Áskorun til bæjarstjórnar Árborgar - 2. janúar 2020

on .

Selfossi 2. janúar 2020

B/t bæjarstjórnar Árborgar
Austurvegi 2
800 Selfossi

Áskorun til bæjarstjórnar Árborgar um bætt umferðaröryggi gangandi vegfaranda á Austurvegi á Selfossi.

Stjórn Félags eldri borgara á Selfossi skorar á bæjarstjórn Árborgar að hlutast til að bæta úr og auka öryggi gangandi vegfarenda á Austurvegi, frá því sem nú er, á vegarkafla á milli Rauðholts og Hörðuvalla. Fjöldi eldri borgara býr nú á þessu svæði og eðli málsins samkvæmt sækja þeir þjónustu yfir Austurveg. Auk þess sem aðrir sem búa á öðrum svæðum fara gangandi heiman frá sér til að sækja afþreyingu í félagsmiðstöðina Mörk.

Sem kunnugt er, eru gangbrautir við:

  • Gatnamótin við Reynivelli. Þar eru gangbrautarljós.
  • Á móts við KFC og Fossnesti. Lýsing ófullnægjandi.
  • Við gatnamót austan við Rauðholt. Lýsing ófullnægjandi.

Það er ekki hægt að segja að það vanti gangbrautir en þær eru ekki rétt staðsettar. Fólk á til að stytta sér leið og fara yfir Austurveg á milli gangbrauta. Langt er síðan þessar gangbrautir voru lagðar og umferðarþungi aukist mikið síðan. Með tilkomu, svo nefndu, Pálmatrés- og Leósblokka má benda á að þar koma þrjár nýjar inn- og útkeyrslur á Austurveg sem óneitanlega eykur slysahættu. Öldruðum einstaklingum hættir til að vanmeta gönguhraða sinn og eru ekki í sömu stöðu og þeir sem yngri eru að leggja mat á fjarlægð og hraða aðvífandi ökutækja.

Lagt er til að sveitarfélagið leiti til skipulags- og umferðarfræðings og fái fram hugmyndir um úrbætur sem best geta tryggt öryggi gangandi vegfaranda og sjái til að veghaldari ráðist sem allra fyrst í aðkallandi lagfæringar. Hafa þarf í huga staðsetningu gangbrauta, vandaða lýsingu og hraðatakmarkaðra aðgerða.

Stjórn FEB á Selfossi vill koma á framfæri þakklæti til bæjarstjórnar fyrir að hafa bætt við setbekkjum á Selfossi s.b. áskorun frá 10. maí 2019 með hvatningu um að bæta enn frekar í á þessu umrædda svæði sem og annars staðar.

F.h. stjórnar FEB á Selfossi
______________________________
Guðfinna Ólafsdóttir, formaður