Ársskýrsla v/2016

. Published on .

Ársskýrsla FEB Selfossi fyrir árið 2016

Stjórn FEB Selfossi skipuleggur tómstundastarf fyrir félagsmenn frá september til miðs maí mánaðar ár hvert. Lögð er áhersla á úrval námskeiða og tækifæra til fjölbreyttrar frístundaiðkunar og hollrar hreyfingar.
Átta stjórnarfundir voru haldnir á árinu, en tekin var upp sú nýbreytni að byrja fyrr í september en verið hefur og var fyrsti stjórnarfundurinn því haldinn í ágúst.

Aðalfundur félagsins 2016 var haldinn 25. febrúar, að loknu opnu húsi, fundarstjóri var Guðfinna Ólafsdóttir og fundarritari Helgi Helgason. Þær breytingar urðu á stjórn félagsins að Arnheiður Jónsdóttir hætti í stjórn og við tók Anna Þóra Einarsdóttir, í stjórn félagsins situr enginn lengur en 3 kjörtímabil og varir hvert tímabil 2 ár.
Fréttabréf voru gefin út vor og haust, í þeim er yfirleitt yfirlit yfir helstu málefni félagsins og í haustbréfinu er einnig birt stundaskrá vetrarins.

Sveitafélagið Árborg stofnaði öldungaráð árið 2015. Það er skipað 5 aðalfulltrúum, tveimur frá bæjarstjórn og þremur fulltrúum eldri borgara. FEB Selfossi á einn fulltrúa í ráðinu, Sigríði Ólafsdóttur, varafulltrúi hennar er Guðmundur Guðmundsson. Öldungaráðið hefur farið hægt af stað, en við höfum fulla trú á að það muni eiga eftir að gera góða hluti fyrir okkur. Þetta er nýtt verkfæri sem við höfum til að ræða milliliðalaust og á formlegan hátt við sveitarstjórnina um hagsmunamál eldri borgara.
Mjög góð þátttaka hefur verið á öllum sviðum félagsins og ekki síst í opnu húsi sem var vel sótt þrátt fyrir þrengslin sem við búum við, en það er bjart framundan þar sem búið er að taka skóflustunguna að nýju byggingunni við Austurveg 51-53. Sveitafélagið Árborg hefur undirritað samning við Austurbæ fasteignafélag um 962 fm. nýbyggingu austan við Grænumörk, sem mun hýsa félagsmiðstöðina á fyrstu hæð og dagdvöl aldraðra á annari hæð. JÁ verktakar munu byggja og áætlað er að byggingin verði afhent 15. maí 2018. Hús þetta kemur til með að tengjast Grænumörk 5 og verður innangengt inn í salina sem koma til með að hýsa allar þarfir félagsins, íþróttastarf sem félagsstarf.

Margt var brallað á árinu. Leikhúsnefndin sendi okkur í 4 leikhúsferðir, Sínfóníuhljómsveit Íslands bauð okkur á Vínartónleika rétt eftir áramót. Dagskrárnefndin stóð fyrir aþreyingu alla fimmtudaga. Nokkrir félagsmenn tóku þátt í Landsmóti 50+ á Ísafirði. Fornbókmenntir og fagurbókmenntir voru lestnar, gönguferðir stundaðar einu sinni í viku, félagsvist, snoker, bridge, boccia, pútt yfir veturinn og golf yfir sumarið, handavinna, glervinnsla, útskurður, postulínsmálun, línudans, nónsöngur og flottar kaffi veitingarnar einu sinni í viku í opnu húsi, en á árinu keyptum við nýjar kaffikrúsir og grindarrekka á hjólum til að endurnýja kaffi hefðina hjá okkur, við lærðum það í Hafnarfirði að undirskálar eru óþarfar og skapa bara meiri vinnu við uppvaskið.

Í byrjun janúar heimsótti okkur formaður LEB Haukur Ingibergsson með létt spjall og harmónikkuna
Vorfögnuðurinn okkar var haldinn í febrúar í Hótel Selfoss í snarvitlausu veðri og færð en hátíðin tókst vel, Hvergerðingar sluppu til okkar þrátt fyrir hræðilega ófærð í Ölfusinu, en Dísa Geirs sem hélt fjörinu uppi fyrir okkur, hafði vit á því að mæta deginum áður.
Í marsmánuði bauð Kvennfélag Selfosskirkju félaginu í veglega afmælisveislu sem haldin var í Hótel Selfoss.

Í apríl stóð Íþróttadeildin fyrir Suðurlandsmóti í Boccia í Íþróttahúsi Iðu og sumardaginn fyrsta hélt handverkshópurinn sýna árlegu sýningu sem stóð fram á sunnudag en sýningin hefur fylgt dagsetningum Vor í Árborg, Hörpukórinn heimsótti og söng fyrir eldri borgara á Eyrarbakka og Stokkseyri.

Maí mánuður lokaði svo vetrarstarfinu og héldum við okkar vetrarlok 19. maí í Selfosskirkju, en Hörpukórinn hélt áfram því hann fór á fimm kóra mót á Akranesi og í lok mánaðarins hélt kórinn til Húsavíkur og heimsótti þar sinn gamla stjórnanda Jörg Sondermann.
Sumarferðirnar voru Þrjár flottar ferðir með ferðanefndinni, strax í júní var farið um Mýrarnar, næst var Rangárvallasýsla heimsótt og síðasta ferðin var Fjallabaksleið nyrðri. Haustferðin þar sem Guðmundar Tyrfingssonar ehf. býður okkur rútur sínar til ferðarinnar var svo farin 7. september til Hafnafjarðar þar sem Félag eldri borgara tók konunglega á móti okkur með skoðunarferð um Hafnarfjörð og flottar kaffiveitingar á eftir.

Hauststarfið hjá okkur byrjaði svo 8. september sem er nokkuð fyrr en verið hefur, sem við teljum að lofi góðu, þar sem þetta jafnar haust og vorönn.
Í október buðum við upp á námskeið vegna hjartastuðtækisins sem allt of fáir vita af að er hér í húsinu og allt of fáir kunna að nota ef eitthvað kæmu nú uppá.

Í nóvember var Árshátíðin haldin í Hótel Selfoss og Apótekið Lyfja heiðraði okkur með konunglegri gjöf þar sem þeir færðu okkur kr. 150.000 í tilefni af opnun á endurnýjuðum húsakynnum sínum hér á Selfossi. Hjördís Geirsdóttir kom til okkar með 15 galvaskar stöllur sínar og Aðventu hátíðin í Selfosskirkju lokaði svo árinu 2016.

Mig langar til að senda öllu því góða fólki sem kemur hingað aftur og aftur til að skemmta okkur í opnu húsi þakklæti. Það er ekki sjálfgefið að koma hingað fyrir einn kaffibolla og með því til að gleðja okkur. Þetta er hópur af ljúfum og óeigingjörnum listamönnum sem koma aftur og aftur til að gleðja okkur. Ég ætla ekki að nefna nein nöfn þvi ég væri vís með að gleyma einhverjum en þetta fólk á allar þakkir skyldar.
Svo eru það tveir Gíslar sem mig langar til að þakka sérstaklega og þá nefni ég fyrstan Gísla Magnússon og hans flottu konu og hjálparhellu Guðrúnu fyrir stórkostlega samveru og liðveislu öll árin sem þau sáu um fornsögurnar, en síðasta vetur hélt hann okkur við Eyrbyggju allan veturinn og fór síðan með okkur á söguslóðir áður en hann kvaddi okkur og sleppti lausum. Hinn er Gísli Sigurðsson sem hefur leiðbeint listmálurum okkar undanfarin ár. Þessir leiðbeinendur hafa núna hætt störfum en vonandi halda þeir áfram að mæta og vera með okkur sem félagar. Takk kærlega fyrir okkur kæru vinir.

Þakklæti sendi ég til allra leiðbeinenda fyrir frábærlega vel unnin störf í nefndum, án ykkar liðveislu væri félagið ósköp lítið og lélegt.
Einnig þakka ég námskeiðshöldurunum í glerlistinni, postulílnsmálun, Sumba leikfiminni, stólaleikfiminni, og tréskurðinum, allt þetta fólk á stórar þakkir skyldar.

Þakkir flyt ég til Guðmundar Tyrfingssonar og Sigríðar konu hans, fyrir þeirra velvilja öllum stundum og eins langar mig til að þakka Helgu og Ragnhildi hjá Tónlistaskólanum fyrir þeirra jákvæðni og aðstoð við fjölföldun gagna.
Læt ég hér með þessari ársskýrslu lokið og þakka fyrir mig.

Sigríður J. Guðmundsdóttir formaður. (sign) (Sirrý Guðmunds)
Stjórn FEB 2016