Fundargerð 1.10.2019

Sjötti fundur stjórnar FEB Selfossi haldinn þriðjudaginn 1. október 2019 kl. 08:00 að Grænumörk 5, Selfossi.
Mætt: Guðfinna Ólafsdóttir formaður, Anna Þóra Einarsdóttir varaformaður, Guðrún Guðnadóttir gjaldkeri, Þorgrímur Óli Sigurðsson ritari, Gunnþór Gíslason meðstjórnandi, Guðrún Þóranna Jónsdóttir og Gunnar E. Þórðarson varamenn
Formaður setti fund og bauð fundarmenn velkomna til sjötta stjórnarfundar FEB.


Fyrsta mál. Fundargerð síðasta fundar lesin upp, hún staðfest.


Annað mál. Skráning á námskeið. Guðfinna greindi frá því að samkvæmt skráningum, sem finna má í exelskjölum, eru um 200 manns að nýta sér þjónustu félagsins af þeim nærri 700 félagsmönnum sem eru skráðir í félagið. Hins vegar er ekki vitað með vissu hve margir þar fyrir utan eru að nýta sér eins og t.d. leikhúsferðir, sumarferðir og eða eru í Hörpukórnum. Guðfinna bar upp hugmynd um hvort félagið ætti að kanna hvort sveitarfélagið hefði yfir að ráða húsnæði þar sem hægt væri að koma upp, svokölluðu, bílskúrsstarfi fyrir þá sem ekki hafa aðstöðu til að vera með létta smíðavinnu eða annað þess háttar heima fyrir. Formanni falið að ræða við Atla hjá sveitarfélaginu um hvort slíkt húsnæði sé á lausu. Guðfinna upplýsir að fáir hafi skráð sig á leirnámskeið. Ákveðið að auglýsa það betur og sjá til um framhaldið. Gull- og silfurnámskeið lofar góður en þátttaka kostar 25 þúsund krónur á einstakling fyrir utan efniskostnað sem er hár. Fyrirsjáanlegt að hætta verður við námskeiðið og verður þeim sem hafa þegar skráð sig tilkynnt um það. Umræða tekin um aðkomu verkalýðsfélaga að námskeiðsgjöldum sem mun ekki vera til staðar eftir starfslok sem stjórnarmönnum þótti miður. Gunnar sagði fáa hafa mætt á kynningu á „ringó“. Taldi mögulega ástæðu þá að fólk telji um að ræða íþrótt sem taki líkamlega á sem er þó ekki. Megin málið er æfingin í að grípa gúmmíhring sem kastað er yfir net sem strengt er þvert yfir völlinn og íþróttin meira skemmtileg en erfið. Að sögn Guðfinnu er almennt góð þátttaka á flestum námskeiðunum. Guðfinnu falið að senda félagsmálastjóra fyrirspurn um matarafhendingu í félagsmiðstöð og hver sé staða skipunar fulltrúa í öldungaráð Árborgar.


Þriðja mál. Launamál leiðbeinanda og námskeiðshaldara. Guðfinna ræddi um verð námskeiða á vegum FEB sem er mismunandi. Nauðsynlegt að funda með leiðbeinendum um hvernig skuli haldið utan um námskeiðin, verðlagningu og innheimtu. Rætt um hvort þörf er á að ákveða lágmarksfjölda þátttakanda á námskeið og ef hún næst ekki þá verði viðkomandi námskeiði aflýst. Ákveðið að stefna á fund með leiðbeinendum klukkan 15:30 miðvikudaginn 9. október næstkomandi og að þar mæti Guðfinna, Anna Þóra, Guðrún Guðnadóttir og Þorgrímur Óli.


Fjórða mál. Önnur mál.
a. Anna Þóra greindi frá því að ósk hafi borist um að fá að vera með kynningu og sölu á munum í opnu húsi á fimmtudögum. Hún kallaði eftir afstöðu stjórnarinnar í þeim efnum. Stjórnin tók jákvætt í málið og lýsti yfir að slíkt gæti verið upplífgandi fyrir opið hús.

b. Gunnþór spurði hvort félagið gæti fengið Ís-lykil svo hægt verði að komast inn á hina ýmsu vefi sem nauðsyn ber, stundum, til að sinna erindum. Guðfinna upplýsti að búið væri að sækja um Ís-lykil en hann ekki borist. Guðrúnu Guðnadóttur falið að kanna málið.

c. Gunnþór greindi frá því að heimsókn kórs eldri borgara í Hafnarfirði til Hörpukórsins hafi tekist með afbrigðum vel. Hann lýsti, í fáum orðum, með hvaða hætti var tekið á móti kórfélögunum.

d. Guðfinna tilkynnti um seinkun á gerð heimasíðu félagsins sem stöfuðu af önnum hjá verktaka.

e. Anna Þóra mun skrifa og ritstýra fréttabréfi, haustútgáfu, FEB. Farið yfir það efni sem þar verður greint frá.

f. Guðrún Guðnadóttir upplýsti að kostnaður vegna heimsóknar FEB í Hafnarfirði í vor hafi komið vel út og eftir staðið 23.000.00 krónur í plús.

g. Þorgrímur Óli kynnti beiðni fjölmiðlafulltrúa Íslenskrar erfðagreiningar, Þóru Kristínar Ásgeirsdóttur, um að eldri borgurum á Selfossi yrði kynnt rannsókn sem fyrirtækið stendur að um „tóneyra og taktvísi“. Ákveðið að kynna þetta á fésbókarsíðu FEB og í opnu húsi næstkomandi fimmtudag.

h. Guðfinna boðar til næsta fundar þriðjudaginn 5. nóvember 2019 klukkan 09:00.

Fundi slitið klukkan 10:30


_____________________________                                                              ___________________________
Guðfinna Ólafsdóttir                                                                                      Þorgrímur Óli Sigurðsson
formaður                                                                                                      ritari