Fundargerð aðalfundar Félags eldri borgara Selfossi 23. febrúar 2017
1. Fundarsetning. Formaður félagsins, Sigríður J. Guðmundsdóttir, setti fundinn og bauð sérstaklega velkomin formann Landssambands eldri borgara, Hauk Ingibergsson, og konu hans.
2. Kosning fundarstjóra og fundarritara. Formaður gerði tillögu um Óla Þ. Guðbjartsson sem fundarstjóra og Helga Helgason sem fundarritara, var það samþykkt.
3. Minnst látinna félaga. Óli tók við fundarstjórn og minntist þeirra félaga sem látist hafa á liðnu starfsári en þeir eru 12 talsins. Vottuðu fundarmenn þeim virðingu með því að rísa úr sætum.
4. Fundargerð síðasta aðalfundar. Helgi Helgason las fundargerð aðalfundarins sem haldinn var 25. febrúar 2016.
5. Skýrsla stjórnar. Sigríður Guðmundsdóttir, formaður, flutti skýrsluna. Haldnir voru 8 stjórnarfundir á árinu. Ákveðið var að hefja störf fyrr í september og því fyrsti stjórnarfundur haustsins haldinn í ágúst. Á síðasta aðalfundi var Anna Þóra Einarsdóttir kjörin í stjórnina í stað Arnheiðar Jónsdóttur sem lokið hafði þriggja kjörtímabila setu í stjón félagsins. Öldungaráðið sem sveitarfélagið stofnaði 2015 hefur farið hægt af stað en þess er vænst að það nýtist til að ræða hagsmunamál eldri borgara milliðalaust við bæjarstjórnina. Mjög góð þátttaka hefur verið í öllu starfi félagsins, þrátt fyrir þá takmörkuðu aðstöðu sem búið er við. En það stendur til bóta því búið er að taka fyrstu skóflustungu og hefja framkvæmdir við nýbyggingu að Austurvegi 51 – 53 en samkvæmt samningi sveitarfélagsins við eignaraðila eru 962 fermetrar í byggingunni ætlaðir til að hýsa félagsaðstöðu Félags eldri borgara og dagdvöl aldraðra. Áætluð afhending er 15. maí 2018.
Að venju hefur starfið verið fjölbreytt. Fjórar leikhúsferðir auk sinfóníutónleika. Þátttaka í landsmóti UMFÍ 50+, lestur bókmennta, gönguferðir, félagsvist, snoker, bridge, boccia og golf. Útskurður, glervinnsla, postulínsmálun og fleira af slíku tagi. Línudans og nónsöngur. Keyptur var nýr búnaður í eldhús, krúsir og hjólarekkar, til hagræðingar við kaffiveitingar.
Vorfagnaður var í febrúar með þátttöku Hvergerðinga. Kvenfélag Selfosskirkju bauð til afmælisveislu. Suðurlandsmót í boccia og handverkssýning í tengslum við Vor í Árborg. Hörpukórinn kom víða við, fór m.a. til Húsavíkur að heimsækja gamla stjórnandann Jörg Sondermann. Dagsferðir voru farnar um Mýrar, Rangárþing og Fjallabak. Haustferð til Hafnarfjarðar í boði G.T. ehf.
Haldið var námskeið um notkun hjartastuðtækis, sem er til staðar í Grænumörk. Árshátíð var haldin á Hótel Selfoss. Apótkekið Lyfja færði félaginu veglega peningajöf kr. 150.000 í tilefni af opnun endurnýjaðra húsakynna sinna á Selfossi. Aðventuhátíð í Selfosskirkju lokaði árinu 2016.
Formaður þakkaði öllum þeim sem komu að starfi félagsins til að skemmta, fræða og leiðbeina í opnu húsi, námskeiðshaldi og öðru félagsstarfi. Sérstakar þakkir færði hún þeim nöfnum Gísla Magnússyni og Gísla Sigurðssyni, þeim fyrrnefnda sem hefur leitt lestur fornbókmennta með dyggri stoð Guðrúnar konu sinnar og þeim síðarnefnda fyrir leiðbeiningar við listmálun. Þessir tveir hafa nú hætt þessum störfum fyrir félagið. Að lokum var Guðmundi Tyrfingssyni og frú færðar þakkir og einnig starfsfólki Tónlistarskólans fyrir aðstoð við fjölföldun.
6 Ársreikningar fyrir árið 2016. Guðmundur Guðmundsson gjaldkeri félagsins lagði fram og skýrði reikningana og voru niðurstöðutölur eftirfarandi:
Rekstrarreikningur kr. 3.852.431
Þar af tekjur umfram gjöld kr. 126.048
Efnahagsreikningur kr. 3.657.392
sem er hrein eign, en skuldir eru engar.
Engar athugasemdir komu fram og voru reikningarnir bornir upp og samþykktir samhljóða.
7. Árgjald félgsins fyrir árið 2017. Fundarstjóri kynnti tillögu stjórnar um að árgjald verði óbreytt kr. 2500 og var það samþykkt samhljóða.
8. Kosning í aðalstjórn, varastjórn, skoðunarmanna, fulltrúa í kjörnefnd og fulltrúa á landsfund LEB
- Kosning formanns, Sigríður J Guðmundsdóttir gaf kost á sér til endurkjörs og var kosning hennar samþykkt einróma.
- Kosning tveggja meðstjórnenda til tveggja ára. Jósefína Friðriksdóttir gaf kost á endurkjöri en Heiðdís Gunnarsdóttir gaf ekki kost á sér þar sem hún hefur setið í stjórn í 3 kjörtímabil. Tillaga um Gunnþór Gíslason og Jósefínu Friðriksdóttur samþykkt einróma
- Kosning eins fulltrúa í varastjórn til tveggja ára, Óli Þ. Guðbjartsson gaf ekki kost á endurkjöri. Tillaga um Guðfinnu Ólafsdóttur samþykkt einróma.
- Kosning eins fulltrúa í varastjórn til eins ár, í stað Gunnþórs Gíslasonar. Tillaga um Stefán Magnússon samþykkt einróma.
- Kosning skoðunarmanna, Helgi Helgason og Einar Jónsson endurkjörnir samhljóða.
- Kosning eins fulltrúa í kjörnefnd, til þriggja ára, í stað Hermanns Ágústs sem lokið hefur kjörtíma sínum. Tillaga um Guðmundu A. Auðunsdóttur samþykkt einróma.
- Kosning fulltrúa á landsfund LEB. Tillaga um Guðmund Guðmundsson og Jósefínu Friðriksdóttur sem aðalfulltrúa, auk formanns sem er sjálfkjörinn og Önnu Þóru Einarsdóttur, Gunnþór Gíslason og Guðfinnu Ólafsdóttur sem varafulltrúa, samþykkt einróma.
9. Ávarp formanns LEB, Hauks Ingibergssonar.
Haukur fagnaði þessu tækifæri til að hitta og spjalla við félagana á Selfossi og óskaði þeim til hamingju með þær framkvæmdir sem hafnar eru og stefna í stórbætta aðstöðu til félagsstarfsins. Hann ræddi síðan um félagsstarf eldri borgara á landsvísu og hlutverk Landssambandsins sem samskiptaaðila við stjórnvöld landsins. Samkvæmt gögnum Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands eru 63% eldri borgara landsins skráðir í félögin. Ræddi síðan um þær breytingar sem gerðar hafa verið á greiðslum tryggingabóta. Brýnasta hagsmunamálið taldi hann vera byggingu og fjölgun hjúkrunarrýma og hvatti til þess að þrýst verði á um fjölgun þeirra rýma sem stendur til að byggja á Selfossi umfram það sem áætlað er. Haukur kvaðst tilbúinn að svara spurningum fundarmanna ef þess yrði óskað.
Jósefína Friðriksdóttir gagnrýndi þær breytingar sem gerðar hafa verið á greiðslum bóta úr almannatryggingum og þá einkum frítekjumarkið sem hún sagði allt of lágt. Vildi vita hvor vænta mætti einhverra leiðréttinga á því.
Ólafur Ólafsson spurði hvort rétt væri að húsnæðisbætur hefðu í einhverjum tilfellum skerst við þessar lagabreytingar.
Emil Karlsson spurði um viðhorf LEB til skerðinga á tryggingabótum vegna tekna úr lífeyrssjóðum. Einnig lagði hann til að þrýst yrði á að fjölga hjúkrunarrýmum í 100 í fyrirhugaðri nýbyggingu á Selfossi.
Haukur svaraði framkomnum spurningum. Hann sagði leiðréttingu frítekjumarksins vera eitt helsta baráttumál samtaka eldri borgara. Hann kannaðist við eitthvað misræmi í greiðslum húsnæðisbóta og að það þyrfti að endurskoða. Hann sagði hlut lífeyrissjóða í lífeyrisgreiðslum hafa vaxið ört hin síðari ár því alltaf fjölgi þeim aðilum sem hafi áunnið sér réttindi hjá þeim. Hins vegar hafi almannatryggingakerfið haft það hlutverk að sjá fyrir þeim sem búi við takmörkuð eða engin slík réttindi. Þetta er sú þróun sem orðin er og nú er hlutur sjóðanna í greiðslu lífeyris 70 á móti 30 frá almannatryggingum.
10 Önnur mál.
Fundarstjóri kynnti tillögu stjórnar að:
Tilmælum til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands
Aðalfundur Félags eldri borgara Selfossi, haldinn 23. febrúar 2017, beinir þeim eindregnu tilmælum til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands að stofnunin leggi áherslu á notendavænni þjónustu en verið hefur um langt skeið. Til dæmis með því að notendur þurfi ekki að marghringja til þess eins að fá sig skráða á biðlista til hinna ýmsu sérfræðinga sem taka að sér þjónustu á vegum stofnunarinnar.
Tillagan samþykkt samhljóða.
Einnig kynnti fundarstjóri tillögu stjórnar að:
Ályktun um hjúkrunarheimili
Aðalfundur Félags eldri borgara Selfossi, haldinn 23. febrúar 2017, vekur athygli á því að lokun hjúkrunarheimilanna á Blesastöðum, sl. haust og Kumbaravogi, nú í lok febrúar, fækkar hjúkrunarrýmum í Árnessýslu um 41 og eykur verulega þann mikla skort sem er á hjúkrunarrýmum í sýslunni.
Fundurinn skorar því á heilbrigðisráðherra og ríkisstjórn að fjölga hjúkrunarrýmum úr 50 í 100 í nýju hjúkrunarheimili sem samið hefur verið um að reisa á Selfossi og áætlað er að taka í notkun á fyrri hluta ársins 2019.
Fundurinn hvetur jafnframt til þess að byggingu hjúkrunarheimilsins verði hraðað svo sem kostur er.
Tillagan samþykkt samhljóða.
Sigríður Guðmundsdóttir formaður þakkaði traust sér sýnt með endukjöri í starf formanns.
Siðan kallaði hún fram fyrrverandi formann, Hjört Þórarinsson, og heiðraði hann með blómum í tilefni af nýliðnu 90 ára afmæli hans. Hjörtur þakkaði fyrir sig með nokkrum velvöldum orðum.
Þá kallaði hún til tvo fráfarandi stjórnar- og varastjórnarmenn, þau Heiðdísi Gunnarsdóttur og Óla Þ. Guðbjartsson sem hún heiðraði með blómum og þakkaði störf þeirra í þágu félagsins.
Að lokum voru allir viðstaddir stjórnar- og varastjórnarmenn kallaðir til myndatöku og kynningar, en að svo búnu var fundi slitið.
Helgi Helgason, fundarritari