3. Hörpukórinn: Gunnþór Gíslason fjallaði um starfsemi kórsins sem hefur verið harla snubbótt. Kórinn var þrítugur á síðasta ári og ýmislegt stóð þá til, sem bíður þess að komast í framkvæmd. Kórstarfið mun hefjast aftur 22. september og stjórnandinn verður áfram sá sami.
 4. Kosningar.

Fyrir lágu tillögur kjörnefndar og og voru þær allar samþykktar samhljóða.
1. Formaður var kosinn til tveggja ára.

Guðfinna Ólafsdóttir gaf ekki kost á sér og í hennar stað var kjörinn  Þorgrímur Óli Sigurðsson, Árbakka 9.

2.Tveir meðstjórnendur kosnir til tveggja ára.

Kosningu hlutu þau Gunnþór Gíslason, Grænumörk 2 og Guðrún Þóranna Jónsdóttir, Engjavegi 65.

 1. Einn varamaður í stjórn til tveggja ára

Kosningu hlaut Valdimar Bragason, Heiðarvegi 12.

 1. Tveir skoðunarmenn til eins árs.

Kosningu hlutu: Einar Jónsson, Suðurengi 26, og Helgi Helgason, Austurvegi 51.

 1. Kjörnefnd.

Guðfinna Ólafsdóttir, Engjavegi 83  var kjörin nýr fulltrúi í kjörnefnd. 

 

 1. Önnur mál.

Stjórn félagsins lagði fram tillögu að ályktun fundarins, svohljóðandi:

 

Ályktun aðalfundar Félags eldri borgara Selfossi haldinn 3. júní 2021.

Félag eldri borgara Selfossi hvetur bæjarstjórn Árborgar til að virkja betur öldungaráð sveitarfélagsins.

Minnt er á það mikilvæga hlutverk ráðsins sem tilgreint er í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 og í lögum um málefni aldraðra nr. 125/1999 með áorðnum breytingum með lögum nr. 37/2018.   Öldungaráð skal fylgjast með heilsufari og félagslegri velferð aldraðra og samhæfa þjónustu.  Það á að gera tillögur til sveitastjórna um öldrunarþjónustu.  Það skal leitast við að tryggja að aldraðir fái þjónustu sem þeir þarfnast og kynna öldruðum þá kosti sem í boði eru. 

Af þessum skyldum er ljóst að virkja þarf öldungaráð strax til þeirra verka sem því er ætlað.  Setja þarf ráðinu erindisbréf og kalla það saman eins oft og þurfa þykir að lágmarki fjórum sinnum á ári.  Engan veginn má gefa afslátt af því tækifæri sem eldra fólki er gefið til að eiga rödd og hafa áhrif á skipulag og stefnumótun í málefnum aldraðra í Árborg. 

 

Tillagan var samþykkt samhljóða sem ályktun fundarins.

 

 1. Önnur mál:
 2. - Nýkjörinn formaður, Þorgrímur Óli Sigurðsson þakkaði það traust sem honum var sýnt. Hann lýsti ánægu með samstarfið í fráfarandi stórn, kvað hana hafa verið skynsama, sem sjá mætti af því að hún valdi sér sæti næst flóttaleiðinni út af fundinum. Hann fór síðan lauslega yfir það helsta sem framundan er:

- að efla félagsstarf sem veitir lífsfyllingu,

- að hjálpa bæjarstjórn við að vinna að málefnum eldra fólks,

- að stuðla að góðu aðgengi að nýju glæsilegu íþróttahúsi sem verður tekið í notkun í haust og fyrirhuguðu frístundahúsi.

- að stuðla að því að öldungaráð komist í fulla virkni

- að vinna að auknu samstarfi við önnur félög í Árnessýslu og Rangárvallasýslu  og efla samvinnu og samstarf við samstarf við eldri borgara á Stokkseyri og Eyrarbakka. Hann kvað mikilvægt að gæta að hagsmunum allra í sveitarfélaginu.

- að standa við bakið á stjórnendum HSU við uppbyggingu þjónustu við eldri borgara.

 

Formaðurinn minnti á að Alþingiskosningar væru framundan og þau fimm áhersluatriði sem Landssamband eldri borgara hefur sett á oddinn í aðdraganda þeirra.

Loks þakkaði hann fráfarandi formanni og fráfarandi stjórn sérstaklega gott samstarf.

 1. Guðfinna Ólafsdóttir fjallaði lítillega um há fasteignagjöld í Árborg – þau væru talsvert hærri en í Reykjavík.
 2. Hjörtur Þórarinsson spurðist fyrir um blað LEB Landssambands eldri borgara og Guðfinna kvað því verða dreift fljótlega.
 3. Guðfinna sagði frá því að Jón Hjartarson byðist til að efna til hóps þar sem fólk kæmi og hjólaði saman.
 4. Loks afhenti Guðfinna starfsmönnum fundarins blómvendi í þakklætisskyni fyrir störf þeirra.

 

 1. Fundarlok

Nýkjörinn formaður þakkaði þeim fjölmörgu sem sóttu þennan fund fyrir komuna sem voru um 130 talsins. Hann þakkaði ennfremur fundarstjóra og fundarriturum þeirra störf.

 

Fundi slitið kl 16.08.

 

Esther Óskarsdóttir

Páll M. Skúlason