Ársskýrsla v/2017

. Published on .

Ársskýrsla FEB Selfossi árið 2017

Í árslok 2017 voru félagsmenn orðnir 594 og hafði fjölgað um 29 manns. 62 gengu í félagið á árinu, 16 félagar létust og 17 hættu, einkum vegna brottflutnings af svæðinu.

Félag eldri borgara Selfossi skipuleggur tómstundastarf af ýmsum toga fyrir félagsmenn yfir vetrarmánuðina. Stjórnin leggur áherslu á úrval námskeiða og tækifæra til fjölbreyttrar frístundaiðkunar og hollrar hreyfingar með aðstoð Sveitafélagsins Árborgar sem styrkir félagið með árvissum styrk ásamt þvi að útvega húsnæði.

Aðalfundur félagsins 2017 var haldinn 23. febrúar, fundarstjóri var Óli Þ. Guðbjartsson og fundarritari Helgi Helgason. Heiðdís Gunnarsdóttir lauk 3ja kjörtímabili sínu í aðalstjórn, en í stjórn félagsins situr enginn lengur en 3 kjörtímabil, en hvert kjörtímabil varir í 2 ár. Í stað Heiðdísar var Gunnþór Gíslason varastjórnarmaður kosin í aðalstjórn. Óli Þ. Guðbjartsson gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu í varastjórn og var Stefán A. Magnússon kosin í hans stað og þar sem Gunnþór var kosinn í aðalstjórn var Guðfinna Ólafsdóttir kosin í hans stað í varastjórn.

Níu stjórnarfundir voru haldnir á árinu, en tekin var upp sú nýbreytni að byrja vetrarstarfið fyrr í september en verið hefur og var fyrsti stjórnarfundurinn að loknu sumarhléi í ágúst.

Sigríður Ólafsdóttir var kosin á sínum tíma fyrsti fulltrúi öldungaráðs Árborgar, hún gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu og var Guðfinna Ólafsdóttir kosin í hennar stað í ráðið og er Guðmundur Guðmundsson áframhaldandi varamaður.

Mjög góð þátttaka hefur verið í starfsemi félagsins og ekki síst í opnu húsi sem var vel sótt þrátt fyrir þrengslin sem við búum enn við. Skóflustungan að nýju byggingunni við Austurveg 51-53 var tekin og byggingaframkvæmdir fóru á fullt og eigum við von á því að fá aukið húsrými eftir miðan maí 2018. Ásta Stefánsdóttir framkvæmdastjóri Sveitafélagsins Árborgar mætti í opið hús hjá okkur með kynningu og teikningar af nýju aðstöðunni sem mun hýsa félagsstarf sem og íþróttastarf .

Sjö fastanefndir starfa í félaginu auk kjörnefndar. Þær eru Árshátíðarnefnd, dagskrár- og fræðslunefnd, ferðanefnd, félagsvistarnefnd, íþróttanefnd, kaffinefnd og leikhúsnefnd.

Leikhúsnefndin stóð fyrir fjórum leikhúsferðum, Sínfóníuhljómsveit Íslands bauð okkur á forsýningu Vínartónleika rétt eftir áramót.

Félagið stendur fyrir vikulegum gönguferðum yfir veturinn og sumbaæfingar voru vel sóttar. Íþróttanefndin stóð fyrir boccia og púttæfingum yfir vetrarmánuðina og golf s.l. sumar. Einnig skipulagði nefndin þátttöku í ýmsum mótum m.a. Landsmóti UMFÍ 50+ sem haldið var í Hveragerði, línudanshópur félagsins mætti þar til þátttöku og fleiri tóku þátt í ýmsu á þeim vettvangi eins og pönnukökubakstrinum og fleiru.

Á vetrardagskránni voru margir fleiri hefðbundnir liðir s.s. glervinnsla, tréútskurður, handavinna, prjón og föndur, myndlist, nónsöngur og línudans. Þá lásu leshópar fornsögur og öndvegisbókmenntir. Nýmæli s.l. haust var námskeið um endurminningaskrif með 10 þátttakendum sem tókst mjög vel.

Í opnu húsi á fimmtudögum stóð Dagskrárnefndin fyrir ýmis konar aþreyingu og Ingimar Pálsson sá um fjöldasöng við upphaf og lok dagskrár. Þá sá kaffinefndin og kaffiteymið um flottar kaffiveitingar i opnu húsi.

Hörpukórinn undir stjórn Guðmundar Eiríkssonar söng sig inn í margra hjörtu á árinu og fór víða með sína dagskrá.

Handverkssýningin var opnuð á sumardaginn fyrsta og stóð fram á sunnudag. komin hefð á þessa dagsetningu sem fylgir Vor í Árborg.
Vorfögnuðurinn var haldinn að þessu sinni í Hveragerði. Vetrarstarfinu lauk svo með samkomu í Selfosskirkju, þar fluttu hjónin Þorvaldur Halldórsson og Margrét Scheving ljúfa tónlist.
Maí er einskonar uppskerutími hjá okkur. Fornsöguhópurinn hélt í Borgarfjörðinn og heimsótti söguslóðir Egilssögu og Harðarsögu og Hólmverja með gistingu í Hótel Borgarnesi. Öndvegisbókmennta hópurinn fór að Hala í Suðursveit á æskuslóðir Þórbergs Þórðarsonar. Ýmsir aðrir hópar gerðu sér eitthvað annað sér til skemmtunar.

Sumarferðirnar allar tókust frábærlega vel og eru eftirminnanlegar. Snilldar stjórnendur sem sáu meðal annars um að hafa frábæra leiðsögumenn.

Fyrsta ferðin í júní var Vík, Klaustur, Landbrot og Meðalland. Júlíferðin var síðan í Þórsmörk og Bása og heim um Fljótshlíð. Ágústferðin var til Vestmannaeyja þar sem haldin var míníþjóðhátíð undir stjórn Helga Hermannssonar í dásamlegu veðri og síðast en ekki síst var haustferðin farin í september í boði Guðmundar Tyrfingssonar, haldið var á vit Mosfellssbæjar og Mosfellssveitar þar sem ferðin endaði í hesthúsahverfinu þar sem félag eldri borgara í Mosfellsbæ undir stjórn Úlfhildar Geirsdóttur frá Byggðarhorni bauð hópnum í kaffiveitingar með gamanmálum, söng og annari skemtun.

Hauststarfið hjá okkur byrjaði aftur eftir sumarfrí 7. september sem er nokkuð fyrr en verið hefur, við teljum að það lofi góðu, þar sem þetta jafnar haust og vorönn. Árinu 2017 lauk svo með aðventuhátíð í Selfosskirkju.
Fréttabréf voru gefin út vor og haust með svipuðu sniði og verið hefur undanfarin ár með yfirliti yfir helstu málefni félagsins. Með haustbréfinu fylgir alltaf stundatafla vetrarins. Starf stjórnar felst með annars í þvi að halda utan um stundatöflu vetrarins og að allt gangi eðlilega fyrir sig.

Mikill áhugi hefur verið hjá okkur í stjórninni að koma upp Lýðheilsustíg við Sjúkrahús Suðurlands og væntanlegt hjúkrunarheimili sem byggja á þar við hliðina. Stjórnin sendi bæjaryfirvöldum áskorun um þetta efni og teljum við það vera komið í góðan farveg hjá bæjarstjórn. Eins erum við að afla fjár til að koma upp úti íþróttatækjum fyrir eldri borgara hér við endann á Grænumörk 5 svo við erum á fullu að reyna að laga umhverfið og bæta fyrir okkar vellíðan.

Ég þakka öllu því góða fólki sem kemur hingað aftur og aftur til að skemmta okkur í opnu húsi. Það er ekki sjálfgefið að koma hingað fyrir einn kaffibolla og með því til að gleðja okkur. Þetta er hópur af ljúfum og óeigingjörnum listamönnum sem koma aftur og aftur til að gleðja okkur.

Ég þakka einnig þeim sem eru í nefndum okkar fyrir frábærlega vel unnin störf , án nefndarmanna og þeirra liðveislu væri félagið varla starfhæft. Sömuleiðis þakka ég leiðbeinendum og umsjónarmönnum allra verkefna félagsins fyrir þeirra óeigingirna starf allt þetta fólk á miklar þakkir skyldar.

Þakkir flyt ég Guðmundi Tyrfingssyni og Sigríði konu hans, fyrir þeirra velvilja í garð eldri borgara öllum stundum og einnig þakka ég Helgu og Ragnhildi hjá Tónlistaskóla Árnesinga fyrir þeirra jákvæðni og aðstoð við fjölföldun gagna.

Sigríður J. Guðmundsdóttir formaður.
Stjórn FEB Selfossi 2017 - 2018


Aftari röð frá vinstri:  Guðmundur Guðmundsson gjaldkeri, Guðfinna Ólafsdóttir varastjórn, Stefán A. Magnússon varastjórn,
Fremri röð frá vinstri: Anna Þóra Einarsdóttir ritari, Sigríður J. Guðmundsdóttir formaður, Jósefína Friðriksdóttir varaformaður og 
Gunnþór Gíslason meðstjórnandi