Ársskýrsla stjórnar FEB á Selfossi flutt á aðalfundi 2021

. Published on .

 

Ársskýrsla stjórnar FEB Selfossi fyrir árið 2019

Á árinu gengu til liðs við okkur 144 nýir félagsmenn. Í árslok voru félagsmenn 711 og hafði fjölgað um 86. 18 félagar létust á árinu og 22 sögðu sig úr félaginu, annað hvort vegna brottflutnings af svæðinu eða vegna lasleika.
Í lögum félagsins segir:
Markmið félagsins er að vinna að velferðarmálum eldra fólks með því að:

Vekja athygli og auka skilning almennings, ríkis og sveitarfélags á þörfum eldri borgara.

Stuðla að aukinni þjónustu fyrir eldri borgara.

Skipuleggja tómstunda- og félagsstarf meðal eldri borgara.

Vinna að öðrum þeim málum, sem til hagsbóta teljast fyrir eldri borgara.

Að þessum markmiðum reynir stjórn að stefna að hverju sinni. Tilkoma þessa húsnæðis sem við erum stödd í nú hefur gjörbreytt aðstöðu okkar og nú er hægt að bjóða upp á fleiri möguleika en áður var hægt. Fyrir það erum við þakklát sveitarfélginu okkar sem lætur okkur í té þetta frábæra húsnæði. Að auki styrkir sveitarfélagiðfélagið okkur árlega með fjárveitingum sem gerir okkur kleift að halda úti fjölbreyttri starfsemi.

Aðalfundur var haldinn í febrúar 2018 og var fundarstjóri Guðmundur Guðmundsson og fundarritari Sigrún Ásgeirsdóttir. Þá hætti Eysteinn Jónsson sem gjaldkeri eftir eins árs setu í stjórn og var það vegna veikinda.
Sigríður Jóhanna Guðmundsdóttir (Sirrý) lét af formennsku eftir farsælt starf í 6 ár en lengur getur formaður ekki setið. Þá hætti Jósefína Friðriksdóttir einnig af sömu ástæðu.

Í stjórn voru kosin: Guðfinna Ólafsdóttir, formaður til 2ja ára og Guðrún Guðnadóttir, gjaldkeri kosin til eins árs en við ákváðum að hún fengi titilinn fjármálastjóri og Þorgrímur Óli Sigurðsson kosinn til 2ja ára. Í varastjórn var Guðrún Þóranna Jónsdóttir kosin til 2ja ára.
Fyrir í stjórn voru: Anna Þóra Einarsdóttir, Gunnþór Gíslason og Gunnar Þórðarson í varastjórn.

Á aðalfundinum voru samþykktar tvær áskoranir. Annars vegar til Heilbrigðisráðuneytisins og Sveitarfélagsins Árborgar um að flýta sem mest byggingu fyrirhugaðs hjúkrunarheimilis á Selfossi.
Í öðru lagi var samþykkt tillaga Sesselju Bjarnadóttur um að skora á sveitarfél. Árborg að beita sér fyrir því að boðið verði upp á heitan mat í hádeginu hér í Grænumörk sambærilegt við það sem boðið er upp á í öðrum bæjarfélögum.

Þessar áskoranir voru sendar þar til bærum aðilum.

Eins og við vitum þá eru þegar hafnar framkvæmdir við nýtt hjúkrunarheimili og vonandi ganga þær skjótt og vel, því þörfin er mikil.
Ekki er enn farið að bjóða upp á heitan mat í Grænumörk en starfshópur hefur verið að störfum og fáum við að heyra af því hér á eftir.

Stjórnin sendi einnig frá sér áskorun til sveitarfélagsins um að fjölga bekkjum í bænum, og þá sérstaklega hér í austurbænum þar sem byggð hafa verið fjölbýlishús ætluð 50 ára og eldri og í þessum húsum munu búa um 120 manns.

Einnig beindum við tilmælum til verslana um heimsendingu. Í Nettó er hægt að panta á netinu en það þarf að sækja vöruna. Ekki er boðið upp á slíkt í Bónus eða Krónunni.

Við endurnýjuðum umsókn til sveitarfélagsins um Hreyfistyrk en því hefur ekki verið sinnt. Okkur hafa borist ábendingar um að æfingagjöld í vatnsleikfimi þyki há því víða þurfa eldri borgarar ekkert að borga fyrir slíka leikfimi. Við munum því beina tilmælum til sveitarfélagsins að það komi til móts við iðkendur því við erum jú heilsueflandi sveitarfélag.

Ákveðið var að gefa ekki út bækling sem sýndi fyrirtæki sem veita okkur afslátt. Heldur eru félagsmenn hvattir til að sýna skírteinið sitt og spyrja um afslátt. Mjög mörg fyrirtæki veita okkur afslátt og það munar um allt.

Við höfum haft þann háttinn á að þeir leiðbeinendur sem vildu innheimta sjálfir námskeiðsgjöld og félagið útvegar aðstöðuna. Ekki hefur tekist að breyta þessu á öllum námskeiðum en það er stefnt að slíku fyrirkomulagi frá og með næsta hausti

Allir hópar hafa aðgang að eldhúsinu í húsinu og geta hellt upp á könnuna. Hver og einn hópur þarf að sjá um sitt og ganga frá á eftir. Engin eldamennska fer fram í eldhúsinu og því er ekki reiknað með starfsfólki í störf þar.

Samið var við Fjölbrautaskóla Suðurlands um að hann útvegaði okkur nemendur sem tækju að sér að heimsækja þá félagsmenn sem þess óskuðu, og kenndu þeim að nota snjallsíma, IPAD og Spjaldtölvu . Nú hefur komið í ljós að þetta gengur ekki. Spurning hvort það séu ekki einhverjir félagsmenn sem geti hlauðið í skarðið og aðstoðað félaga okkur. Bið ég þá sem tilbúnir væri í það verkefni að setja sig í samband við okkur í stjórninni.

Auglýst var námskeið í silfursmíð og var búið að fá kennara í það verkefni. Því miður missti sá aðili sitt húsnæði og hefur verið að koma sér fyrir í Hveragerði og bíðum við bara eftir að heyra frá honum.

Þátttaka í námskeiðum hefur verið mjög góð. 193 konur og 68 karlar hafa sótt námskeið eða tekið þátt í öðru starfi á vegum félagsins. Sumir hafa tekið þátt í fleiri en einu námskeiði eða öðrum viðburðum sem í boði eru. Þetta eru ekki alveg 100% réttar tölur en segir mér þó að konur eru miklu duglegri en karlar að sækja í félagsstarfið. Hver ástæðan er veit ég ekki,. Kannski of mikið af námskeiðum sem falla konumn betur í geð eða þær duglegri að sækja sér félagsskapinn . Þið getið velt þessu fyrir ykkur og ef þið hafið lausn þá endilega látið okkur í stjórn vita.

Við sömdum við ungan forritara um að setja upp heimasíðu fyrir félagið. Það hefur ýmislegt tafið þá vinnu en við vonumst til þess að heimasíða fari að sjá dagsins ljós.

Þegar dagdvölin fluttist á efri hæðina hér þá losnaði töluvert húsnæði hér inni á ganginum. Þar er m.a. skrifstofan okkar, leirlist og postulínsmálun. Til stóð að sv.fél. myndi nýta laust pláss en ekkert gerðist þar og því tókum við á það ráð að lána Hörpukórnum eitt herbergi þar inni og verðum við að sjá til hve lengi þau fá að hafa afnot af því herbergi. Kórinn er með mikið af nótum og fleiru sem safnast hefur að í gegnum árin en kórinn er 30 ára á þessu ári og í honum eru um 50 manns þannig að það er ekkert óeðlilegt að þau hafi sitt afdrep, þó allir kórfélagar komist ekki fyrir þar inni í einu en salinn hafa þau til æfinga.

Stjórnin og viðburðanefndin hafa auglýst í Dagskránni, bæði að hausti og í byrjun árs. Birt stundaskrá og það sem er á döfinni. Fréttabréf eru gefin út og liggja frammi hér í félagsmiðstöðinni. Öll námskeið eru svo auglýst sérstaklega hér á auglýsingatöflunni í anddyrinu. Einnig ákváðum við nýlega að auglýsa vikulega hvað væri í dagskrá í opnu húsi en þá ber svo við að Dagskráin er ekki borin út nógu snemma í öll hverfi bæjarins.Og Það er ekki ókeypis að auglýsa í blöðum, nema í Morgunblaðinu, þar getum við sett inn viðburði undir liðnumn Fólkið - Félagsstarf. En það kaupa ekki allir Morgunblaðið. Stundum finnst okkur eins og það sé ekki lesið það sem við sendum frá okkur en það er auðvitað líka ykkar vandamál.
Facebook síðan okkar er mikið skoðuð og kannski lesið líka það sem við setjum inn. Við deilum inn á þá síðu fréttum frá Landssambandi eldri borga, Farsælli öldrun Þekkingarmiðstöð og ýmsum fróðleik sem við rekumst á. Við vonum að þetta sé ykkur gagnlegt. Þess vegna höfum við boðið upp á kennslu í notkun snjalltækja svo þið félagar góðir getið notið þess sem við höfum upp á að bjóða. Slóðin á síðuna er Félaga eldriborgara Selfossi

Hin nýja stjórn hefur haldið 10 stjórnarfundi á starfsárinu. Á fyrsta fundi skipti stjórn með sér verkum, Anna Þóra Einarsdóttir var kosin varaformaður, Þorgrímur Óli Sigurðsson, ritari, Guðrún Guðnadóttir eins og áður hefur komið fram er fjármálastjóri. Gunnþór Gíslason er meðstjórnandi, og Gunnar Þórðarson og Guðrún Þóranna eru varamenn en þau eru boðuð og sitja alla fundi stjórnar.

Stjórnar beið það verkefni að flytja skrifstofu félagsins af 2. hæð niður á 1. hæð. Þar var búið að standsetja stórt herbergi fyrir stjórn en við kúventum því og aðsetur stjórnar er nú í litlu herbergi á sömu hæð. Stjórnin fundar því einu sinni í mánuði í stóra herberginu en þar fer fram leirlist og postulínsmálun því aðrar vinnustofur voru uppteknar. Þetta varð að gera svo hægt væri að auka fjölbreytni námskeiða og leiðbeinendur buðust.

Á skrifstofunni var mikið bókasafn sem við urðum því miður að losa okkur við þar sem ekkert var plássið hér í húsinu og bækur safna ryki og það þarf að þurrka af þeim og er ekki starfsfólk til þess. Samið va r við Heiðrúnu á Bókasafninu um að safnið útvegaði bækur og kæmi með í húsið. Breytingar á húsnæði safnsins sem stóðu yfir í allt sumar og haust og tóku lengri tíma en áætlað var svo ekki hefur neitt gerst í bókamálum hér í húsinu. En það stendur til bóta mjög bráðlega.

Tekin var sú ákvörðun að fella niður kaffinefndir og ráða utanaðkomandi aðila til að sjá um veitingar í Opnu húsi og öðrum samkomum. Vil ég nota tækifærið til að þakka þeim konum, já konum, sem séð hafa um veitingar alla tíð og stóðu sig auðvitað með prýði. En við erum eldri borgarar og því eigum við ekki að þurfa að standa í erfiðu starfi þegar við komum í félagsmiðstöðina til að hitta fólk. Nú borgum við Bjartmari og hans fólki hjá Veisluþjónustunni og Hugrúnu Helgadóttur fyrir að bera í okkur kaffi og kruðerí. Vil ég þakka þeim sérstaklega fyrir fjölbreytt meðlæti og góða samvinnu. Þá vil ég einnig þakka Jóni Helgasyni sem ávallt var tilbúinn til að aðstoða við kaffiuppáhellingar.

Lögð var áhersla á að bjóða félagsmönnum upp á hreyfingu þegar húsnæðið bauð upp á það. Bryndís Guðmundsdóttir, jógakennari tók að sér að vera með Qigong kínverska leikfimi og stólajóga. Mjög góð aðsókn í bæði þessi námskeið og fylltist salurinn að áhugasömum iðkendum. Vegna góðrar aðsóknar var samið við Bryndísi um að hún lækkaði námskeiðsgjaldið úr 4000 í 3000 eftir áramótin og ég held að við séum bara orðin háð þessum tímum því þeir gera okkur svo gott.
María Carlos sem við þekkjum úr sumbadansinum ákvað að bjóða upp á stólaleikfimi okkur að kostnaðar lausu tvisvar sinnum í viku. Mjög skemmtilegir tímar hjá Maríu sem er svo opin og skemmtileg manneskju. Hún er ættuð frá Síle og er menntaður íþróttakennari og svo var hún að ljúka sjúkraliðamenntun.
Við erum Bryndísi og Maríu afskaplega þakklát fyrir þeirra starf.

Eins og undanfarin ár bjóða þau Guðlaug Jóna og Jón Þór í línudans og hafa þau bætt við tíma fyrir óvana svo nú er um að gera að skella sér í tíma og læra línudans eða rifja upp það sem við lærðum einu sinni.

Á vegum félagsins eru starfandi nokkrar nefndir:

Þær eru: Árshátíðarnefnd, Viðburðastjórn í Mörk,en það er nýtt nafn á dagskrár og fræðslunefnd, Ferðanefnd, Spilanefnd, áður félagsvistarnefnd, Leikhúsnefnd og íþróttanefnd, einnig eru nefndir sem sjá um Fornsögulestur og Öndvegisbók–
menntir
Fulltrúar þessara nefnda munu flytja skýrslu hér á eftir og segja frá starfinu og því ætla ég ekki að telja upp allt sem þau hafa gert á árinu. Þá hefur stjórnin séð um að skipuleggja námskeið sem ekki hafa verið fastir liðir. Boðið hefur verið upp á tungumálakennslu hjá Fræðslunetinu, Ensku og Spænsku og hófust þau námskeið núna eftir áramót. Perlusaumur byrjaði svo í janúar. Svo er lítill Krossgátuhópur sem glímir við sunnudagskrossgátu Morgunblaðsins hittist x1 í viku eftir að fornsögulestri lýkur. Það mættu nú alveg koma fleiri í þann hóp og kynnast þessari skemmtilegu hugar/heila leikfimi.

Ekki má gleyma gönguhópum Ágústu og Þórunnar en þeirri síðarnefndu fylgir rúta frá Guðmundi Tyrfingssyni sem hann býður okkur að kostnaðarlausu og hefur gert í mörg ár. Flyt ég því eigendum þess fyrirtækis innilegar þakkir fyrir þann hlýhug sem félaginu er sýndur. Einnig þakka ég þeim stöllum Ágústu og Þórunni fyrir þeirra framlag. Þessar göngu gætu nú fleiri nýtt sér en verið hefur og hef ég ykkur til að slást í hópinn hjá þeim.

Ekki hefur tekist að koma Körlunum í skúrinn. Þar sem karlar gætu komið saman, smíðað, gert við eða alls konar sem þeir voru vanir að gera úti í bílskúr sem kannski er ekki til staðar nú. Við vorum ekki búin að fá húsnæði fyrir þessa starfsemi, en ef við hefðum komið upp þrýstihóp þá hefði það kannski gengið betur.

Handverkssýning var haldin í apríl og tókst bara nokkuð vel. Til sýnis voru munir sem félagsmenn hafa unnið á námskeiðum og í handavinnuhópum hér.
Við ákváðum að breyta til og hafa óvæntar uppákomur á hverjum degi og þá komu til sögunnar, Hörpukórinn með opna æfingu, Línudanshópur Gullu og Jóns Þórs sýndi dans, Helgi Hermanns kom með gítarinn og flautuna sína og spilaði og söng og María Carlos söng eigin lög og lék undir á píanó. Þetta passaði vel því sýningardagar voru 4 og atriðin 4.

Stjórnin ásamt aðstoð fyrrum kaffinefndarkvenna sá um að baka vöfflur og selja gestum. Það myndaðist sannkölluð kaffihúsastemmning í salnum okkar og var virkilega gaman að standa í bakstri, þó rjómasprauturnar væru að stríða okkur, sultan, vöffludeigið og rjóminn seldist upp og þá var nú gott að opnunartími verslana er rúmur í bænum. Vil ég nota tækifærið og þakka öllum sem komu að því að gera þessa daga skemmtilega.

Hreystitækið eða útileiktækið sem okkur var gefið á sl. ári var var loksins sett upp þegar vetur var að ganga í garð og því hefur ekki verið mikil notkun á því. Það stóð líka til að taka það í notkun við hátíðlega athöfn og bjóða gefendum á staðinn en það verður væntanlega gert með vorinu. Sveitarfélagið sá um uppsetningu á tækinu og kostaði það sennilega álíka mikið og tækið sjálft ef ekki meira en um það hef ég ekki nákvæmar tölur. Uppsetningin fór fram samtímis lagfæringu á lóð og aukningu á bílastæðum en þeim átti að fjölga um 14.

Stjórnin ákvað að fylgja fordæmi fleiri félaga eldri borgara og styðja Gráa Herinn í málsókn hans við ríkið vegna skerðinga á greiðslum almannatrygginga til eldri
borgara þar sem við teljum að brotið sé á mannréttindum okkar.

Við fengum heimsókn frá Félagi eldriborgara í Hafnarfirði og voru rúmlega 200 manns sem drukku kaffi hér í salnum. Bjarni Harðarson ,rithöfundur og bóksali flutti erindi og skemmti okkur eins og honum er einum lagið.
Hörpukórinn er fastur liður á samkomum eins og þessum sem og aðventuhátíð sem haldin var í desember. Sr. Haraldur M. Kristjánsson, sóknarprestur í Vík flutti jólahugverkju og unglingakór Selfosskirkju söng undir stjórn Edith Molnar
Við fengum líka heimsókn frá Borgarnesi en þá komu hingað eldriborgarar sem njóta dagvistar í þeim bæ og/eða taka þátt í starfi félagsins þar.

Félag með yfir 700 félagsmenn þarf að vera með fjölbreytta starfsemi og helst þurfa sem flestir ef ekki allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Einhverjir af þessum 700 eru styrktaraðilar, en nýta sér kannski að fara í leikhúsferðir okkar yfir veturinn og þurfa þá ekki að hafa áhyggjur af veðri og færð á Hellisheiði eða í sumarferðir sem eru mjög vinsælar og er það mjög ánægjulegt.


Þetta fyrsta starfsár mitt í formennsku hefur verið viðburðaríkt og um leið lærdómsríkt. Einn stjórnarmaður hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til stjórnarsetu áfram, Gunnar Þórðarson og vil ég þakka honum sérstaklega fyrir góða viðkynningu og vel unnin störf. Eins og þið vitið þá stýrir Gunnar íþróttanefndinni og mun halda því áfram, hann sér um ásamt sínum nefndarmönnum, boccia og ringo í íþróttahúsum skólanna,skipuleggur pútt hjá Golfklúbbi Selfoss og er einnig iðinn við snókerspilamennsku. Hann kenndi mér og fleirum boccia í síðustu viku en eins og þið vitið þá er búið að merkja völl hér í hliðarsalnum og auglýstir hafa verið tímar þar sem hægt er að leika.

Ég vil líka þakka öðrum stjórnarmönnum fyrir samstarfið og dugnaðinn þegar ég hef kallað þau til til hinna ýmsu verka hér í húsinu, hvort sem er að flytja bókasafn eða skreyta jólatré, þá eru þau alltaf tilbúin. Þetta er ómetanlegt.

Nefndarmönnum, leiðbeinendum og umsjónarmönnum öllum þakka ég fyrir vel unnin störf. Án ykkar væri ekki mikið um að vera.

Guðfinna Ólafsdóttir
Formaður FEB