Ársskýrsla v/2013

. Published on .

Samkv. Samingi við Sveitafélagið Árborg skipuleggur stjórn FEB Selfossi tómstundastarf fyrir félagsmenn frá lok september til miðs maí mánaðar ár hvert. Lögð er áhersla á úrval námskeiða og tækifæra til fjölbreyttrar frístundaiðkunar og hollrar hreyfingar.

Níu stjórnarfundir hafa verið haldnir á árinu

Tekin var sú ákvörðun á árinu að starfsár FEB Selfossi fylgi reikningsárinu og hefst því félags árið eftir hvern aðalfund.

Að loknu opnu húsi þann 21.feb. fór aðalfundur félagsins fram: Nýr formaður Sigríður J.Guðmundsdóttir tók við keflinu eftir 14 ára setu Hjartar Þórarinssonar sem gaf ekki kost á sér lengur, einnig lét Gunnar Kristmundsson af sínu embætti innan stjórnarinnar og tveir nýir gengu inn þau Jósefína Friðriksdóttir og Óli Þ Guðbjartsson.

Lagabreytingar um stjórnarsetu voru samþykktar á þessum aðalfundi, og mun héðan í frá enginn sitja lengur í embætti en 3 kjörtímabil en kjörtímabilið varir í 2 ár í senn.

Fréttabréf eru gefin út vor og haust og þar gefur að líta ársyfirlit og helstu málefni ásamt vetrardagskrá félagsins.

Fyrst og fremst langar mig til að þakka öllu því frábæra fólki sem hefur unnið að velferð félagsins með nefndarstörfum, leiðbeiningum og kennslu á ýmsum sviðum, en án þessa fólks væri engin starfsemi. Ég ætla að gera eins og þegar Óskarsverðlaunin eru afhent að telja upp allt þetta góða fólk sem hefur stuðlað að velferð okkar og vona ég að enginn gleymist. En fyrst ber þá að nefna í starfrófsröð.

Árshátíðarnefnd: Heiðdís Gunnarsdóttir, Hermann Ágúst og Margrét Gunnarsdóttir , Þau hafa öll sagt af sér og skilað flottu framlagi til okkar í gegnum árin. Gefum þeim gott klapp fyrir alla þá vinnu og þolinmæði sem þau hafa sýnt, en skemmtanir þeirra hafa verið frá ári til árs klassa skemmtanir.

Bridge og Snóker: Úlfar Guðmundsson en hann hefur líka verið að kenna nokkrum nýnemum Bridge í vetur.

Dagskrárnefnd: Guðmunda Auðnusdóttir, Hrefna Kristinsdóttir og Jósefína Friðriksdóttir.

Félagsvist: Árni Erlendsson, María Kjartansdóttir og Hjördís Þorsteinsdóttir

Glerlist: Hilma Marinósdóttir og Vilborg Magnúsdóttir.

Gönguferðir : Þórunn E.Guðnadóttir.

Handavinna á fimmtudögum: Guðbjörg Halldórsdóttir og Vilborg Magnúsdóttir.

Handavinna á mánudögum : Guðný Gunnarsdóttir.

Hörpukórinn: Arndís Erlingsdóttir, Guðfinna Sveinsdóttir, Hanna Pálsdóttir, Eiríkur Þorgeirsson og Böðvar Stefánsson og ekki kanski síst söngstjórinn Jörg E. Sondermann.

Leikhúsnefndin : Erla Guðmundsdóttir og Svala Halldórsdóttir.

Leshópurinn: Gísli Magnússon.

Línudans: Hörður Stefánsson og Jón Þór Antonsson.

Nónsöngur: Ingi Heiðmar.

Postulínsmálun: Björg Sörensen

Stólaleikfimi: Heiðrún Heiðarsdóttir

Sumarferðir: Guðrún Jónsdóttir, Óskar Ólafsson, Ingunn Pálsdóttir og Vilborg Magnúsdóttir. Þau ganga öll út núna og eiga þau þakkir skilið fyrir alla þá vinnu og alúð sem þau hafa lagt í ferðalögin í svo mörg mörg ár.

Sumba: Loreley eða (Lóa) eins og við þekkjum hana best.

Tréskurður: Þuríður Blaka.

Svo eru tveir höfðingjar sem langar til að þakka, en það eru þeir Stefán Ármann og Hörður Hansson, ég held að þeir séu alltaf í startholunum til að hlaupa af stað fyrir okkur.

Þakkir flyt ég til Guðmundar Tyrfingssonar og Sigríðar konu hans, fyrir þeirra velvilja öllum stundum í okkar garð, og eins langar mig til að þakka Helgu og Ragnhildi hjá Tónlistaskólanum fyrir þeirra jákvæðni og aðstoð við fjölföldun gagna.

Það er mikil starfsemi búin að vera í gangi s.l. ár, varðandi framtíðarhúsnæði fyrir félagið og hafa bréfaskriftir og erindi til bæjarstjórnar, byggingafulltrúa og framkvæmda- og veitustjóra Árborgar verið nokkuð margar varðandi okkar húsnæðismál en eins og við öll vitum, að þá erum við löngu búin að sprengja húsnæðið að Grænumörk 5 utanaf okkur. Framtíðardraumur hefur verið að fá lóðinni v/Austurveg 51 til ráðstöfunar fyrir FEB, en það er lóðin sem stendur næst þessu húsi hér og væri það algjör snilld ef hægt væri að fá hana fyrir félagið, en Landsbankinn á þá lóð og ekki er vitað ennþá hvað þeir ætla að gera við hana. Hugmynd nr. Tvö á félagslegu úrræði okkur til handa varðandi stærra húsnæði var hugmynd að því að byggja hér framan við aðalsalinn glerskála sem gæti orðið stækkun um allt að 30 fm. Eins og við vitum að þá hefur Sveitafélagið Árborg styrkt félagið með fjárhagslegum styrk og húsnæðisaðstöðu og hefur bæjarstjórn Árborgar núna tekið þá ákvörðun að leggja til fjármagn á árinu til að skoða möguleika á stækkun eða viðbyggingu við Grænumörk 5, sem er þá væntanlega glerbyggingin sem hugmynd okkar byggðist á.

Boccia íþróttin er alltaf að eflast og gerðum við ágætis fjárfestingu á því sviði s.l. ár til að efla þessa íþrótt enn frekar.

Heimasíða var stofnuð á árinu og vona ég að sem flestir geti notfært sér hana en hún er www.febsel.123.is

Góð samvinna tóks með FEB og Sunnulækjarskóla, þrír fulltrúar fóru í desember til að kenna 6 bekkjar nemendum félagsvist og er boltinn hjá skólanum um áframhald á þessari samvinnu.

Mjög góð þátttaka hefur verið á öllum sviðum og ekki síst í opnu húsi.

Í marsmánuði fluttu Spesíurnar okkur þátt úr Gullnahliðinu, harmonikkuleikur þeirra Grétars, Dodda og Stefáns Ármanns vakti lukku að venju og síðan komu þeir Þorsteinn T.Másson og Kjartan Björnsson og kynntu fyrir okkur gamlar myndir af fólki og byggingum frá Selfossi og nágrenni, en þeir hafa verið að safna saman gömlum myndum og setja inn á netið.

Í apríl komu til okkar Valdimar Bragason, Lei Low og Dúfurnar úr Grímsnesinu.

Í síðasta opna húsi fyrir sumarfrí kynnti Guðrún Jónsdóttir sumarferðirnar sem voru framundan, Jósefína Friðriksdóttir fékk 6 ungmenni frá Sólvallaskóla til að flytja okkur ljóð. Óli Þ. kvaddi vetrarstarfið með frásögn og ljóði eftir Árna Magnússon sem bjó lengst af í Kaupmannahöfn og stofnaði þar og rak Árnasafn. Formaður félagsins SJG flutti, þótt nístings kalt væri úti ljóðið " Vor" eftir Þórlaugu Símonardóttur.

1.maí tók FEB Selfossi þátt í kröfugöngu verkalýsfélagana á Selfossi og stóðu tveir félagar síðan vörð um framreiðslu veitinga bæði við útigrillið þar sem grillaðar voru pylsur á augabragði handa ísköldum börnum og foreldrum og eins voru kaffiveitingar í stóru veislutjaldi á lóð félaganna og einnig í sal þeirra að Austurvegi 56. Skemmtilegur og vel heppnaður dagur, en hitastigið úti var í kaldara lagi.

Á uppstigningardag er komin hef á því að fara í kirkju þar sem haldin er E.B. messa.

Leikhúsferðirnar fram á vorið urðu þrjár: í febrúar var farið í Litla leikhúsið v/Sigtún til að sjá Þrek og tár eftir Ólaf Hauk Símonarson - frábær flutningur hjá leikfélaginu undir stjórn Lilju Náttar Þórarinsdóttur

Í mars var haldið í Borgarleikhússins til að sjá Gullregn, harmrænt en þó broslegt verk Ragnars Bragasonar.

Í maí var aftur haldið til Reykjavikur í Borgarleikhúsið og nú til að sjá May Poppins, leiftrandi saga og sjónarspilinu engin takmörk sett. Og síðast en ekki síst s.l. október að við skruppum aftur í Borgarleikhúsið til að sjá og heyra Jeppa á Fjalli, frábær flutningur allra sem þar komu að bæði í leik og flutning tónlistar stórkostlegir listamenn sem þar voru að störfum.

Handverksýning, félagsins var á sínum stað, haldin að Grænumörk 5, dagana 10 - 12 maí, kaffi og vöfflur stóð fólki til boða og voru gestir alls 618.

Hörpukórinn tók þátt í 3 - 4 kóramótum.

23.maí var haldinn fundur með öllum verktökum og nefndarmönnum FEB og gengið frá stundarskrá ársins 2013 - 2014.

Hjörtur Þórarinsson fráfarandi formaður mætti á þennan fund og kvaddi hann alla með ljóði til hvers og eins og þakkaði skemmtilega viðkynningu og vel unnin störf í gegnum tíðina.

16 maí var vorfagnaður haldin hjá FEB í Hveragerði og sóttu um 40 mans héðan frá Selfossi þennan fögnuð en félagið bauð upp á fría rútu á fögnuðinn.

Línudanshópurinn okkar hélt á vit frægðarinnar og náði sér í þriðju verðlaun í línudanskeppni austur í Vík í Mýrdal.

Söguhópurinn hélt vestur í Dali 10 júní og kannaði þar söguslóðir Laxdælu undir stjórn Óskars og Guðrúnar, gist var eina nótt að Hótel Laugum í Sælingsdal. Kvöldverðurinn samanstóð af Hvannar lambi en lömbin halda til í einni af Breiðarfjarðareyjunum og lifa þar mest á hvönn, eftirréttur var síðan heimatilbúið skyr úr dölunum með bláberjum.

Kvöldvaka upphófst síðan eftir mat og tróðu þar uppi margir af okkar frábæru listamönnum.

Sumarferðirnar 2013 voru farnar að venju fyrir utan 3ja daga ferðina, sem átti að vera norður í Húnaþing, en hún var felld niður vegna ónógrar þátttöku. Í júní var farið inn í Þakgil, í ágúst að Gljúfrasteini og Nesjavöllum og aftur í ágúst hinn sívinsæli Gullni hringur.

Haustferðin var farin 18.sept. undir leiðsögn Heiðdísar Gunnarsdóttur en þrjár rútur í boði Guðmundar Tyrfingssonar heldu á vit ævintýranna og sem enduðu með kaffihlaðborði í Grindavík. Skemmtileg og vel heppnuðu ferð.

Hefðbundin starfsemi og dagskrá hófst aftur á opnu húsi 26.september en áður höfðu nokkrir hópar byrjað sína starfsemi.

Opið hús var síðan með hefðbundnum hætti en Ólafur Þórarinsson (Labbi í Glóru ) reið á vaðið í október, síðan kom Gunnhildur Anna Vilhjálmsdóttir sjúkraþjálfari og mælti hún með hollri hreyfingu, Stefán Ármann og Co komu með harmonikkurnar, síðan kom Björg Einarsdóttir rithöfundur í Hveragerði og Ragnhildur Einarsdóttir lokaði mánuðinum með Bingó.

Fyrsta nóvember var síðan Árshátíð félagsins, en hún var haldin að þessu sinni að Hótel Selfoss, veislustjóri var Óli Þ.Guðbjartsson. Ýmis skemmtiatriði voru í boði og þar á meðal Spesíurnar, sem er nýjasti liðshópurinn okkar, sem hressir bætir og kætir allra gerð, en framkvæmd hátíðarinnar var öll í höndum árshátíðarnefndar.

Í nóvember mánuði fengum við í heimsókn Bjarna Harðarson og Þórðar frá Skógum, síðan kom Stefán Þorleifsson með nemanda úr tónlistarskólanum, Sigurgeir Hilmar flutti okkur skemmtilega sögu á sinn einstaka hátt og rúsínan í pylsuendanum voru svo bræðurnir Guðmundur, Svanur og Þröstur sem stilltu saman strengi..

05.des. héldum við Aðventufagnað þar sem Sira Óskar Óskarsson flutti okkur hugvekju. Guðni Ágústsson fór á kostum, barnakór Selfosskirkju mætti á staðin og eins nokkrir nemendur frá Tónlistaskólanum, kaffiveitingar í boði hússins og við enduðum þessa skemmtun okkar með samsöng undir stjórn Ingimars Pálssonar.

FEB fór síðan í jólafrí fram til 9.jan. 2014

Ég þakka fyrir mig
Sigríður J. Guðmundsdóttir formaður (Sirrý Guðmunds) (sign)

Stjórn FEB 2013