893 2136

febsel@febsel.is

Smella hér fyrir Facebook síðu Febsel →

AÐALFUNDUR FÉLAGS ELDRI BORGARA Á SELFOSSI 20.02.25

AÐALFUNDUR FÉLAGS ELDRI BORGARA Á SELFOSSI 20.02.25

FUNDARGERÐ

 

  1. Magnús J. Magnússson setur fund og leggur til að Guðmundur Kr. verði fundarstjóri og Guðrún Guðnadóttir og Margrét Jónsdóttir yrðu ritarar. Var það samþykkt.

 

  1. Guðmundur tekur við fundarstjórn og þakkaði traustið.

Dagskrá fundarins;

  • Skýrsla stjórnar
  • Reikningar félagsins
  • Umræður um skýrslu stjórna og reikninga felagsins.
  • Skýrslur nefnda FebSel
  • Kaffihlé
  • Kosningar
  • Önnur mál.

 

  1. Skýrsla stjórnar. Magnús J. Magnússon

 

Ársskýrsla Félags eldri borgara Selfossi fyrir starfsárið 2024 – 2025.

Heil og sæl!

Það starfsár sem nú er að kveðja hefur verið öflugt á margan hátt. Þrátt fyrir verulegar skerðingar vegna fjárhagsstöðu Árborgar hefur starfsemin verið verulega öflug og mikil og góð þátttaka á öllum sviðum félagsstarfsins. Ég vil einnig senda félagi eldri borgara í Grindavík baráttukveðjur. Þeir eru alltaf velkomnir til okkar.

Í árslok 2024 voru félagsmenn  1003 og eru því 42 fleiri en í árslok 2023.  Árið 2024 skráðu sig 112 nýir félagar í félagið, 46 sögðu sig úr því og 21 létust á árinu.  Ég bið ykkur um að minnast þeirra með því að rísa úr sætum. .

Stjórnin 2024 – 2025

Stjórnina skipuðu: Magnús J. Magnússon, formaður, Ólafía Ingólfsdóttir varaformaður. Elín Jónsdóttir gjaldkeri, Guðrún Þórarna Jónsdóttir ritari, Ólafur Bachmann meðstjórnandi, Ólafur Sigurðsson og Valdimar Bragason í varastjórn.

Stjórnarfundir

Stjórnarfundir hafa verið 21 á starfsárinu. Til okkar á stjórnarfundi hafa komið aðilar úr stjórnkerfinu til umræðu við okkur og er það gott að snertiflötur félagsins við stjórnkerfið sé góður.  Ég vil þakka stjórnarmönnum fyrir gott samstarf svo og öllum þeim starfsmönnum Árborgar sem hafa unnið með okkur á liðnu starfsári.

Félagsstarf

Félagsstarf hefur veið afar öflugt sl. starfsár. Það eru rúmlega 35 mismunandi atriði í boði í vikulegri dagskrá sem er verulega öflugt starf. Um er að ræða hannyrðahópa, spilahópa, hreyfihópa, sönghópa, leikhópa, myndlistarhópa, keramik og postulínshópa og venjulega kaffihópa. Svo ekki sé minnst á hin öflugu Opnu Hús og vinnu kvenfelagsins við kaffiveitingarnar. Einnig öflugar myndlistasýningar og ljósmyndasýningar. Mikil þátttaka var á 17. júni  skemmtun sem haldin var hér í Grænumörkinni. Og árshátíðin í nóvember og aðventuhátíðin í desember tókust afar vel og mikill fjöldi sótti þessar hátíðar. Á bak við þetta öfluga starf eru milli 30 – 40 manns í nefndum og sem leiðbeinendur. Einnig vil ég þakka þeim nefndarmönnum og námskeiðshöldurum sem hafa hætt hjá okkur og legg ég til að við klöppum fyrir þessu öfluga fólki. Án þeirra væri þetta ekki mögulegt Góð þátttaka hefur veið í hádegismatnum hér í Grænumörkinni. Vikulega eru um 180 máltíðir seldar og góð stemning hér í hádeginu.

Stefnt er að því að taka í notkun skráningakerfi sem heitir „Sportabler“ og var hannað til að auðvelda skipulag íþrótta- og tómstundastarf.  Góða reynsla er af þessu þar sem það hefur verið tekið í notkun..  Kerfið einfaldar skipulag og samskipti.  Í því er hægt að skrá sig í sumarferðirnar, leikhúsferðirnar, á námskeið og aðra viðburði og greiða samtímis.  Elín gjaldkeri mun hafa yfirumsjón með þessu og verður tilkynnt formlega um þetta og kynnt mjög bráðlega.

Öldungaráð

Skipun og starfsemi öldungarráða eru bundin í lögum. Skipa skal öldungaráð. Í því sitja aðilar úr stjórnkerfi sveitarfélagsins og fulltrúar eldri borgara í sveitarfélaginu. Í öldungarráði Árborgar sitja fyrir hönd sveitarfélagsins, Þórhildur Dröfn Ingvadóttir, formaður og Ellý Tómasdóttir. Fyrir Hsu er það Margrét Björk Ólafsdóttir og fyrir Eldri Borgara eru það Guðrún Þórarna Jónsdóttir, Selfossi, Jón Gunnar Gíslason, Eyrarbakka og Ragnhildur Jónsdóttir á Stokkseyri. Starfsmaður ráðsins er Sigþrúður Birta Jónsdóttir og fyrir eldri borgar í Árborg. Frá 2022 hefur Öldungaráðið haldið 6 fundi sem er afar jákvætt. Unnið er að því að fjölga fulltrúum frá FebSel þar sem fjöldi félaga eykst stöðugt. Reiknað er með að Öldungaráð komi hér á opið hús í maí.

Landsfundur í Reykjavík.

Landsamband Eldri Borgara hélt sinn aðalfund í Reykjavík sl. vor. Þangað fórum við frá félögum eldri borgara í Árborg. Fundurinn var góður og má segja að aðalniðurstaða hans hafi verið að berjast gegn þeim skerðingum sem eldri borgarar verða fyrir í kerfinu. Einnig var þar ákveðið að halda stóran fund í Reykjavík til að vekja athygli á kjörum eldri borgara. Sá fundur var haldinn í haust og tókst afar vel og og var góð innspýting í umræðuna. Næsti aðalfundur verður 29. apríl í Reykanesbæ .

Breytingar á starfi í Félagsmiðstöðinni í Grænumörk 5

Breytingar voru gerðar á starfsmannahaldi í Grænumörkinni í haust. Hún Lena okkar  lét af  störfum og eru henni þökkuð störf í þágu félagsins.. Hún Heiðrún kom i hennar stað og er hún boðin velkomin til starfa. Einnig var Daníel ráðinn sem húsvörður félagsmiðstöðvarinnar og er hann hér á miðvikudögum frá 13.00 – 15.00 sem er afar knappur tími

Félag Eldri Borgara á Selfossi

Markmið félagsins samkvæmt gildandi lögum þess eru fjögur:  Í fyrsta lagi að vekja athygli og auka skilning almennings, ríkis og sveitarfélaga á þörfum eldri borgara.  Í öðru lagi að stuðla að aukinni þjónustu. Í þriðja lagi að skipuleggja tómstunda- og félagsstarf meðal eldri borgara. Og í fjórða lagi að vinna að öðrum þeim málum, sem til hagsbóta teljast fyrir eldri borgara. 

Að öllum þessum markmiðum er unnið alla daga ársins í gegnum öldungaráð og í samtölum við ráðamenn og með ályktunum til sveitarfélaga. Kynnt hafa verið helstu áhersluatriði eldra fólks eins og  til dæmis mikilvægi þess að skipuleggja svæði með fjölbreyttum búsetuúrræðum, aukinni heilsuþjónustu heim og að festa öldungaráð í sessi svo það þjóni þeim tilgangi sem því er ætlað. Einnig að halda vakandi  þeim möguleika að útbúa rými hér í Grænumörk 5 fyrir t.d. nudd, sjúkra- eða iðjuþjálfun.  Þessu hefur verið komið á framfæri við fulltrúa félagsþjónustunnar. Ég tel að skipulag tómstunda- og félagsstarf meðal eldri borgara sé í góðu lagi og hefur vakið athygli víða..  Einnig er unnið aö aðgengis- og umferðarmálum sem oft koma upp þannig að félagið þarf að kalla eftir aðgerðum sveitarfélagsins.  Við höfum sent áskoranir um að bæta lýsingu við gangbrautir og óskað eftir fleiri bekkjum við göngustíga og það hefur verið gert og ýmislegt fleira.  Til viðbótar má nefna snjómokstur, umhverfismál, heilsufarsmál og ýmis erindi sem félagsfólk leitar með til stjórnarinnar sem gerir það sem hægt er til lausnar.  Framundan er fundur stjórnar félagsins og öldungaráðs með bæjarstjórn Árborgar þar sem umræða verður tekin um þessi mál.

Kjaramál

Kjaramál eldra fólks hafa verið í umræðunni og hefur heldur hallað á þann hóp miðað við aðra sem semja sjálf um sín laun og kjör.  Stjórn Félags eldri borgara á Selfossi hefur tekið undir ályktanir og áskoranir sem bornar hafa verið upp á vettvangi Landssambands eldri borgara.  Leitað var til helstu samtaka launþega um að eiga samráð við fulltrúa Landssambandsins við gerð kjarasamninga með það að markmiði að koma því til leiðar og tryggja að lágmarkslífeyrir verði aldrei lægri en lágmarkslaun.  Í kjarasamningum, sem þegar hafa verið gerðir, er aðkoma eftirlaunaþega ekki sýnileg, þrátt fyrir velvilja fulltrúa stóru stéttarfélaganna um að taka inn í samningaviðræðurnar bætt eftirlaun eldra fólks. Verkalýðshreyfingunni var bent  á það að allir félagar þeirra í dag verða ellilífeyrisþegar á einhverjum tímapunkti. Til að efla samvinnu félaganna á Suðurlandi var boðað til formannafundar í FEBSUÐ. Þar voru einnig Helgi Pétursson, formaður LEB og Þorbjörn Guðmundsson formaður kjaranefndar LEB. Þar voru einnig 6 þingmenn Suðurlands. Á sambærilegum fundi í Vík í Mýrdal komu Helgi og Björn Snæbjörnsson og og fluttu góð erindi um LEB og kjaramál. Goð þa´tttaka var á þeim fundi.

Í gildi er samningur milli Sveitarfélagsins Árborgar og Félags eldri borgara á Selfossi sem hefur verið í gildi frá 1. janúar 2014.  Meginefni hans er að félagið sjái um skipulag og framkvæmd tómstundastarfs fyrir eldri borgara á Selfossi.  Félagið fær greiðslu fyrir og afnot af húsnæði.  Ýmislegt hefur breyst frá þessum tíma, húsnæði hefur stækkað og umfang félagsins vaxið. Nú er unnið að því að uppfæra þennan samning þannig að hann þjóni núverandi þörfum félagsins og vonumst við til þess að þeirri vinnu verði lokið fyrir sumarleyfi í vor.

LOKAORÐ

Öflugu starfsári á milli aðalfunda er lokið. Fyrir hönd stjórnarinnar vil ég þakka ykkur öllum fyrir gott ár og veit að framtíðin er björt. Þó vil ég benda á að félög mega aldrei staðna. Við verðum að vera vakandi fyrir nýjum áskorunum og þora að breyta hlutum og bæta við nýjum þáttum í starfsemina. Við verðum að gera félagið spennandi fyrir alla aldurshópa eldri borgara. Við vitum að aldursbilið getur verið allt að 35 – 40 ár í félaginu þó svo að ríkjandi aldur í félaginu sé á bilinu 70 – 85 ára.  Við verðum að leita leiða til að yngri heldri borgarar komi á dagskrá hjá okkur og hjálpi okkur að efla starfið. Við verðum að efla tengsl á millI félaga eldri borgara, efla samræðuna og allar tengingar. Ég veit að okkur tekst þetta og er bjartsýnn á framtíðina.

Takk fyrir!

Magnús J. Magnússon, formaður

  1. Reikningar félagsins. Elín Jónsdóttir lagði fram reikninga félagsins.

 

  1. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga félagsins. Reikningar félagsins bornir upp til samþykktar. Reikningar samþykktir.

 

  1. Tillaga um óbreitt árgjald kr. 4000 og var það samþykkt.

 

­­­­­­­­­­­­­­

 

 

  1. Þá var komið að skýrslum nefnda félagsins. Þær voru bæði fluttar af nefndarmönnum eða formanni. Fara fram á skýran og stuttorðan stíl.

Fornbókmenntir           Guðmundur Guðmundsson

Fornbókmenntahópur FEB Selfossi – Ársskýrsla 2024

Veturinn 2023 – 2024 las fornbókmenntahópurinn þrjár Íslendingasögur úr Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, þ.e. Reykdæla sögu og Víga-Skútu, Víga-Glúms sögu og Ljósvetninga sögu. Þátttakendur voru um 40 – 50 manns.

Umsjónarmenn hópsins sl. vetur voru; Guðmundur Guðmundsson, Guðmundur Stefánsson og Hannes Stefánsson. Vorönninni lauk með þriggja daga ferð á söguslóðir sagnanna 6 – 8. maí sl. og tókst ferðin mjög vel. Þátttakendur voru 37.

Í september sl. kom fornbókmenntahópurinn aftur saman og hóf að lesa og fjalla um Laxdæla sögu. Þátttakendur hafa verið um 50 – 60 sem er þátttaka með mesta móti. Umsjónarmenn hópsins í vetur eru þau; Guðmundur Guðmundsson, Hannes Stefánsson og Katrín Tryggvadóttir.Umfjöllun um Laxdælu mun ljúka með tveggja daga ferð í Dalasýslu á söguslóðir sögunnar 5 – 6. maí nk.

Leiklestrarnefnd           Magnús J. Magnússon

Leiklestur 2024-2025

Fyrir Leiklestrarhópnum fara Magnús J. Magnússon og Sigríður Karlsdóttir. Leiklestrarhópurinn „Leikhópurinn okkar“ inniheldur 16 öfluga félagsmenn. Þessi hópur hefur í grunninn verið með síðan haustið 2021. Veturinn 2024 – 2025 var leiklesturinn á mánudögum frá kl. 13.30 til 14.30. Vinnufyrirkomulag var svipað. Leiklásum atriði á Opnu Húsi í maí og var því vel tekið. Einni var leikritið BARPAR leiklesið við mikinn fögnuð.Við vissum að það voru hugmyndir um að fá okkur til að koma fram á árshátið félagsins og aðventukvöldi sem við og gerðum.  Á árshátíð félagsins sýndum við léttan og stuttan einþáttung og á aðventuhátíðinni var lesin góð jólasaga. Þetta er öflugur hópur og verkefni vorsins eru í umræðu.

Magnús J. Magnússon.

 

Leikhúsnefnd                          Guðfinna Ólafsdóttir

21.febr.  2025 skýrsla leikhúsnefndar flutt á aðalfundi FEB

Leikhúsnefnd FEB skipa Jóna S Sigurbjartsdóttir, formaður

Guðfinna Ólafsdóttir, María Busk og Nanna Þorláksdóttir

Nefndin hittist nokkrum sinnum í heimahúsum eða á kaffihúsi,og einnig voru tíð samskipti á netinu.

Auglýstar eru ferðir á sýningar á facbook síðu félagsins og þátttakendur skrifa sig fyrir þeim fjölda miða sem þeir óska að fá, einnig þarf að skrifa símanúmer. Síðan sendum við SMS til allra þegar gengið hefur verið frá miðafjölda og rúta pöntuð.

Dálítið er um að fólk hætti við, ástæður geta verið mismunandi, veikindi eða aðili hefur gleymt sér og stundum náum við ekki í  þá er það þannig að búið er að ganga frá rútu fyrir upphaflegan fjölda og því hækkar fargjaldið hjá þeim sem eftir eru þeas ef þeir sem hætta við hafa ekki greitt fargjaldið. Einnig er töluvert um að SMS skilaboðum sé ekki svarað en í skilaboðunum eru þið beðin um að borga miða, gefið er upp bankanúmer og hvernig gangið er frá greiðslunni. Það getur því farið tími í að ná sambandi við alla.  Meðaltal þeirra sem hafa farið í þessar ferðir á þessu starfsári er um 30.

Þetta fyrirkomulag verður endurskoðað  fyrir næsta starfsár

Við  fórum einu sinni í Þjóðleikhúsið og x2 í Borgarleikhúsið og ein ferð f     yrirhuguð í apríl

Þannig að samtals verða þetta 4 l eikhúsferðir og 1 ferð í Hörpu.Sýningar sem við fórum á: Jólaboðið, Ellý,  Bubbi 9 líf og  Þetta er Laddi en við eigum miða í apríl

Boð á Vínartónleika Sinfó var þegið og fengum við 50 miða, fleiri vildu fara og fengum við auka miða.

Mín reynsla af að starfa í nefnd fyrir félagið er að það myndast kynni og  vinskapur sem er bara jákvætt.

Fh. Nefndarinnar

Guðfinna Ólafsdóttir

 

Ferðanefnd                              Ingibjörg Stefánsdóttir

Skýrsla Ferðanefndar FebSel 2024.

Þrátt fyrir afskaplega kalt og votviðrasamt sumar fengum við ferðafélagar í Félagi eldri borgara á Selfossi gott veður í okkar ferðum sumarið 2024.Fyrsta ferð sumarsins var farin 18.júní í Grímsnesið. Fararstjóri var Unnur Halldórsdóttir. Áð var á Snæfoksstöðum þar sem starfsmenn Skógræktarfélags Árnessýslu tóku á móti hópnum og fræddi  um starfsemina. Síðan var ekið að Kiðjabergi og virt fyrir sér fallegt umhverfi þar og hvaða bæir í Flóanum væru handan ár. Matur var svo snæddur á Sveitasetrinu Brú – Efri – Brú og síðan haldið að Ártanga þar sem ábúendur sýndu okkur kryddjurtir og blómarækt og lengi má á sig blómum bæta því farangursrými rútunnar var yfirfullt er við renndum úr hlaði.Önnur ferð sumarsins var farin 16.júlí austur undir Eyjafjöll. Fararstjóri var Viðar Bjarnason í Ásólfsskála og kom hann í bílinn á Hvolsvelli. Keyrt var austur Fljótshlíð og síðan austur Eyjafjöll að Skógum með lítilsháttar útúrdúrum. Hádegisverður snæddur í Hótel Skálakoti og miðdagskaffi í Dótakassanum hans Viðars þar sem Jóna kona hans bauð upp á nýbakaða ástarpunga innan um traktora og annað verðmæti sem þau hafa safnað. Eyjafjöllin skörtuðu sínu fegursta 17 gr. hiti og logn.Einu sinni á ágústkvöldi var í Árnesi 20.ágúst. Um 90 manns tóku þátt í gleðinni. Margir voru með hýsin sín og  gistu í Árnesi.  Framreiddur var kvöldverður að hætti vertsins  á Brytanum. Helgi Hermanns ásamt tveimur harmonikkuleikurum, þeim Kristjáni og Úlfhildi léku fyrir dansi og Brynhildur Geirsdóttir stóð fyrir spurningaleik sem heldur betur gerði lukku.  Þetta ágústkvöld sannaði gildi sitt í annað sinn og verður á dagsskrá í ágúst á þessu ári.Haustferð – Guðmundar Tyrfingssonarferðin var farin 10.september um Holt og Land. Leiðsögumenn voru Vigdís  Guðmundsdóttir og Pálmi Sigfússon fyrrum bændur á Læk í Holtum. Staldrað var í Hagakirkju og kaffihlaðborði gerð skil á Land- Hóteli í Landssveit. Guðmundur Tyrfingsson hefur um árabil styrkt FebSel  með því að keyra gjaldfrítt  þessa ferð og fær hann kærar þakkir fyrir. Uppselt var í þessa ferð.Við í ferðanefnd Febsel viljum þakka ferðafélögum fyrir skemmtilega og gefandi nærveru og hlökkum til samverunnar á komandi sumri.Við höfum ákveðið að gefa kost á okkur í ferðanefnd Febsel árið 2025.Með virðingu og þökk

Helgi Hermannsson, Ingibjörg Stefánsdóttir, Vigdís Guðmundsdóttir, Ingibjörg Stefánsdóttir, Vigdís Guðmundsdóttir

 

Viðburðarstjórn                      Ólafur Sigurðsson

SKÝRSLA VIÐBURÐARSTJÓRNAR 2024 – 2025

Hlutverk Viðburðarstjórnar er að undirbúa dagskrá fyrir opið hús í Grænumörk flesta fimmtudaga yfir vetrartímann.Í Viðburðarstjórn  þetta starfsár hafa þessir lagt hönd á plóg: Guðfinna, Óli, Unnur, Páll, Sigrún og Ísleifur. 

Frá aðalfundi félagsins í febrúar og fram í maí voru 9 Opin hús. Svanur Bjarnason fjallaði um nýju Ölfusárbrúna, Ingunn Gunnarsdóttir kynnti TR,Jón Þór Birgisson  sagði frá Grænlandsdvöl og Þorbjörn Sigurðsson fjallaði um íbúana á Langanesi. Nemendur úr Tónlistarskólanum, Syngjandi sex og Ísólfur Gylfi skemmtu með söng og  tónlistarflutningi, Öldungaráð Árborgar sat fyrir svörum og svo var handverkssýning á sumardaginn fyrsta. 16. maí lauk starfinu með léttu glensi, dansi og söng.Vetrarstarfið hófst 26. September. Síðan þá hafa verið 15 Opin hús með fróðleik og skemmtan. Jónína Óskarsdóttir sagði frá konunum á Eyrarbakka, Auður Ottesen kynnti starfsemi Alviðru, Guðmunda Ólafsdóttir fjallaði um konur og fjallferðir, Bergsteinn Einarsson ræddi hernámsárin á Selfossi, Sigrún Óskarsdóttir sagði frá ferð til Kína, Blokkflautusveit Tónlistarskólans skemmti og svo var handverksmarkaður og auðvitað litlu jólin.

Eftir áramót fjallaði Ísleifur Árni um Ölfusárbrúna gömlu og Handboltakappar frá Selfossi voru kynntir í máli og myndum. Björgvin Valdimarsson tónskáld sagði frá lífi sínu og lék tónlist og Guðni Ágústsson sýndi heimildarmynd um þingmanninn Ágúst á Brúnastöðum og Margrét Blöndal sagði frá innflytjendum.

Yfirleitt mæta 80 – 90 heldriborgarar í Opið hús, en nokkrum sinnum hafa þeir verið yfir 120 talsins, einkum ef fjallað er um eitthvað sem tengist heimahögum.

Kvenfélag Selfoss annast veitingarnar af miklum myndarskap og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir svo og öllum þeim sem hafa komið og frætt okkur og skemmt.Fram á vorið eru skipulögð 8 Opin hús með fjölbreyttu efni, það síðasta hinn 15. Maí.

Með kveðju!

Viðburðarstjórn

.

Öndvegisbókmenntir              Guðrún Þóranna Jónsdóttir

Öndvegisbókaklúbbur 2024 – 2025

Umsjón með öndvegisbókalestrinum hafa haft síðan 2023: Jóna S. Sigurbjartsdóttir, Svala Halldórsdóttir og Guðrún Þóranna Jónsdóttir.

Veturinn 2023 – 2024 var lesin bók Steinunnar Jóhannesdóttur, Reisubók  Guðríðar Símonardóttur. Mjög hrífandi og vel skrifuð bók. Um vorið var farin ferð til Vestmannaeyja á slóðir söguhetunnar. Þar var tekið vel á móti okkur af Helgu Hallbergsdóttur sem fræddi okkur um sögu Guðríðar í Vestmannaeyjum og sýndi okkur markverða staði.

Bók Sveinbjargar Sveinbjörnsdóttur Aðeins bara kona var valin til lestrar á haustönn 2024. Segir hún frá lífi fátækrar fjölskyldu í Skagafirði og Húnavatnssýslu á síðari hluta 19. aldar. Sveinbjörg kom til okkar í frjálsa tímanum og sagði okkur frá tilurð bókarinnar. 

Eftir áramót fórum við á allt aðrar slóðir og lesum Karitas án titils eftir Kristínu Marju Baldursdóttur. Þá erum við aðeins nær í tíma og komin fram á 20-ustu öldina.

Það eru yfirleitt á milli 40 og 50 manns sem mæta á miðvikudögum í lesturinn en skráðir eru 58 í klúbbinn. Skapast hefur sú hefð að einn tími í mánuði er frjáls, þá koma stundum gestir eða þátttakendur úr hópnum leggja til ákveðið efni ljóð, minningabrot eða annað.

Öndvegisbókaklúbburinn stendur fyrir ferð í Skagafjörðinn og í Húnavatnssýsluna í vor á slóðir Aðeins bara kona sem við lásum fyrir áramót og hlökkum við til að hitta Norðlendinga og fræðast af þeim og gleðjast saman.

Ljósmyndaklúbbur                 Magnús J. Magnússon

„LjósÁr“ ljósmyndaklúbbur FEBSEL

Ársskýrsla 2024.

Á árinu 2024 voru 17 reglulegir fundir haldnir í ljósmyndaklúbbnum þ.e. fundað var að jafnaði hálfsmánaðarlega yfir vetrarmánuðina í Grænumörk. Einnig komu meðlimir saman utan Grænumarkar svo sem á kaffihúsum og einkaheimilum.  Fundirnir voru vel sóttir af félögum og var starfið gróskumikið og reyndi töluvert á hæfileika og getu félagsmanna.  Félagar í LjósÁri eru með ljósmyndir til sýnis á vegg í Grænumörk og var skipt um myndir á sýningunni þrisvar sinnum á árinu.  Starfið 2025 fer vel af stað og er áætlað að halda fundi með sama hætti og s.l. ár þ.e á hálfsmánaðar fresti.

          Selfossi febrúar 2025

f.h. „LjósÁr“

Eiður Haralds Eiðsson 

Hörpukórinn                           Rúnar Hjaltason

Skýrsla Hörpukórsins 2024 – 2025

Í Hörpukórnum eru tæplega 50 félagar.

Æft er einu sinni í viku á miðvikudögum kl. 16 – 18. Æfingar byrja á haustin í fyrstu viku í október og erum við að fram að uppstigningardegi. Æfingar voru 30 á síðasta ári.

Sungið var á Akranesi í apríl á 5-kóramóti sem er árlegur viðburður hjá kórunum sem allir koma af Suðvesturlandi. Velheppnaðir vortónleikar voru í Selfosskirkju í byrjun maí, einnig var sungið á árshátíð félagsins og á aðventuhátíð FebSel

Kórfélagar stóðu fyrir bingói í desember sem heppnaðist vel og við komum einnig saman fyrir jólin og fengum okkur jólahlaðborð. Hörpukórinn mun fara í kórferð til Danmerkur í sumar í tilefni af 35 ára afmæli. Undirbúningur fyrir ferðina gengur vel og nokkrir fundir verið haldnir vegna þessarar ferðar.

Stjórnandi Hörpukórsins er Stefán Þorleifsson.

Kínaskák                                Magnús J. Magnússon

KÍNASKÁK 2024 – 2025

Félagið fékknafn  í vor OG HEITIR NÚ jóker. Mæta ca 24 – 30 mans á miðvikudögum kl. 13.30. Mjög skemmtileg spil. Hvetjum fólk til að mæta og hafa gaman saman. T-kim vel á móti öllum. Borgum smá fyrir veturinn sem notað er í kaffisjóð. Það eru þrír sem sjá um utanumhald, sjá um kaffi og ganga frá. Guðrún Þórarba gæti sagt frá landsmótinu í spilinu sem nokkrir mættu í á Akureyri í suma. Hef ekki kynnt me´r hvernig það f´ro fram. Mætum og skemmtum okkur saman. Fyrir hönd Jókers kínaskák.

Ástríður Guðný.

 

Kaffihlé

 

Helga Guðrún Guðmundsdóttir, formaður kjörnefndar og  Guðmundur Kr.fundarstjóri lögðu fram tillögur kjörnefndar.

 

Stjórnarkjör:

 

Magnús J. Magnússon býður sig fram til formanns til tveggja ára.

Engar móttillögur komu fram og var hann kosinn með lófaklappi

Guðrún Þórarna Jónsdóttir hefur setið 3 kjörtímabil og lætur af störfum sem ritari félagsins.

Tillaga um Margréti Jónsdóttur og Valdimar Bragason í aðalstjórn til tveggja ára.

Engar móttillögur komu fram og var klappað fyrir þeim sem kosnir voru

Tillaga um Ólaf Bachmann í varastjórn til tveggja ára,

Engar móttilögur og klappað fyrir Ólafi

 

Skoðunarmenn reikninga.

Alda Alfreðsdóttir var kosin  til tveggja ára. Svanhvít Ásta Jósefsdóttir var kosin til tveggja ár 2024.

 

Kjörnefnd

Helga Guðrún Guðmundsdóttir  kosin til  þriggja ára

 

Fulltrúar FebSel að landsfund LEB. Stjórn falið að skipa fulltrúa.

 

  1. Önnur Mál

Formaður bað um orðið. Hann lagði fram 2 ályktanir til umræðu og voru þær samþykktar.

Ályktun 1

Aðalfundur Félags eldri borgara á Selfossi, haldinn í Mörk Austurvegi 51 þann 20. febrúar vekur athygli á því að mikilvægt sé að hreinsa snjó og klaka af göngustígum í kring um Grænumörk 5 á vetrum þegar þannig viðrar. Fjölmargir eldri borgarar er háðir því að komast í Grænumörk 5, í hádegismat og dagvistun auk hins fjölbreytta félagsstarfs. Margir þeirra koma úr nærliggjandi fjölbýlishúsum og sumir eru með skerta hreyfigetu og nýta hjálpartæki.Því beinir félagið því til Sveitarfélagsins Árborgar að tryggja það að þessir göngustígar verði hreinsaðir þegar þörf er þannig að greiðfært verði að húsinu.

Fyrir hönd Félags eldri borgara Selfossi

Magnús J. Magnússon, formaður Félags eldri borgara Selfossi

Ályktun 2

Aðalfundur Félags eldri borgara á Selfossi, FebSel,  haldinn í Mörk Austurvegi 51 þann 20. febrúar 2025, leggur áherslu á að vegna fyrirsjáanlegrar fjölgunar eldra fólks í sveitarfélaginu er brýnt að:

 

  • Sveitarfélagið Árborg hlutist til um að í aðal- og deiliskipulagi verði rými fyrir félagslegar-  og almennar leiguíbúðir fyrir eldra fólk.

 

  • Auka búsetukosti eins og lífsgæðakjörnum þar sem heimili og þjónusta eldra fólks er tengd saman og með það að markmiði að auka öryggi og lífsgæði þessa hóps.

 

  • Huga þarf að stækkun húsnæðis/rými fyrir ört vaxandi félagsstarf vegna mikillar fjölgunar eldra fólks í FebSel

Magnús J. Magnússon

formaður Félags eldri borgara Selfossi

 

 

Kjartan Björnsson bað um orðið  þakkaði fyrir veitingarnar og þeim sem lögu hönd á plóggin hjá félaginu.Sagðist verða 60 ára seinna Á þessu ári og gæti fararið að huga að inngöngu í felagið sagði góða samvinnu hafa verið á milli félagsins og Árborgar.  Tók undir að það væri mikilvægt að laga snjómokstur og söltun í kringum Grænumörkina.  Kemur því til skila  Talaði um byggingu hússins og hvernig væri hægt að stækka það.  Talaði um húsvörðinn  ætlar að tala um þessi atriði á sínum vettfangi.  Oddviti Selfosshrepps talaði um það fyrir 35 til 40 árum að ekki þyrfi að stofna félag eldriborgara þá því þeir væru ekki margir.  Sagði síðan að ekki væri alltaf hægt að svara öllum tilllögum á jákvæðan hátt.  Þakkaðu síða fyrir sig.

Hilmar Björnsson tók til máls talaði  um byggingarmál td um þennan sal að það væru tröppur

Sigurbjörg Helgadóttir kom með tilllögu um að kassi yrði til að koma með tilllögur.  Og að huga þyrfti að félögunum sem eru 60 ára og enn í vinnu  vitnaði í félaði Kópavoginum þar sem atburðir væur seinna um daginn.

Guðrún Þórarna Jónsdóttir kvödd

Lena kvödd hún var í vinnu þannig að Magnús ætlar að koma blómvendinum til henanr.

 

 

  1. Fundarstjóri lætur af störfum og formaður þakkar starfsmönnum aðalfundar fyrir störf á aðalfundi og slítur fundi

 

Fundi slitið kl. 15.40

 

____________________________     ___________________________

Guðrún Guðnadóttir                                     Margrét Jónsdóttir

 

 

 

 

 

Eldri fundir

Aðalfundur Félags eldri borgara Selfossi

AÐALFUNDUR FÉLAGS ELDRI BORGARA Á SELFOSSI 22.02.24 FUNDARGERÐ Fundarsetning Formaður félagsins setti fund og bauð alla velkomna. Hann lagði til að Jóna S. Sigurbjartsdóttir yrði fundarstjóri og Örlygur Karlsson og Margrét Jónsdóttir yrðu ritarar. Var það samþykkt....

Fundargerð aðalfundar Febsel 2023

Fundargerð aðalfundar FEBSEL 2023  22.febrúar 2023 Fundargerð aðalfundar FEBSEL 2023. Aðalfundur Félags eldriborgara Selfossi, haldinn 23. febrúar 2023 kl. 14:00 í félagsmiðstöðinni Mörk, Selfossi.   Fundur settur. Þorgrímur Óli Sigurðsson formaður setti fundinn og...

Aðalfundur Félags eldri borgara Selfossi

Aðalfundur Félags eldri borgara Selfossi  24.mars 2022 Dagskrá: Fundarsetning, kosning fundarstjóra og fundarritara. Formaður gerir tillögu um að Guðfinna Ólafsdóttir verði fundarstjóri og að ritarar verði Jóna S. Sigurbjartsdóttir og Örlygur Karlsson. Skýrsla...