Ársskýrsla v/2015

. Published on .

Ársskýrsla FEB Selfossi fyrir árið 2015

Hefðbundin starfsemi hófst fljótlega eftir áramótin2015 og varð strax góð þátttaka í öllum deildum félagsins. Gönguferðirnar voru á sínum stað með Guðmundi Tyrfingssyni, fornsögurnar, fagurbókmenntirnar, handavinnan, tréskurðurinn, glerlistin, postlínsmálningin, listmálunin, sundleikfimin, fornsögurnar og fagurbókmenntirnar, boccia, línudansinn, sumban og Nónsöngurinn á mánudögum, allt var þetta á sínum stað ásamt kaffiveitingunum í opnu húsi, þar sem allir mættu með bros á vör til að sinna þörfum okkar í kaffi og meðlæti.

Ýmislegt var á dagskrá undir stjórn dagskrárnefndar þeirra Guðbjargar Sigurðardóttur, Guðrúnar Guðmundsdóttur og Ingimars Pálssonar sem alltaf var boðin og búinn að skemmta okkur með undirleik sínum í fjöldasöng.

Í janúar heimsóttu okkur Sigurjón V. Jónsson með gamanmál, Þóra Grétarsdóttir var með upplestur, í febrúar mætti Þorsteinn Másson frá Héraðsskjalasafninu með gamlar myndir frá Selfossi, Gísli Sigurðsson var með söguþætti eftir föður sínum, Aðalfundurinn var á sínum stað í febrúar og mánuðinum lokaði vinur okkar tónlistarmaðurinn Helga Hermannsson.

Í mars var fjöldasöngur með Ingimar, Sigurgeir Hilmar kom og skemmti okkur, Unnur Kolbrún sagði okkur sögur úr Flóanum, Óli Þ. Guðbjartsson kom með skemmtilegan fluttning. í apríl mætti Marteinn Sigurgeirsson með myndir frá Selfossi, síra Úlfar kom sá og sigraði og á Sumardaginn fyrsta opnaði Vor í Árborg og þar með handverksýningin okkar með mikið af listmunum eftir veturinn.

30 apríl var haldinn Vorfögnuður á vegum FEB Hveragerði en hefð er komin fyrir því að halda vorfögnuð til skiptis hjá okkur eða þeim árið 2016 er komið að okkur og er sú hátíð ný afstaðin. Þátttakendur í Boccia voru 25 s.l. ár og tóku þeir þátt i tveimur landsmótum, einnig kepptu þeir í Mosfellsbæ í febrúar og á Suðurlandsmóti í mars og í apríl tók Boccia liðið þátt í sveitakeppni í Garðabæ, s.l. haust var svo einmenningskeppni á Akranesi, en einnig tóku þeir þátt í dómaranámskeiði sem haldið var á Eyrarbakka.

Fyrsta maí kröfugangan fór vel af stað með fulltrúum frá félagsmönnum, gengið var frá Austurvegi 56 að Hótel Selfoss, þar sem ræðuhöld, skemmtiatrið og flottar veitingar voru í boði. Landsfundur Landssambandsins var haldin í Reykjavík dagana 5 - 6 maí og fóru þrír fulltrúar ykkar þangað, þar sem formaður ykkur (ég sjálf) var kjörin næsta tímabil í varaformanns embættið. Haldið var bingó með góðum verðlaunum og þátttöku, uppstigningadag var farið í messu í Selfosskirkju en þessi dagur er tileinkaður EB. Lokadagur vorannar endaði svo í Selfosskirkju þar sem hjónin Þorvaldur Halldórsson og Margrét Scheving skemmtu okkur með söng og sögum og í lokin voru kaffiveitingar hjá Kvennfélagi safnaðarins.

Strax að þessu loknu hófst svokölluð sumardagskrá með því að fornsöguhópurinn skipti sér í tvennt þar sem hópurinn var of stór til að fara saman til Orkneyja en Orkneyingasaga var tekin fyrir þennan vetur og nú var haldið á vita ævintýranna sem þar gerðust. Hélt fyrri hópurnn af stað 24. maí en seinni hópurinn flaug viku til Manchester þar sem verkfall var í aðsigi og keyrt var þaðan til York og áfram til Glasgow þar sem flugið var tekið til Kirkwall höfuðstaðar Orkneyja en þar héldu hóparnir til í 6 daga. Mikið ævintýri það ferðalag og efni í heila ritgerð en myndasýning fór fram hér í aðalsal okkar í Grænumörkinni á haustdögum við mikinn fögnuð.

Eftir lestur á Sölku Völku hélt leshópur fagurbókmennta á vit Halldórs Laxnes og heimsótti Gljúfrastein og fékk sér síðan veitingar á eftir í Kaffihúsi Álafoss en á Aðventu hélt þessi sami hópur til Rvíkur og heimsótti Hannesarholt eftir lestur "Saga þeirra saga mín" sem er saga þriggja kvenna. Gönguhópurinn skellti sér á Geysir eftir göngur vetrarins og fleiri hópar gerðu sér ýmislegt til skemmtunar að loknu vetrarstarfi.

Ferðanefndin okkar gerði það ekki endasleppt, allt voru það vel heppnaðar og skemmtilegar ferðir. Í júní mánuði var farið um uppsveitir Árnessýslu í júlí var farið um Holtin og Landeyjarnar, í ágúst var haldið til Rvíkur, Laugarnesið kynnt fyrir félögum, gamla Reykjavíkurhöfnin, Aðalstrætið og átti síðan að kynna okkur fyrir Grjótaþorpinu, en veður var óhagstætt svo við drifum okkur í Alþingi í staðinn og fengum vistaverurnar þar beint í æð eftir góða súpu á Restaurant Reykjavík.

Haustferðin sem hefur verið í höndum stjórnar fram að þessu, var sett í hendurnar á ferðanefndinni og fóru þrjár rútur á Suðurnesin þar sem skemmtilegur fróðleikur var í boði og flottar kaffiveitingar í samkomuhúsi Sandgerðinga.

Stjórnin opnaði fyrir vetrarstarfsemina með almennum félagsfundi seinni partinn í september, þar kynntu leiðbeinendur vetrardagskrána. Dagskráin byrjaði svo að fullu þann 8. október með Innflúensusprautunni og síðar um daginn mætti Marteinn Sigurgeirsson með gamlar myndir frá Selfossi, Þóra Grétarsdóttir mætti með þjóðlegan fróðleik, Gísli Sigurðsson skemmti okkur á sína vísu og Helgi Hermannsson ásamt Guðmundur Eiríkssyni komu sáu og sigruðu. Þorsteinn Másson mætti frá Héraðsskjalasafninu í nóvember, Kolbrún Stefánsdóttir framkv.stjóri Heyrnahjálpar kom með skemmtilegt fræðsluerindi. Hjörtur Þórarinsson kynnti okkur fyrir Höllu og fjalla Eyvindi, hjónin Vignir Stefánsson og Guðlaug Ólafsdóttir mættu með söng og undirleik.

Í desember mætti lífskúnstnerinn Birgir Hartmannsson með nikkuna sína og skemmti okkur með leik og gríni. Aðventufögnuðurinn var svo haldinn í Selfosskirkju með fjölbreyttri dagskrá og kaffiveitingum hjá Kvennfélagi Selfosskirkju í Safnaðarheimilinu.

Leikhúsferðirnar urðu 5 Sjálfstætt fólk í Þjóðleikhúsinu, Bót og betrun í Litla leikhúsinu á Selfossi , Billy Elliot í Borgarleikhúsinu, Yfir til þín (Spaugstofan) í Þjóðleikhúsinu og Mávurinn í Borgarleikhúsinu.

Í byrjun nóvember var árshátíðin á sínum stað í Hótel Selfoss með Jón Bjarnason í fararbroddi og dansmúsikinni stjórnuðu bræðurnir Kiddi Bjarna og Sigvaldi.

Hörpukórinn okkar var á sínum stað með einar 5 uppákomur og þar á meðal tók hann á móti 5 kórum s.l. vor með tónleikahaldi í Fjölbrautaskóla Suðurlands og flottri veislu um kvöldið í Hótel Selfoss. Jörg Sondermann hætti sem kórstjóri kórsins og kom Guðmundur Eiríksson til starfa í hans stað.

Átta stjórnarfundir voru haldnir á árinu og mörg misjöfn málefni tekin fyrir, t.d. voru átta 3ja manna nefndir skipaðar á árinu til að létta starfið sem á þeim hvílir. Tekin var ákvörðun um að halda í nóvember á Selfossi í samvinnu við Árborg, Öldungaráð Íslands, sveitafélögin í Árnes og Rangárþingi málefnið Farsæl öldrun, sem hefur verið haldið tvisvar áður í Rvík og Akureyri en um 80 mans tók þátt í þessu þingi sem tókst í alla staði mjög vel og vonandi á það eftir að skila einhverjum árangri.

Félagsmenn tóku þátt í skoðunarkönnun á vegum Sveitafélagsins Árborgar sem fjallaði um ánægju og velferð bæjarbúa. Öldungaráð var stofnað á árinu í því sitja 2 fulltrúar frá Sveitafélaginu, einn frá FEB á Eyrarbakka, einn frá Stokkseyri og einn frá FEB Selfossi, en fyrir valinu frá okkar félagi er Sigríður Ólafsdóttir betur þekkt sem Sirrý Ólafs., En til að fræða ykkur aðeins nánar um þennan fulltrúa okkar að þá var hún í yfir 20 ár í bæjarstjórn og ýmsum nefndum hér í okkar bæjarfélagi.

Ég vona að ég hafi ekki gleymt neinu af þeim verkefnum sem voru á vegum félagsins en ef svo er vona ég að mér verði fyrirgefið.

Áður en ég lýk þessum langa pistli mínum, langar mig til að þakka öllu því góða fólki sem hefur lagt hönd á plóginn til að halda félaginu gangandi og ekki veit ég hvar við værum stödd ef við nytum þeirra ekki við. Sérstaklega þakka ég öllu nefndarfólki sem lætur af störfum núna og býð ég nýtt fólk velkomið í hópinn.

Þakkir flyt ég til Guðmundar Tyrfingssonar og Sigríðar konu hans, fyrir þeirra velvilja öllum stundum í okkar garð, og eins langar mig til að þakka Helgu og Ragnhildi hjá Tónlistaskólanum fyrir þeirra jákvæðni og aðstoð við fjölföldun gagna.

Þakkir flyt ég einnig til Sveitafélagsins Árborgar sem stiður okkur og styrkir öllum stundum og sérstaka þakkir flyt ég til Guðlaugar Jónu félagsmálafulltrúa sem hefur verið og er okkar ómetanlegi tengiliður.

Ykkur félagsmönnum öllum þakka ég fyrir veitta skemmtun og vináttu.

Þá er þessari yfirferð lokið fyrir árið 2015

Ég þakka fyrir mig og mína.

___________________________

Sigríður J.Guðmundsdóttir formaður (sign) (Sirrý Guðmunds)

Stjórn FEB Selfossi 2015